Lesbók Morgunblaðsins - 25.02.2006, Side 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 25. febrúar 2006
Þ
að hefur gustað um Stefán Mána síðustu miss-
eri. Skáldsaga hans Túristi kom út síðastliðið
haust og vakti blendin viðbrögð, sennilega
var Gauti Kristmannsson gagnrýnandi Víð-
sjár sá eini sem sá einhverja glóru í sögunni
en aðrir voru á svipuðum nótum og Jón Yngvi
Jóhannsson sem skrifar í nýjasta hefti Tíma-
rits Máls og menningar að sagan sé full af
fremur ógeðfelldum og lítilsigldum persónum og ádeila hennar sé
máttlítil og sömuleiðis umfjöllun hennar um bókmenntalíf og rit-
höfundaraunir.
Eins og Jón Yngvi bendir á var Túristi margboðuð bók, flestir
sem voru í einhverri snertingu við íslenskt bókmenntalíf á síðasta
ári vissu að von væri á honum. Höfundurinn sendi uppköst að
köflum til fólks úti í bæ til lestrar, meðal annars undirritaðs.
Hann segist sjálfur hafa gert það vegna þess að hann hafi þurft
að vera í einhverri samræðu við umhverfið um það sem hann var
að gera. Í kaflanum sem ég fékk sendan
mátti þekkja nafnkunnan ungan rithöfund
sem lenti í vafasömum ævintýrum. Ég varð
talsvert hugsi yfir þessu en sendi Stefáni Mána engar at-
hugasemdir. Það var hins vegar alveg ljóst að ætlunarverk hans
með Túrista var að draga íslenskt bókmenntasamfélag sundur og
saman í háði.
Ekki verður betur séð en að umræddur kafli hafi verið felldur
brott að stórum hluta í endanlegri gerð Túrista. Þrátt fyrir það
er bókin full af alls konar hroða, eins og Jón Yngvi lýsir, um rit-
höfunda og annað fólk sem í mörgum tilfellum er auðvelt að
þekkja úr íslenskum bókmenntaheimi. En hvert var ætl-
unarverkið? Og hvernig kviknaði hugmyndin að bókinni?
Núningur við útgefandann
„Einhver hefur bent á að það væri búið að segja allt sem stendur
í þessari bók áður,“ segir Stefán Máni, „en það vantaði bara að
einhver setti það á prent, ef ég hefði ekki gert það hefði einhver
annar gert það. Mér þykir það trúleg kenning.
Bakgrunnur sögunnar er að stórum hluta núningur minn við
útgefandann, bæði fagurfræðilegur og hugmyndafræðilegur.
Mér er mjög illa við markaðshyggjuna sem tröllríður útgáfunni
minni. Eftir að hafa skrifað Svartur á leik í fyrra, sem var vel
heppnuð söluvara, finn ég fyrir miklum þrýstingi á að ég haldi
áfram á sömu braut og skrifi bækur sem auðvelt er að selja. En
slík markaðshugsun fer illa saman við starf skapandi listamanns.
Það er erfitt fyrir mann að hafa það í huga sérstaklega að skrifa
verk sem selst. Markaðsþenkjandi útgefendur vilja hins vegar að
bækur seljist í bílförmum og í þeirra huga skiptir ekki svo miklu
um hvað þær eru.
Mig langaði líka til þess að velta fyrir mér hvað skáldsagan er.
Er hún tæki til að hugsa með? Hver eru ystu mörk hennar? Hvað
má hún vera raunveruleg?“
Og hvert er svarið við þeirri spurningu? Það er raunverulegt
fólk í bókinni.
„Já, en niðurstaða mín er nú samt sem áður sú eftir allt saman
að það borgi sig ekki að hafa neinn raunveruleika í skáldsögu.“
Af hverju?
„Vegna þess að skáldsaga er í eðli sínu skáldskapur. Raun-
veruleiki er þannig í raun ekki til í skáldsögu og alger óþarfi að
reyna að koma honum þar fyrir. Sé það reynt verður raunveru-
leikinn annaðhvort að skáldskap eða skáldsagan hættir að vera
skáldskapur og breytist í skýrslu.
Mig langaði til þess að trufla lesandann með þessum til-
raunum. Og ég get ekki annað sagt en að bókin hafi fallið í góðan
jarðveg þó að tilfinningarnar hafi hlaupið með suma í gönur.
Gagnrýnendur tóku held ég mið af ímynduðum viðbrögðum ann-
arra lesenda. Einn gagnrýnandi taldi til dæmis að ég hefði móðg-
að Gyrði Elíasson mjög mikið í bókinni en Gyrðir hafði sjálfur
samband við mig og var hæstánægður með það sem sneri að hon-
um í bókinni.
Mér þótti gaman að bókin skyldi trufla fólk.“
En hvernig voru viðbrögð útgefendanna þinna í Eddu?
