Lesbók Morgunblaðsins - 02.02.2008, Side 10

Lesbók Morgunblaðsins - 02.02.2008, Side 10
10 LAUGARDAGUR 2. FEBRÚAR 2008 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Valgeir Sigurðsson vsig@internet.is S nemma á því herrans ári 2006 virt- ist það ætla að verða eitt af meiri háttar rannsóknarefnum ís- lenzkrar bókmenntasögu (!) hve- nær frú Rósa Benediktsson, yngsta dóttir Stephans G. Steph- anssonar, mælti hin fleygu orð, „O, ætli það hafi ekki verið brennivínið“, þegar hún var spurð um ástæður þess, hversu oft foreldrar hennar skiptu um bústaði í Ameríku. Viðar Hreinsson segir í hinni frábæru ævisögu Stephans að hún hafi sagt þetta við Björn Stefánsson vestur í Kanada árið 1975 (Landneminn mikli bls. 431). Björn ber það til baka í Lesbók Morgunblaðs- ins 4. febrúar 2006, og segist aldrei hafa átt nein persónuleg orðaskipti við téða Rósu. Og þannig standa málin þegar þetta er skrifað. Svo bráðskemmtilega vill þó til, að ég, sem sit hér fyrir framan lítinn tölvuskjá, veit um a.m.k. eitt dæmi þegar Rósa lét þessi orð falla, – alveg nákvæmlega eins og þau eru þarna eftir henni höfð. Og ég get ekki stillt mig um að koma þeirri vitneskju á framfæri, þó ekki væri nema til gamans, en þó miklu fremur til þess að sýna, að sjálfir atburðirnir geta verið dagsannir (og eru það iðulega), þótt þeir hafi gerzt á öðr- um stað og annarri stundu en síðari tíma heim- ildir greina. Sumarið 1974 var stór hópur Vestur-Íslend- inga hér á ferð, eins og oft, bæði áður og síðan. Tilefni heimsóknarinnar var m.a. hátíðin á Þingvöllum, þegar haldið var upp á 30 ára af- mæli lýðveldisins. Einn gestanna í þessum hópi var frú Rósa Benediktsson. Hún mun þá hafa hitt að máli ýmsa forystumenn íslenzkra mennta og menningar, þeirra á meðal Óskar Halldórsson prófessor, en hann var flestum mönnum fróðari um verk föður hennar og hafði m.a. skrifað stórgóða cand. mag.-ritgerð um ljóðaflokk Stephans, Á ferð og flugi. Það var við Óskar Halldórsson, sem Rósa mælti hin fleygu orð, og það sagði hann mér sjálfur! Við Óskar vorum miklir vinir, og hafa ekki margir vandalausir menn reynzt mér betur. Ég var þá blaðamaður á Tímanum, skrifaði viðtöl, bókmenntaspjall og ýmislegt annað „innblaðs- efni“. Tíminn hafði látið taka nokkurt spjall við Rósu, þegar hún var nýkomin til landsins, en mig langaði í meira. Nú hringdi ég í Óskar, vissi að hann hafði hitt Rósu og ráðfærði mig við hann um vinnubrögð, ef ég næði fundi hennar. Óskar leysti hið bezta úr þessu, eins og ævin- lega þegar ég leitaði til hans. Í leiðinni sagði hann mér ýmislegt af spjalli þeirra, og þar á meðal hin tilfærðu orð. Þetta man ég ákaflega vel. Það var ekki auð- gert að gleyma neinu sem Óskar Halldórsson sagði. Djúp, hreimfögur röddin og heillandi persónuleikinn, allt lagðist á eitt að gera hann ógleymanlegan og allt sem frá honum kom. Niðurstaðan af þessu varð svo sú, að ég tók heilmikið viðtal við Rósu, og það birtist í Tím- anum sunnudaginn 18. ágúst 1974. Vestur-ís- lenzka blaðið Lögberg-Heimskringla birti svo meginhluta greinar minnar 3. október sama ár, einmitt á fæðingardegi Stephans G., – og hefur eflaust ekki verið tilviljun. Hér hefur aðeins verið sagt frá EINU tilviki, þegar Rósa dóttir Stephans G. viðhafði þessi ummæli varðandi föður sinn. Ég vildi að þetta kæmi fram, af því að ég VEIT það, og meira að segja frá fyrstu hendi. En auðvitað gat hún hafa sagt þetta bæði oftar og víðar, um það veit ég ekki nokkurn skapaðan hlut, og legg því ekki á það neinn dóm. Hitt er alkunna, að þegar menn hafa sagt eitthvert snilliyrði eða dottið of- an á stutt og laggott svar við spurningu, þá nota þeir það gjarna oftar, þegar líkt stendur á. Síðan tekur tíminn við þessu, og þá getur ým- islegt hnikazt til – og þarf svo sem ekki alltaf langan tíma til þess. Og er slíkt raunar skemmtilegt rannsóknarefni. En var Stephan G. Stephansson þá