Lesbók Morgunblaðsins - 11.11.2006, Side 10
10 LAUGARDAGUR 11. NÓVEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók|bækur
Eftir Hávar Sigurjónsson
havars@simnet.is
H
vað ertu að gera með
þessari sögu?
„Upphaflega hug-
myndin var að dansa
á mörkum skáld-
skapar og veruleika
sem mér finnst mjög
heillandi. Að ná þeim
áhrifum að maður sé að segja satt, að les-
andinn geti trúað því að það sem sagt er frá
hafi raunverulega gerst. Sagan fjallar ann-
ars um mann sem gerir ekki greinarmun á
skáldskap og veruleika og kafsiglir lífi sínu
af þeim sökum.“
– Þú ferð býsna nálægt sjálfum þér í lýs-
ingu á aðalpersónunni og lokkar lesandann
nánast í þá gildru að trúa því að þetta sért
þú sjálfur og þitt líf sem er til umfjöllunar.
„Það er nokkuð til í því. Ég vildi spila á
þetta. Að lesandinn færi að trúa því að
þetta væri hugsanlega eins konar ævisaga,
atburðir úr mínu lífi, en svo kæmu fyrir ein-
hverjir þeir atburðir sem yrðu til þess að
tvær grímur rynnu á lesandann; ýmislegt
fær ekki staðist og það sem virðist satt er
hrein lygi eða skáldskapur öllu heldur. En
með því að aðalpersónan er karlmaður á
mínum aldri sem vinnur hjá RÚV við menn-
ingarþátt á Rás eitt þá eru vissulega tals-
verð líkindi með okkur. Ég neita því alls
ekki. Líklega skrifaði ég þessa sögu að ein-
hverju leyti til að hefna mín á sjálfum mér.“
– Ertu að storka þörf okkar lesenda fyrir
að finna raunverulegar fyrirmyndir að per-
sónum íslenskra skáldsagna?
„Já, það hefur verið lenska hér á landi að
gera ekki greinarmun á skáldskap og veru-
leika á þann hátt að hér á landi hafa menn
ekki verið í rónni fyrr en þeir eru búnir að
finna raunverulegar fyrirmyndir að per-
sónum skáldsagna, helst eftir Halldór Lax-
ness. Þá er skáldsagan loksins komin heim
þegar við getum sagt; Já, hann var að
skrifa um þennan og þennan. Hið sama á
við um Íslendingasögurnar. Við kunnum
ekki að umgangast þær sem fagurfræðileg
verk. Þessi hugsun hefur alltaf staðið okkur
dálítið fyrir þrifum í allri fagurfræðilegri
umræðu um skáldskap.“
– Er þá alveg út í hött að tengja að-
alpersónuna og atburði sögunnar við þitt
líf?
„Ég leyfi lesandanum bara að djöflast
með þá hugsun. Ef hann langar til að lesa
bókina sem sjálfsævisögulega frásögn mína
þá er það allt í lagi mín vegna, ég sit bara
heima og skellihlæ. Ef hann kýs að lesa
hana sem hreinan uppspuna þá er það líka í
lagi. En eins og önnur bókmenntaverk veg-
ur sagan salt á milli reynslu höfundarins og
þeirra áhrifa sem hann hefur orðið fyrir af
öðrum bókmenntaverkum. Skrifaði Gunnar
Gunnarsson ekki um ,,leik hugans að stað-
reyndum“, það er eitthvað svipað á ferðinni
hjá mér.
– Eiga persónur bókarinnar sér raun-
verulegar fyrirmyndir?
„Nei.“
– Aðrar persónur sögunnar eru ósáttar
við aðalpersónuna eftir að skáldsaga hans
er komin út því þeir voru ekki með í ráðum
og hann segir frá því að fyrri bók hans 39
þrep til glötunar sem einnig er eftir þig hafi
kveikt alls kyns viðbrögð fólks sem taldi að
vísað væri á sig með ýmsum hætti í þeirri
bók. Veruleiki og skáldskapur stíga flókinn
dans í þessu höfundarverki og spurningin er
hvort skáldskapurinn hefur slík áhrif á
raunverulegt umhverfi okkar?
„Ég held ekki. Ég held að skáldsögur hafi
ekki kollvarpandi áhrif á samfélagið, heldur
eiga þær að seytla inn á réttum stöðum.
