Heima er bezt - 01.07.1958, Side 19
DÆGURLAGAÞÁTTURINN
n n h a f a borizt nokkur bréf, þar sem lesend-
ur þessa þáttar hafa borið fram óskir sínar um
dægmrlagatexta, bæði gamla og nýja.
Bergljót á Grund hefur beðið um ljóð eða
dægurlagatexta, sem mikið var sunginn fyrir nokkrum
áratugum og margir kannast enn við, þar sem ljóð og
lag var gefið út 1942 í Söngvum handa karlakórum, III.
hefti. Þórður Kristleifsson tók saman.
Þetta umbeðna ljóð er þýtt af Jóni Ólafssyni ritstjóra
og er prentað í ljóðabók hans árið 1892. — Það heitir
Haustkvöld á Hörðalandi. Lagið við kvæðið í karlakórs-
heftinu er eftir H. Wetterling.
Hér birtist þá ljóðið, eins og það er prentað í ljóða-
bók Jóns Ólafssonar:
Haustkvöld á Hörðalandi.
Grafardals fögrum við gengum í hlíðum,
gekkst þú um skóginn við hliðina á mér;
hvergi svo rólegt í heiminum víðum
þá hugði ég vera sem lifa hjá þér.
Undir Friðgrænni eik
(þú varst föl og bleik)
sagði ég við þig:
„Geturðu elskað mig?“
F.n þín titraði önd,
þín mig tældi hönd,
er að hjarta mér töfrandi hneigst þú í draum.
Já, fundir fyrnast, ástir ei.
Til hennar ég ávallt skal ástina geyma,
þótt annar nú hugur sé vífs.
Þig skal ég ávallt muna, mey.
Fegursta mær, aldrei mun ég þér gleyma;
ég man þig til enda míns lífs.
Sigurrós á Gerðubergi hefur beðið um dægurlaga-
textann: Við, þii og ég. Þetta ljóð er eftir Loft Guð-
mundsson, skáld og blaðamann, sem er vel kunnur um
allt land fyrir ágæta dægurlagatexta og gamanþætti.
Loftur er kennari að menntun, fæddur 6. júní 1906
að Þúfukoti í Kjós. Lagið er enskt dægurlag.
Erla Þorsteinsdóttir hefur sungið ljóð og lag inn á
hljómplötu. Erlu þarf ekki að kynna fyrir lesendum
þessa þáttar.
Hér birtist þá ljóðið:
Við — þú og ég.
Er allt komst í lag
hinn alfyrsta dag,
var elskendum tveim gefin jörðin.
Þar stórveldi neitt
ei stafkrók fær breytt,
hún stendur við makt fyrsta gjörðin.
Við, - þú og ég,
við eigum heiminn.
Um hvað er að slást, þegar æska og ást
að arfi tók jörðina og geiminn.
Og upphafi frá
sveif elskenda þrá
um óravítt ljósvakans heiði.
Með sólkerfum hlaut
hún svimháa braut,
um seguldjúp óskaleiði.
Við, - þú og ég,
við eigum heiminn.
Hvert eldflaugarskot telst því umferðarbrot
á elskenda draumleið um geiminn.
Er allt gerðist hljótt
þá alfyrstu nótt,
varð unaðsmild birtan í lundum,
og nótt þeirri frá
því máninn einn má
rjúfa myrkrið á elskenda fundum.
Við, - þú og ég,
við eigum heiminn.
Og gervitungl öll lýsum ógagn og spjöll
við ástina, nóttina og geiminn.
Valborg í Vopnafirði! Dægurlagatextana, sem þú
talar um, hef ég ekki enn getað grafið upp.
Stefán Jónsson.
TIL KRAKKANNA,
SEM LESA „HEIMA ER BF.ZT“
Með þessu blaði fylgja þrjár arkir af sögunni hans Ármanns,
„Falinn fjársjóðiir", í staðinn fyrir eina, og nú ætla ég að segja
ykkur hvers vegna.
Þegar við sendum út síðasta blaðið, þar sem fyrsta örkin af
„Falinn fjársjóður“ var heft með, þá gerðum við það í þeirri
góðu trú, að það væri leyfilegt vegna póststjórnarinnar.
En þegar blaðið kom til Reykjavíkur, þá stöðvaði pósthúsið
þar útsendinguna og hringdi til okkar og sagði okkur, að það
væri óleyfilegt að hefta þessa örk af sögunni með blaðinu, nema
að við greiddum 70 aura viðbótargjald fyrir hvert blað.
En 70 aura viðbótargjald er sama sem 3000 króna aukaútgjöld
á mánuði eða 36.000 krónur á ári, og slík aukaútgjöld getur blaðið
ekki borið, nema með því að hækka áskriftargjöldin.
Nú hefur áskriftargjaldið ekkert hækkað síðustu ár, þrátt fyrir
margs konar hækkanir á útgáfukostnaðinum, og við viljum í
lengstu lög forðast að hækka áskriftargjaldið.
Þess vegna hringdum við í póststjórnina og báðum um gott
veður, en það var eins og að höggva í harðan stein og enga mis-
kunn þar að fá, því að póststjórnin verður sjálfsagt að fylgja
settum reglum.
Við höfum því ákveðið, að setja þrjár arkir af sögunni með
þriðja hverju blaði, því að það verður þrisvar sinnum ódýrara,
og í raun og veru fáið þið söguna alla jafn fljótt.
Af þessari sömu ástæðu getum við ekki sent lausa getrauna-
seðla með blöðunum, því að það myndi kosta sömu upphæð.
Sigurður O. Björnsson.
Heima er bezt 237