Fálkinn


Fálkinn - 19.12.1947, Blaðsíða 30

Fálkinn - 19.12.1947, Blaðsíða 30
JOLABLAÐ FALKANS 1947 halda samkomulaginu svipað og verið hefir. — Eg læt ekki bjóða mér allt, sagði hús- móðirin æst. — Það kostar ekki peninga, að segja eins og er, og það skyldi aldrei verða dæmt frá minni hendi. En svona nokkuð líð ég ekki. Arndís verður ekki lengur á mínu heimili, það skal hún hafa fyrir framkom- una, þá fær hún að sjá, hvar hún er stödd. Hrein og björt augu Arndísar hvíldu á hús- móðurinni. Aldrei fyrr hafði hún kennt þess öryggis innra með sér, sem hún fann til, á þessari stundu. Innan um allt þetta undarlega fólk, voru til góðir menn, það hafði hún rekið sig á. Nú gat hún ekki látið bugast. Henni myndi í annað sinn verða rétt vinarhendi, þegar henni lægi mest á. — Ekki rekur þú stúlkuna á dyr, svona undir nóttina, — sagði húsbóndinn. — Þú verður hér í nótt, en getur svo farið á morg- un, bætti hann við, og sneri sér að Arndísi. Þegar Arndís var komin inn í herbergis- kytruna, sem hún svaf í, fann hún fyrst, hvað hún var örmagna af þreytu. Hana sveið í sár- ið á fætinum, og hún fann sárt til þess, hvað hún var svöng. — En hún gat ekki annað, en hugsað um allar þær stúlkur, sem hlutu að vera til, með svipaðar kringumstæður, og hún var í nú. Hún ímyndaði sér ekki að hún væri eina undantekningin. Þurftu þær ekki að standa saman á einhvern hátt, og verj- ast hinum ómildu átökum, sem lífið rétti þeim? En Arndís var allt of dauðuppgefin, til þess að brjóta heilann um þetta eða annað. Svefn- inn, mildur og friðsæll, læddist að, og sætti hana við allt og alla. Hún sofnaði í fullu trausti á lífið, og allt hið óþekkta sem stóð á bak við það. Næsta dag flutti Arndís til fátækrar ekkju sem vann fyrir sér og tveim dætrum sínum, sex og sjö ára gömlum. Þarna hafði gamla frú Alda, sem hún var í upphafi ráðin til, kom- ið henni fyrir fram yfir hátíðar, en þá átti Arndís að komast á gott heimili. Hún var ein þarna i íbúðinni mestan hluta dagsins, og óvenju angurvær í huga. Aðra daga, síðan hún kom í bæinn, hafði hún alltaf verið önnum kafin, og það hafði dreift leið- indum hennar að nokkru leyti. — En hér, alein í ókunnu umhverfi, var hún undur lítil og einmana. Þarna mundi hún ekki einu sinni geta unnið fyrir fæði, — og hvernig mundi svo sárið á fætinum artast? Hún var ekki vel stödd, enginn myndi láta sér annt um hana, og til engra gat hún leitað. Þegar ekkjan kom heim, sá hún að Arndís var döpur í bragði. — Þér hefir leiðst, að vera svona ein í allan dag, — sagð hún hressilega. — Á morgun er aðfangadagur, og þá verð ég meira heima. Skrepp aðeins út fyrir sjálfa mig, en vinn ekkert hjá öðrum. Það hittist nú líka svo á, að telpurnar mínar voru búnar að fá loforð um, að vera innfrá hjá börnunum hennar Bjargar systur minnar, svo það var meira en von, að þú sért angruð. — Já mér leiðist, að vera hér til byrði, sagði Arndís. Hefði ég getað unnið, þá væri það allt annað. — Láttu mig ekki heyra þetta. Hún frú Alda hefir margborgað það, þó að þú sért hér fram yfir hátíðar. Annars held ég að þú verðir heppin með húsið, sem þú lendir í. Eg gaf mér ekki tíma til að spyrja frú öldu ná- kvæmlega