Heima er bezt - 01.11.1960, Síða 34
HEIMA_______________
BEZT BÓKAH I LLAN
Matthías Jochumsson: Sögukaflar af sjálfum mér.
Reykjavík 1959. ísafoldarprentsmiðja h.f.
A síðastliðnu ári sendi Isafold frá sér nýja útgáfu af Söguköfl-
um síra Matthíasar, en Árni Kristjánsson sá um útgáfuna. Er hún
framhald af þeirri útgáfu af ritum síra Matthíasar, sem hófst fyrir
nokkru með Ljóðmælum hans. Sögukaflarnir hafa verið ófáanlegir
um alllangt skeið, og má því ætla að þeir hafi verið lítt eða ekki
kunnir hinu yngra fólki. Er því fengur að því að fá útgáfuna á ný,
því að fáum mönnum er ánægjulegra að kynnast en síra Matthíasi,
hvort heldur er í ljóðutn, bréfum eða söguköflum úr ævi hans.
Hreinskilnin, mannúðin og andríkið er alltaf í för með honum,
hvernig og til hverra sem hann talar. Og þótt hann nái sjaldan
sömu tökum í óbundnu máli og í ljóðunum, þá verður því ekki
neitað, að víða fer hann á kostum í frásögn sinni og skyggnist txm
heima alla. Á margt er drepið í Söguköflum Matthíasar og margra
manna er þar getið, en þótt hann sé skilningsgóður á viðhorf ann-
arra manna og mildur í dómum, kann hann þó vel að segja kost
og löst á því, sem fram við hann kemur. Og þótt hann sé alvöru-
maður, þá sér hann einnig hið skoplega í hlutunum og neytir
þeirrar gamansemi sinnar í frásögninni. Æviþættir hans eru merk
heimild um margt, er gerðist á hans löngu ævi. Þeir auka skilning
vorn á skáldinu og verkum hans. En umfram allt er bókin mann-
legri flestum slíkum ritum. Lítill vafi er á, að síra Matthías hefði
átt efni í ævisögu í mörgum bindum og stórum, ef hann hefði
haft þann háttinn á, þegar hann tók að skrifa minningar sínar.
En sá er grunur minn, að þetta eina ævisögubindi Matthíasar
verði langlífara flestum þeim sjálfsævisögum, sem enn hafa verið
skrifaðar á íslenzku, þótt ekki láti það mikið yfir sér.
í fyrri útgáfu Sögukaflanna var sleppt nokkrum greinum úr
handriti höfundar. Þær hafa nú verið teknar með, og er það til
bóta. Hins vegar er sleppt mikilli heillaskeytasyrpu, sem fylgdi
fyrri útgáfunni, og er ekki mikill söknuður að, þótt víða væri þar
vel að orði komizt. En vel hefði mátt í viðauka prenta ýmsa fleiri
ferðaþxetti hans, sem birtust í blöðum, t. d. í Þjóðólfi og Akureyrar-
blöðunum, sömuleiðis greinarnar Mannlýsingar í Þjóðólfi. Þær
áttu ekki síður heima þarna en hinar greinarnar, sem í Viðaukan-
«m eru, og mörgum hefðu þær verið kærkominn bókarauki,
Karl Strand: Hugur einn það veit. Reykjavík 1960.
Almenna bókafélagið.
