Heima er bezt


Heima er bezt - 01.12.1963, Qupperneq 12

Heima er bezt - 01.12.1963, Qupperneq 12
t. d. flestir þeir, sem um dalinn fóru, og þeir voru margir, því alfaraleiðin lá um hann eins og nú. Ollum var tekið vel og veittur hinn bezti beini, hvort heldur það voru æðstu valdamenn landsins, alþýðufólk eða jafnvel umrenningar. Auðvitað var þó misjafnlega mik- ið haft við gestina, eftir metorðum þeirra. Slíkt þótti alveg sjálfsagt í þá daga og var alls staðar gert. Stefán var hinn mesti reglumaður. Ekki var hann þó alger bindindismaður, en nevtti aldrei áfengis, svo að á hon- um sæi. Vín átti hann þó jafnan og hafði það á borð- um handa heldri gestum. Eitt hið merkasta um Steinsstaðaheimilið á þessum ár- um finnst mér það, hvílíkur skóli það var ungu nám- fúsu fólki, sem þar dvaldi. Ekki að neinn formlegur skóli væri settur þar upp, heldur voru heimilishættirnir á við skóla. Heimilið var eitt mesta myndarheimili þeirra tíma, og unglingar lærðu þar myndarskap og vinnubrögð. I öðru lagi var þar mikla andlega fræðslu að fá. Það var á kvöldvökunum á vetrum, því þá var jafnan lesið upphátt. Ekki skemmtibækur, nema þá tak- markað, heldur allt prentað mál, sem þá var gefið út á íslandi, eða á íslenzku. Stefán keypti allar bækur, blöð og tímarit, sem þá komu út á íslenzku, og allt var það lesið upphátt á kvöldvökunum. Þetta var að vísu ekki mjög mikið í þá daga. Fólk, sem tók eftir lestrinum, hefur þá með þessu móti getað fylgzt með öllu því helzta, sem gerðist í þjóðlífinu og einnig fengið fregnir af öðrum þjóðum. Stefán Jónsson verður sjálfsagt ekki talinn meðal höf- uðskörunga þess tímabils, sem hann átti sæti á Alþingi. Hins vegar var hann jafnan góður og öruggur liðsmað- ur Jóns Sigurðssonar í sjálfstæðismálunum. I öðrum málum fór hann sínar eigin leiðir. Hann var ekki neinn flokksforingi á Alþingi, enda vafasamt, að hægt sé að kalla nokkurn það á þeim árum, nema Jón Sigurðsson. Auðsætt er þó, að Stefán naut trausts samþingsmanna sinna. Það sýndi sig m. a. á Þjóðfundinum. Þar var að sjálfsögðu sett nefnd í stjómskipunarmálið (sjálfstæðis- málið) og í hana kosnir helztu skörungar þingsins, þeir Jón Sigurðsson, Jón Guðmundsson síðar ritstjóri, Egg- ert Briem sýslumaður, Hannes Stephensen prófastur, Kristján Kristjánsson landfógeti, Halldór Jónsson pró- fastur, Jósep Skaftason læknir, Stefán Jónsson síðar bóndi á Steinsstöðum og Þórður Sveinbjörnsson háyfir- dómari. Sem alkunnugt er klofnaði þessi nefnd fljótt. Enginn nefndarmanna vildi að vísu ganga að tillögum dönsku stjórnarinnar óbreyttum, en einn þeirra, Þórð- ur Sveinbjörnsson, vildi þó Ieggja þær til grundvallar og breyta þeim nokkuð. Hinir 8 nefndarmennirnir höfnuðu tillögunum með öllu og settu í þess stað fram kröfur um sjálfstæði íslands, m. a. um innlenda stjórn og að Alþingi fengi löggjafarvald. Tillögur meiri hlut- ans fengust ekki ræddar á Þjóðfundinum, því Trampe greifi sleit honum áður en til þess kæmi. Þá var það að Jón Sigurðsson mótmælti í nafni konungs og þjóðar- innar þeirri lögleysu og þingmenn tóku flestir undir og sögðu: „Vér mótmælum allir“. Stefán Jónsson var auð- vitað í þeirra hópi sem mótmæltu. Jafnan var hann og í þeim flokki þingmanna sem fyllstar sjálfstæðiskröfur gerðu. Stefán Jónsson var enginn málskrafsmaður á þingi. Hann tók að vísu alloft til máls, en ræður hans voru fremur stuttar en gagnorðar: fá orð í fullri meiningu. Á 30 ára þingmannsferli naut hann jafnan óskoraðs trausts kjósenda sinna og var vel metinn af þingmönn- um. Þjóðhátíðarárið tók Rannveig Hallgrímsdóttir, seinni kona Stefáns, vanheilsu. Mun hún hafa þótzt vita að hverju mundi draga, því þegar hún kom úr kaupstað um vorið og gaf móður minni gjöf, er hún hafði keypt í kaupstaðnum, lét hún þess getið, að þetta yrði í síð- asta sinn, sem hún gæti gefið henni nokkuð. Vanheils- an ágerðist og Rannveig andaðist 15. desember 1874. í eftirmælum um hana segir svo m. a.: „Þúsund ára öld ísafoldar út þegar rann í eilífðarhaf: fölnaði um leið í frosti dauðans hennar dyggða og mannkosta dýrust rós.“ Ef til vill er hér nokkuð fast að orði kveðið og ekki síður í hinum erindum eftirmælanna. En hvað sem um það er, er hitt víst að Rannveig var hin mesta ágætis- kona. Þegar hér var komið var Stefán Jónsson 72 ára gam- all en þó hinn ernasti og áhugasamur um almenn mál. Að hann gaf ekki kost á sér til lengri þingsetu, hygg ég að hafi verið vegna veikinda og dauða konunnar, en ekki vegna aldurs. Hann lifði 16 ár eftir þetta og var hress svo til fram að andláti. Hann studdi jafnan þá, sem honum fannst halda fram fyllstu sjálfstæðiskröfum íslands. Til dæmis var hann öflugur stuðningsmaður þeirra Jóns Sigurðssonar á Gautlöndum og Benedikts Sveinssonar sýslumanns, þegar þeir buðu sig báðir fram í Eyjafjarðarsýslu vorið 1886. Var þó persónulegur vin- ur hans, séra Arnljótur Ólafsson, forystumaður and- stæðinganna, þó hann væri ekki sjálfur í kjöri, varð konungkjörinn. Stefán andaðist að Steinsstöðum 11. október 1890, fullra 88 ára að aldri. — Séra Matthías Jochumsson orti eftirmæli um hann. Upphaf þeirra er þannig: „Nú er oddviti Eyjafjarðar genginn burt í guðs friði, og þjóðmæring þúsund ára haustsól helg hefur kvaddan.“ Framhald á bls. 422. 416 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.