um það, en mér skildist samt, að hún ætlaði að útvega þér stað hjá hjónum, sem ég kannast vel við, og ég veit til, að hafa reynst margri umkomulítilli stúlkunni vel, og hreint og beint hjálpað þeim að komast á- fram. Vittu nú til, hvort þetta er ekki rétt, sem ég segi þér. — Jú, Arndís trúði orðum konunnar að vissu marki. Allt var breytingunum háð, það vissi hún, — en hún vissi líka, af nærtækri reynslu, að það voru til góðar manneskjur, sem þekktu aðrar betri leiðir, en að safna áþreifanlegum auði. Aðfangadagur jóla rann upp. Litlu telpurn- ar, dætur ekkjunnar, sem Arndís dvaldist nú hjá, voru vaknaðar og farnar að athuga spari- skildingana sína. Eitthvað ætluðu þær að kaupa, sem enginn mátti vita um. Mamma þeirra ætlaði líka út, klukkan níu, og verða komin aftur heim fyrir hádegið. Arndís varð fegin að vera ein. Allur þessi undirbúningur jólanna, hér á þessum stað, kvaldi hana. Hugur hennar hvarflaði heim, í gamla kalda sveitabæinn hennar. En hvað hún þráði að vera komin þangað. — Nú myndu litlu systur hennar, vinna hennar verk, þvo allt og hreinsa, bæði hátt og lágt. Engin myndi sakna hennar beinlínis, hún varð að fara að sjá um sig sjálf, fyrst hún var orðin þetta gömul. — Og gamla jólatréð. Mamma hennar myndi standa í einu eldhúshorninu og binda lyng á gamla tréð. Hún fann ilm- inn af lynginu, ilminn sem angað hafði að vit- um hennar öll jól, síðan hún mundi eftir sér. En hvað Arndísi var þungt um hjartaræt- urnar. Hún lagðist fram á gluggakistuna, fól andlitið í höndum sér, og grét. — Allt var svo dimmt og erfitt, og óskiljanlegt henni, hvernig rætast myndi fram úr því. Arndis heyrði ekki, að drepið var á dyr. Hún leit fyrst upp, þegar marraði í hurðinni um leið og hún var opnuð. Stór kona í dökkri kápu, kom inn á gólfið. Hún bað engrar afsökunnar, en spurði hik- laust. — Ert þú ekki Arndís Helgadóttir? — Jú, sagði Arndís allundrandi, og án þess að gefa sér tíma til, að þurrka tárin, sem döggvuðu hvarma hennar. — Eg er Signý Samúelsdóttir, konan sem frú Alda hefur komið þér fyrir hjá. Eg hitti hana aðeins sem snöggvast áðan, til að færa henni blóm, og þá sagði hún mér, að þú værir hér. Ef þú hefur ekki á móti því, óska ég þess, að þú komir strax til mín. Arndís leit á góðlegt andlit aðkomukonunn- ar, hreinum skýlausum augum, og þær fundu það, báðar í einu, að þær myndu reynast hvor annarri vel. Þær dokuðu við, þangað til ekkjan kom heim, svo Arndís gæti kvatt hana, og þakkað fyrir sig. Síðan hringdi Signý á bíl, og þær keyrðu heim til hennar. Jólahelgin nálgaðist óðfluga. Arndís lá upp í dívan, í hlýrri og fallegri stofu, og horfði á ijósakrónuna í loftinu. Hún var nýbúin að fara í bað, og sjálf frúin hafði hjálpað henni, og fært henni allt hreint og nýtt til að fara í. Kjóllinn hennar minnti hana á mýkstu blóm- krónu. Hún var líka búin að borða nægju sína af smurðu brauði, og drekka mjólk, eins og hún gat torgað. Þannig átti þá fyrsta jólakvöldið hennar í höfuðstaðnum að verða. Var þetta í raun og veru veruleiki, sem nú var að koma fram við hana, eða hafði hún aldrei vaknað til þessa lífs, eftir að hún datt á gangstéttina? Allt, sem síðan hafði skeð hafði