Bók þessi er nýjung í íslenzkum bókaheimi. Hún fjallar um
eitt af hinum miklu vandamálum samtíðarinnar, huglæga kvilla
og tilfinningaleg vandamál. En um slíka hluti hefur fátt verið
skrifað á íslenzku. Höfundurinn, Karl Stiand læknir, hefur nú um
langan aldur starfað að lækningu slíkra sjúkdóma .við einn stærsta
spítala Lundúnaborgar í geðsjúkdómafræðum og hefur því óvenju-
mikla reynslu og þekkingu í þessum efnum. Það er vitanlega ekki
á leikmanns færi að dæma fræðilega um þessa bók. En hitt er
hverjum ljóst, sem hana les, að hún er skrifuð af þekkingu og
áhuga um að verða að gagni og þeirri ábyrgðartilfinningu, að
láta bókina ekki hræða við sjúkdóminn, heldur græða sárin, ef svo
mætti segja. Að baki fróðleiksins finnur lesandinn þá samúð og
skilning, sem nauðsynlegt er til þess að ná hjarta bæði lesenda og
sjúklings. Hér er hvorki tim að ræða handbók né lækningabók í
orðsins eiginlegu merkingu, heldur almenna fræðslu um ýmsa
þætti sálarlífsins, og hvernig hugsýki getur fram komið. Er eink-
um gerð vel grein fyrir þætti umhverfisins í því efni, sérstaklega
á bernsku- og uppvaxtarárum. Ætti bókin að geta hjálpað mönn-
um til að skilja og skynja sjúkleg fyrirbæri í tíma og leita þá
lteknis. Því að umfram allt er bókin mikilvægt tillag til þess að
eyða þeim misskilningi, að hugsýki í einhverri mynd sé eitthvað
fremur niðurlægjandi fyrir sjúklinginn en hver annar kvilli. Erfitt
hlýtur að vera að rita um þessi efni á íslenzku, sem enn er lítt
þjálfuð til þess, en ekki verður annað séð en höfundi hafi tekizt
prýðilega að gera efnið ljóst hverjum, sem les bókina með athygli.
1 stuttu máli sagt er þetta þörf og góð bók, sem vissulega getur
orðið mörgum að liði. Ekki sízt ættu foreldrar og aðrir, sem fást
við uppeldi, að kynna sér hana rækilega.
Knut Hamsun: Gróður jarðar. Helgi Hjörvar íslen/.kaði.
Reykjavík 1960. Almenna bókafélagið.
Það er ekki vonum fyrr, að Nóbelsverðlaunasaga Hamsuns,
Gróður jarðar, sé þýdd á íslenzku. Að vísu munu ýmsir þeirra,
sem farnir eru að reskjast, minnast hennar frá þeim tíma, er hún
kom fyrst út á frummálinu, en um langt skeið hefur verið furðu-
hljótt um hana, og er það miður farið. Gróður jarðar er ein þeirra
skáldsagna, sem alltaf er jafn ný og fersk. Hún á jafnt erindi til
vor nú og hún átti fyrir 40 árum, þegar hún fyrst sá dagsins ljós,
og svo mun enn verða um langan aldur, meðan maðurinn á sam-
skipti við móður náttúru. Sagan er í senn hetjusaga mannsins, sem
gerir sér jörðina undirgefna með því að leggja þar fram einhug
og lífskrafta, en jafnframt er hún dýrðaróður til jarðræktarinnar
og moldarinnar, sem fæðir oss og kheðir, ef vér berum oss eftir
lxjörginni. En hún gerir meira. Hún hefur manninn á hærra
þroskastig jafnframt því, sem hann vinnur sigra sína í lífsbarátt-
unni. En sagan skyggnist líka djúpt inn í mannlegar sálir og
kynnir oss margar manngerðir, en ef til vill þó bezt muninn á
hinum trausta bónda og jarðyrkjumanni annars vegar, en hinni
rótlausu kynslóð hins vegar, sem einkum spratt upp úr jarðvegi
fyrri heimsstyijaldarinnar, en hafði þó áður komið fram og síðar
orðið enn fjölmennari. Þá má ekki gleyma frásagnarlist höfundar,
sem aldrei bregzt og heldur athygli lesandans jafnfastri síðast sem
fyrst og veitir honum óblandna nautn af lestrinum. Þýðing Helga
Hjörvar er með ágætum, eins og ætíð, þegar hann snertir á penna
til þeirra hluta.
St. Std.
442 Heima er bezt