Alþýðumaðurinn


Alþýðumaðurinn - 09.04.1987, Blaðsíða 9

Alþýðumaðurinn - 09.04.1987, Blaðsíða 9
8 - ALÞÝÐUMAÐURINN ALÞÝÐUMAÐURINN - 9 Vioreisn velferðarríkisins - Stefnumál Alþýðuflokksins við Alþingiskosningamar 1987 Alþýðuflokkurinn Alþýðuflokkurinn er stjórnmálaflokkur, sem starfar á grundvelli jafnaðarstefnunnar. Jafnaðarstefnan berst fyrir frelsi, jafnrétti og bræðralagi, gegn einræði, kúgun, auðvaldi og kommúnisma. Jafnaðarstefnan felur í sér hugsjónir lýðræðis og félagshyggju. Með félagshyggju er átt við, að framleiðsla og dreifing Iífsgæða mótist af samvinnu og samstöðu. Markmiðið er að koma á þjóðfélagi, þar sem hver og einn nýtur jafn- réttis til þeirra lífsgæða sem samfélagið býður upp á hverju sinni. Með lýðræði er átt við rétt allra manna til þátttöku í ákvörðunum, sem varða þá sjálfa sem félaga í heild. Forsenda slíks lýðræðis er frelsi manna til orðs og æðis. Jafnaðarstefnan miðar að því, að lýðræðisleg- um aðferðum verði beitt hvarvetna, þar sem ákvarðanir eru teknar fyrir hóp manna. Félagshyggja og lýðræði eiga sameiginlega grundvallarhugsjón. Sú hugsjón er jafnrétti. Jafnaðarstefnan er tæki allra þeirra sem aðhyllast jöfnuð og réttlæti í þjóðfélaginu og berjast gegn ójöfnuði og ranglæti. Hún er tæki i bar- áttunni gegn forréttindahópunum, leið til þjóðfélags þar sem jöfnuður, mannréttindi og mannhelgi eru höfð að leiðarljósi. Hin nýja stétt íslensks samfélags er hin samtvinnaða og samtryggða valdastétt, sem ræður yfir fjármagni og hlunnindum, en býr við tak- markað lýðræðislegt aðhald. Alþýðuflokkurinn er ábyrgur lýðræðisflokkur, sem vill efla mannúð og mannréttindi, tryggja persónufrelsi einstaklinganna og stuðla að efnahagslegum framförum í þágu heildarinnar. Alþýðuflokkurinn krefst þess, að allir landsmenn eigi, án tillits til efnahags og búsetu, rétt til atvinnu og menntunar, rétt til heilsugæslu og læknishjálpar, rétt til að bera mál sín undir dómstóla, rétt til framlaga úr almannatrygging- um, þegar út af ber, og rétt til lífeyris þegar aldurinn færist yfir. Þetta er grundvöllurinn til þess að nálgast efnahagslegan jöfnuð i samfélaginu. Sérhver einstaklingur á að fá tækifæri til þess að njóta framtaks síns, hugkvæmni, dugnaðar og ábyrgðar, svo lengi sem það leiðir til eðlilegr- ar verðmætasköpunar í þágu þjóðarheildarinnar og stefnir ekki til for- réttinda eða auðsöfnunar. Fullur jöfnuður á að ríkja á sviði mannréttinda og persónufrelsis, svo sem jafnrétti kynja, jafn kosningaréttur, jafn réttur allra til að mynda sér skoðanir og berjast fyrir þeim. Alþýðuflokkurinn telur að blandað hagkerfi henti þjóðinni best, það er að atvinnuvegirnir verði reknir í formi einkareksturs, samvinnurekst- urs og opinbers reksturs, en þróa beri atvinnulýðræði innan allra rekst- ursforma. Alþýðuflokkurinn og samtök launþega berjast fyrir náskyldum hagsmunum og eiga því málefnalega samleið í grundvallaratriðum. Alþýðuflokkurinn vill gera þjóðfélagið allt í senn: siðaðra, réttlátara, betra. Flokkurinn berst fyrir auknum jöfnuði milli einstaklinga og milli byggða; flokkurinn berst gegn forréttindum oggegn spillingu; flokkur- inn vill að hverjum þegni þjóðfélagsins verði tryggt að geta lifað lífinu með mannlegri reisn. íslenskar aðstæður eru þannig, að samspil fjármagnseigenda, bankavalds og rikisvalds ásamt flóknum, teygjanlegum og óljóst orð- uðum lagabálkum og reglugerðum, leiða stundum til argasta ranglætis, öfugt við það sem til var ætlast. Alþýðuflokkurinn berst gegn spillingu og seinagangi innan stjórn- kerfisins sem á öðrum sviðum