Heima er bezt - 01.07.1958, Qupperneq 31

Heima er bezt - 01.07.1958, Qupperneq 31
„Skyldi það eiga illa við að opna hann? “ spurði hún. „Lauga, hér stendur ,Brothætt‘ á honum!“ „Við skulum bera hann inn í skála,“ sagði Lauga. „Það þarf þá enginn að vita, þó við hnýsumst í hann.“ Þær gerðu það og bisuðu talsvert lengi við að opna hann. Undir lokinu var sendibréf. Fyrsta bréfið, sem móðir hennar hafði sent henni. „Ég ætla að lesa það fyrst, þá sé ég, hvað í kassanum er,“ sagði Rósa. „Ég veit að það er kaffistell. Það verður ekki mjög amalegt að fá það á veizluborðið,“ sagði Lauga. Rósa las bréfið, ánægjuleg á svip. „Það er rétt, sem þú gazt til. Það er tólf manna kaffi- stell. En hvað þetta var fallega gert af mömmu, og svo þetta góða bréf, sem hún skrifar mér. Ég hélt hún væri alveg búin að gleyma mér. Hún segist vera orðin mikið hressari en hún var í vor. Finnst hún bara einmana, að snúast ein innan um stofurnar allan daginn. Það er ekki óeðlilegt, eftir að hafa verið á þessu fjölmenna heimili, sem hér hefur alltaf verið. Herra minn góður, hvað hér hefur sett niður — fjórar og fimm hræður í bænum í sumar! Ég verð að reyna að toga hana norður aftur.“ Svo voru bollamir teknir upp úr kassanum, loga- gylltir á börmum, með fínlegum rósum á hliðunum. Allt í einu hratt Kristján upp hurðinni: „Nú, þarna eruð þið,“ sagði hann hálf óþýðlega. „Við erum að forvitnast í kassann,“ sagði Rósa. „Það er bara í honum þetta fína kaffistell. Það kemur sér vel á giftingardaginn okkar.“ Hann varð viðkunnanlegri á svip: „Það er vel líldegt, að það skarti þar nógu vel,“ sagði hann. „En hefurðu boðið henni mömmu nokkra hressingu?“ „Nei, ég hélt að hún svæfi,“ sagði Rósa og hélt áfram að þurrka bollana. „Viltu gæta að því, hvort hún er vöknuð?“ sagði hann. „Hún er víst áreiðanlega sofandi,“ svaraði Rósa. Þá bauðst Lauga til að fara inn og vita, hvort Arndís væri vöknuð. Hún kom strax aftur og sagði, að hún steinsvæfi. Þá var haldið áfram við bollana. Síðan vom þeir bornir inn í búrið og þeim raðað upp í skáp. Stúlk- urnar dáðust að því, hvað þeir væru fallegir. En Kristján fylgdi föður sínum um allan bæinn. Gamli maðurinn varð að sjá hvern krók og kima, jafnt eldiviðarkofann sem stofuna. „Þetta hefur verið stór og myndarlegur bær á sínum tíma, og hann getur staðið lengi hér eftir,“ sagði Hart- mann. „Hann stendur sjálfsagt alla mína búskapartíð,“ sagði Kristján. „Ekki býst ég nú við því. Þú átt nú langt líf fyrir höndum, kornungur maðurinn, og þar að auki hámennt- aður maður,“ sagði karlinn hreykinn. Seinast var baðstofan og hjónahúsið athugað. „Nú, það er þá svona! Þú liggur þá steinsofandi undir yfirsæng, Arndís Pálsdóttir! Heldur léleg, hafi það fyrri skeð,“ sagði þessi ástúðlegi eiginmaður við konu sína, þegar hann var setztur á rúm andspænis henni. „Ójá, ég er heldur léleg, það er satt,“ umlaði hún hálfsofandi. „Reyndar er ég nú búin að sofa góðan dúr undir þessari fínu og hlýju yfirsæng, sem blessuð stúlk- an lét ofan á mig, og er nú mikið hressari en þegar ég kom.“ „Heldurðu að þú hefðir ekki lyst á að borða eitthvað, mamma?“ spurði Kristján. „Mér finnst ég varla hafa kjark til að rísa upp undan sænginni. Vil heldur vera matarlaus,“ sagði hún. „Hvað átti það að þýða af þér að rífa þig úr fötun- um, þó þú legðir þig?“ sagði Hartmann. „Ég er þó svei mér búinn að næra mig vel á kjötsúpu og gulrófum.“ „Kjötsúpa og gulróíur er nú góður matur,“ sagði hún. „Það er áreiðanlega tilvinnandi að fara undan sæng- inni til að fá hann. Ég býst við, að þú sért heldur ekki troðfull. Hefur víst lítið smakkað síðan þú fórst heim- an að annað en vatn. Það er hægt að segja að vesöldin nái hámarkinu, þegar fólk nennir ekki að éta,“ sagði Hartmann. „Það er sjálfsagt hægt að koma inn með súpu handa þér, ef þú heldur að þú hafir lyst á henni,“ sagði Krist- ján stuttaralega. „Það væru sjálfsagt fleiri en hún ekki mjög hnarreistir, ef þeir hefðu ekki smakkað annað en vatn í marga daga.“ „Já, ég sé það, að þetta var vitleysa, að leggja upp í þetta ferðalag, en mig langaði til að sjá þig, heimilið þitt og stúlkuna þína,“ sagði gamla konan. „Og lízt þér svo ekki sæmilega á þetta allt saman?“ spurði Kristján brosandi. „Jú, þú hefur verið lánsmaður að ná í þetta allt sam- an. En þú verður að vera „konubetri“ en hann pabbi þinn, ef þessi blessuð rós þín á ekki að fölna og blikna hjá þér. Hún er sjálfsagt ekki vön við kulda og nepju.“ „Hvers lags rósamál er nú þetta?“ sagði maður henn- ar með gremju í málrómnum. „Hvað svo sem skyldir þú vita um hennar ævi, bráðókunnug manneskjan?“ „Hún fölnaði, bliknaði, fagra rósin mín, því frostið var napurt,“ tautaði Arndís í hálfum hljóðum. „Ég vona, að hún fölni ekki eða blikni strax hjá mér,“ sagði Kristján. Svo sneri hann máli sínu til föður síns: „Það er satt, sem mamma segir. Rósa er eftirlætisbarn, sem lítið þekkir annað en hlýju og sólskin.“ Hann ætlaði að segja meira, en faðir hans greip fram í fyrir honum: „Ég vildi óska þess, að þú ættir ekki fyrir höndum aðra eins stöðu og ég hef haft, að búa við sívælandi heilsuleysisbjálfa. Það hefur mér fundizt erfiður kross, enda er ég orðinn dauðuppgefinn undir honum fyrir löngu.“ „Ég veit ekki annað en Rósa hafi verið heilsugóð,“ sagði Kristjáh. „Þetta hafði ég líka ágæta heilsu í uppvextinum og allt þangað til ég fór að hrúga niður börnunum. Þá fór hún fljótlega,“ sagði gamla konan raunalega. „Svo eigin- lega finnst mér Hartmann geta kennt sjálfum sér ofur- lítið um, hvað hann hefur borið þungan kross, en það hefur honum víst aldrei dottið í hug, að ég ætti nokkuð erfitt. Allt átti það að vera ódugnaður og móðursýki. Heima er bezt 249

x

Heima er bezt

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.