Morgunblaðið - 13.06.2008, Blaðsíða 8
8 FÖSTUDAGUR 13. JÚNÍ 2008 MORGUNBLAÐIÐ
bílar
Það getur stundum verið erfiðara að
mynda sér skoðun á dæmigerðum
fjölskyldubílum við reynsluakstur en
t.d. á sportbílum eða jeppum sem
hafa mjög skýran og afmarkaðan til-
gang. Ástæðan er líklegast sú að á
meðan t.d. sportbíll hefur þann
ákveðna tilgang að veita þeim sem
honum ekur akstursánægju, með
ákveðnum eiginleikum eins og stórri
og öflugri vél, frábærum aksturseig-
inleikum og glæsilegu útliti, þá er því
eiginlega öfugt farið með dæmigerð-
an fjölskyldubíl. Þar er það einmitt
fjarvera ákveðinna einkenna sem
gerir fjölskyldubílinn góðan. Þetta
þýðir í raun að það er mun erfiðara
að henda reiður á af hverju manni
líkar við bíl sem fellur í þann flokk. Á
stundum finnst manni bara sem bíll-
inn virki vel á mann án þess að maður
geti beinlínis útskýrt hvers vegna.
Vel útbúinn og ljúfur á að líta
Fiat Bravo er einmitt þess konar
bíll að eiginleikar hans felast einna
helst í fjarveru ákveðinna galla.
Reyndar er Fiat Bravo afskaplega
vel útbúinn bíll og er hann laglegur
útlits enda rammítalskur og af þeim
sökum fremur vel heppnaður útlits-
lega eins og við er að búast af ítölsk-
um framleiðanda.
Fiat hefur framan af keppt á
grundvelli verðs en þar sem tækni-
legar framfarir hafa verið örar hjá
Fiat hefur framleiðandinn í auknum
mæli stólað á staðalbúnað og hagnýt-
ar nýjungar.
Þetta er augljóst við akstur innan-
bæjar en þar er bíllinn á heimavelli
þar sem rafmagnshjálparstýrið er af-
ar þægilegt þegar leggja skal í stæði
eða þræða þarf bílinn upp í gegnum
bílastæðahús. Rafmagnsstýrið gefur
hjálparátak á lítilli ferð og er því leik-
ur einn að snúa stýrinu, nokkuð sem
er mikilvægt fyrir fólk sem þarf að
mjaka bíl í stæði á hverjum degi t.d. í
miðbænum. Þá er annar áhugaverð-
ur búnaður sem sést æ oftar í bílum
afar þægilegur þegar kvölda tekur
en það eru beygjuljósin sem lýsa upp
gangstéttarkanta til hægri og vinstri
þegar gefin eru stefnuljós eða stýr-
inu snúið. Það má ekki vanmeta mik-
ilvægi svona einfalds búnaðar því
hann gerir það að verkum að öku-
maður sér mun betur við erfiðar að-
stæður, t.d. í þröngum vistgötum.
Að öðru leyti er bíllinn almennt vel
útbúinn búnaði svo sem tengi fyrir
tónhlöðu, hraðastilli, loftkælingu og
litlu kæliboxi á milli framsætanna
sem sér ökumanni fyrir köldu vatni
og börnunum fyrir köldu súkkulaði.
Þægilegur en hefðbundinn
Það fer vel um alla farþega bílsins.
Framsætin eru fremur hörð en þó
þægileg og er hægt að stilla þau á alla
kanta þannig að flestir ættu að geta
fundið þægilega akstursstöðu. Sömu-
leiðis var nóg pláss fyrir aftursæt-
isfarþega en óheppileg gluggalína
bílsins gerir það að verkum að fimm
ára gamalt barn sem situr á sessu sér
ekki út um gluggann á afturhurðinni.
Takmarkað útsýni er reyndar farið
að verða algengt vandamál á bílum í
dag og er það afar hvimleitt þar sem
gluggapóstar eru afar sverir og fyr-
irferðarmiklir og er þetta engin und-
antekning í Fiat Bravo. Innrétting
bílsins er fremur hefðbundin og ekki
mikið fyrir augað en þó ætti heldur
ekki að vera neitt þar sem stingur í
stúf. Stjórntækjum er haganlega fyr-
irkomið og er auðvelt að stýra öllum
helstu aðgerðum. Þó var takkinn fyr-
ir viðvörunarljósin undarlega stað-
settur á milli loftrista á meðan aðrir
takkar eru saman í hnapp í miðju-
stokk bílsins. Gæði innréttinganna
eru hins vegar mjög mikil og má bú-
ast við að efnin þoli áralanga notkun
án þess að láta á sjá.
Býður upp á líflegan akstur
Skott bílsins er ágætlega rúmgott,
hátt og djúpt og tekur því talsvert af
farangri. Það er auk þess hægt að
leggja niður sætin og einnig er þar
12v tengi. Skottið opnast þó ekki
mjög mikið og há brík sem þarf að
lyfta farangri yfir til að koma honum
í skottið.
