Heima er bezt


Heima er bezt - 01.03.1988, Qupperneq 11

Heima er bezt - 01.03.1988, Qupperneq 11
HINRIK A. ÞÓRÐARSON: Bamakennsla og kuldaskór Þegar opnað er útvarp eða flett dagblaði, er gjarnan það fyrsta, sem athygli vekur, eitthvað um skóla- og mennta- mál, og þá helst umkvartanir yfir litlum fjárframlögum, sem beint er til þeirra, sem með völdin fara. Og jafnan kveður við: Of lágt kaup kennara. Of smá lán og styrkir til nemenda. Kennslutæki fá og léleg. Skólahús ofsetin og lek i vatnsveðrum, og margt fleira í svipuðum dúr. Ekki verður á þessum blöðum dómur lagður á réttmæti þeirra umkvart- ana, sem skóla- og menntamál sæta. En ekkert er svo vel gert, að þar sé ekki mögulegt betur að gera, og án gagnrýni er lítil von úrbóta, því gallarnir verða að sjást, svo hægt sé að sníða þá af. Ef við skyggnumst inn í fortíðina, svo sem eins og til þess tíma, þegar fyrri heimsstyrjöldinni var að ljúka, og gerum samanburð á því sem var, og því sem er nú, eru breyting- amar ótrúlega miklar á flestum sviðum, og ekki síður hvað varðar kennslu og skólahald, en í öðrum greinum daglegs lífs. Nú fækkar þeim óðum, sem muna þessa tíma, og þess vegna ætla ég að rifja upp hvernig aðbúð og kennslu var háttað í minni sveit fyrir nærri sjö tugum ára. Þar sem stórelfarnar, Hvítá og Þjórsá, liggja samhliða og komast næst hvor annarri, er Skeiðahreppur, í miðju hér- aði, og nær ekki upp til afrétta eða sjávar fram. Fyrir átta þúsund árum rann kvika Þjórsárhrauns innanúr Vonar- skarði, yfir láglendi Suðurlands, þakti nær öll Skeið og mikinn hluta Flóa. Þunnt gróðurlag hylur nú hraunið. Þó standa apaldrangar uppúr gróðurfeldinum á stöku stað. Þéttbýlt var á Skeiðum. Meiri hluti jarða litlar og rýrar og lífsafkoma eftir því. En fólkið var duglegt og nægjusamt, og flestir komust þar til nokkurs þroska. Skólahald mun verið hafa líkt og í öðrum sveitum. Barnafræðsla undir fermingu. Lengra var eigi haldið. Fyrst fylgdu börnin kennaranum milli bæja, og lágu þau við til skiptis á heimilunum meðan ekkert skólahús var til. Þingstaður með einhverju þinghúsi hafði verið á Húsa- tóftum frá ómunatíð. Þar hélt Árni Oddsson, lögmaður, sáttafund með Guðrúnu Símonardóttur og Einari presti á Ölafsvöllum. En þeim hafði sinnast útaf vatnsdaufu messuvíni og fleiru. Fljótlega eftir að barnafræðsla hófst í Skeiðahreppi, var byggt samkomuhús á Húsatóftum og látið duga sem skólahús og þinghús. Þar voru haldnir fundir og margskonar skemmtanir. Byggt var úr timbri og járnklætt, og til þess að spara efni, var húsinu troðið í röðina milli bæjanna, en tvíbýli var á Húsatóftum. Að baki var geymsluskúr og einn útveggur með gluggum, snéri fram á hlaðið. Inn af útidyrum var forstofa og þar innar af lítil kompa með þakgluggaboru. Þar voru hafðar bækur Lestr- arfélags Skeiðahrepps. Húsið klætt innan með panel og málað í bláum lit. Kolaofn, hár og mikill, „trónaði" í einu horninu. Sagði það bóndi einn, að þar kæmi enginn ylur frá, nema kveikt væri upp í „óninum", en það skeði sjaldan. Eftir byggingu samkomuhúss var þar barnaskóli haldinn á vetrum. Húsatóftir eru sem næst í miðri sveit, og gengu börnin í skólann að morgni og heim að kvöldi. Sú göngu- leið er mjög mislöng eftir staðsetningu býla, allt að sjö km og yfir vegleysu að fara. Þætti það nokkurt álag nú. Tvær konur höfðu annast barnafræðslu í hreppnum, og urðu þær ekki mosavaxnar í starfi. Löngum hefur staðið styrr um kennara, og fóru þessar konur ekki varhluta af því. Hröktust ungar frá starfi. Var þó ekki ástæðan léleg kennsla, því báðar voru hinar ágæt- ustu kennarar. Verður sú saga ekki rakin hér. En siðar urðu þær báðar mikils metnar húsfreyjur i Skeiðahreppi. Svo er það á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar, að nýr kennari kemur á Skeiðin. Var það kona á miðjum aldri, ógift og barnlaus. Hafði hún próf frá kennaraskólanum. Kenndi á vetrum, en fór í kaupavinnu á sumrin, sem þá var siður kennara til að drýgja tekjurnar. En laun kennara munu þá hafa verið i knappara lagi. Þessi kona var eini kennarinn, sem kenndi mér í barnaskóla. Nú skulum við tímasetja skólann við haustið 1919 og yfirfara hvernig skóladeginum var varið á því herrans ári og gildir þá sama fyrir næstu ár á eftir. Skólinn byrjaði eitthvað fyrir veturnætur og hófst eða átti að hefjast með því að læknir skoðaði börnin, hvort þau hefðu lús eða kláða. Læknir sá var með afbrigðum snjall í sínu starfi. Sagt var, að hann læknaði allt með sama lyfinu, hvort sem var beinbrot, lungnabólga, garnaflækja, kvef eða tannpína. Heilræði til sjúklingsins jafnan á sama veg: — Bera bara á það joð, svo batnar það eftir þrjá daga. Þessi læknisskoðun féll oftast niður og þótti ekki saka. Kennslan byrjaði kl. 10 dag hvern. Höfðu þá sum börnin gengið fullan klukkutíma. Miklu léttari var gangan á hjarni, eða ef skautafæri var einhvern hluta leiðarinnar. Það létti mikið gönguna og sparaði tíma. Við komuna í skólann heilsuðu börnin kennaranum með handabandi, og eins þegar þau fóru heim að loknu námi. I slæmri tíð eða vondri færð reyndist skólagangan mjög slitrótt. Þótti það eðlilegt og ekkert um það fengist, þó illa væri mætt. Kom mjög sjaldan fyrir, að engan vantaði. En á skólaaldri voru um 30 börn í hreppnum. Engin deilda- skipting, allir saman, eldri og yngri. Er óskiljanlegt hvernig kennaranum tókst að láta alla njóta uppfræðslu, þrátt fyrir misjafnt námsefni, eftir aldri barnanna. Og þá ekki síður takmarkaðan áhuga og getu til náms. Heimaerbezt 83

x

Heima er bezt

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.