Samvinnan - 01.04.1945, Qupperneq 12
SAMVINNAN
4. HEFTI
þeir, sem eltu hana, rétt búnir að ná henni. En
hún steypti sér fram af, heldur en láta ofsóknara
sína ná sér. Þá var að sögn látið berast út, að
Guðrún hefði verið orðin brjáluð.
Vaðlavíkur megin við Sandvíkurafrétt eru allháir
klettar tveir úr blágrýti, kallaðir AJcJcersstapi og
Mávastapi, aðeins lausir við land. Uppi á þeim er að
sjá mikið af skarfakáli. Þar verpa aðallega svart-
bakar. Ekki veit ég til, að neinum manni hafi tek-
izt að komast upp á þessa dranga, enda til lftils
að vinna nema mávseggja. Líka virðist það ómögu-
legt að klífa þá, því að lítið er um hrufur í berg-
inu og svo hátt upp á það, að góð byssa gerir
ekki betur en að skila höglum sínum þangað upp.
Sunnan við stapana, neðan undir ófærunum, er fjara
ekki mjög stórgrýtt. Hún mun vera 600—800 faðm-
ar á lengd og nefnist Brœðrasandur. Um miðju
hans eru landamerki milli Sandvíkur og Vaðla. Göm-
ul þjóðsaga segir, að nafnið sé þannig til komið:
Endur fyrir löngu voru uppi bræður tveir, vel efn-
um búnir. Bjó annar þeirra í Sandvík, en hinn á
Vöðlum. Eitt sinn, er þeir voru að ganga um fjör-
ur sínar og athuga reka, fundu þeir allstóran reyð-
arhval rekinn sem næst miðjum sandinum. Báðir
töldu sig eiga hvalinn óskiptan, en í stað þess að
skipta bróðurlega á milli sín skepnunni, urðu þeir
svo hjartanlega ósammála um skipti rekans. að þeir
bárust þar á banaspjótum og enduðu þannig líf sitt.
.Þegar klettarnir enda með sjónum, taka við snar-
brattir melar. Er þar afarstór melhryggur einn,
sem nefndur er Akurhryggur. Af hverju hann hefur
fengið þetta nafn, virðist ekki auðskilið eftir þeirri'
merkingu, sem lögð mun í það orð nú, því að ekki
sést grasstrá eða mosatægja á honum. Innan við
melana tekur við Vaðlaafréttin, grasi grónar hlíðar
upp að klettum. Þar er oftast ágæt hagabeit fyrir
sauðfé á vorin og veðursæld mikil. Þá taka við
hinar illgengu Vaðlaskriður, sem hafa það til ævin-
legrar minningar um sig að hafa orðið 19 mönn-
um að bana, ýmist hafa þeir hrapað á hjarni eða
farizt í snjóflóði. í Krukkspá eða annarri líkri spá-
dómsbók er sagt, að því hafi verið spáð um Vaðla-
skriður. að þær skyldu verða 20 mönnum að bana.
í sömu spádómsbók er sagt, að spáð sé um Hœlinn
í Karlskálaskriðum, að þar eigi 19 menn að láta
lífið. Þjóðsagan segir, að þar séu farnir 18. Er þá
eftir einn maður ófarinn í hvorum stað, ef spá-
dómarnir eiga að rætast.
Innan við skriðurnar er Landsendi, sléttar mýr-
ar og tún. Blasir þá mest öll Vaðlavík við augum.
Stórt lón er í henni miðri en sléttar, votlendar mýr-
ar upp í brekkur. Falleg tún og vel hirt. Að norð-
an eru brattar hjallalausar hlíðar með smádölum.
Að sunnan eru grashjallar, lyngbrekkur og móa-
melar.
Fjórar jarðir eru í víkinni.
Upp af Vaðlaskriðum er fjallið Skúmhöttur. Hann
var talinn 881 m yfir sjó. Skáhalt móti honum að
suðvestan er fjallið Snœfugl, sem sjómenn kölluðu
Sykurtopp, um 757 m á hæð. Eru þeir sem nokkurs
konar útverðir, sinn hvorum megin við austustu
byggð landsins.
Innan við Skúmhött er Tregaskarð, milli Sand-
víkur og Vaðlavíkur, erfiður en mjög fjölfarinn fjall-
vegur, meðan mannmargt var í Sandvík, og þeir
urðu að sækja allar útlendar nauðsynjar sínar á
Eskifjörð. Skarðið sjálft er þannig, að klífa verður
upp klettana báðum megin. Svo mjótt er skarðið
efst, að sitja má á fjallsegginni og hafa annan fót-
inn í Sandvík en hinn í Vaðlavík. Þar við skarðið
er hár klettadrangur, er nefnist Tregaskarðskerling.
Ganga klettadrangar niður frá kerlingunni sitt hvor-
um megin, er nefnast Kerlingarfœtur. Þegar snjó-
laust var og maður varð að klífa upp á skarðið, var
bezta handtakið um fót og svo fótleggi kerlingar.
Og þannig varð að fikra sig upp, þar til er efstu
brún var náð. Kallað var svo, að kerlingin sneri
brjóstum að vegfarendum. Hinum megin við kerl-
inguna var engum fært nema loftförum, en .milli
kerlingar og kletta var mjó rifa, sem maður gat
ekki smogið gegnum, 4—5 álnir á hæð, nefnd Bak-
skora. Það var ekki svo dátt logn, að menn heyrðu
ekki hvína í bakskorunni. Hún var hinn eini vegvís-
ir yfir Tregaskarð, því að hljóð hennar voru svo há
og einkennilega ólík veðurhvin fjalla, að maður gat
alltaf áttað sig á því, hvert halda skyldi, enda
heyrðist aldrei talað um, að nokkur maður hefði
villzt á Tregaskarði. Er þar þó bæði þokusælt og
dimmviðrasamt í snjóbyljum, og allt er það vind-
gangi í Bakskoru kerlingarinnar að þakka
Vaðlavíkur megin er Tregadalurinn milli Skúm-
hattar og Einstakafjalls. Er hann sporöskjulagaður
til beggja hliða, sama sem hjallalaus með jöfnum
bratta. Þarna er mjög snjóasamt, og rífur lítið. Er
því oftast góð skíðafærð, eftir að fyrsti snjór er
fallinn á vetri. Það var líka fyrrum farin þar mörg
ferðin á skíðum, sumar til þarfa, aðrar til gamans,
helzt meðan mannmargt var í Sandvík. Lítt þótti
það maður með mönnum í nefndum víkum, sem ekki
átti skíði. Þau voru flest smíðuð úr eik, álmi eða
öðrum hörðum viði, sem oftast var þar nóg af úr
skipaströndum og af reka. Ég get ekki hugsað mér,
að frá náttúrunnar hendi geti verið betri skíðabrekka
en niður Tregadal. Vanalega sér þar lítt á dökka díla,
116