Fálkinn


Fálkinn - 18.01.1965, Blaðsíða 27

Fálkinn - 18.01.1965, Blaðsíða 27
„í kvöld ...“ hrópaði Soffía upp yfir sig. „Hamingjan hjálpi mér! ætlarðu að skelfa mig svo, að ég gangi af vitinu?“ „Þú hefur ekkert að óttast, telpa mín,“ svaraði frænkan. „Þetta er ungur maður og glæsilegur í alla staði, ekki er því að neita. Einmitt maðurinn, sem þú hefur lagt hug á, svo þú hefur alla ástæðu til að fagna komu hans en ekki að óttast.“ „Já, satt segirðu frænka mín,“ varð ungfrú Soffíu að orði og augnaráð hennar varð dreymið og angurblítt. „Glæsi- legur er hann; hvarjum ungum manni glæsilegri, hugrakkari, hjálpsamari og hraustari. Hvað hefur það að segja, þó að ungur maður, sem öllum þessum kost- um er prýddur, sé lausaleiks- barn...“ „Lausaleiksbarn . ..“ Og nú var það frænkan, sem hrópaði upp yfir sig. „Áttu við að Bilfil úngi sé lausaleiksbarn? Ég held að þú sért gengin af göflunum, heillin.“ 1 „Blifil ungi?“ Soffía fölnaði. „Hvað kemur Blifil ungi þessu máli við?“ spurði hún. „Hvað kemur Blifil ungi þessu máli við?“ endurtók frænkan. „Er það ekki hann, sem við höfum verið að tala um. Unnusti þinn ...“ „Almáttugur,“ andvarpaði Soffía og var nærri liðið yfir hana. „Og ég . .. ég sem hélt að við værum að tala um Tom Jones. Hann er sá eini, sem ...“ „Hverskonar vafningar og vitleysa er þetta eiginlega?“ sagði frænkan og brýndi raust- ina. „Nú ert það þú, sem gerir mig hrædda. Er það Tom Jones, eða er það Blifil ungi, sem þú ert ástfangin af?“ „Blifil ungi. ..“ endurtók ungfrú Soffía fyrirlitlega. „Kemur þér til hugar frænka mín, að ég gæti verið hrifin af slíkum manni? Ætti ég að bind- ast honum ævilangt, mundi ég telja mér það slíka ógæfu, að ég mætti ekki til þess hugsa . . .“ Nokkurt andartak stóð frænkan þögul og svipþung og sótti í sig veðrið. Svo rétti hún úr sér, brýndi raustina og hvessti augun á ungfrú Soffíu. „Getur það átt sér stað, að þú viljir gera ætt okkar þá skömm að tengjast lausa- leikskrakka?“ þrumaði hún. „Flekka hinn fagra skjöld Westernættarinnar?” Ungfrú Soffía átti líka til skap, ef því var að skipta. Og nú titraði hún af reiði. „Það eitt hef ég sagt, sem þú hefur vélað mig til að segja. Ég minn- ist ekki að ég hafi nefnt Tom Jones á nafn fyrr, og mundi ekki heldur hafa gert það nú, ef þú hefðir ekki blekkt mig til þess. Er ég og frjáls að til- finningum mínum gagnvart honum, og þarf þar engan leyfis eða álits að spyrja á meðan þær eru mitt eigið leyndarmál. Hafði ég ásett mér það, að láta engan komast að raun um þær, en varðveita þær eins og heilagt leyndarmál, sem ég tæki með mér í gröf- ina...“ Að svo mæltu hneig hún ofan í hægindastól, fól andlitið í höndum sér og grét sáran. Frænkan stóð þögul andar- tak og virti hana fyrir sér. Tók svo enn til máls en var öllu mildari. Kvaðst hún tilleiðan- leg að þegja yfir leyndarmáli ungfrú Soffíu við föður henn- ar, en þó því aðeins að hún héti sér því að taka á móti Blifil unga þá um kvöldið, eins og hann væri væntanlegur unnusti hennar og eiginmaður. Þótt leitt sé, verður ekki hjá því komizt að viðurkenna það, að nú hafði frænkan náð slík- um tökum á ungfrú Soffíu, að hún gat fengið hana til hvers sem var. Hún féllst því á að taka vingjarnlega á móti Blifil unga, en grátbændi frænku sína um leið að hún beitti áhrif- um sínum til þess að ráðahag þeim yrði ekki hraðað um of. Kvað hún Blifil unga sér alls ekki geðfelldan, og væri það einlæg von sín, að faðir sinn héldi ekki máli þessu til streitu því að þá yrði hún aumust allra kvenna. En frænkan var að sínu leyti ánægð, þegar Soffía hafði gef- ið henni loforð um að taka vel á móti Blifil unga og láta ekki neitt á neinu bera. Hún var veraldarvön og Vissi að meyjar- hugur er löngum tvíátta og aldrei að vita hvað verður. Og með það fór hún. Varla var hún horfin út úi herberginu, þegar herbergis- þernu ungfrúarinnar bar að. Varð hún furðu lostin, þegar hún sá húsmóður sína liggja hágrátandi á hægindinu; fór hún óðara sjálf að gráta líka af einskærri samúð. „Hamingj- an sanna, hvað hefur orðið yður að harmi, ungfrú,“ spurði hún og lézt ekkert vita. „Faðir rninn .. . faðir minn,‘‘ svaraði Soffía með sárum ekka. „Hann ætlar að neyða mig til að giftast manni, sem ég hata og fyrirlít." „Skárri er það nú harkan og grimmdin við sína eigin dótt- ur,“ kjökraði herbergisþernan. „Og hver er hann, þessi lubbi, Framhald á næstu síðu. Tom Jones leitar ráða hjá herbergisþernu Soffíu

x

Fálkinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fálkinn
https://timarit.is/publication/351

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.