Lesbók Morgunblaðsins - 10.02.2007, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 10.02.2007, Blaðsíða 5
séríslenska, jólaplötuflóði. Á tímabili kom til greina að fresta útgáfunni fram yfir jól. Lovísa var hins vegar orðin óþolinmóð og vildi fara að koma þessu frá. Loks var ákveðið að kross- leggja bara fingur og kýla á útgáfu í tengslum við Airwaveshátíðina, sem fram fór í endaðan október. Hátíðin varð svo þess valdandi að Lay Low var fljótlega komin á allra varir eins og áð- ur sagði, en mikið „suð“ hafði verið í kringum hana nokkrum dögum fyrir tónleika. „Það var undarleg upplifun,“ segir hún. „Ég fann fyrir þessum straumum eftirvæntingar í salnum. Við vorum óvön slíku, miklu vanari að spila fyrir tómum sal eða þá fyrir sal þar sem fólkið er ekkert að fylgjast með tónlistinni neitt sérstaklega (með Lay Low á tónleikunum léku Maggi Öder, Björn „Bassi“ Ólafsson, trymbill Benny Crespo’s Gang, og Sigurbjörn, eða Silli í Haltri hóru). Fólk var líka tillitssamt og það var góð þögn í salnum. Ég spilaði eitt lag alein, og var á tímabili að spá í að sleppa því. Þetta var stress!“ Til útlanda Rætur Lay Low liggja í kántríhljómsveit sem hún og vinkonur hennar stofnuðu haustið 2005. Engin þeirra, þar á meðal Lovísa, hafði spilað slíka tónlist áður (og Lovísa segir mér að hún hafi heldur ekkert snert á blús- eða þjóðlaga- tónlist). En vinkonurnar voru sameinaðar í miklum áhuga á kántríi, þá gömlu kántríi, og Lovísa nefnir til Hank Williams og Johnny Cash. Hrátt fjallakántrí var til grundvallar frek- ar en straumlínulagað poppkántrí. „En þessi hljómsveit féll snemma um sjálfa sig,“ segir Lovísa. „Við vorum fjórar og tvær stelpnanna fóru mjög fljótlega í nám erlendis. En það var skemmtilegur andi í gangi og þarna fór ég fyrst að prófa að syngja, nokkuð sem ég hafði lítið gert af fram að því. Mér fannst það asnalegt í fyrstu en ég var hvött áfram. Ég hélt svo áfram í þessum fíling þó að bandið væri hætt. Gerði þetta bara ein í staðinn. Þannig varð Lay Low til, m.a. vegna þess að mig langaði til að halda áfram að syngja. Mig hefur alltaf lang- að til þess en aldrei fundist ég geta það einhvern veginn.“ Lovísa segist hafa verið í sólópælingum fyrir þetta kántríband, en sú tónlist hefði líklega orð- ið allt öðruvísi hefði bandið ekki komið til. „Þannig að þetta er mikið til stelpunum að þakka/kenna,“ segir hún og kímir. „Ef kántríið hefði ekki komið til hefði þetta líklega verið meiri nýbylgja hjá mér, eitthvað lágstemmt. Kannski hefði þetta þó orðið meira út í Will Old- ham. Ég er mjög hrifin af honum, þessum dauðakántríplötum sem hann var að gera með Palace Brothers t.d.“ Textar Lay Low eru ekki út í bláinn segir hún, allir fjalla þeir um eitthvað, annaðhvort um eitthvað sem hefur hent hana eða þá fólk sem hún þekkir. „En það var erfitt að koma þeim saman. Ég hef aldrei samið texta áður og sum lögin þurftu hreinlega að bíða nokkra stund á meðan ég var að klára textana. Sumir eru nokkuð barnalegir finnst mér og suma get ég ekki útskýrt almenni- lega þó að í þeim sé alltaf einhver tilfinning sem tengist einhverju í lífi mínu.“ Þegar þetta birtist er Lay Low stödd í Nor- egi, á By:Larm-tónlistarhátíðinni í Þrándheimi. Þar er hún ásamt Reykjavík! og Ultra Mega Technobandinu Stefáni. Það er Iceland Airwa- ves sem stendur að kynningu á þessum lista- mönnum og mun kynna sjálfa sig um leið þarna úti. Í lok janúar fór Lovísa svo ásamt hljómsveit til Cannes til að leika á Midem-hátíðinni, sem er stærsta kaupstefna tónlistargeirans. Reykjavík! sótti þá ráðstefnu einnig. „Það var mjög sérstök upplifun,“ rifjar Lovísa upp. „Þetta var í fyrsta skipti sem við spiluðum í útlöndum. Midem minnti svolítið á nautgripasýningu, viðfangið var bara tónlist. Við gistum á flottu hóteli og nutum þess að vera í fyrsta skipti í alvöru baksviðsaðstöðu. Maður var orðinn vanur því að hokra í eldhúsinu á Grand Rokk eða eitthvað álíka.“ Á jörðinni Framtíð Lay Low er óljós. Lovísa er þrátt fyrir allan hamaganginn niðri á jörðinni, og tekur því sem að höndum ber af aðdáunarverðri rósemd. Spurð hvort hún geti hugsað sér að hafa tónlist sem lifibrauð játar hún því, og velgengni Please Don’t Hate Me hefur óneitanlega opnað margar dyr. „Já,“ segir hún með sinni þægilegu, afslöpp- uðu rödd. „Ég væri alveg til í það. Hvernig sem það væri svo. Leikhúsvinna kæmi t.d. til greina.“ Næsta útspil Lay Low liggur ekki fyrir, enda segist hún aldrei hafa hugsað þetta til fram- búðar. Hún segist vera spurð um næstu plötu reglulega, og hún neitar því ekki að hún finni fyrir pressu, því að margir vilji væntanlega meira af því sama. „Ég ætla ekkert að drífa mig a.m.k. Ég er svona að velta því fyrir mér hvort ég ætti að vinna næstu plötu meira. Þetta er snúið mál, auðvitað vil ég ekki valda fólki vonbrigðum – en það er líka spennandi að storka fólki með ein- hverju allt, allt öðru.“Morgunblaðið/RAX MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 10. FEBRÚAR 2007 5

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.