Lesbók Morgunblaðsins - 16.09.2006, Qupperneq 9
Fegurð eða Fjarðaál, þarna er efinn...
Litlu neðar í ánni eru fagrir bergstallar, sem sumir
vilja kalla Kirkjugólf, sem og mögnuð gljúfur kennd
við Horn. Á klettabrún situr gæsahreiður með gráum
dún og hvítri skurn vaxið eldgrænum kraga skreytt-
um logagulum smáblómum af tegundinni helluhnoðri:
Fagurlitur útsaumspúði í auðninni miðri. Eins og
afturgengið ættjarðarskáld dettur maður hér um
hverja klisjuna á fætur annarri: Í sendnum bala logar
lítið týruljós: Einn og agnarsmár, skærgulur hellu-
hnoðri hrópar á mann líkt og sál föst í sandi sem veit
að flóðbylgjan er á leiðinni. Eitt eilífðar smáblóm með
titrandi tár...
Hálendið hefur ýmislegt við sig. Verður láglendis-
maður að viðurkenna.
Rétt ofan stíflu mætir Sauðá til leiks og fellur
bergtær í jökulsána í hundrað stalla fossi sem er líkt
og hannaður af arkitektum Donalds Trump. Lands-
virkjun hefði allt eins getað selt honum þessa fegurð
fyrst henni skal fórnað á annað borð. Sauðárfoss
myndi sóma sér vel í anddyrinu á Trump Tower.
En allt mun þetta hverfa, líkt og áin sjálf úr
Hamrahvammagljúfrum neðan stíflu. Hálslón verður
á stærð við Hvalfjörð. Við erum skrýtin þjóð. Nýbúin
að losa okkur við Hvalfjörðinn þegar við búum til
annan.
V.
Okkur gefst ekki tími til að skoða Kringilsárrana í
þessari ferð, svæði sem var sjálffriðað í hundrað þús-
und ár og af löggjafanum í þrjátíu. Villi á Brekku
friðlýsti ranann árið 1975 en flokkssystir hans Siv
Friðleifsdóttir affriðlýsti hann að hluta árið 2003.
Helgi Hóseasson þurfti að berjast lengi fyrir því að fá
að afskíra sig en það tók ráðherrann ekki nema fimm
mínútur að affriðlýsa Kringilsárrana. Af gárungum
eystra er hann nú ýmist kallaður Sivjarspjöll eða
Friðleifar.
Af lýsingum að dæma er hér um athyglisvert svæði
að ræða. Jafnvel óbyggðafælnir menn eins og undir-
ritaður finna hjá sér löngun til að kíkja þangað inn-
eftir.
Niðurstaða dagsins er sú að Hálslón er hálfum
Hvalfirði of stórt. Það hefði kannski mátt sætta sig
við lón sem þyrmdi Töfrafossi og Kringilsárrana. Að
dæma lónsstæðið frá útsýnispallinum við Kárahnjúka
er líkt og að dæma Ísland frá bílastæðinu við Leifs-
stöð. Standandi þar í roki og regni mætti auðveldlega
segja, líkt og fyrrum iðnaðarráðherra gerði, að landið
sé einskis virði, bara melar og grjót. Enginn kemur
auga á Gullfoss, Þórsmörk eða Jökulsárlón ofan af
Miðnesheiði.
Eftir flugsstund með Ómari viðurkenndi forsætis-
ráðherra að hann hefði fram að því aldrei séð landið
sem fórnað verður heldur aðeins komið að stíflustæð-
inu. Hér er harmleikur málsins kominn. Menn ákváðu
að byggja Kárahnjúkastíflu án þess svo mikið að
velta því fyrir sér hverju væri fórnað fyrir hana.
Þetta verður æ betur ljóst eftir því sem á gönguferð-
ina líður.
VI.
Dagur tvö rennur upp á hlaðinu við Snæfellsskála.