Þráin á Íslandi eftir áhrifamætti skáldsagna
er þreytandi og byggist á einhverjum göml-
um flökkusögum. Menn líta á gildi skáld-
sagna eftir því hversu auðvelt er að sjóða
þær niður í einfalda hugsun til að ræða í
spjallþáttunum og eru alltaf að bíða eftir
sögu sem setur allt á hvolf. Skáldsögur sem
standa undir nafni setja ekki allt á hvolf,
þær setja bæði plús og mínus fyrir framan
allt sem þær segja og spretta af einhverju
mikilvægu í sálarlífi höfundarins.“
– Er þetta hin póstmóderníska skáld-
saga?
„Það vil ég ekki skrifa undir. En margir
höfundar í Evrópu hafa stigið þennan dans
á mörkum veruleika og skáldskapar á und-
anförnum árum. Svolítill tískudans, að vera
með annan fótinn í heimi skáldskaparins og
hinn í veruleikanum. Þetta býður upp á
skáldsögu sem er ekki alveg lokuð, heldur
flæðir á vissan hátt út í lífið í kringum okk-
ur. Ég hugsa lítið um hugtakið póstmódern-
isma núorðið en hef þeim mun meiri áhuga
á sambandi skáldskapar og veruleika. Og í
þessu tilfelli skrifa ég um mann sem gerir
ekki greinarmun á skáldskap og veruleika,
það er lífshættulegt og leiðir hann í vissum
skilningi til glötunar. Sá sem lifir í skáld-
skap hann deyr.“
– Aðalpersónan E … sem segir söguna og
er viðfang hennar er frekar upptekinn af
sjálfum sér.
„Já, hann er það, hver er það ekki? Ég
lagði ekki upp með að skrifa verk sem væri
greining á menningarástandi eða lýsing á
því. Miklu heldur hafði ég í huga að lýsa
minni kynslóð, sem stundum hefur verið
sögð ópólitísk og áhrifalaus á allt nema það
sem snýr að okkur sjálfum. Eins og aðrar
kynslóðir höfum við orðið að finna upp hjól-
ið í tilfinningalegum efnum, ég vildi skrifa
um það.“
– E … lýsir eftir bernsku sinni og líf hans
er stefnulaust. Hann lýsir rithöfundum sem
loddurum og er sjálfur albúinn að hampa
andstæðum sjónarmiðum í útvarpsumfjöllun
sinni. Hann skortir persónulega sannfær-
ingu. Er þetta ekki lýsing á ástandi?
„Jú, hann er af þessari blaseruðu kynslóð.
Við höfum verið fóðruð á öllum fjandanum
og endalaust streymið af afþreyingar- og
menningarefni hefur málað hann út í horn.
Það er of mikið af öllu. E … er í rauninni
búinn að afgreiða þetta þegar sagan hefst.
Honum finnst samtíminn lítilfjörlegur og
hörfar inn í sjálfan sig. Sjálfum leiðist mér
margt í samtímanum og það kemur eflaust
fram í sögunni. Að því leyti er sagan lýsing
á samtímaveruleika okkar. En kveikjan að
bókinni var þó miklu heldur tilfinningalegs
eðlis. Reynslan af dauða og ástinni sem við
föllum alltaf fyrir þótt við ráðum engan veg-
inn við hana. Ég elti hugboð. Það tekur því
ekki að skrifa um annað en ást og dauða.“
– E … vill þó ekki viðurkenna að hann sé
ástfanginn?
„Hann bregst hugsanlega sjálfum sér á
örlagastundu og hverfur inn í sína þoku.
Kannski er það skáldskapurinn sem hann
flýr inn í í sögulok.“
– Eins og Ítalinn sem þú segir frá?
„Já, E … heillast af frásögn af skáldinu
Lauro de Bosis sem sáldraði andfasískum
áróðri úr lítilli flugvél yfir Róm árið 1931,
sú ferð kostaði hann lífið. Ótrúlega heillandi
saga. Hann vissi áður en hann lagði af stað
að þetta yrði hans hinsta flugferð, hann
vissi hvað hann vildi segja við heiminn áður
en hann dæi. Og hann lifði áfram í sögunni
sem hann skrifaði skömmu áður en hann
steig upp í flugvélina. Hvað myndi maður
segja við heiminn eða sitt nánasta umhverfi
ef maður hefði til þess eitt afgerandi tæki-
færi? Hver væri minn boðskapur til heims-
ins? Þar kviknar spurningin um áhrifaleys-
ið. E … er kannski ekki alveg með það á
hreinu hvað hann vill segja við heiminn og
hann treystir kannski ekki á mátt orðanna
til að koma því á framfæri sem hann vill
segja. Hafa orðin einhvern tíma haft áhrif?
