Heima er bezt


Heima er bezt - 01.04.1985, Blaðsíða 35

Heima er bezt - 01.04.1985, Blaðsíða 35
og ábyggilega ótukt í ofanálag, forljótur vanskapnaður al- veg frá hvirfli til hæla. Daníel varð hugsað til þess, sem Sóley hafði sagt honum um hundinn og þau systkinin á Hól. í alvöru hafði hann alls ekki trúað henni fyrr en núna i dag, er hún kom í hend- ingskasti upp um hálsinn á honum inn í hlöðu, sýnilega miður sín af ofsahræðslu, enda sagði hún nákvæmlega fyrir, hver ætti þessa fylgju, er hún sá, og eins að það væri krypplingur, enda var ferill skuggans nákvæmlega sá sami og gestsins rúmum klukkutíma seinna. Það var alls ekki hægt að rengja þetta. Staðreyndirnar lágu svo augljóslega fyrir, meira að segja nafnið á mann- inum, sem hún vissi þó ekki að var til, hvað þá meira. Henni var þetta ósjálfrátt, nokkurs konar auka-skilnings- svið, sem aðeins örfáum var gefið. Svo var þetta sérkenni- lega bros hennar, þegar vel lá á henni. Af hverju hafði það svona kitlandi áhrif? Var það vegna þess, að hann var karlmaður, en hún kvenkyns? Hann varð að gera sér þetta ljóst, hvort hann í raun og veru var skotinn í stelpunni, eða einhver önnur áður óþekkt áhrif væru hér að verki. Hann vissi ósköp vel, hve hrifinn hann hafði verið af Laugu í Garði, en þessi tilfinning gagnvart Sóley var svo gerólík, að þar var engu saman að jafna. En hann var hins vegar alveg viss um, að fengi fólk hugmynd um kunningsskap þeirra, yrði það lagt þannig út, að hann væri að tæla krakkann. Illgirnin var nefnilega nokkurs konar frjóangi forboðna eplisins, sem alls staðar gat skotið rótum, og birtist sem illgresi í skrúðgarði sálar- innar. Hún hafði varað hann við. „Þú átt eftir að líða fyrir þennan mann,“ hafði hún sagt, en ef hann umgengist nú krypplinginn ekkert í sumar, gat vel verið, að hann slyppi, því varla yrði hann lengur á Mólendi en til haustsins. „Þú trúir of mikið á hann.“ Þessum orðum var ekki svo auðvelt að gleyma. Honum varð á að skellihlæja, þarna sem hann lá andvaka í rúmi sínu. En þegar hann velti þessu nánar fyrir sér, var langt frá því að honum væri hlátur í hug. Það var nefnilega eins öruggt og það að tvisvar tveir voru fjórir, að Sóley skjátl- aðist ekki. Liðnir dagar Þetta sumar leið, eins og annar árstími. Daníel hafði aldrei verið jafnmikið að heiman um heyskapinn og einmitt nú. Eiginlega var lítil þörf fyrir hann, því Jónatan bróðir hennar Guðríðar var kaupamaður á Hálsi, og að hennar sögn, en þó sérstaklega hans sjálfs, var hann jafnvígur á hvaða verk sem var. En ekki gat hann samt mjólkað kú. Þær vildu einhvern veginn ekki þýðast hann, og sumar trylltust næstum því, ef hann lét sjá sig í fjósinu. Svo var þetta með traktorinn. Hann tók upp á þeim fjanda að brotna einn góðan þurrk- dag, öllum til sárrar armæðu. Húsbóndinn vildi nú reyndar halda því fram, að Jónatan hefði ekið nokkuð hratt, og það þarna, sem varla var fært gangandi manni fyrir þýfi og grjóti. „Hann var nú að stytta sér leið niður í flatirnar,“ sagði Guðríður. „Já, veit ég það. En því gat hann þá ekki farið eftir troðningnum? Ég var þó búinn að segja honum það.“ „Þú verður þó að viðurkenna,að hann er duglegur. Það eru ekki teknir almennilegir menn upp af götunni, ekki nú til dags.“ Húsbóndinn kærði sig líklega ekki um að ræða dugnað kaupamannsins, en sagði um leið og han gekk út: „Þó fundið væri að flestu hjá honum Daníel, þá sakna ég hans, — það segi ég satt.“ Að endingu komu varahlutirnir, en þá var ekki annað sýnna en draga þyrfti tækið á verkstæði. Daníel hafði alltaf gert við það, sem bilað hafði, en nú var hann einhvers staðar uppi á heiði með rafveituflokknum og reyndar upptekinn í vinnu. Og sá varð endirinn á þessu, að tveir menn frá verkstæðinu voru fengnir til að gera við traktor- inn. Þegar farið var að rífa sundur, kom ýmislegt fleira í ljós, sem skipta þurfti um, og tók þá annan eins tíma að það fengist afgreitt. Og svo var það vinnureikningurinn. Hús- bóndinn varð bæði hissa og sótsvartur af vonsku, er hann fékk hann í hendur. Eftirvinna, svo og svo margir tímar, en þessi næturvinna.... Þar kastaði þó alveg tólfunum. Hvaða næturvinnu höfðu þeir svo sem unnið, nema alls enga? Ja, svolítið fram á kvöldið. Það var allt og sumt. Samanlagt þrjátíu og sjö þúsund krónur, — ekki nema það þó! Hann var orðinn nokkuð dýr, þessi blessaður kaupa- maður, fannst honum. Það hefði aldrei orðið annað en varahlutirnir, ef Danni hefði verið heima. Svo var allur þessi góði þerrir alveg til ónýtis eða allt að því. Hvaða verklag var það að hjakka þetta með orfi og hrífu? Nei, slík vinnubrögð tilheyrðu liðinni tíð, á meðan ekki þekktist annað. Það borgaði sig ekki að hafa Daníel í vinnu upp á svona „komplexa“. „Þú skalt athuga það, að Danni gæti nú farið alfarinn hvenær sem er úr þessu og farið að eiga með sig sjálfur,“ sagði Guðríður. „Þú heldur það. Aftur á móti álít ég hann engan mann til slíks,“ ansaði húsbóndinn. „Þess verður ekki langt að bíða að Daníel yfirgefi okkur, enda hefur mér aldrei dottið í hug að hann tæki við búi hér á Hálsi. En samt ætla ég ekki fyrir mitt leyti að standa í vegi fyrir því, ef svo vildi til að hann kæmi hingað heim með kvenmann.“ „Ja, hann kemur ekki inn fyrir hússins dyr á mínu heimili með einhverja hýalínsdúkku, sem ekkert kann til verka og enginn hefur not af. Mér sýnist þetta unga fólk skelfing duglaust,“ ansaði húsbóndinn með þjósti. „Það getur verið að sumt sé það, en þú verður að athuga, að tímarnir eru breyttir. Það er svolítið annað en þegar við vorum að alast upp. Nú hafa allir nóg af öllu og enginn Heima er bezt 147

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.