Klukkan hálf sjö er mannskapurinn kominn út í tann-
burstun og morgunteygjur. Öræfamorgunninn er
fjallkaldur og fuglvana, eins og málverk eftir Odd
Nerdrum. Sólin birtir upp himinninn en heldur sig
bak við fell og allir verða hálf biblíusögulegir í fram-
an. Líkt og morguninn sé hinn fyrsti morgunn.
Og enn bætir í árdagsundrin þegar við ökum fram
á heila hreindýrahjörð. Á votum lyngvöllum undir
hlíðum Snæfells liggja og standa tvö hundruð hrein-
dýr og þerra daggarperlandi horn sín í fyrstu geislum
dagsins. Þegar rútan stöðvast og við læðumst út með
stafrænar vélar rísa dýrin rólega á fætur og hjörðin
breytir sér í hægfara lest sem heldur burt frá okkur.
Sem snýr baki í okkur. Enginn asi. Enginn ótti. Að-
eins örugg vissa um að þeirra líf sé betra en okkar.
Og við finnum öll keim af afbrýði; einhverstaðar innst
inni langar okkur burt með þessari lest.
Gönguferð sunnudagsins hefst á vinnusvæði Arnar-
fells, rétt neðan við stíflustæði Ufsarlóns. Það gleym-
ist stundum að Kárahnjúkaverkefnið telur fimm
stíflugarða: Sauðárstíflu, Kárahnjúkastíflu, Desjarár-
stíflu, Ufsarstíflu og Kelduárstíflu. Ufsarstífla er í
Jökulsá á Fljótsdal. Hún myndar fremur lítið lón neð-
an við þá frægu Eyjabakka og mun þaðan leiða
jökulsána um aðrennslisgöng til móts við systur sína
kennda við Dal og Brú. Það gleymist sem sagt stund-
um í umræðunni að hér er verið að virkja TVÆR
jökulár, TVÖ helstu fljót Austurlands. Þegar tappinn
verður settur í munu tveir dalir þegja og árlausir eft-
ir standa.
Hvernig verður Jöklulaus Jökuldalur? Og hvað
verður um Fljótsdal þegar hann hefur verið sviptur
Fljótinu?
Við fylgjum ánni (til grafar) niður Norðurdal aust-
anmegin og endum gönguna síðdegis við eyðibýlið
Glúmstaðasel. Hér gefur að líta mikla fossaröð í afar
fögrum dal sem að hálfu leyti er kjarri vaxinn. Far-
arstjórinn Ósk, sem ættuð er úr þessum landshluta,
fræðir okkur um að hennar fólk hafði aldrei heyrt
minnst á þessa mögnuðu fossaröð þegar hún sagði frá
henni fyrst. Hér eru fáfarnar slóðir. Kaldhæðni máls-
ins er sú að vegna vegaframkvæmda sem fylgja virkj-
un gefst fólki nú betri aðgangur að svæðinu. (Í boði
Landsvirkjunar skoðum við “skemmdarverk“ hennar.)
Hér uppgötvum við nýjar og leyndar hliðar á landinu
okkar. Við erum hér líkt og landnámsmenn að sjá
hlutina í fyrsta sinn sem jafnframt er það síðasta. Því
allt mun þetta hverfa innan skamms. Senn verður
skrúfað fyrir fossaröðina í Jökulsá á Fljótsdal. Það er
furðuleg tilfinning að vera í senn landnámsmaður og
landsyrgjandi. Svona eins og að fá að kynnast
skemmtilegri en dauðvona manneskju.
Í átta tíma löngum göngutúr eru fossarnir kær-
komnir áningastaðir. Hrakstrandarfoss, Skakkifoss,
Tungufoss, Kirkjufoss, Slæðufoss, Faxi, Gjögur-
fossar... Maður er nánast kominn með fossaóþol þeg-
ar yfir lýkur. Að minnsta kosti fær maður fulla foss-
nægju þegar hópurinn sest að nesti við Kirkjufoss.