einhver fyllibytta? Onei, ekki nú aldeilis. Vann tveggja manna verk áratugum saman og hvikaði aldrei um hársbreidd frá skyldum hins rúmhelga dags. Hins vegar var ekki nein bindindisöld um hans daga, og sjálfsagt hafa þeir, þarna fyrir vestan, ekki verið neinir eftirbátar annarra í því að þykja sopinn góður, þegar svo vildi verk- ast. Eitt af mörgu sem hefur alltaf heillað mig í hinu stórmerka bréfasafni Stephans G. er kafli í bréfi, sem hann skrifar Helgu konu sinni 24. júlí 1911. (Bréf og ritgerðir III. bls. 8-9.) Hún er þá fjarverandi um stundar sakir, en hann gætir búsins heima. „… Í gær kom hér húsfyllir af piltum, J.M. og Sigurður Helgason, meðal annarra. Þeir, og við öll, keyrðum til Baldurs, og var ögn glatt á hjalla, en jafngóðir voru allir fyrir því. Við kom- um heim til mjaltanna.“ Já, var það ekki! Það var ekki verið að trassa nein búverk, þótt menn lyftu sér upp smástund í góðra vina hópi. Höfundarverk Stephans G. Stephanssonar er með miklum ólíkindum, átta stór bindi, og allt unnið í hjáverkum af bónda í fullu starfi, – og vel það. Sá brunnur reynslu og lífsvizku mun seint verða þurrausinn, ef nokkurn tíma. Ævisaga hans í tveim stórum bindum, skrif- uð af Viðari Hreinssyni, er einnig þrekvirki. Ég hygg að það muni taka flesta venjulega menn nokkur ár að tileinka sér það mikla verk til fulls. Áður en þessi umræða um „Stephan G. og brennivínið“ hófst hafði ég aðeins rekizt á tvær missagnir eða skekkjur í öllu ritinu. Í öðru til- vikinu var farið rangt með mannsnafn – og gat slík villa hæglega laumazt inn í verkið einhvern tíma á síðari vinnslustigum þess – en hitt er landfræðileg skekkja. Tvær eða þrjár missagn- ir er sannast sagna rýr „eftirtekja“, þegar um annað eins stórvirki er að ræða, en hitt játa ég fúslega, að því fer víðsfjarri að ég hafi fínkembt allt þetta mikla rit – og efast satt að segja um að mér endist aldur til þess, jafnvel þótt enn kunni eitthvað að vera eftir af degi! Ástæðan til þess að ég skrifa þennan stutta þátt er sú og sú ein, að mér þykir líklegt að ég sé eini núlifandi maðurinn sem veit frá fyrstu hendi um samtal þeirra Rósu Benediktsson og Óskars Halldórssonar sumarið 1974. Þess vegna fannst mér ég ekki hafa neitt leyfi til að þegja með öllu. Það verður víst nógu margt samt sem týnist með mér og minni kynslóð, sem við hefðum átt að bjarga frá glötun, en gerðum ekki, á meðan tími var til. Stephan G. og brennivínið Höfundur er fyrrverandi blaðamaður. Stephan G. Stephansson Var andvökuskáldið fyllibitta? bakið bogið af bogri á austrænum ökrum frá sólarupprás til sólseturs hörundið hrjúft eftir óvægna asíska sól tínir upp tómar flöskur í hrollköldu tómasarstræti frá sólsetri að sólarupprás aðkomukona á ótrúlega rauðum skóm Jónína Leósdóttir Sökum villu í ljóði Jónínu sem birtist í síðustu Lesbók er það endurbirt hér. Miðbæjarmynd Ljómandi sjón er ísjakinn teymdur, frá Labrador suður úr, milli tveggja skipa. En augu skipstjórans dvelja við aðra sjón og skipstjórahjartað er ekki þar sem það slær - heldur áfram í síðustu ferð yfir langar öldur úr sandi - geymandi verkfæri úr steini, minjar um manninn sem var. Og tryggur hirðinginn bendir þér á þau, kennir. Enn er hjartað í hafi eyðimörkinni bundið, náttstað með eldi, föstu landi undir stjörnum. Steinunn Sigurðardóttir Ísjakaskipstjórinn Höfundur er ljóðskáld. Feginn vildi ég vera veru þinnar skuggi! Guðslangan daginn þá gæti ég ófeiminn elt þig á röndum. Og þegar svo nóttin í þögn sinni ríkti, liðlanga nóttina lægi hann við hlið þér límdur, þinn skuggi. Og svo þegar dauðinn að sigra þig kæmi, einn og sami skugginn um eilífð þá væru þau, vera þín og skuggi. Augusto Ferrán Hallberg Hallmundsson þýddi. Feginn vildi ég vera …! Augusto Ferrán (1836– 1880) var spænskt ljóðskáld og ljóðið er úr bók hans La pereza (Letin) frá 1870.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.