Heima er bezt - 01.02.1978, Blaðsíða 34
gjöf frá móður minni. Nú gef ég hann þeirri konu, sem
gekk þér í móðurstað á þrautastundum þínum. Það fer vel
á því, að þú sért tengiliður okkar í þessu máli. Lifðu heil
og sæl í tign þinni, Ásta Karlotta, ekkjudrottning. Vertu
sæl.
Þá er það mitt fólk, sem kveðja skal. Komið þið hingað
bæði, Valdimar konungur og Elísa drottning. Grátið ekki.
Dauðinn, sem við köllum svo, er ekki bitur, ef við reynum
að breyta rétt og gera skyldu okkar á meðan við lifum hér.
Nú er ég sáttur við Guð og menn, og þess vegna er dauð-
inn mér ávinningur. Gæt þín, Valdimar. Valdi fylgir mikil
ábyrgð. Vertu ætíð réttlátur og miskunnsamur í dómum
þínum, sem konungsvaldið veitir þér. Við hlið þína er
eiginkona þín, þinn verndarengill. Verið sæl, börnin mín.
Lifið lengi. Lifið hamingjusöm.
Kom þú, Víglundur sonur minn. Þín bíður mikil ham-
ingja. Tem þú skap þitt, það er þér nauðsyn eins og öllum
öðrum. Tak þetta silfurhylki, sem hér liggur á sænginni
hjá mér. í því finnur þú bréf frá unnustu þinni. Ég nefni
ekki, hver hún er. Ég fann þetta bréf, rétt eftir að þú hafðir
yfirgefið mig. Berðu unnustu þinni kveðju mína. Segðu
henni, að ég hafi á banabeði lagt blessun mína yfir ykkur
bæði tvö, og ykkar væntanlegt hjónaband. Vertu sæll,
Víglundur sonur minn.
Kom þú til mín, Hildibrandur greifi. Ég bið þér allrar
blessunar, hugljúfi, hjartahlýi vinur. Nú erum við sáttir.
Það gleður mig að deyja í þeirri von, að þú eigir eftir að sjá
barnabörn þín og umgangast þau. Þetta hefði mér líka
auðnazt, ef ég hefði farið rétt að.
En nú er ég hér. Það var eins og hulin hönd leiddi okkur
öll hingað. Verið öll sæl, vinir mínir.“
Þetta voru síðustu orð Hróðmars konungs Valdimars-
sonar í þessu lífi.
Augun brustu. Titringur fór um líkamann.
Hróðmar konungur var dáinn.
EFTIRMALI.
Uppi á útsýnispallinum, efst á turninum mikla, stóðu
þau bæði, Bjarnharður konungur og Júlía drottning.
Sólin var að ganga undir í vestri. Fjöllin miklu voru eins
og á gull sæi, böðuð skini kvöldsólarinnnar.
„En sú fegurð,“ mælti Júlía drottning. „Mikil er, sú
dýrð.“
„Víst er svo, Júlía drottning,“ mælti Bjarnharður kon-
ungur. „Við sjáum þessa dýrð kvöldsins, vegna þess að við
stöndum hér uppi á turninum. Ekki sæjum við hana, ef
við værum niðri í hallargarðinum eða inni í höllinni.
Svona er mannlífinu varið. Það er illu heilli barizt um ytri
gæði mannlegs lífs, auð og völd, og því miður er valdsins
neytt stundum öðrum til tjóns. En iífið hefur upp á mikla
fegurð að bjóða, sé hennar leitað.“
„Þú talar eins og siðugasti spekingur, Bjarnharður
konungur,“ mælti Júlía drottning.
„Á slíkri stund, sem þessari með þig við hlið mér, Júlía
drottning, finnst mér birta hið innra. Sál mín fyllist friði og
gleði. Er þá að undra þó góðar hugsanir komi í hugann?“
Júlía drottning svaraði ekki. Dyr opnuðust. Út um þær
kom Manfreð konungur ásamt drottningu sinni og Ástu
Karlottu ekkjudrottningu.
rHér er mikla fegurð að sjá,“ mælti Manfreð konungur.