Hér rekur mann í rogastans. Við manni blasir einn
fegursti foss landsins sem þó er nánast óþekktur. (Í
kjördæmi Google á netinu er einungis að finna af
honum eina mynd, sem einhver ókunnur Ítali birtir á
heimasíðu sinni, á meðan hægt er að fletta upp 7.790
ljósmyndum af Gullfossi.)
Kirkjufoss er um 40 metra hár, fellur á tveimur
stöllum og skiptist í tvennt á þeim efri. Beggja megin
fossins eru síðan tignarlegir bergdrangar sem ganga
upp úr þröngu gilinu og ramma fossinn fallega inn.
Fossinn er því fallega symmetrískur og afar form-
fagur. Hér er reyndar erfitt að munda myndavél, til
þess er fossstæðið of þröngt, en engu að síður hefðu
atvinnuljósmyndarar og útivistarjöfrar landsins farið
létt með að blása þennan foss upp í vitund okkar,
jafnvel tryggja honum sæti á topp tíu listanum með
Gullfossi og Geysi og öllum hinum, ef þeir hefðu bara
vitað af honum. Líkt og Ómar Ragnarsson benti á í
viðtali í sumar vissi enginn af Landmannalaugum fyr-
ir fimmtíu árum. Nú eru þær með vinsælli stöðum.
Ísland er magnað land og svo langt í frá að við þekkj-
um það til hlítar.
Þá er náttúran víst jafn háð tískunni og annað sem
mennirnir umgangast. Staðir koma og fara úr móð,
nýir eru uppgötvaðir og gamlir hverfa. Eitt sinn voru
Forni-Hvammur og Kolviðarhóll lykilstaðir og Eyja-
bakkar og Kringilsárrani óþekktar stærðir. Þótt við
þekkjum ekki svæðin þýðir það ekki að þar með megi
farga þeim. En það er einmitt það sem gerst hefur
hér.
VII.
Þau sem ákváðu Kárahnjúkavirkjun voru: Arnbjörg
Sveinsdóttir, Árni M. Mathiesen, Ásta Möller, Bryn-
dís Hlöðversdóttir, Drífa Hjartardóttir, Einar K.
Guðfinnsson, Einar Oddur Kristjánsson, Einar Már
Sigurðarson, Geir H. Haarde, Gísli S. Einarsson,
Guðjón Guðmundsson, Guðmundur Hallvarðsson,
Guðni Ágústsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Halldór
Ásgrímsson, Halldór Blöndal, Helga Guðrún Jónas-
dóttir, Hjálmar Árnason, Ísólfur Gylfi Pálmason,
Jóhann Ársælsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón
Kristjánsson, Jónína Bjartmarz, Karl V. Matthíasson,
Kjartan Ólafsson, Kristinn H. Gunnarsson, Kristján
L. Möller, Kristján Pálsson, Lúðvík Bergvinsson,
Magnús Stefánsson, Margrét Frímannsdóttir, Páll
Pétursson, Pétur H. Blöndal, Sigríður Ingvarsdóttir,
Sigríður A. Þórðardóttir, Siv Friðleifsdóttir, Sólveig
Pétursdóttir, Sturla Böðvarsson, Svanfríður Jón-
asdóttir, Tómas Ingi Olrich, Valgerður Sverrisdóttir,
Vilhjálmur Egilsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir og
Össur Skarphéðinsson.
Ég efast stórlega um að einhver þeirra hafi, á
ákvörðunardegi, verið búin að sjá fossana í Jökulsá á
Fljótsdal. Og vart hafa mörg þeirra staðið við Stuðla-
gátt eða gengið upp með Sauðárfossi. Þau þekktu
ekki landið sem þau völdu að sökkva og þau þekktu
ekki ána sem þau ákváðu að skrúfa fyrir. Nokkrum
dögum fyrir tappasetningu mæta svo nokkur þeirra
fljúgandi, kasta augum yfir svæðið og segja “nei nei,
þetta er hvort eð er ekkert spes“. Með fullri virðingu
fyrir Ómari má segja: Að ætla sér að dæma svæðið
úr flugvél með einu tíu mínútna stoppi við Rauðuflúð
er líkt og að reka nefið inn á veitingastað, narta í
eina ólívu, og fara svo heim og skrifa gagnrýni um
staðinn.