þjóðlífsins. Alþýðuflokkurinn er and- snúinn braski fésýslumanna. Hann vill gera stjórnkerfið einfaldara í sniðum og virkara. Alþýðuflokkurinn varar við ofþenslu ríkisbáknsins, sem getur orðið hvort tveggja i senn þjóðinni fjárhagslega ofviða og lýðræðinu varasöm. Alþýðuflokkurinn vill stuðla að styrkri lands- stjórn, sem taki málefni þjóðarinnar föstum tökum og láti hvergi bug- ast af ofríki ófyrirleitinna sérhagsmunahópa. Alþýðuflokkurinn stendur vörð um stjórnarfarslegt og fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar og stuðlar að islenskri reisn í þjóðernislegu og menningarlegu tilliti. Á alþjóðavettvangi ber íslendingum að vinna að friði meðal þjóða heims, styðja snauðar þjóðir, gæta þess að réttur smáþjóða verði eigi fyrir borð borinn og stuðla að aukinni samstöðu allra þjóða. Síðar í stefnuskrá þessari verður lýst nánar stefnumiðum Alþýðu- flokksins í einstökum málaflokkum. Þau megin markmið, sem þar eru lögð til grundvallar, eru einkum þessi: • að breyta til frambúðar auðlegðar- og valdahlutföllum alþýðunni í hag. • að færa ákvarðanavald frá hinum fáu til hinna mörgu á sem flestum sviðum þjóðlífsins þ.á.m. til starfsmanna á vinnustað og til neytenda. • að útrýma fátækt og tryggja jafnan fulla atvinnu. • að koma á launajafnrétti á vinnumarkaðinum, þannig aðsambærileg störf séu jafnt metin til Iauna, hvort heldur þau eru unnin af karli eða konu. Jafnframt verði nýtt mat lagt á störfin, þar sem gildi hinna mannlegu þátta þeirra verði ekki síður metið en þeir þættir sem snerta peninga og meðferð þeirra. • að koma á efnahagslegu jafnrétti í skiptingu eigna og tekna. • að koma á félagslegu jafnrétti m.a. í skiptum kynjanna, í möguleik- um til mennta, húsnæðismálum og með almennum tryggingum. • að bæta umhverfi manna hvort heldur er á vinnustöðum eða í bæjar- eða sveitarfélögum jafnframt því sem sérkenni í íslensku landslagi og dýralifi skulu vernduð og varðveitt og náttúruverndarsjónarmið höfð að leiðarljósi. I. Efnahagsiífið Öll stjórnmál snúast að miklu leyti um efnahagsmál, um framleiðslu og skiptingu auðs. Jafnaðarmenn stefna að gagngerum breytingum i efnahagslífinu í þeim tilgangi að gera allt þjóðlífið betra og réttlátara. Alþýðuflokkurinn setur sér að breyta til frambúðar gerð íslensks efnahagslífs og móta það eftir hugsjónum jafnaðar og lýðræðis. Þjóð- féíag jafnaðarstefnunnar er reist á frelsi einstaklingsins og lýðræðisleg- um samskiptum manna. Þar skulu allir njóta jafnréttis við að móta líf sitt og lifsgengi, umhverfi og vinnustað. Frelsi einstaklingsins á að hvíla áefnahagslegu og félagslegu öryggi, því að án þess verðurenginn frjáls. • Alþýðuflokkurinn vill að vinnan njóti viðurkenningar sem undir- staða þjóðlífsins. • Hann krefst að öllum sé tryggð örugg og lífvænleg atvinna. • Hann stefnir að jöfnun lífskjara og auðlegðar. • Hann vill lýðræðislega dreifingu valdsins yfir fjármagni og atvinnu- tækjum. • Alþýðuflokkurinn krefst efnahagslegs jafnréttis allra þegna þjóðfé- lagsins. Alþýðuflokkurinn telur, að beita skuli áætlunarbúskap til þess að hagnýta þekkingu, atvinnutæki og fjármagn á þann hátt, sem þjóðinni er hagkvæmastur þegar til lengdar lætur. Með auknu lýðræði í efna- hagslífi telur hann, að tryggja eigi áhrif hins vinnandi manns, en sam- söfnun fjármálavalds og auðs í höndum fárra sé andstætt lýðræði og jafnrétti. Úr ágöllum efnahagslífsins verður ekki bætt með lögum og reglum einum saman. Þeim verður að fylgja eftir með einbeittri og heiðarlegri framkvæmd. Reglur eiga að vera ákveðnar, einfaldar og