„Það ætti að láta byggja fagran útsýnisturn áfastan við
höllina, sem maður ætti greiðan aðgang að. Manni er
mikil nauðsyn á því að eiga næðisstund fjarri öllum ys og
þys hversdagslífsins. Njóta fagurs útsýnis og lyfta hugan-
um upp i hæðirnar."
„Þú minn dyggðugi konungur og herra. Þú mælir sönn
orð,“ mælti Matthildur drottning.
„Nú hefði vinur vor og verndari, Hróðmar konungur,
þurft að vera staddur hér á meðal vor. Uppi á þeim sama
turni, sem hann varði með þeim hetjuskap sem aldrei
gleymist.“
„Hann er vafalaust staddur á enn bjartari stað, umvaf-
inn enn meiri ljóma en þeim, sem við sjáum með okkar
jarðnesku augum. Ég er sannfærð um, að hann er í hug-
rænni gleði hjá sinni konu, sem hann þráði svo heitt og var
eftirsjá að. Þeim, sem elska af hreinleik hjartans í raun og
veru, mun veitt sú náð að sameinast aftur í eilífðinni. Sú
var ábending til mín í draumnum,“ mælti Ásta Karlotta á
sinn hógværa hátt.
„Mikil er þín trú og sterk er von þín, móðir mín elsku-
leg,“ mælti Bjarnharður konungur.
„Reynsla þín í þessu jarðneska lífi hefur verið mikil og
þjáningin sár. Sönn voru orð Hróðmars konungs, er hann
mælti til þín á banabeði. Þjáningin hefur þroskað anda
þinn. Lífsreynslan styrkt trúna. Nú ert þú orðin slík- í þinni
andlegu reisn, að út frá sál þinni streymir guðdómleg
orka.“
„Talaðu ekki svona, Bjarnharður. Hvað er ég annað en
vanmáttug kona. f útlegðinni og á flóttanum fann ég bezt
smæð mína, ein og yfirgefin af mönnum, með þig, barnið,
mér við hlið. Það leið yfir mig nóttina skelfilegu, þegar
ræna átti Júlíu prinsessu. Hér í skjóli ykkar allra finn ég
frið og ró. Mér er ekkert að þakka.“
„Kæra ekkjudrottning,“ mælti Manfreð konungur. „Þú
hefur þjáðst mikið, en aldrei glatað trúnni á lifið né heldur
voninni um birtuna miklu, og kærleikann eilífa. „Trúin
flytur fjöll,“ var sagt forðum. Þín trú var og er neisti af
þeirri miklu trú. Þessi mikla trú þín og góðvild til alls sem
lifir hefur veitt þér guðlega orku, sem allir nema þú sjálf
hafa orðið varir við í meiri og minni mæli.
Sú eilífa orka, sem er undirstraumur alls lífs, heldur
sífellt áfram með jöfnum hraða, þó öldur yfirborðsins
ýmist lyftist eða hnigi i tímans djúpi. Við erum öll, sem
litlir vindgárar á yfirborðinu. Við lifum hér um stund og
hverfum svo inn á ómælislönd eilífðarinnar.
Sálir gæddar guðlegri orku finnast enn á vorri jörðu.Ein
þeirra er ekkjudrottningin, Ásta Karlotta. Hvar sem hún
gengur um, okkar á meðal, finnast mér vera letrað gyltu
letri í hvert spor hennar þessi orð:
„Sælir eru hreinhjartaðir. Þeir munu guð sjá“.“
Seinustu geislar kvöldsólarinnar gylltu enn fjallatind-
ana, sem endurvörpuðu áhrifum til þeirra, sem stóðu í
þögulli lotningu efst uppi á turninum. ENDIR.
70 Heima er bezl