Hér eru ráðamenn á sama báti og brjáluðustu mót-
mælendurnir sem birtust hér í sumar. Hvorugur hóp-
urinn hafði fyrir því að kynna sér svæðið. Ráðamenn
máttu ekki vera að því, þeim lá svo á að drífa verkið
af stað, og mótmælendur máttu ekki vera að því,
þeim lá svo á að byrja að hlekkja sig við vinnuvélar.
Aðspurð kveðst Ósk Vilhjálmsdóttir snemma hafa
áttað sig á því að sterkasta leiðin væri sú að sýna
fólki hreinlega landið, opna augu þess fyrir því sem
fórnað verður. Það eru orð að sönnu. Málið horfir
öðruvísi við þegar maður er kominn á staðinn. Og því
kemur hér hin sorglega uppgötvun ferðarinnar: Þrátt
fyrir alla þessa miklu umfjöllun, allan þennnan há-
vaða, þá fengum við aldrei að vita hverju væri í raun
og veru verið að fórna fyrir Kárahnjúkavirkjun og
gátum því aldrei myndað okkur málefnalega skoðun.
Valkostunum var ekki stillt nógu skýrt upp. Við fór-
um ekki á staðinn. Við brugðumst. Fjölmiðlar brugð-
ust. Ómar reyndi eins og hann gat en fékk ekki þann
stuðning frá RÚV sem hann þurfti. Það mátti ekki
sýna okkur báðar hliðar. Stundum er Ríkissjónvarp
fyrst og fremst Ríkissjónvarp. Kastljósþættirnir allir
og Ísland í dag hefðu átt að vera sendir beint út frá
Stuðlagátt og Kirkjufossi. Þar áttu umræðurnar að
fara fram. Þar áttu ráðamenn að mæta og fá spurn-
inguna:
“Og þið viljið fórna þessu?“
Ég fullyrði að aðeins álþvegin sál gæti staðið
frammi fyrir Kirkjufossi í Jökulsá á Fljótsdal og
ákveðið að skrúfa fyrir hann. Var virkilega ekki nóg
að virkja eina Jökulsá? Það er einhver bíræfinn
græðgissvipur á þessari framkvæmd. Álkrumlan
teygir sig eftir hverri koppasprænu sem hún nær til
og leiðir hana í handjárnum inn í fjall og niður á
fjörð. Hér hefur verið ráðskast með heilan landshluta
af fólki sem þekkir hann aðeins úr flugvél. Hér hefði
mátt gera helmingi minna. Helmingi færri ár. Helm-
ingi minna lón. Fyrir helmingi minna álver.
Þá stæðu eftir helmingi fleiri fossar.
VIII.
Austurland er breytt. Það fáum við endanlega stað-
fest þegar við ökum niður Fljótsdal, áleiðis út á
Egilsstaðaflugvöll. Rétt við Valþjófsstað er komið gat
í fjallið og búið að ryðja upp garði til að “taka við
skólpinu frá Jökuldælingum“ eins og sumir Fljóts-
dælinga kalla það. Skammt frá gatinu stendur INN-
STUNGAN, jafn huggulega hönnuð og frekast má
vera. Og úr innstungunni koma snúrurnar, engar
smásmíðar, og sveifla sér upp á risavaxin möstrin,
stálgrindatröll sem marsera yfir holt og hæðir, tún og
bæi, áleiðis niður á Reyðarfjörð, í tvöfaldri röð.
