Heima er bezt - 01.11.1960, Blaðsíða 31

Heima er bezt - 01.11.1960, Blaðsíða 31
Kannske hann geti fengið einhverja til að ráska fyrir sig og þess vegna vilji hann ýta mér burtu.“ „.Honum verður líklega engin skotaskuld úr því að fá kvenmann, hvað sem búpeninginn snertir. Það hef- ur víst margur búið við minna, þó talsvert hafi gengið á hann sem eðlilegt er, því konan þarf eitthvað til að lifa af með bamið,“ sagði Arndís. „Hvað hefur hún svo sem að gera með kýr og kind- ur á Reykjavíkurgötum? Getur hún ekki farið í sveit og unnið fyrir sér eins og hver önnur almennileg mann- eskja,“ sagði Ásdís. „Hún ætlar sjálfsagt að leigja eða selja þessum nýja bónda, hver sem hann verður. Fyrir það fær hún pen- inga, eins og þú hlýtur að skilja, þó mér finnist þú ótrúlega skilningslítil. Þú hlýtur þó að geta séð að hún lifir ekki á engu með barnið í Reykjavík, þar sem allt þarf að kaupa.“ „En getur hún ekki verið hjá móður sinni stórríkri manneskjunni? Hvað skyldi hana muna um það að fæða hana og strákinn. Sjálf getur Rósa líklega unnið eitthvað eins og ég og aðrir kvenmenn, en hún hefur bara alltaf verið liðónýt manneskja.“ „Hún er nú ekki alin upp við það að vinna erfiðis- vinnu aumingja konan. Hitt getur vel verið að hún vinni eitthvað þó ég viti það ekki.“ „Það er engu líkara en þér sé vel við hana eins og hún er búin að fara með son þinn,“ sagði Ásdís sár- gröm. „Já, mér er mjög vel við hana. Hún var svo ljúf og lítillát þennan tíma, sem ég var hjá henni. Ég hefði heimsótt hana oftar, ef ég hefði ekki verið svona sjó- veik. Ég veit að Kristján saknar hennar, þó hann tali ekki um það og sé vitlaus í skapinu yfir þessu öllu, að þurfa að flytja af þessari góðu jörð og fækka skepnun- um, en þetta rjátlast nú kannske af honum, en samt finnst mér réttast fyrir þig að fara héðan ef þú álítur að móðir Rósu muni ekkert um að gefa hen’ni og drengnum að borða, munar foreldra þína ekkert um að hafa þig og þinn son. Þú vinnur mikið, en vei/.t líka af því,“ sagði Arndís. „En þú skal láta það ferðalag bíða þangað til á sunnudaginn, þá getur Hartmann farið með þér.“ Þá tók Ásdís reiðfötin á handlegg sér og rigsaði fram. Hún fór í hversdagsfötin, fann spaða frammi í skála og skálmaði suður að húsunum og byrjaði að kljúfa. Valborg rak kýrnar suður með sjónum. Þar vissi hún að voru góðir kúahagar. Hún hinkraði við hjá Ásdísi þegar hún kom aftur og spurði hana hvort hún ætlaði ekki að hjálpa gömlu konunni við að koma morgunmatnum inn, varla gæti hún það með krakkan- um. „Mér sýnist vera full þörf á að taka eitthvað til höndunum hér, hún kemur sjálfsagt matnum inn á borðið,“ sagði Ásdís stuttlega. „Þú heldur það,“ sagði Valborg. Hún fór heim og nokkru seinna var svo kallað í matinn. Kristján skálmaði á undan en Hartmann talaði í hálfum hljóðum til Ásdísar. „Það var eins skynsam- legt af þér að fara ekki að ríða út í dag. Það er nóg annað að gera hérna, enda sé ég ekki að þú hefðir get- að komizt hjálparlaust til föðurhúsanna, þó þú sért dugleg. Það er ekki þægilegur flutningur yfirsæng og krakki.“ „Ég sé nú bara ekki hvernig þetta heimili kemst af ef ég færi,“ svaraði hún stuttlega. Morgunmaturinn var borðaður þegjandi. Ásdís fór suður að húsunum strax og hún var búin að renna nið- ur seinasta bitanum og fór að kljúfa. Feðgarnir hvíldu sig með lengsta móti og Valborg kom bráðlega á eftir þeim með spaðann sinn. „Ég ætla að kljúfa hérna svolítið, því ég býst við að fá að njóta góðs af eldinum einhvern tíma, ef ég verð hérna þetta ár,“ sagði hún og aðgætti það sem Ásdís var búin að kljúfa. „Mér finnst þú kljúfa þetta nokkuð þykkt. Ég held þetta þorni aldrei hjá þér.“ „Það er ekki hægt að klúfa þetta þynnra. Þetta er eins og hvert annað hrossatað. Þú hefðir átt að sjá tað- ið á Hofi,“ sagði Ásdís. „Það hefur náttúrlega verið fóðrað á eintómri töðu þar. Hvað átti að gera með alla þá töðu annað. Gæti hugsað að honum brygði við og rollunum hans líka, þegar hann þarf að fóðra á útheyi með fjörubeit. Það hefði verið heppilegra fyrir hann að sitja kyrr í búsæld- ini þar, nema konan hafi ekki kært sig um hann sem landseta lengur,“ sagði Valborg fálega. „Hún reynir víst að gera honum flest til ills, sem hún getur,“ sagði Ásdís. „Það er ekki ólíklegt,“ sagði Valborg. Kristján kom út og leit yfir verkið hjá konunum. „Þetta er nú bara ekkert verklag hjá þér, Ásdís. Þú skiptir hnausunum í tvennt. Hvernig heldurðu að þetta geti þornað,“ sagði hann. „Þú hlýtur þó að sjá að Val- borg gerir þetta ólíkt betur.“ „Þetta er bara ekkert tað og ómögulegt að gera það betur,“ sagði hún, en fór þó að reyna að gera það betur. Svona leið fyrsti dagurinn á nýja heimilinu í þögn og fýlu. Um kvöldið tók Ásdís mjólkurfötuna og sagð- ist ætla að mjólka með Valborgu. Þetta væri sjálfsagt að lagast allt aftur. Enginn minntist á að hún hefði verið að hugsa um að breyta til. Það voru víst allir samhuga um að slíkt kæmi ekki til mála. Valborg sagð- ist geta vísað húsbóndanum á gott mótak þegar honum dytti í hug að fara að „stinga ofan af“. „Ég sé það að þú verður ómetanleg manneskja fyrir búið,“ sagði hann glaðlega. „Skyldi þessi kerling verða önnur eins eftirlætisper- sóna og Geirlaug gamla,“ hugsaði Ásdís allt annað en ánægð. — Svo bætti Kristján við: „Ég þarf að fara út að Hofi eitthvert kvöldið og líta eftir ánum sem óbornar voru.“ Ásdís sagðist áreiðanlega geta það alveg eins og hann. Kristján varð því feginn. Hof vildi hann helzt ekki sjá oftar en hann þyrfti. Framhald. Heima er bezt 439

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.