Heima er bezt - 01.09.1958, Page 16
Ég fann, að það var að sumu levti rétt, sem hann
sagði. Ég hafði ráðizt að honum óvörum. Og vildi nú
bæta fyrir brot mitt. „Ekki skulum við eyða tímanum
í rifrildi,“ segi ég þá.
Hann tók þessu þegjandi sáttaboði mínu vel og sagði:
„Taktu nú vel eftir. Klukkan upp á mínútuna tíu í kvöld
kemur þú hérna að Arabúðinni. Þá verðum við þar. Þú
verður að hafa einhver ráð með að laumast að heiman
óséður. Ætlar þú að vera með? Réttu mér þá hægri hönd
þína upp á það.“
Ég rétti honum hendina.
„Þú veizt hvað það kostar, ef þú svíkur. Þá ferð þú
beina leið til þess gamla.“ Að svo mæltu kvaddi hann
mig í skyndi og hljóp heim á leið.
Áhugi minn fyrir byggingum og skáldskap var alveg
fokinn út í veður og vind. Ég hélt af stað heim túnið
og hugsaði með tilhlökkun og þó um leið nagandi kvíða
til hinnar væntanlegu glæfraferðar. Mér var það Ijóst,
að ég hafði tekizt á hendur verk, sem óvíst var að ég
gæti leyst af hendi. Ég hafði aldrei sigið í bjarg en vissi,
að það var stórhættulegt. Og nú iðraðist ég eftir að hafa
lofað þessu. Nú skaut þeirri hugsun upp hjá mér, að bezt
væri að fara hvergi. Þeir þyrftu svo sem ekki að vita
orsökina til þess, að ég kæmi ekki. Ég gat sagt þeim, að
mamma hefði séð til mín, þegar ég ætlaði að fara, og
hún hefði rekið mig í bælið sárnauðugan. Ég gæti líka
sagt, að mér hefði orðið snögglega illt. Já, það var nátt-
úrlega langbezt að fara hvergi. Þá væri þó ekki hægt að
bregða mér um hugleysi eftir á. En nú mundi ég eftir
því, að ég hafði gefið Boga hægri hönd mína upp á það,
að ég skyldi fara. Það fór eins og kaldur straumur gegn-
um mig. Já, ég hafði nú gjört það, lofað með handtaki
að fara en ekki að síga. Ég hafði lofað að fara, ef ég gœti,
það var einmitt það, ef ég gæti. Nei, ég skyldi bara láta
mömmu verða vara við, þegar ég færi. Hún myndi nátt-
úrlega spyrja: „Hvert ert þú að fara, Mundi litli?“ Var
þá ekki sjálfsagt að segja: „Ég ætla að fara að síga í
bjarg“? Náttúrlega. Það væri ekki fallegt að skrökva að
henni móður sinni. Það fannst mér þá stundina. Nei,
það skyldi ekki sjást svartur blettur á tungunni á mér í
þetta sinn. Mér fannst, að ég hefði fundið þarna svo
mikið þjóðráð, að ég settist á þúfu á túninu og fór að
horfa á sólarlagið, sem var mjög fagurt. Og áður en ég
vissi af, var ég farinn að yrkja: „Nú kyssir sólin hvítan
fjallatind, og krakkar leika að skeljum niðri í fjöru.“
Allt erfiðara var með botninn, og nú varð ég að grípa
til nýyrðanna. Ég segi engum, hvernig botninn var.
