Heima er bezt - 01.07.1958, Síða 30
SJÖUNDI HLUTI
„Þú bara aftekur það,“ sagði Hartmann gamli.
„Ég verð líklega ekki kvaddur á það þing,“ sagði
Kristján dauflega. „Ég ætla mér heldur ekki að troða
mér þangað.“
„Getur unnusta þín ekld haft nein áhrif á móður
sína?“
„Ég býst við að hún reyni lítið til þess, enda er ekki
í næsta hús að venda, þar sem móðir hennar er alla leið
suður í Reykjavíkurborg og ætlar sér víst ekki að láta
sjá sig aftur hér fyrir norðan,“ sagði Kristján. „Svo er
hérna fjósið.“
„Hér má segja að sé stór skál og lítið í,“ sagði gamli
bóndinn. „Aðeins tvær kýr. Hvemig stóð á því, að
manneskjan lét ykkur ekki eftir fleiri nautgripi?“
„Þetta er nóg. Ég kærði mig ekkert um að kaupa
nema eina kú. Hina skenkti hún dóttur sinni. Við færð-
um frá nokkrum ám og höfum nóga mjólk.“
„En þú verður að hafa kindur hér í fjósinu í vetur,
ef kýrnar eiga ekki að drepast úr kulda,“ sagði Hart-
mann gamli.
„Það ætla ég líka að gera,“ sagði Kristján stuttaralega.
Honum fannst hann áreiðanlega vera upp úr því vaxinn
að sér væri sagt fyrir verkum.
Loks gengu þeir inn í maskínuhúsið.
„Hefurðu ekki einhverja hressingu handa gestunum,
góða?“ spurði Kristján.
Hartmann heilsaði kvenfólkinu með handabandi.
„Hér er nú kannske eitthvað um að vera, sýnist mér,“
sagði hann. „Alls konar sætar kökur, búnar til eftir
þessum kvennafræðara, þykist ég vita.“
„Hvort má heldur koma með mat eða kaffi?“ spurði
Rósa.
„Náttúrlega mat. Ég er sársvangur úr ferðalaginu,"
svaraði hann. Svo bætti hann við: „Hvað ert þú eigin-
lega búin að gera við kerlinguna mína? “
„Hún vildi ekkert þiggja og lagði sig strax. Henni
hefur víst liðið hræðilega á sjónum,“ sagði Rósa.
Það hnussaði í gamla manninum: „Hún er nú aldrei
mjög hetjuleg. Náttúrlega var hún talsvert sjóveik, en
slíkt finnst mér nú ekki til að gera veður út af. Þetta
var nú heldur ekki langt ferðalag. Gat ekki styttra
verið og óvíða stanzað. Það gat víst ekki gengið betur,
og alltaf var blæjalogn. Hvað skyldi hafa orðið úr henni,
ef vont hefði verið í sjóinn?“
Kristján bauð föður sínum inn í skrifstofuna. Þangað
bar Rósa þeim matinn, sem var ný kjötsúpa.
Gamli maðurinn tók hressilega til matar síns. Sjó-
ferðin hafði auðsjáanlega ekki haft slæm áhrif á lystina
hjá honum.
„Er það meiningin að hér verði matarveizla? “ spurði
hann yfir súpudiskinum.
Kristján varð fyrir svörum: „Nei, það höfum við
ekki hugsað okkur. En þú skalt fá nóg kjöt, soðið og
steikt, meðan þú stanzar, en hitt er alveg að leggjast
niður.“
„Eins og annað — allir góðir siðir niður Iagðir,“ sagði
Hartmann.
„Þær hafa hlotið að vera fjarska þreytandi, þessar
matarveizlur,“ sagði Rósa.
„Þær voru tilkomumiklar — dálítill munur eða þessar
sætabrauðsveizlur, sem nú eru komnar í móð. Það var
þessi kvennafræðari, sem útrýmdi þeim,“ sagði gamli
maðurinn.
„Það er kassi frammi í bæjardyrum, góða mín. Hann
er frá mömmu þinni. Sjálfsagt er bréf niðri í honum,“
sagði nú Kristján. „Hún ætlar ekki að hafa fyrir því að
koma norður.“
„Líklega ekki. Ég man, að hún sagðist hafa verið sjó-
veik. Aumingja mamma! Ég verð að drífa mig suður,
ef ég á að fá að sjá hana,“ sagði Rósa, og augu hennar
fylltust tárum. Hún sneri sér undan, svo að feðgarnir
sæju þau ekki, en þeir höfðu samt orðið þeirra varir.
„Ég vona, að þú hafir ekki tekið að þér neitt kjökur-
kvendi,“ sagði Hartmann. „Ekkert er eins drepleiðin-
legt og móðursjúk kona. Þú þekkir ævina mína.“
„Rósu hefur nú bara langað til að fá mömmu sína
norður, en það hefur ekki staðið upp á hennar geð,“
sagði Kristján tómlega.
„Það er nú ekki mjög langt síðan hún var hér, sú
kona,“ sagði faðir hans og hleypti í brýnnar.
Rósa kallaði á Laugu fram í bæjardymar. Hana lang-
aði til að hnýsast í þennan kassa.
248 Heima er bezt