Heima er bezt - 01.12.1963, Blaðsíða 29

Heima er bezt - 01.12.1963, Blaðsíða 29
Hildur Inga: SEINT FYRNAST ÁSTIR Framhaldssaga SJÖTTI HLUTI Jón gekk til móður sinnar, lagði vinstri arminn um herðar hennar og sagði: „Er það alveg víst, elsku mamma, að þú viljir gefa mér það bezta, sem þú átt til handa mér?“ „Auðvitað!“ Jórunn brosti. „Ó, hvað þú ert alltaf skrítinn! Þú ert enn með alls konar uppátæki eins og þegar þú varst lítill.“ Þegar Jórunn sá hvað sonur hennar var alvarlegur á svip, breyttist glettnisbrosið í undrun. „Mamma, það bezta sem þú getur gefið mér nú, er blessun þín og heillaóskir,“ sagði Jón festulega. „Sjáðu!“ bætti hann við og rétti fram höndina og sýndi Jórunni hringinn, sem hún hafði ekki veitt eftirtekt fyrr. „Hver er hún?“ „Geirþrúður Agnarsdóttir.“ Jón fann að móðir hans kipptist dálítið við, er hann nefndi nafn unnustu sinnar. Hún sagði ekki orð, en starði fram fyrir sig. Þegar Jóni þótti þögnin orðin uggvænlega löng, sagði hann lágt: „Mamrna! Þú segir ekkert! Af hverju hefur þú ekk- ert til að segja við drenginn þinn, þegar hann segir þér frá framtíðardraumi sínum og biður þig um blessun þína? Þú, mamma, sem alltaf hefur sagt, að handa okk- ur börnunum þínum sé ekkert of gott af því sem þú megnir að veita. Vilt þú nú ekki gefa mér það bezta sem þú átt — það, sem ég bið þig innilegast um? Þú þekkir ekki Geirþrúði, — annars værir þú ekki á móti henni.“ Jórunn leit beint framan í son sinn. „Ég hef ekkert út á Geirþrúði að setja. Hún er sögð mjög góð stúlka og falleg er hún. Ég skil þig mjög vel, góði minn.“ Jóni létti við orð móður sinnar. „Þetta kom bara svo óvænt,“ hélt Jórunn áfram. „Ég er svo eigingjörn, Jón. Þú veizt, hvað við höfum alltaf verið góðir vinir og hvað mér hefur alltaf þótt vænt um þig. Ég hélt, að ég fengi að eiga þig dálítið lengur — að þú myndir geyma myndina af mömmu í hjarta þínu stundarkom ennþá.“ Jón hallaði vanganum að höfði móður sinnar. „Það geri ég líka svo lengi sem ég lifi, mamma mín. Enginn getur nokkurn tíma kastað skugga á mynd þína. Ég vissi, að ég gæti treyst á þig nú eins og alltaf. Þau voru öll hrædd, Geirþrúður, Agnar og pabbi, — hrædd um, að þú myndir ekld taka þessum fréttum vel. Ég einn var alls óhræddur. Það sýnir, að ég þekki þig bezt og vissi að þú myndir ekki bregðast mér nú, — þú bregzt aldrei neinum, mamma; þú ert þannig gerð.“ Jórunn leit í augu sonar síns, hún lagði hendurnar á axlir hans. „Kærar þa'kkir, vinur minn!“ Hægt renndi hún fingrunum gegnum hár hans. „Veiztu, hvað sveitungarnir kalla þig, Jón?“ „Nei.“ „Heiðarprinsinn.“ Hún hló lítið eitt. „Þeim finnst víst stórmennska hjá okkur pabba þínum að ætla að gera úr þér embættismann.“ „Jæja, þeir um það! Þetta er öfund, og mér er alveg sama, en hvað um mín málefni, mamma?“ „Ég bið þér blessunar Guðs bæði nú og ætíð, elsku drengurinn minn,“ sagði Jórunn. „Og á morgun fer Heiðarprinsinn niður til strandarinnar að sækja brúði sína,“ bætti hún við brosandi. „Guð blessi þig, mamma.“ Kári kom nú inn. Þeir feðgarnir settust, en Jórunn fór að taka til mat handa þeim. Heima er bezt 433

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.