Heima er bezt - 01.06.1962, Qupperneq 16
vatnssýslu, og þá boðið mér heim, ef ég ætti leið um
Eyjafjörð.
Vel var okkur tekið á Jódísarstöðum og áttum við
þar ágæta nótt. Kristján bóndi hafði um langt skeið
verið póstur milli Akureyrar og Grímsstaða á Fjöllum.
Var auðheyrt á öllu, að hann var vanur ferðalögum.
Gaf hann mér ýmsar góðar bendingar í sambandi við
ferðalagið, og morguninn eftir reyndi hann, eins og
hann gat, að flýta fyrir því, að við kæmumst sem fyrst
af stað.
„Það sem ferðamanninum ber fyrst að hugsa um, er
að taka daginn snemma,“ sagði hann.
Öðruvísi var nú um að htast af Vaðlaheiði en þegar
ég fór vestur, því að nú var ísinn að mestu horfinn af
firðinum. Skömmu áður en við fórum að vestan, var
hann farinn að lóna frá landinu. Hægviðri hafði þá
gengið um alllangan tíma, eins og oft á sér stað, þegar
ís er landfastur, en nú var komin sunnanátt.
Stundarkorn var stanzað í Vaglaskógi, því að svo
stóran skóg höfðu foreldrar mínir aldrei séð. Eftir það
héldum við áfram ferð okkar og fórum þann dag að
Einarsstöðum í Reykjadal.
Eg vil skjóta því hér inn í, til skýringar á því, sem
á eftir fer, að skömmu áður en ég lagði upp í þessa
ferð, kom til mín Pétur Guðmundsson, bóndi á Hauks-
stöðum á Jökuldal. Hafði hann heyrt einhvern ávæn-
ing af því að ég ætlaði norður í land og var erindið,
að biðja mig að færa sér hest, sem hann var þá nýbú-
inn að kaupa á Öndólfsstöðum í Reykjadal. Kvaðst
hann skyldi láta mig vita, áður en ég færi, ef einhver
breyting kynni að verða á þessu. Bundum við þetta
fastmælum.
Þegar ég svo var tilbúinn að leggja upp í ferðina og
engin orð höfðu komið frá Pétri, leit ég svo á, að allt
stæði við það sem um hafði verið talað.
Það var því mitt fyrsta verk, er ég kom að Einars-
stöðum, að koma orðum að Öndólfsstöðum, þar sem
ég lét þess getið, að ég væri staddur á Einarsstöðum, á
austurleið, og skyldi taka hestinn, ef hann á annað borð
ætti að fara. Leið ekki á löngu, unz hesturinn kom.
Þetta var fallegur hestur, leirljós að lit og hinn mesti
fjörgapi. Engin orð fylgdu hestinum og vissi ég því
ekki annað, en allt væri í lagi.
Næsta dag var dagleiðin ákveðin að Grímsstöðum.
Fyrst komum við að Þverá og drukkum kaffi hjá
Snorra bónda. Síðan var haldið að Reykjahlíð við Mý-
vatn, en þar var fastur viðkomustaður allra, sem ætl-
uðu austur fyrir Jökulsá. Þurfti þá að síma í Gríms-
staði og panta ferjuna. Var þá venja, að tiltaka vissan
tíma svo að ferjumaður þyrfti sem minnst að bíða. Ef
ég man rétt, ætlaði ég okkur 4*/2 tíma yfir öræfin.
Þegar kom austur að Jökulsá, var Páll þar fyrir og
var aðeins búinn að bíða skamma stund. Nokkur töf
varð við ána, því að hestarnir vildu ekki ganga út í.
Loks tók Rauður gamli forystuna, drap flipanum of-
an í vatnið, frísaði nokkrum sinnum og lagði svo til
sunds. Komu þá hinir á eftir.
Á Grímsstöðum skilaði ég hestunum, sem Einar
Blandon hafði beðið mig fyrir og hafði nú aðeins þá
hesta, sem ég upphaflega lagði af stað með, og svo auð-
vitað þann leirljósa, sem bætzt hafði við í Reykja-
dalnum.
Áður en ég fór, daginn eftir, var ég kallaður í síma.
Arar mér sagt, að maður á Breiðumýri vildi tala við
mig.
Þegar þessi maður hafði sagt til nafns síns og hvað-
an hann væri, varð mér að orði:
„Nú, er þetta maðurinn, sem var eigandi hestsins,
sem ésr tók á Einarsstöðum? “
„Já, þetta er maðurinn, sem átti hestinn, sem tekinn
var hér í gærkvöldi,“ sagði maðurinn með þjósti. „I
hvers umboði tókstu þennan hest?“ bætti hann svo við.
Mér varð hálf hverft við, en sagði þó, að Pétur á
Hauksstöðum hefði beðið mig að færa sér hann, ef ég
færi norður, „eða er nokkuð athugavert við það?“
spurði ég.
„Já, það er það athugavert,11 svaraði maðurinn, „að
hesturinn var tekinn í algeru leyfisleysi. Ég var ekki
heima, annars hefði ég alls ekki sleppt honum.“
„Á Pétur þá ekki hestinn?“ spurði ég.
„Jú, en við höfðum komið okkur saman um að
senda hann ekki fyrr en hann hefði fitnað meira.“
„Ég gat nú lítið vitað um það,“ sagði ég, „og svo er
það heldur ekki rétt með farið, að ég hafi tekið hest-
inn, eins og þér þóknast að orða það, ég gerði bara
orð um að ég væri þarna á ferð, og svo þegar hestur-
inn kom, hélt ég að allt væri í lagi.“
„Jæja, úr því sem komið er, er líklega bezt að hest-
urinn haldi áfram austur,“ sagði þá maðurinn og var
nú heldur hægari, „en ég fyrirbýð þér að koma hon-
um á bak.“
„Mér er alveg sama hvort er,“ svaraði ég og var nú
heldur farið að síga í mig, „en ef þú heldur að mér sé
einhver þægð í að fara með þennan hest, þá er það
misskilningur. Ég hef nógu marga hesta þessa dagleið
sem eftir er.“
Vitanlega var þetta satt, það sem það náði. Hitt datt
mér ekki í hug, að hafa reiðhest með í ferðinni, án
þess að koma honum á bak, ef mér byði svo við að
horfa, enda lofaði ég engu um það.
Frekar varð fátt um kveðjur. Og satt að segja gramd-
ist mér framkoma mannsins, sem mér fannst bæði bera
vott um yfirlæti og ósanngirni.
Hægðarleikur hefði verið að fara á einum degi það,
sem eftir var leiðarinnar, en þar sem foreldrar mínir
voru farnir að þreytast á því að halda svona áfram,
dag eftir dag, varð úr, að við fórum ekki lengra en í
Möðrudal. Ég hafði heldur ekki gert ráð fyrir að
koma heim fyrr en næsta dag og lá því ekkert á.
Daginn eftir fórum við svo austur í Arnórsstaði og
var þá liðinn 21 dagur frá því að ég lagði af stað í
ferðalagið. Allt hafði gengið vel og engin óhöpp kom-
ið fyrir, enda hafði mér tekizt að halda þeirri áætlun,
sem upphaflega var sett.
200 Heima er bezt