Heima er bezt


Heima er bezt - 01.01.1959, Qupperneq 36

Heima er bezt - 01.01.1959, Qupperneq 36
þess að svara. Kannske hafði hann haldið, að hún væri að tala við Bjössa. Engilráð endurtók því spuminguna. „Ég hef alltaf verið í Gafli hjá ömmu gömlu,“ svar- aði drengurinn og brosti saklausu barnsbrosi. „Hún var ósköp góð við mig.“ „Ojá, það var gott, en þú hefur ekki fengið nóg að borða. Þú ert svo lítill og horaður,“ sagði gamla konan. „Jú jú, það var nóg til að borða þar, en ég var bara svo veikur fyrsta og annað árið sem ég lifði, að ég gat ekki borðað. Amma sagðist oft hafa hugsað að ég yrði dáinn næsta morgun.“ Hann hló. „En ég lifði alltaf næsta dag, en af þessu varð ég svona lítill og horaður.“ „Það hlýtur að búa engilssál í þessu barni,“ sagði nú Engilráð. „Þvílíkt bros hafa fá börn, sem alin em upp hjá vandalausum. En hvernig stóð á því, að þú fórst frá þinni góðu ömmu?“ „Það var vegna þess, að Gísli gamli, maðurinn henn- ar, dó. Þá var enginn til að slá heyið handa kúnni og kindunum. Þá fór hún að Steini til Sollu dóttur sinnar. Ég fór með henni og var þar í tvö ár,“ svaraði drengur- inn. „Leið þér eins vel þar?“ spurði gamla konan forvitna. „Nei, mér leið þar ekki eins vel. Solla var góð við mig, en Jón, stóri maðurinn hennar, hafði það til að vera grimmur við mig. En Solla tók í hann, ef hún komst að því, og svo var nú amma alltaf jafn góð við mig. Ég ætla að gefa henni eitthvað, ef hún lifir, þegar ég verð orðinn stór og farinn að vinna fyrir kaupi.“ „En hvað kom til þess, að þú varst þar ekki lengur? Þú ert góður drengur og skynsamur, það heyri ég, svo að amma þín hefur ekki ráðið því að þú fórst frá henni.“ „Jónatan vildi fá fulla meðgjöf með mér af sveitinni þegar amma átti enga kú lengur, en Kristján á Hofi vildi taka mig fyrir hálft meðlag; þess vegna fór ég til hans. Hann ætlar að lána mér hest í sumar til að fara fram að Steini til að heimsækja ömmu.“ Engilráð andvarpaði. „Ojá, svona gengur það í þessu lífi. Líklega hefur hún tekið nærri sér að skilja við þig.“ Inni á stafnrúminu sat Stína gamla spákona heldur en ekki merkileg á svip. Það var nú orðið langt síðan hún hafði sézt þar í Hofstorfunni, svo að henni var mikið í mun að sýna, að hún héldi sinni meðfæddu gáfu. Hún stakk nú upp á því að drengjunum væri gefið kaffi, svo að hún gæti litið í bollana þeirra. „Það er æskan, sem á framtíðina fyrir sér,“ bætti hún við og drap tittlinga framan í Engilráð. „Annað með okkur. Það er ekki mikið að sjá í bollunum okkar.“ Þegar bollarnir voru orðnir þurrir, fór hún að velta þeim fyrir sér. Hún þóttist sjá, að Bjössi yrði sjómaður og ekki væri ómögulegt, að hinn drengurinn yrði það líka svona með tíð og tíma, hún sæi það ekki vel. Það ætti líka langt í land. En það sá hún, að þeir yrðu báðir duglegir og miklir lánsmenn! Hún sá þá þeysandi á fal- legum hestum, sem þeir ættu sjálfir. „Eru myndir af þeim þarna í bollunum?“ spurði nú Mundi. „Já, en þær eru svo litlar að þú sérð þær ekki,“ svar- aðispákonan. Smalarnir kvöddu brosleitir, því að nóg var annað að gera en að hlusta á kerlinguna rausa yfir bollunum, þó að það væri óneitanlega gaman að heyra, að þeir ættu það í vændum að eignast hest. „Bara að þeir væru komnir til okkar hestarnir, sem hún sá í bollunum, þá gætum við sprett úr spori hérna fram melana,“ sagði Mundi. „O, ætli hún hafi séð nokkurn hest,“ sagði Bjössi. „Hún er bara svo montin yfir þessu, að geta talið fólki trú um að hún sjái eitthvað og býr þetta allt til.“ „Heldurðu það virkilega að við eignumst aldrei hest,“ sagði Mundi og það dofnaði talsvert yfir honum. „Auðvitað eignumst við hest eins og aðrir menn. Það eru engir menn svo fátækir að þeir eigi ekki hest. Það verður bara nokkuð langt þangað til,“ sagði Bjössi. „Það lítur út fyrir að hann eigi erindi hingað í ná- grennið, þessi strákgemsi,“ sagði Stína gamla, þegar drengirnir voru farnir. „Það kviknar ófriðarbál út af honum milli bæjanna, þykist ég sjá.“ „Hvernig ætti það að geta skeð?“ sagði Engilráð. „Þetta er sakleysislegt blessað barn. Ég vona, að þú hafir ekki séð það rétt, Stína mín. Það hefur verið gott nágrenni nú um langan tíma. Náttúrlega lítið um heim- sóknir, nema þegar konurnar finna hvor aðra og smal- arnir líta inn einstaka sinnum.“ „Ekki þarf nú annað en að hann sé einn af þessum krökkum, sem ganga með söguburð á milli bæja. Hann er svo sem ekki af góðu bergi brotinn, greyið litla. Móðirin þessi dauðans gála, sem bað kerlingargarminn í Gafli að taka barnið af sér á meðan hún skryppi út í kaupstað. Svo bara vippaði hún sér út í gufuskip, sem lá á höfninni og hefur ekki sézt síðan hér í sveit. Kerl- ingin varð að hafa strákinn meðgjafarlaust, því að hún þorði ekki að segja sveitinni að hirða hann. Hélt að hún missti hann þá. Til þess mátti hún ekki hugsa. Hann átti alltaf að vera veikur. Náttúrlega hefur það verið eintóm óþekkt.“ „Hann sagðist hafa verið veikur, þegar hann var á fyrsta og- öðru árinu,“ sagði Engilráð. „Blessuð gamla konan hlýtur að vera gæðamanneskja að taka að sér þennan munaðarleysingja.“ Ekki hafði Stína gamla heyrt neinn. tala um það, heldur að henni hefði farizt heldur heimskulega, að heimta ekki meðgjöf með stráknum. Sjálf var hún blá- fátæk. Engilráð gat ekki gleymt þessum spádómsorðum Stínu gömlu. Nóg var trúgirnin og hjátrúarkreddurnar. Hún gat þó varla trúað því, að þetta barn kæmi af stað illindum milli bæjanna. Nágrennið hafði verið sæmilega gott síðan úlfúðaraldan út af ullarþvottinum hvarf. Engilráð varð hálf hverft við, þegar hún sá stórbónd- ann á Hofi skálma heim túnið einn daginn. Þangað hafði hann sjaldan komið. 32 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.