Vesturland - 24.12.1959, Page 3
Séra Jón Kr. lsfeld, Bíldudal:
Jólin — fagnaðarhátíðin mikla.
Gegnum skammdegismyrkrið brýzt skyndilega leiftrandi ljós-
bjarmi. Birtan verður skærari og skærari. í fyrstu leggur ljóma
hennar hið ytra meðal mannanna. En svo nær hún lengra, unz
hún að lokum nær inn í hugskot þeirra, þar sem hún verður
skærust, ef henni er leyft að skína þar óhindraðri. Hvaðan
leggur þessa birtu, sem jafnvel fær rofið sorta hlaðið skamm-
degismyrkur, bæði ytra og innra meðal mannanna? Hún kem-
ur frá jólunum, fagnaðarhátíðinni miklu. — Jólin nálgast —
jólin koma. Þá er það ekki lengur hin ytri birta, sem ljómar
yfir mönnunum, heldur fyrst og fremst verður þá bjart hið
innra með þeim. Hinir fullorðnu minnast bernskujóla sinna,
þegar þeir kveiktu á litla kertinu sínu og sáu í skini þess birt-
una frá Betlehemsstjömunni. Þá eiga börnin sín bernskujól,
sem eiga eftir að gefa þeim minningar á fullorðinsárunum.
Ennþá einu sinni renna jólin upp yfir mannkynið, eins og
þau hafa gert öld eftir öld. Þau koma til mannanna við ýmis-
konar kringumstæður. Suma finna þau harmi lostna, aðra
glaða og káta. Suma finna þau harðlynda og hrjúfa, aðra milda
og kærleiks ríka. Þau koma einnig til sjúkrabeðs hinna veiku
og vanheilu. Þau koma í lágreista litla bæinn, jafnt sem í há-
reistar steinhallir. Þau koma í afdalabýlið, jafnt og í borg þús-
undanna. Þau koma til þeirra, sem fast land hafa undir fót-
um, en einnig til sjómannanna á hafi úti. Allstaðar þar sem
þau koma, eru þau að rækja sama hlutverkið, að flytja fagn-
aðarerindið um fæðingu frelsarans, komu hins fórnandi kær-
leika til jarðarinnar.
Líkt og forðum á Betlehemsvöllum, fylgir birta jólunum.
Sú birta ljómar ekki aðeins frá ljósunum, sem menn þá tendra
á heimilum sínum, heldur finna menn, að „dýrð Drottins ljóm-
ar“ hið innra með þeim. Jólin eru annað og meira en ytri til-
breyting frá hversdagsleikanum. Hugsanir, orð og athafnir
manna taka undraverðum breytingum á jólum. Á jólum forð-
ast menn illar hugsanir, orð og athafnir, en opinbera hlýleik
og vinsemd. Dægurþnas og þjark þoka úr viðskiptum manna.
Handtökin verða hlý og vinarbrosin mild.
„Þá bjóða menn fúsir bróðurhönd,
þá birtir í hugans leynum,
þá hnýtast að nýju brostin bönd.
Þá bætt er úr sárum meinum.
Og þá er sem tengist land við lönd
í Ijómandi kærleik hreinum.“
Á jólum finna menn, að þrátt fyrir allt er kærleikurinn
sterkasta aflið á jörðinni, að kærleikurinn getur gert mennina
hamingjusama — kærleikurinn, sem kom með Kristi á jörð-
ina hin fyrstu kristnu jól.
í jólasálminum fagra segir: „Vér fögnum komu frelsarans.“
Það er þetta, sem er hið raunverulega tilefni jólanna. En í
umstangi og amstri við undirbúning jólahátíðarinnar, vill þetta
gleymast sumum. Því er líkt
farið og segir í frásögunni
af bamaskólabörnunum, sem
ætluðu að halda kennslukon-
unni sinni samsæti í tilefni
af afmæli hennar. öll börn-
in unnu ósleitlega að undir-
búningnum og öll hlökkuðu
þau til veizlunnar. Svo rann
hin mikla stund upp. AJlt
var tilbúið. Börnin mættu
sparibúin. Nú vantaði aðeins kennslukonuna. Bömin undr-
uðust þetta. Hvers vegna skyldi hún ekki koma? Skyldi
eitthvað hafa komið fyrir hana? Og börnin fóru að ræða um
þetta. En þá kom í Ijós, að í önnum og erli undirbúningsins
hafði gleymst að bjóða kennslukonunni. Já, þau ætluðu að
halda hátíðlegt samsæti, en gleymdu svo að bjóða sjálfum
heiðursgestinum.
Frásagan um gleymnu börnin er vissulega með ólíkindum,
kannt þú að segja. Það getur varla verið, að nokkur sé svona
hugsunarlaus, jafnvel ekki böm, hvað þá fullorðið fólk. Ertu
nú viss um það ? Nú eru haldin jól. Bæði ungir og gamlir hafa
unnið að undirbúningi hátíðahaldanna. En skyldu það ekki vera
einhverjir, sem hafa „gleymt“, hvert hið raunverulega tilefni
jólanna er? Þau em fagnaðarhátíð til þess að taka á móti heið-
ursgestinum, Jesú Kristi. Minnumst þess, hvers vegna hann
kemur. Hann kemur til þess að gefa okkur gleðileg jól, í þeirra
orða dýpstu merkingu. Hann kemur til þess að efla trú okkar
á Guð og kærleika hans, á lífið og mennina, bræður okkar og
systur. Hann kemur til þess að gefa okkur manngöfgi. Hann
kemur til þess að hjálpa okkur að sigrast á freistingum og
syndum. Hann kemur til þess að gefa okkur tækifæri til að
eignast „eilífð bak við árin.“ Hann kemur til þess að reisa
hinn fallna, hugga hinn sorgmædda, leita að hinum týnda og
frelsa hann. Hann kemur til þess að gleðjast með hinum glöðu
og fagna með fagnendum. Hann kemur til þess að opna okk-
ur himin Guðs, svo að við mættum sjá dýrð hans. Hann kem-
ur til þess að opna sálir okkar í bæn og trú. Það er vegna
alls þessa, sem við fögnum komu hans á jólum.
Ég bið þess, að meiginþáttur jólahaldsins verði sá, að bjóða
Krist velkominn. Hann er hinn raunverulegi heiðursgestur
jólahátíðahaldsins. Sérhver jólahátíð er nýtt og dýrmætt tæki-
færi, sem Guð gefur okkur af náð sinni, til þess að við verð-
um honum þóknanleg, og berum Kristi vitni í kærleikanum.
Megi það verða fagnaðarefni þessara jóla, að ekki aðeins
frá vörum okkar, heldur frá hjarta okkar, hljómi þessi orð:
„Vér fögnum komu frelsarans". Þá getum við verið þess full-
viss, að við eignumst
GLEÐILEG JÓL.