Ljósberinn - 01.12.1954, Blaðsíða 7

Ljósberinn - 01.12.1954, Blaðsíða 7
LJÓSBERINN 115 Blessuð jólin koma Nú leit pabbi á klukkuna sína og sagði: — Þá eru nú blessuð jólin að koma. Mamma sagði eitthvað á þessa leið: — Komi þau í Jesú nafni. Allt í einu fannst mér eins og eitthvað kæmi inn göngin, inn í baðstofuna, og fyllti hana af einhverju, sem ég fann, en gat ekki gjört mér grein fyrir. Ég fann að það voru jólin, og þá varð allt svo notalegt. Mamma tók grútarlampann, kveikti á tveimur kertum, og undursamleg birta breiddist út yfir alla baðstofuna. Svo fór mamma fram í búr og vinnustúlkan með henni. Nú var farið að bera jólamatinn inn. En þau ósköp, sem fólkið átti að borða. Það var hangikjöt og sneið af magal og sperðill og bringukollur og gríðar þykk pottkökusneið, þykk smjörskífa, og efst var hlaði af laufa- kökum. Þetta var allt of mikið að borða í einu, svo að fólkið raðaði leyfunum niður í smá kistla og hafði sér það í aukabita til sælgætis fram yfir nýár. Menn borðuðu nú nægju sína og voru glaðir. Með hverjum diski var tólgarkerti. Var kveikt á þeim öllum og þau sett upp á rúmstólpana milli rúmanna. Af þessu varð svo mikil og hátíðleg birta í baðstofunni, að það var sannkölluð jólabirta. Ég man, að ég sat og horfði hugfanginn inn í ljósið af kertinu mínu og var svo sæll. Annars var engin kátína á ferðum. Allt var stillt og hljótt. Ekki var spilað á spil á jólanóttina. Óvæntur viðburður Þegar verið var að enda við að borða, bar nokkuð óvænt við, svo að öllum brá mjög.Það heyrðist allt í einu eins og eitthvað væri að koma upp á þekjuna. Það marraði í öllu og brakaði í sperrunum. Allir þögnuðu og hlustuðu. Svo heyrðist manns rödd inn um einn gluggann. Það var kallað: — Hér sé Guð. Annar vinnumaðurinn reis upp að glugg- anum og kallaði: — Guð blessi þig, hver er maðurinn? Eitthvað var kallað á móti, en það heyrðist ekki fyrir óveðrinu. Allir sátu steinþegjandi, og hálfgerð ónot fóru um alla. Ég varð hræddur. Ætli það sé einn af jóla- sveinunum eða tröllkarl eða skessa? Ellegar draugur, Móri eða Skotta? Það væri hræði- legt. Ég hafði heyrt svo margt um þetta. Vinnumaðurinn leit til pabba: — Ég get ekki heyrt orðaskil. Það er líka óskiljanlegt, að nokkur mennskur maður sé á ferð í þess- ari blindösku stórhríð. Pabbi sagði: — Farðu fram og bjóddu honum inn. Vinnumaðurinn hikaði við, og önnur vinnu- konan sagði: — Það getur verið varasamt, maður veit ekki, hvað getur verið á ferð. Pabbi stóð upp og fór að ganga fram bað- stofugólfið, og bjóst pilturinn þá líka til að fara, — Þess þarf ekki, sagði pabbi og gekk fram. Fannbarinn gestur Það leið all-löng stund. Allir sátu þegjandi. Ég held, að ég hafi svitnað. Svo heyrðist mannamál frammi í göngunum og gríðar- mikið stapp. Hurðin opnaðist. Pabbi kom inn og maður með honum, fannbarinn nokkuð, þótt hann hefði stappað af sér versta snjón- um. Hann heilsaði fólkinu, og svo voru hon- um fengin þurr föt. Gesturinn hét Rögnvaldur og var þaðan úr sveitinni, á leið heim til sín. Hann hafði villzt, en rekizt á bæinn. Allir urðu fegnir, að hann komst af og tóku nú aftur gleði sína. Gestinum var borinn jólamatur. Þegar hann hafði snætt, var farið að lesa jólalestur- inn. Var það mjög hátíðleg stund. En þá þekktust ekki jólasálmarnir, sem nú eru sungnir á jólunum. Þeir voru þá ýmist ekki til eða ekki komnir inn í sálmabókina. Lesturinn var langur, og ég sofnaði undir lestrinum, en vaknaði víst bráðlega aftur. Þá var fólkið að drekka kaffi og borða klein- ur og pönnukökur og skrafa saman. Svo var ég háttaður og sofnaði ákaflega vært út frá kertinu mínu. Mér fannst ég finna, að engl- arnir væru hjá mér.

x

Ljósberinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósberinn
https://timarit.is/publication/362

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.