Heima er bezt - 01.04.1985, Blaðsíða 23
________HELGI HALLGRÍMSSON___
ÞÆTTIR UM ÞJÓÐTRÚARFRÆÐI - VI
Enn um álfa á Akureyri
Hulduskip við Hallandsklett. Fossinn er í Lambhagalœk.
Stöðugt er að tínast til ýmis fróðleikur
varðandi álfa og huldufólk á Akureyri
og nágrenni, [sbr. greinar mínar í
HEB, 33. árg. 5. hefti (1983), 34.
árg. 3. og 5. hefti (1984)], og verða
hér birtar ýmsar viðbætur til uppfyll-
ingar í þá mynd sem þar er reynt að
bregða upp af bústöðum og starfi
hulduheimsins á þessu svæði.
SIGURBJÖRG
SÓTT TIL HULDUKONU?
Sigurbjörg Jónsdóttir, er lengi bjó á Veigastöðum á Sval-
barðsströnd, og andaðist þar 83 ára 1918, var annáluð fyrir
dugnað sinn og heppni við ljósmóðurstörf. Að sögn Harð-
ar Jóhannssonar bókavarðar frá Garðsá, var því almennt
trúað í sveitinni, að Sigurbjörg hefði eitt sinn verið sótt til
að hjálpa huldukonu í barnsnauð, og hlotið fyrir það bless-
un hennar, og ákvæði um farsæld í þessu starfi, sem altítt
var um íslenzkar ljósmæður í fyrri tíð. Eitt sinn hafði amma
Harðar innt hana eftir þessu, og sagði hún þá aðeins:,,Eitt-
hvað dreymdi mig“, en gaf ekki meira út á það.
NÁNAR UM
HULDUFÓLKSSKIPIN
í frásögn af Þorleifi á Barði (Akureyri) í Grímu hinni nýju
IV. bindi, bls. 43, ereftirfarandi klausa:
,,Pað var siður kaupmanna, sem þá voru við Eyjafjörð, að leita
frétta hjá Þorleifi um það, hvenær kaupskip þeirra voru væntan-
leg. Sagði hann ávallt fyrir um skip þeirra, og fór það æ eftir,
er hann sagði. Eigi gat hann þó sagt neitt um þau, fyrr en sem
svaraði viku áður en skipin komu í höfn, því að þá sagði hann
að hulduskipið kæmi, og væri það sannboði þess, að kaupför
væru í nánd. Þetta gat hann og gerði svo þráfalt, að engum kom
til hugar að efast um áreiðanlcik hans í því efni.“
(Eftir handriti Tryggva Indriðasonar frá Hóli í Kelduhverfi,
1910).
Þorleifur á Barði var Þorleifsson. Samkvæmt manntali
1860, er hann þá 56 ára húsmaður á Barði, ásamt konu
sinni Elínu Þorsteinsdóttur (54 ára) og dóttur, Steinunni
Helgu (12 ára). Hann dó 10. júní 1869 á Rangárvöllum.
Hann var af sumum nefndur Bræðslu-Leifi, af því hann
fékkst lengi við lýsisbræðslu á Akureyri. Hann var skyggn
og sagði fyrir ýmsa óorðna atburði.
Það var almenn sögn á Akureyri, að hulduskipið (eða
skipin) kæmu einni til tveimur vikum á undan kaupskipum
manna.
Heima er bezt 135