„Þau voru mjög neikvæð. Ég held að eina ástæðan fyrir því að
þeir ákváðu að gefa bókina út sé sú að þeir hafi vonast til þess að
ég skrifaði eitthvað sem væri meira vit í næst. En auðvitað eiga
forleggjarar ekki að gefa út bækur sem þeir hafa ekki sannfær-
ingu fyrir.“
Þú lætur rithöfunda fá það óþvegið og sumir þeirra eru á mála
hjá Eddu.
„Já, höfundar þykja fínir á Íslandi, þeir koma fram í auglýs-
ingum og það er vitnað í þá, þeir eru góðborgarar. Mig langaði til
að kroppa í þessa ímynd.“
Þeir eru eiginlega samnefnari fyrir lægstu hvatir mannsins í
bókinni.
„Rithöfundar eru eins og gargandi fuglar á tjörn sem berjast
um bestu bitana.
Ég sat á kaffivagninum ásamt Ólafi Gunnarssyni og Einari
Kárasyni um daginn yfir kaffi og pönnukökum. Og þar sem við
vorum að mæra hver annan áttuðum við okkur á því að við vorum
í raun eins og höfundarnir þrír í Túrista sem mynda einmitt ein-
hvers konar skjallbandalag.
En fólk er ekki tilbúið til þess að ýta höfundinum af stallinum.
Ég vildi líka benda á að skriftir eru vinna eins og hvað annað,
nema hvað starfsöryggið er minna en gengur og gerist.
Auðvitað er bókin öðrum þræði sjálfshæðin. Ég geri grín að
baslinu sem maður hefur mátt standa í.“
En kunnir höfundar fá það nú samt sem áður óþvegið?
„Jú, en ég passa mig á því að níðast ekki á einhverjum smæl-
ingjum heldur höfundum sem eru fyrir ofan mig í goggunarröð-
inni. Ég skammast mín því ekkert fyrir þetta. Mér skilst að Hall-
grímur Helgason sé gríðarlega fúll og Andri Snær en þeir mega
nú alveg við því að fá smágusu þessir egóistar.“
Einn gagnrýnendanna benti á að bók sem þessi myndi ekki
hljóta náð fyrir augum lesenda fyrr en að nokkrum árum liðnum.
„Já, ég er sammála því,“ segir Stefán Máni, „og ég er alveg ró-
legur yfir þessari bók, ég hef fengið góð viðbrögð frá lesendum
þótt ég hafi ekki hugmynd um hvað hún seldist mikið. En skáld-
skapurinn í bókinni mun þekja veruleikann með tímanum og þá
verður hún lesin sem skáldsaga. Og auðvitað er þetta skáldsaga,
það hefði ekki átt að fara fram hjá neinum gagnrýnanda sem á
annað borð las bókina. Skáldsagan á eftir að koma upp á yf-
irborðið þegar menn hætta að velta sér upp úr þessum titt-
lingaskít.“
Fékk bókin kannski annars konar viðtökur hjá lesendum sem
standa utan við íslenskan bókmenntaheim?
„Já, það eru einmitt þeir lesendur sem ég er að tala um, þeir
virðast geta lesið bókina sem fyndna og skemmtilega skáldsögu.
Þekkingin truflar viðtökurnar.“
Heimildavinnukarl
Túristi og Svartur á leik, sem kom út árið 2004, eiga það sameig-
inlegt að hafa ákveðna snertifleti við veruleikann. Og það má
reyndar finna slíka snertifleti í sumum eldri verka þinna líka.
Tengist þetta vinnuaðferðum þínum eða viðhorfi til skáldsög-
unnar?
„Ég fékk algert ógeð á umræðunni um heimildavinnuna sem lá
að baki Svartur á leik. Maður var stimplaður sem einhver heim-
ildavinnukarl sem hyrfi svo dögum skipti í einhverja blaða-
mannaleiðangra ofan í undirheimana. Auðvitað var talsverð
heimildavinna á bak við þá bók en Túristi gerist í nánast ímynd-
uðum heimi, kannski vegna þess að maður hefur tilhneigingu til
þess að snúast gegn stimplum af þessu tagi. Ég reyni að lenda
ekki ofan í einhverju hjólfari. Eftir Túrista ætla ég að skrifa mód-
erníska sögu um menn í skipi. Ég læt ekki stýra mér. Útgefand-
inn stýrir mér ekki og markaðurinn ekki heldur. Kannski hætti
ég bara ef ég fæ einhvern tímann verðlaun fyrir að vera frábær
rithöfundur. Það yrði örugglega ákveðinn léttir.“
Illa við að vera á spena
Þú nefndir áðan að starf rithöfundarins væri bara vinna eins og
hvert annað starf. Hvernig er búið að rithöfundum á Íslandi í dag?