gerst svo fljótt og skyndilega fyrir henni, alveg eins og það gekk til í sumum ævintýrunum, þar sem allir erfið- leikar snerust í hamingju á svipstundu. — Arndísi fannst þetta jólaævintýri sitt svo dá- samlegt, að henni fannst næsta ótrúlegt, að það gæti varað nema skamma stund. En heim í litla kalda sveitabænum hennar, voru líka jól. Hún vissi hvernig hangikjöts- imurinn læddist um hvern krók og kima, jafn- vel út í skemmu, og út á hlað. Allsstaðar var sérkennilegur ilmur, sem boðaði mikinn daga- mun. Systkinin hennar voru orðin hljóðlát, og eftirvæntingin skein út úr svip þeirra. — Litlu andlitin voru óvenjulega vandlega þveg- in og glansandi. Sparikjólarnir telpnanna voru orðnir óskaplega stuttir og þröngar á þeim ermarnar, en þær urðu að láta sér nægja þá, þessi jólin líka. — En kannske ætti hún það eftir, að geta gefið þeim fallega kjóla. — Nei, Arndís litla, þú hefur aldrei verið gjörn á dagdrauma, og nú skaltu muna að þú hefir ekki unnið þér inn einn einasta eyri í vetur. Arndís hreyfði til meidda fótinn, og strauk hendinni yfir mjúka fína rósakjólinn. — En það var þó víst, að þetta allt saman var eng- inn draumur. Einhverjir voru að ganga um frammi. Hún heyrði að hurðin opnaðist og lokaðist. Það greip Arndísi eftirvænting, blandin feimni og einstæðingskennd, þar sem hún lá, í þessari fallegu ókunnu stofu. — Þú kemur snöggvast hérna inn, áðUr en þú hefir fataskipti, heyrði Arndís frú Signýju segja. Hurðin opnaðist, frúin kom inn til hennar, og ókunnugur maður með henni. Frú Signý kveikti á litlum lampa, sem var við dívaninn, sem Arndís lá á. — Eg mátti til með að láta manninn minn sjá litla jólagestinn okkar. Arndís settist upp og horfði á manninn, stórum skýrum augum, — svo roðnaði hún við, og varð niðurlút. — Það er sem okkur sýnist báðum, barnið gott, sagði maðurinn brosandi. — Það vorum við, sem mættumst í hálkunni. Auðvitað átti ég að taka þig strax heim með mér. Eg mátti vita það af reynslunni hvernig þú varst sett. — Nú er ég hætt að skilja, sagði frú Signý. Arndís sagði ekkert. f huganum var hún aftur komin, í skjóli rökkursins, út á gler- hála götuna. Það læddist tár niður kinnar hennar. Hún vildi ekki þurfa að lifa þennan tíma upp aftur, svo hafði hann verið henni erfiður, án þess að hún gerði sér fulla grein fyrir því þá. — Eg vona þó, að hann Markús hafi ekki verið neitt ónotalegur við þig, góða mín, sagði frú Signý og tók um hendi Arndísi. — Nei, það var hann, sem hjálpaði mér, þegar ég meiddi mig, snökti Arndís. — Atvikin eru æði oft óútreiknanleg, sagði Markús, og studdi höndinni á öxl konu sinn- ar. — Menn verða stundum að ganga gegn- um skóla reynslunnar, áður en þeir komast í örugga höfn. — Segðu nú ekki meira Markús minn. En við skulum biðja jólagestinn okkar, að segja okkur sína sögu eftir matinn, — frá því er hún fór að heiman, og þangað til hún komst hingað til okkar. Nú þarft þú að hraða þér, að hafa fataskipti, og svo heldur Arndís litla jólahátíðina með okkur í Jesú nafni.

x

Fálkinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fálkinn
https://timarit.is/publication/351

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.