framkvæmanlegar. Ein- falda þarf ríkisreksturinn og veita almenningi og fjölmiðlum aðgang að upplýsingum um hann, svo að hann njóti aðhalds og allur almenningur taki virkan þátt í mótun efnahagsstefnu. Jöfnuður er lífsgæði í sjálfu sér. Sjálf tekjuskiptingin í þjóðfélaginu þarfnast stöðugrar endurskoð- unar með það i huga að gera á henni breytingar er miði að auknu rétt- læti og jöfnuði og tryggi að lægstu laun nægi fyrir mannsæmandi lífi hverrar meðalfjölskyldu. VINNAN Alþýðuflokkurinn telur, að vinnan sé grundvöllur allrar velferðar og vinnuviljinn sé verðmætasta eign þjóðarinnar. • Sérhver maður á rétt á vinnu við sitt hæfi. • Sérhver maður á rétt á þvi, að vinnan veiti honum ánægju og hann njóti þess að sjá tilgang hennar. • Sérhver maður á rétt á því að atvinna hans og vinnuframlag njóti virðingar. Afrakstur vinnunnar á að nota til þess að mæta þörfum einstaklinga og samfélags. Þess vegna verður ákvörðunarréttur yfir framleiðslunni að vera í höndum fólksins alls. Skipulagi framleiðslunnar á að haga þannig, að sérhver maður njóti virðingar af vinnu sinni og geti verið þess fullviss, að öryggi hans og heilsu sé ekki hætta búin af henni. Þess vegna á hann rétt til áhrifa á skipulag vinnunnar. Fulla atvinnu verður ævinlega að tryggja. Atvinnuleysistryggingar eru nauðsynlegar til öryggis, en þær geta ekki komið í stað vinnunnar. Atvinnuleysi er alvarlegt böl fyrir þá, sem fyrir því verða, jafnvel þótt afkomu þeirra sé borgið. Það getur aldrei talist eðlilegt ástand að verk- fúsum huga og höndum sé synjað um vinnu, meðan óleyst verkefni blasa við hvarvetna. Slíkt er ekki annað en sjúkdómseinkenni á þjóðfé- laginu. Ekki er nóg að heildarframboð á atvinnu mæti eftirspurn, heldur verða störfin að hæfa fólkinu. Atvinnan þarf að dreifast um landið en hagkvæmni og hagsýni skal gæta í staðarvali atvinnurekstrar. Starfsmenntun á að vera i samræmi við verkefnin og hefur skólakerf- ið þar mikilvægt verk að vinna, ekki síst við endurmenntun og símennt- un. Fólk með skerta starfsgetu vegna heilsubrests eða aldurs skal eiga rétt á atvinnu við sitt hæfi, einnig þeir sem horfið hafa af vinnumarkaði i lengri eða skemmri tíma. KJARAMÁL Á íslandi ríkir ekki kjarajöfnuður, m.a. vegna misskiptra yfirráða yfir fjármagni og misskipts stjórnmálavalds. • Alþýðuflokkurinn berst gegn misskiptingu auðs og aðstöðu. • Hann er málsvari launastéttarinnar í baráttunni um skiptingu eigna og tekna. • Hann vill, að launþegar og neytendur fái aukna hlutdeild í eigna- myndun og aukin áhrif á tekjuskiptingu og verðlagsmyndun. • Tryggja ber öllum fullan afrakstur vir.nu sinnar. • Enginn skal þurfa að óttast um lífsafkomu sína og sinna. Alþýðuflokkurinn telur, að ríkisvaldið og samtök vinnumarkaðarins verði að móta stefnu í launamálum, sem tryggi bættan hlut launafólks, sérílagi hinna lægstlaunuðu, og sanngjörn launahlutföll, er miði að auknum tekjujöfnuði milli hinna ýmsu starfshópa þjóðfélagsins. Jafn- framt þarf að stemma stigu við, að ófyrirleitnir sérhagsmunahópar geti með ofríki aukið á misrétti tekjuskiptingarinnar sér i hag. Alþýðuflokkurinn telur frjálsan samningsrétt launþega grundvallar- mannréttindi í hverju lýðræðisþjóðfélagi, mannréttindi sem Alþýðu- flokkurinn hlýtur, alltaf ogævinlega að berjast fyrir ogstanda vörð um. Alþýðuflokkurinn styður launþegasamstökin í þvi að móta kjara- samninga á hverjum tíma og telur að efla beri fræðslustarf og sérfræði- stofnanir launaþegasamtakanna. Aðgerðir ríkisvaldsins hafa úrslitaáhrif á lífskjör almennings. ítök launafólks í Iandsstjórn ráða