„Það er mjög erfitt að vera rithöfundur á Íslandi. Maður er al-
gerlega háður launasjóði rithöfunda. Í sjálfu sér er ég alveg sátt-
ur við það hvernig hann er rekinn. Auðvitað velst misjafnt fólk í
úthlutunarnefndina en í grunninn byggist sjóðurinn á góðu fyr-
irkomulagi. Hann er samt aðeins of veikur.
Það þyrfti hins vegar að efla til muna svokallaðan bókasafns-
sjóð. Höfundar fá greitt úr honum eftir því hvað bækur þeirra
fara oft í útlán á söfnunum. Það er réttlátur og góður sjóður en
hann er hlægilega lítill, meðalhöfundur fær kannski fimm þúsund
kall á ári úr honum en ef greiddar væru til dæmis um fjögur
hundruð krónur fyrir hvert útlán þá gæti meðalmikið lesinn höf-
undur og þaðan af meiri menn lifað á honum. Þessi sjóður er
sterkur í Danmörku og hefur gefist vel.
Manni er samt illa við að vera á spena hjá ríkinu þótt rithöf-
undar hafi örugglega minna samviskubit yfir því en til dæmis
málarar því að framleiðslan á bókinni skapar mörg störf og þar
með virðisauka- og launaskatt. Ég held að það væri skynsamlegt
að launasjóðurinn og bókasafnssjóðurinn yrðu utan fjárlaga. Ég
sé það þá fyrir mér að fyrirtæki í landinu sem væru með ákveðna
veltu myndu borga vissa prósentu í þessa sjóði en þær greiðslur
mætti draga frá skatti. Fyrirtækin myndu finna lítið fyrir slíkum
stuðningi en rithöfundar mikið.
Auðvitað mega þessir sjóðir ekki verða of stórir heldur. En ég
hef reyndar ekki miklar áhyggjur af því að peningunum verði
varið í vitleysu á meðan úthlutunarnefndir eru faglegar.“
Þú átt tíu ára útgáfuafmæli í ár.
„Já, ég hef gefið út sex bækur og hef fengið sex mánaða starfs-
laun fjórum sinnum á þessum árum. Sumum þykir það lítið en ég
er mjög þakklátur. Þessir styrkir breyta öllu. Án þeirra væri
maður búinn að gefast upp.“
En hvernig dregurðu fram lífið?
„Ég hef unnið með unglingum og geðsjúkum og í uppvaski og í
prentsmiðju og öllum andskotanum. Síðastliðna mánuði hef ég
verið í fæðingarorlofi og þar áður var ég á atvinnuleysisbótum í
einhvern tíma. Þetta er oft ekki beysið en meðan maður getur
skrifað og komið út bókum er maður sáttur.“
Glerlykillinn
Stefán Máni var tilnefndur til norrænu glæpasagnaverðlaunanna
Glerlykilsins síðastliðið haust fyrir bók sína Svartur á leik. Hann
segir það talsverða upphefð en ekki sé enn ljóst hvort bókin verði
lögð fram þar sem Edda hafi ekki látið þýða hana en það er skil-
yrði fyrir því að dómnefndin geti lagt mat á verkið.
„Þetta snýst auðvitað um peninga. Það kostar að láta þýða og
ef útgefandinn er ekki viss um að hann fái þá peninga til baka er
hann ekki tilkippilegur til að leggja út í slíkt ævintýri. Edda hefur
þó gert það margoft áður.
Ég held að bókin gæti átt góða möguleika vegna þess að hún er
ekki hreinræktaður krimmi. Kvikmyndagerð af bókinni er líka í
burðarliðnum.“
Rithöfundar eru eins og
gargandi fuglar á tjörn
Stefán Máni vakti töluverðar umræður með bók sinni Túrista
sem kom út síðastliðið haust. Bókin dregur íslenskt bók-
menntasamfélag sundur og saman í háði, nafnkunnir rithöf-
undar fá á baukinn og líka útgefendur. Stefán Máni er hissa á
viðtökunum og þykir umræðan hafa snúist um aukaatriði,
skáldsagan í bókinni hafi farið fram hjá gagnrýnendum.
„Skáldsagan á eftir að koma upp á yfirborðið þegar menn
hætta að velta sér upp úr þessum tittlingaskít,“ segir hann.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Stefán Máni „Jú, en ég passa mig á því að níðast ekki á einhverjum smælingjum heldur höfundum sem eru fyrir ofan mig í goggunarröð-
inni.“ Stefán Máni stundar sjósund í Nauthólsvík á hverjum þriðjudegi. Á sumrin syndir hann úti á Gróttu. Hann segir þetta leið til að
sameinast náttúrunni, of langt sé að hlaupa upp á fjöll í borginni.
Eftir Þröst Helgason
throstur@mbl.is