Hönnuðum þessara ferlíkja verður seint hrósað fyr-
ir aðstöðunæmni. Hér er engin tilraun gerð til að
vinna í sátt við land og búendur. “Þeir hreinlega völt-
uðu yfir okkur,“ segir húseigandi í Skriðdal. Línan
ryðst yfir allt sem fyrir verður, þvert yfir heimatún
og upp á fagra hálsa. Þverhandarþykkar raflínurnar
hanga jafnvel beint yfir húsmænum. Hver getur fest
svefn með 320.000 tonna álver suðandi yfir höfði sér?
Hversu margar skýrslur hafa ekki komið fram um
heilsuspillandi háspennulínur? Svo ekki sé talað um
sjónræna þáttinn því hér hefur verið framið mikið
sjónrán. Ef hægt er að leggja tvær jökulár í jörð, því
þá ekki raflínur? Of dýrt? Ekkert er of dýrt fyrir
Fljótsdal og Skriðdal, tvo fegurstu dali landsins.
Eru þetta ekki full miklar fórnir fyrir álver?
IX.
Kárahnjúkavirkjun er stærsta íslenska stórkarlaverk-
ið. Grafa fyrst, hugsa svo. Landsvirkjun tókst að
rumpa henni upp áður en almenningur áttaði sig á af-
leiðingunum. Tefld var blindskák um framtíð Austur-
lands af fólki sem rétt kann mannganginn. Í nýreist-
um raflínum sjáum við skaðann sem þegar er skeður
og senn verður nýséðum náttúruundrum sökkt í lón
eða skrúfuð af. Enginn veit svo um önnur áhrif:
Væntanlegt aurfok, kælingu Lagarfljóts og minnk-
andi framburð í sjó fram.
Stærsta virkjun Íslandssögunnar hefur skipt þjóð-
inni í tvennt. Ofan stíflu dansa virkjanaglaðir á sjó-
brettum. Neðan stíflu syrgja andvirkjunarmenn fljót
sitt á þurrum gljúfurbotni. Ofan á stíflugarðinum sitj-
um við vafamenn og veltum fyrir okkur hvað það var
sem brást.
Ríkisstjórnin brást. Hún var of fegin að fá álver til
að ná að stilla stærð þess í hóf.
Alþingismenn brugðust. Þeir hlýddu flokksaga
fremur en fróðleiksfýsn.
Landsvirkjun brást. Henni mistókst að sannfæra
þjóðina og Skipulagsstofnun um arðsemi virkjunar-
innar, hélt meginupplýsingum leyndum og óþægileg-
um skýrslum undir stól, tókst að halda heilli jökulá
og sautján fossum utan við umræðuna og hefur nú
sjónrænt tvo fegurstu dali landsins.
Umhverfisráðherra brást. Hún hugsaði meira um
stólinn sinn en landið sitt og sneri málefnalegum úr-
skurði eigin stofnunar og fornum friðlýsingum á haus.
Fjölmiðlar brugðust. Þeir sýndu okkur ekki al-
mennilega um hvað málið snerist.
Virkjanaandstæðingar brugðust. Í stað þess að
birta okkur úrvalsfossa í útrýmingarhættu á heilsíðu-
auglýsingum í dagblöðum eyddu þeir tímanum í mót-
mælastöður á Austurvelli.
Ég brást. Alltof seint við. Kynnti mér ekki málið
fyrr en of seint og kem nú askvaðandi yfir síðustu
forvöð með síðfundinn sannleik.
X.
Stjórnvöldum tókst það sem þau ætluðu sér; að keyra
upp heila virkjun á þeim tíma sem þurft hefði til að
ræða málið áður en framkvæmdir hæfust. Engin til-
raun var gerð til sátta. Sem er líklega það sorgleg-
asta í málinu. Það hefði mátt mætast á miðri leið.
Höfundur er rithöfundur.
Ljósmynd/Hjörleifur Guttormsson
em þó er nánast óþekktur.“
Þótt við þekkjum ekki svæðin þýðir
það ekki að þar með megi farga þeim.
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 16. SEPTEMBER 2006 9