því miklu um möguleika þess að bæta kjör sin. Reynslan hefur sýnt, að kjarajöfnuði verður ekki náð með launa- stefnu einni saman. Þvi telur Alþýðuflokkurinn, að beita eigi félagsleg- um aðgerðum á sviði tryggingarmála, skattamála og í verðlagsmálum til þess að ná jöfnuði í lífskjörum. SKATTAMÁL Stcfnan i skattamálum á að veita efnahagslegt svigrúm til þess að sjá fyrir nauðsynlegum sameiginlegum þörfum fólksins i landinu og stuðla að skynsamlegum atvinnubúskap. Með skattlagningu og öðrum fjármálalegum aðgerðum rikisins á að stefna að kjarajöfnuði í samfélaginu, minnka bilið milli fátækra og ríkra og stuðla að auknum jöfnuði tekna og eigna manna. Skattkerfið á að nota til þess að beina framleiðslu og neyslu á þær brautir, sem eru til samfélagslegra heilla. Skattkerfið á að vera einfalt í sniðum og auðvelt í framkvæmd. Skattaeftirlit verður að vera öflugt og óhlutdrægt. Núverandi tekjuskattur er nær hreinn launamannaskattur. Þorri fyr- irtækja og einstaklinga, sem stunda atvinnurekstur, greiðir lágan eða engan tekjuskatt. Jafnaðarmenn litu Iöngum á tekjuskattinn sem hent- ugt tæki til aðstöðujöfnunar í þjóðfélaginu. Reynslan sýnir hins vegar, að þrátt fyrir endurteknar atlögur að endurskoðun skattaákvæða, birt- ist í álagningu tekjuskattsins hið argasta óréttlæti. Flóknar reglur Ieiða oft til ranglætis og ójafnaðar. Kerfið hefur gengið sér til húðar. í stað þess að verka til jafnaðar, felst í því óréttlæti og mismunum milli stétta, launþegum í óhag. Aðrar leiðir eru nú færar til þess að ná þeim markmiðum jafnaðar, sem tekjuskattinum voru áður ætluð. Alþýðuflokkurinn vill því að tekjuskattur af öðrum launum en hin- um hæstu verði afnuminn, en neyslu- og veltuskattar komi í hans stað. Alþýðuflokkurinn vill • að ekki verði greiddur tekjuskattur til ríkisins af öðrum launum, en hinum hæstu. • að greint verði á milli atvinnurekstrar einstaklinga og einkabúskapar þeirra. • að þyngri viðurlög verði við skattsvikum. • að komið verði á staðgreiðslukerfi skatta. Til þess að jafna tekjur manna og aðstöðu í þjóðfélaginu á að beita tryggingakerfinu, aðgerðum i húsnæðismálum og heilbrigðismálum. Kerfi neysluskatta, tolla og niðurgreiðslna á að sníða þannig að álögum sé létt af nauðsynjum heimilanna. Auka ber tekjur af eignasköttum með sannvirðismati á stóreignum. Söluskatti á að breyta í virðisauka- skatt til þess að ná virkara eftirliti og betri skilum. Gegn skattsvikum þarf að snúast með því að stórefla skattaeftirlit og herða viðurlög og með stöðugri endurskoðun á bókhalds- og skattalögum. TRYGGINGAR Markmið tryggingakerfisins er jöfnuður lífskjara og frelsi frá ótta um afkomu og Iifsbjörg. Með því á að veita öryggi frá vöggu til grafar gegn áföllum af slysum, sjúkdómum og öðrum erfiðleikum, sem ógna af- komu fólks. Tryggingakerfinu á að beita til þess að jafna tekjuskiptinguna og að- stöðu fólksins í landinu. • Alþýðuflokkurinn vill víðtækt tryggingakerfi, vinnur að fullkomnun þess og vill að girt verði fyrir misnotkun trygginganna. • Alþýðuflokkurinn vill gera tryggingakerfinu kleift að greiða ríflegan ellilífeyri, sjúkrakostnað, slysabætur, örorkulifeyri, barnalífeyri, makabætur, fjölskyldubætur, mæðralaun og fæðingarorlof. • Alþýðuflokkurinn styður víðtækar tryggingar gegn atvinnuleysi. Jafnframt þessu leggur Alþýðuflokkurinn áherzlu á, að trygginga- kerfi megi ekki verða að bákni, sem býður heim tortryggni og eykur hættu á misnotkun. Það á að vera auðskilið og aðgengilegt. Alþýðuflokkurinn berst fyrir sameiginlegum lífeyrissjóði allra lands- manna, sem