Þrátt fyrir að Fiat Bravo sé hvað
flest varðar dæmigerður fjölskyldu-
bíll þá er fjöðrun bílsins og hegðan í
akstri þannig að vel er hægt að hafa
gaman af honum. Reyndar var próf-
unarbíllinn á dekkjum með helst til
háum prófíl og stýri bílsins er ekki
sérlega næmt fyrir yfirborði vegar-
ins. Fjöðrunin er það hins vegar og
skín það í gegn þegar tekið er rösk-
lega á bílnum. Það mætti vel ímynda
sér að sportútgáfa af bílnum gæti
verið skemmtileg í akstri og reyndar
gæti hið sama átt við um ódýrari út-
gáfur bílsins því eins og minnst var á
hér að ofan þá gæti orðið auðveldara
að koma auga á ákveðna eiginleika
bílsins.
Prófunarbíllinn er 150 hestöfl og
dísilknúinn og reyndist vélin vera af-
ar þýð og viðbragðið með besta móti
miðað við dísilbíl. Nægt afl er fyrir
hendi til innanbæjaraksturs og fram-
úraksturs en eins og oft er með dís-
ilbíla missir vélin máttinn fljótt þar
sem snúningssviðið er takmarkað.
Miðað við hve aflmikil vélin er var
eyðslan líka meira en ásættanleg en
hún var 7,41 lítri fyrir hverja 100
kílómetra og það í blönduðum innan-
bæjar- og þjóðvegaakstri og ætti það
að gleðja væntanlega kaupendur nú
þegar eldsneytisverð er í hæstu hæð-
um.
Fiat Bravo er þannig góður bæj-
arbíll og snattari en þó líka fínn sem
eini bíll fjölskyldunnar og ættu lang-
ferðir ekki að vera neitt vandamál
þar sem öll þægindi eru til staðar og
það sem meira er þá er gott aflsvið
þegar þarf að taka fram úr og góð
fjöðrun við flestar aðstæður. Reynd-
ar var fjöðrunin hvimleið á holóttum
götum þar sem hún ræður illa við hol-
ur og misjöfnur, nokkuð sem vill loða
dálítið við ítalska bíla. Bíllinn hefur
þannig ekki neina áberandi veikleika
og líklegast mun því verð og þjónusta
umboðsins ráða úrslitum um hve
heillandi Bravo verður í augum kaup-
enda.
Að síðustu má benda á að hönnun
bílsins er afskaplega viðkvæm fyrir
litum og mætti velja liti og felgur
þannig að lögð sé mest áhersla á
form bílsins og væri þannig hægt að
leggja mikið á sig til þess að lækka
prófíl bílsins, t.d. með lágprófíls-
dekkjum og sportfjöðrun. Bravo yrði
þannig ákjósanlegur kostur fyrir þá
sem ekki vilja feta hinn íslenska með-
alveg og vilja skera sig úr í umferð-
inni.
REYNSLUAKSTUR
Fiat Bravo
Ingvar Örn Ingvarsson
Útbúnaður Bíllinn er vel útbúin staðalbúnaði, loftkælingu, tengi fyrir tón-
hlöðu, kælihólfi, hraðastili og mörgu fleira.
Morgunblaðið/Ingvar Örn Ingvarsson
Laglegur Fiat Bravo er laglegur á að líta en eins og við er að búast af ítölskum framleiðenda.
Svalt Kælihólfið á milli sætanna er
afar þægilegt á ferðalögum.
Áhyggjuleysi í Bravo
Vél: 2 lítra
MJET-túrbódísilvél
Aflgeta: 150 hestöfl
Hröðun: 9 sek. í
100 km/klst
Hámarkshraði:
209 km/klst
Lengd: 4.336 mm
Breidd: 1.792 mm
Hæð: 1.498 mm
Farangursrými: 400 lítrar
Eldsneytistankur:
58 lítrar
Eyðsla: 5,59 l/100 km í
blönduðum akstri
(uppgefin eyðsla)
Útblástur: 149 g/100 km
Verð: Frá 3.070.000 kr
Umboð: Bílaumboðið Saga
Fiat Bravo
MJET
Auto Bild Danmörku
Fiat hefur grafið upp Bravo-nafnið og skellt því á
nýjan fjölskyldubíl sem er samsuða af Fiat Stilo og
sígildri ítalskri hönnun. Útkoman er ákaflega spenn-
andi réttur.
Channel 4
Glæsilegur, rúmgóður bíll með góðri innréttingu á
fínu verði. Klunnalegir aksturseiginleikar á stórum
dekkjum. Miklu betri en hinn óelskaði Stilo en þó
bara í meðallagi góður miðað við samkeppnina.
Times Online
Jeremy Clarkson segir bílinn hafa margs konar
ágalla sem ekki finnist í VW Golf. „Til að kaupa
svona bíl þarftu því að vilja eitthvað sem er ekki al-
veg jafngott og Golf. Fyrir utan tvö atriði, útlitið og
hvernig hann virkar á þig – ef þetta tvennt er mik-
ilvægt fyrir þig þá ættirðu að prófa hann. Þér gæti
líkað við hann. Mér líkaði við hann,“ segir Clarkson
að lokum.
Fiat Bravo – Hvað segja hinir?