Heima er bezt - 01.09.1958, Blaðsíða 14

Heima er bezt - 01.09.1958, Blaðsíða 14
HÆTTUHLUTUR Eftir Gubmund J. Eincirsson E=jG var níu ára gamall og sat á hestasteininum og hortðí á hann. Hann var að tinda hrífu og rak tunguna út úr vinstra munnvikinu og færði hana ^ með hátignarlegri ró yfir í það hægra, og sömu leið til baka, aftur og aftur. Það var vani hans, þegar hann var að vinna eitthvert vandaverk, svo sem að tinda hrífu, dengja ljá, hlaða vegg o. s. frv. Og hreyfingar tungubroddsins voru hægar og hraðar, allt eftir því, hvað honum var mikið niðri fyrir í hvert sinn, en nú voru þær með hægasta móti. „Hann er líklega í sólskinsskapi núna,“ hugsaði ég, „og nú ætla ég að spyrja hann.“ Það hafði verið mér mikið undrunarefni, hvað hann gat stundum teygt tunguna langt út úr sér. Stundum gjörði hann hana örmjóa og gat þá rennt henni alla leið upp í nasir sér. Þetta hafði ég reynt margoft, en aldrei tekizt að ná upp í nefið. Og nú var ég orðinn úrkula vonar um að mér myndi takast það án tilsagnar. Eins og þið vitið, verður sá maður aldrei skáld, sem ekki nær með tungunni upp í nefið, svo að þið skiljið iíklega, að það var ekki í algjöru meiningarleysi, sem ég hafði verið að þessum æfingum. Ónei, ekki svona al- deilis. Þegar ég sat í fjósinu að vetrinum og sópaði hey- inu upp í stallinn hjá kúnum (þið fyrirgefið, það var nú raunar enginn stallur), þegar ég sópaði heyinu þang- að, sem hausinn á þeim var, en þær voru svo fjári lægnar að þeyta því að hinum endanum á sér og stundum alla leið aftur á flór, þá sat ég þess á milli og sagði sjálfum mér sögur, sögur eftir sjálfan mig, samdar jafnótt og þær voru sagðar. Eða þá að ég barðist við að búa til ljóð, en þau fundust mér allt af argasta leirhnoð. Og hvers var líka að vænta, ég kom tungunni aldrei lengra en upp á miðja vörina. Ég komst aldrei upp á lag með að gjöra hana mjóa að framan. Hún var alltaf svo klaufalega breið og stutt. Ljóðin mín stóðu nú að vísu oftast í hljóðstöfum, en til að svo mætti verða, varð ég að nota ýmis orð, sem ekki eru til í íslenzkunni, og líklega ekki heldur í neinu öðru tungumáli. Ég verð að játa það, að þessi nýyrði gjörðu það að verkum, að ég gat ekki lofað öðrum að heyra kveðskapinn, og langaði mig þó ekki svo lítið til þess. Nei, það fengu engir að heyra minn kveðskap, nema kýrnar. Og þær höfðu nú líka helzt vit á því eða hitt þó heldur! Og nú sat ég á hestasteininum og horfði á hann. Ekki hvernig hann tindaði hrífuna, heldur hvernig hann færði tunguna til í munninum, ef ske kynni að ég kæmist að því, á hvern hátt væri mögulegt að ná með henni upp í nefið. „Frændi,“ sagði ég (þetta var nefnilega afabróðir rninn), „er ekki vandi að ná með tungunni upp í nefið á sér?“ Ég bjóst satt að segja ekki við neinu mjúku svari og stóð því á fætur, tilbúinn að leggja á flótta, ef með þyrfti. Og á fæturna var mér óhætt að treysta, ef í harð- bakka s)ægi. Hann leit á mig, allt annað en vingjarnlega, mér fannst sem hann vildi reka mig í gegn með augunum. „Situr þú hér, drengur minn, og dregur dár að mér?“ hreytti hann út úr sér. „Nei,“ sagði ég skömmustulegur, „en mig langar svo til að vita, hvernig farið er að því. Mig langar svo til að verða skáld, en ég næ aldrei með tungunni upp í nefið á mér.“ Nú hló karlinn, meira að segja skellihló, og það hafði ég aldrei séð hann gjöra fyrr. „Já, einmitt það, langar til að verða skáld. Heldur þú máske, að ég sé skáld, af því að ég get náð með tungunni upp í nefið?“ „Já,“ sagði ég í hjartans einfeldni minni. Og nú hló hann ennþá meira; ég hefði aldrei trúað, að hann gæti orðið svona glaður. „Ekki get ég kennt þér þá list, drengur minn,“ sagði hann, „þó svo ég gæti kennt þér að ná með tungunni upp í nefið á þér. Það er nú ekki svo mikill vandi, en kæmi þér að engu haldi við skáldskapinn, því síðan ég var barn hef ég getað það. En ég hef aldrei getað sett saman vísu, — sem lag er á,“ bætti hann svo við eftir nokkra þögn. „Og svo er það enginn sérstakur auðnu- vegur, drengur minn.“ Og nú fór hann að tinda hrífuna sína, en leit þó við og við á mig, þar sem ég sat og beið, og þá hló hann einatt eða hneggjaði, því nú var það ekki líkt neinum hlátri. „Veiztu, hvernig fer fyrir skáldunum?“ sagði hann svo eftir langa þögn. „Nei,“ sagði ég. „Hvernig fer fyrir þeim?“ „Hann Breiðfjörð, sem orti Númarímurnar, hann dó úr megurð.“ „Megurð,“*sagði ég. „Hvað er nú það?“ Hann hló. — „Dæmalaus kjáni getur þú verið, barn. Veiztu ekki, hvað megurð er? Það er að vera horaður.“ „Jæja, dó hann úr hor?“ sagði ég. „Já, og Bólu-Hjálmar dó úr sams konar vesaldómi. Sumarliði fór í tukthúsið. Nei, drengur minn, það er enginn auðnuvegur að vera skáld.“ „En fór nú svona fyrir þeim af því að þeir kunnu að yrkja?“ spurði ég. 304 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.