Heima er bezt - 01.07.1958, Blaðsíða 9

Heima er bezt - 01.07.1958, Blaðsíða 9
SÖGUR MAGNÚSAR Á SYÐRA-HÓLI JÓHANNES Jón Gottskálksson Skagamannaskáld var á mann- dómsárum sínum í þingum við Solveigu, dóttur Odds bónda Sigurðssonar á Kálfshamri. Þau áttu saman son, er Jóhannes hét, og lauk þar með samneyti þeirra og vináttu, og var það Solveigar sök meira en Jóns. Er þau voru skilin að skiptum, kvað Jón: Hunangsart á vörum var veiga bjartri línu, en eitursvarta orminn bar innst í hjarta sínu. Solveig giftist síðan Þorvaldi Bjarnasyni, bróður Guð- mundar í Víkum. Jón Gottskálksson steytti heldur ekki piparinn og kvongaðist konu þeirri, er Guðrún hét, dóttir Guðmundar Ingimundarsonar, er kallaður var blápungur. Guðmundur sá var óeirinn um kvennafar og átti margt barna með ýmsum konum. Guðrún var ekk- ert gáfnaljós, en mikill forkur í slarkvinnu. Jóhannes, sonur Jóns og Solveigar, gerðist óreglu- og óreiðumaður, er hann þroskaðist. Hann dó nálægt tví- tugu með þeim hætti, að hann féll útbyrðis af Drang- eyjarfari á leið úr eynni til Sauðárkróks. Nóttina áður dreymdi hann, að fyrir honum var kveðin vísa þessi: Frelsarans er fögur mynd, farðu hans að ráðum. Daglega ei drýgðu synd, dauðinn kemur bráðum. Sögn Maríu Ögmundsdáttur á Syðra-Hóli. KROSSINN í SKAGAHEIÐI Maður hét Jón og var Rafnsson, Eyfirðingur að kyni, ættaður úr Öxnadal. Það var einhvern tíma, er hann var ungur maður, að hann ætlaði suður í ver úr Skagafirði. Þá vildi svo slysalega til, að hann féll illa á hálku eða harðfenni í brekkunum fyrir ofan Gil í Svartárdal og handleggsbrotnaði. Hann átti lengi í þeim meiðslum og fékk höndina aldrei jafngóða. Hann var bagaður á henni síðan, en gekk þó að flestri vinnu og var harðfrískur maður. Eftir þetta dvaldist Jón eitthvað í Svartárdal og Langadal. Þar komst hann í kynni við Maríu Guð- mundsdóttur, ekkju Kristjáns Guðmundssonar, er fórst í Blöndu með þeim Strjúgsbræðrum, Bjarna og Sveini, 14. des. 1844. Þau giftust og voru við hokur eða í hús- mennsku á Núpi á Laxárdal og víðar. Síðan fluttust þau norður á Skaga og áttu heima á Selá. Þar dó María, en tveim árum síðar varð Jón úti í Skagaheiði, 19. marz 1860. Ekki vita menn nú, hvernig stóð á ferðum Jóns, en sagt er, að hann legði á Skagaheiði í tvísýnu veðri. Var hann mjög lattur fararinnar, en hann svaraði engu góðu. Kvaðst ekki mundu lengi einn á heiðinni, ef svo færi að hann yrði úti. Jón fór leiðar sinnar, en ekki löngu seinna brast á hríð og var dagstætt vonzkuveður. í því lét Jón líf sitt, og fannst lík hans alllöngu síðar nálægt Ölfusvatni, um klukkutíma gang fyrir ofan Selá. Seinna var reistur tré- kross þar sem Jón lá. Hann stóð þar lengi, en er fallinn fyrir mörgum árum. Bera þótti á því, að mönnum yrði villugjarnt á þeim slóðum, þar sem Jón varð úti. Varð það oftast á einn veg. Þeir, sem villtust, sáu allt í einu mann á undan sér, fylgdu honum fast eftir til að njóta samfylgdar, en komu innan skamms að krossmarkinu, og hvarf þar svipurinn. Sumir slitu af sér villuna, en aðrir urðu úti. Maður var á ferðinni á þessum slóðum að vetrarlagi. Gerði á hann muggukafald, en ekki mjög dimmt. Hélt hann leiðar sinnar góða stund. Þá verður hann þess var, að maður fer á undan honum, og djarfaði til hans gegn- um mugguna. Ferðalangurinn vildi fyrir hvern mun ganga hann uppi, til að hafa samfylgd hans, og drýgði sporin. En hinn ókunni maður reyndist langstígur og lét ekki dragast uppi. Allt í einu hvarf hann, eins og hann hefði sokkið, en í staðinn sá ferðalangurinn kross- markið. Varð honum hverft við, því að hann þóttist komin langt fram hjá. Hann herti samt upp hugann og tók stefnu frá krossinum, eins og hann hélt réttast vera. En ekki leið á löngu áður en hann kom að krossinum aftur og hafði farið í hring. Er ekki að orðlengja það, að þrívegis kom maðurinn að krossmarkinu. Sá hann sitt óvænna og taldi, að einu mundi draga fyrir sér. Það verður nú ráð hans, að hann beygir kné við krossinn og ákallar guð. Að því búnu tók hann stefnuna í þriðja sinn frá krossinum, og fórst nú svo gæfulega að hann náði bæjum. Annar maður fór seinna þessa sömu leið, lenti í logn- fjúki og henti hið sama og þann, er áður er frá sagt. Hann sá mann stika á undan sér og hverfa við krossinn. Þessi maður var harðmenni mikið og kjarkmaður. Er hann kom í annað sinn að krossinum, tók heldur að síga í hann. Varð honum annað fyrir en auðmýkt og bæna- lestur. Hann leysti ofan um sig og gekk örna sinna undir krossinum. Að svo búnu steytti hann hnefa og stappaði fótum og sagði í vonzku: „Hafðu þetta, argur djöfull, og vita skaltu, að ég hræðist hvorki þig né aðra ára, og til bæja skal ég kom- ast, á hverju sem gengur.“ Hann skálmaði snúðugt í fjúkinu burt frá krossinum. Tók þá brátt að hvessa og gerði vonzkuhríð, en nú hafði maðurinn veðurstöðuna sér til glöggvunar, enda villtist hann ekki aftur og komst af heiðinni til bæja, eins og hann hafði sett sér. Sögn Maríu Ögmundsdóttur og fleiri Skagstrendinga. svo og Jónasar Illugasonar um Jón Rafnsson. Heima er bezt 227

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.