Sagan vekur líka spurningar um það hvort
við eigum yfirhöfuð nokkurt erindi við heila
borg eða jafnvel allan heiminn. Er ekki nóg
að segja stelpunni sem maður er skotinn í á
réttu augnabliki að maður sé skotinn í
henni? Það var ein hugmyndin að baki sög-
unni að spyrja hvaða boðskap E … vill
sáldra yfir Reykjavík. Hann reynir ekki að
bjarga heiminum heldur fleygir annars hug-
ar póstkorti út um stofugluggann og man
ekki einu sinni hvað stóð á því en setur með
því atburðarásina í gang. Líf hans einkenn-
ist af hiki.“
– Þú leikur þér að lesandanum með því
að skrifa sögu sem aðalpersóna sögunnar er
að skrifa, henni er síðan stolið frá honum og
gefin út að honum forspurðum og þannig
lesum við um viðtökur bókarinnar sem við
erum að lesa.
„Mig langaði að skrifa um það hvernig
hægt er að ræna mann lífi sínu. Að dýpstu
hugsanir manns geti komist í hendur ein-
hvers annars án þess að til þess hafi verið
ætlast. Þetta er tilfinningin sem E … fær á
heilann. Að það sé búið að fletta ofan af
honum. Ég held að það sé einkenni á okkar
menningu, þrátt fyrir öll útfletjandi játn-
ingaviðtölin, að í okkur lúrir ótti við að flett
verði ofan af okkur, að innsti kjarni tilveru
okkar verði afhjúpaður. Þessi tilfinning varð
til í evrópskum borgum á 19. öld. Í okkar
menningu snýr þessi ótti ekki síst að kyn-
lífi, við óttumst að verða afhjúpuð á því
sviði. Tilfinningar okkar eru ekki lengur
leyndarmál en kynlífið er það. Þessa par-
anoju magna ég upp í sögunni. Persónan
E … er búinn að missa tökin á lífi sínu
vegna þess að hann er ekki lengur handhafi
sannleikans um sjálfan sig, þræðirnir komn-
ir í hendur annars manns.“
– Undir himninum er mjög ólík fyrri bók
þinni 39 þrep til glötunar. Þar varstu frekar
í hlutverki esseyistans. Nú ertu búinn að
skrifa skáldsögu með ýmsum tilbrigðum.
Varstu meðvitaður um stílinn og formið?
„Já, ég var það. Mig langaði til að skrifa
frásögn sem væri í eðli sínu tiltölulega ein-
föld þótt hún væri ekki alveg laus við ljóð
og sumir atburðir væru líkt og bak við
blæju, mig langaði til að beita ýmsum upp-
brotum til að koma lesandanum á óvart.
Mér leiðast skáldsögur þar sem allt gengur
upp, straumlínulagaðar skáldsögur sem eru
svo tilþrifalitlar í formi að þær gleymast
jafnóðum og þær koma út. Mig langaði til
að sparka aðeins í formið, gera eitthvað
óvænt, jafnvel grafa undan sjálfri frásögn-
inni.“
– Er þetta einhvers konar þraut fyrir
bókmenntafræðinga?
,,Nei, alls ekki. Og ég vil heldur ekki gera
of mikið úr því að þetta sé póstmódernísk
skáldsaga sprottin af einskærum leik.
Skáldskapur sprettur ekki af leik heldur al-
vöru. Það er að vísu leikur í frásögninni,
leikur að forminu, en það er alls ekki til-
gangurinn, heldur var mér efst í huga að
skrifa skáldsögu sem miðlaði tilfinningum.
Þetta er skáldsaga um tilfinningar.“
Sannur
skáldskapur
Morgunblaðið/Eyþór
E... Guðmundsson „En með því að aðalpersónan er karlmaður á mínum aldri sem vinnur hjá
Rúv við menningarþátt á Rás eitt þá eru vissulega talsverð líkindi með okkur. Ég neita því alls
ekki. Líklega skrifaði ég þessa sögu að einhverju leyti til að hefna mín á sjálfum mér.“
Þetta áttu nú ekki að verða 378 blaðsíður en
það teygðist úr þessu, segir Eiríkur Guð-
mundsson, höfundur skáldsögunnar Undir
himninum, sem kom út hjá Bjarti á dögunum.
Eiríkur hefur áður sent frá sér bókina 39
þrep til glötunar en hann er einnig vel þekkt-
ur sem útvarpsmaður á menningarsviðinu;
stjórnandi menningarþáttarins Víðsjár á Rás
eitt til margra ára.
»Ég held að skáldsögur
hafi ekki kollvarpandi áhrif
á samfélagið, heldur eiga
þær að seytla inn á réttum
stöðum. Þráin á Íslandi
eftir áhrifamætti skáldsagna
er þreytandi og byggist
á einhverjum gömlum
flökkusögum.