Nú fór ég aftur að hugsa um hvannaferðina. Þjóð-
ráðið, sem ég taldi mig vera búinn að finna, fór að fölna
og verða einskisvirði. Vitanlega átti ég að gera allt, sem
ég gæti, til að komast óséður burt frá bænum, allt ann-
að væru bein svik, vitanlega færi ég, það var svo sem
engan veginn víst, að þetta væri svo hættulegt. Pabbi
hafði oft sigið. Það var svo sem lítið að marka, þó að
verið væri að henda gaman að gömlum manni á næsta
bæ, sem einu sinni seig í bjarg, svimaði á leiðinni, og var
dreginn upp aftur með fæturna á undan. En það, sem
þyngst var á metunum, var þó hugsunin um, að félagar
mínir myndu fara án mín. Ég taldi mig svo sem þekkja
þá það vel, að varla myndu þeir miðla mér af feng sín-
um. Nei, það er bezt að ég fari, já, fari og sigi. Ef ég
dytti úr bjarginu, var það þeim að kenna. Ég sá nú sjálf-
an mig liggja fyrir neðan klettana, sundurtættan og
steindauðan, sem ekki var að undra eftir svo hátt fall
niður í urð. Ég sá félaga mína hlaupandi fram og aftur
ráðþrota, ég sá foreldra mína og systkini grátandi yfir
líki mínu. Ég sá réttarhöldin yfir félögum mínum út af
slysinu. Sá, hvemig þeir voru kaghýddir, blóðugir um
afturendann eftir faðmslanga hrísvendi. Og ég heyrði
veinin í þeim, þegar sýslumaður, með gyllta húfu og
hökutopp, var að reiða þá í pokum suður í tukthús,
aumingja vesalings strákagreyin. Þeir fengu ekki einu
sinni kökubita, þar sem áð var á leiðinni og sýslumaður-
inn fór heim á bæi og drakk kaffi og brennivín úr gyllt-
um bollapörum. Það var ekki langt frá því, að mér fynd-
ist þeir of hart leiknir, því að þetta voru þó börn. Þó tók
út yfir að lemja greyin í hvert skipti og þeir voru látnir
á ldakk aftur, svangir og kaldir. Ég hrópaði ósjálfrátt:
„Hættu þessu, helvítið þitt!“ og meinti þetta auðvitað
til sýslumannsins. — Og nú sá ég guð almáttugan, sitj-
andi á gylltum stól. Guð var fallegur, gamall maður,
með gullkórónu á höfði og hvítt skegg, miklu stærra
en skeggið á Jakobi í Gerði. Það var með gullhárum
innan um þau hvítu. — Og þarna sá ég sjálfan mig í
hvítum klæðum og vængjum, miklu stærri vængjum en
á máfi. Og nú leit guð á mig og sagði: „Því óhlýðnað-
ist þú móður þinni og tókst þátt í þessu glæfraspili? “
Ég stundi upp: „Hún vissi ekkert um það.“
Lengra var samtalinu ekki komið, því nú hrökk ég
upp úr hugleiðingum mínum við það, að kallað var á
mig heiman frá bænum: „Því kemur þú ekki að hátta,
barn.“
Það var hún Helga gamla, vinnukonan okkar, sem
kallaði. Sumir kölluðu hana Helgu stuttu, því hún var
svo ákaflega lágvaxin. Hún kallaði alla „barn“. „Ójá,
barn,“ sagði hún í annarri hverri setningu.
Ég hljóp heim: „Hvar er mamma mín?“ spurði ég.
„Hún fór inn á bæi, barn,“ svaraði Helga gamla.
„Hún kemur ekki fyrr en seint, og farðu nú að hátta,
barn.“
Ég leit á gömlu stundaklukkuna, sem hékk yfir rúmi
foreldra minna í baðstofunni. Hún var að verða tíu.
Ég fór út aftur og leit inn fyrir ána, sem rann niður
með túninu innanvert. Þar var eitthvað kvikt á ferð.
— Náttúrlega þeir!
Þá var nú að hrökkva eða stökkva.
„Heyrðu, Helga mín,“ sagði ég. „Ég þarf að skreppa
út á Ytranes til að gæta að hestunum. — Viltu segja
mömmu, þegar hún kemur heim, að hún skuli ekki
undrast um mig, þó ég komi seint.“
„Ójá, barn, því skal ég skila, og hérna er kökubiti
fyrir þig, og farðu nú ekki að sundleggja hestana í
tjörnunum út frá eða að fikta í klettunum. Þú ert svo
uppátektarsamur, en ekki veldur sá, er varir.“
„Heyrðu, Helga mín,“ sagði ég. „Er nokkuð hættu-
legt að síga í bjarg?“
306 Heima er bezt