greiði verðtryggðan lífeyri. Þessi sameiginlegi sjóður leysi hina mörgu lífeyrissjóði af hólmi. Alþýðuflokkurinn vill skipuleggja uppbyggingu liskiskipaflotans. Alþýðuflokkurinn leggur áherslu á: • sameiginlegan Iífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. • að ákveðin lágmarksupphæð, sem nægi til framfæris, komi ávallt til greiðslu. • að lífeyririnn verði verðtryggður. • að lífeyrisgreiðslur fari að nokkru eftir greiðslum til sjóðsins, en að hluta renni afgjöld hátekjumanna til að hækka greiðslur til hinna verr settu. • að núverandi lífeyrissjóðir leggi fram stofnfé. • að ríkið leggi fram fé sem svarar til ellilauna almannatrygginga. • að sjóðnum verði að öðru leyti aflað tekna á svipaðan hátt og Iífeyris- sjóðunum nú. • að fjármunir sjóðsins verði ávaxtaðir um allt land eftir ströngum regl- um. Þetta fyrirkomulag þarf aðlögunartíma. Þeir menn, sem nú njóta eftirlauna úr lífeyrissjóði eða nálgast það mark að njóta þeirra, verða að halda rétti sínum óskertum. Hitt má svo öllum vera ljóst að misrétti verður ekki útrýmt og jöfnuði komið á án þess að skerða hagsmuni ein- hverra. Verðlag og neytendur Alþýðuflokkurinn leggur áherslu á stöðugt verðlag í landinu og telur að verðbólga og hagsmunapot sem af henni leiðir bitni fyrst og fremst á þeim sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Alþýðuflokkurinn styður heilbrigða starfsemi neytendasamtaka í landinu því að þau geta með starfsemi sinni veitt versluninni nauðsyn- legt aðhald og staðið vörð um rétt neytenda í landinu. FJÁRMAGN OG LÁNSKJÖR Meðal annars vegna þess að skuldir hafa verið gróðalind á íslandi, hef- ur eftirspurn eftir takmörkuðu fjármagni þjóðarinnar verið mikil, jafnvel til hluta, sem lítt eru arðbærir í sjálfu sér. Geypimikil ábyrgð og vald er lagt i hendur þeirra, er úthluta lánsfé banka og sjóða. Stjórnmál- in hafa að mikium hluta snúist um meðferð þessa valds, sem er einn háskalegasti tengiliður stjórnvalds og auðvalds og hefur leitt af sér margvíslega spillingu. Félagslega æskilega fjárfestingu á að styrkja utan hins almenna lána- markaðar. Sjóðsstjórnir eiga að starfa fyrir opnum tjöldum og bera upplýsinga- skyldu um allar fjárveitingar, að svo miklu leyti sem það brýtur ekki í bága við trúnaðarskyldu sjóðanna og friðhelgi einkalífsins. Alþýðuflokkurinn vill: • aðskilja peningavald og pólitískt vald. • að þingmenn séu ekki í stjórnum banka og sparisjóða. BYGGÐASTEFNA • Alþýðuflokkurinn vill treysta byggðina í landinu með skipulagðri at- vinnuuppbyggingu hvers landshluta. í efnahagsmálum • Auka ber frumkvæði og sjálfræði heimamanna í hverju héraði og Iandshluta. • Allir landsmenn, hvar sem þeir búa, eiga jafnan rétt til þjónustu ríkis- valdsins og skulu hafa jafnan aðgang að henni. • Alþýðuflokkurinn berst fyrir jafnri aðstöðu fólks, hvar sem það býr á landinu. Skipulagslaus þróun byggðar á íslandi hefur leitt og hlýtur að leiða til röskunar, sem er andstæð þjóðarhag og þjóðarvilja og leiðir örðug- leika yfir fjölda einstaklinga. Aðeins nteð áætlunarbúskap og forystu ríkisvaldsins verður byggðaþróun beint á farsælar brautir. í hverjum landshluta er þörf fjölþættrar atvinnuaukningar í iðnaði, þjónustu og opinberri starfsemi ásamt frumframleiðslu. Ef afskekkt byggðarlög geta ekki boðið ibúum sínum upp á mann- sæmandi Iífsskilyrði hvað snertir afkomu, öryggi og almenna þjónustu, þá á fólkið sem þar býr rétt á aðstoð þjóðfélagsins til þess að koma sér og sínum fyrir á ný. Ákvörðunarvald í málum Iandshlutanna á sem mest að vera í hönd- um heimamanna, og þurfa þeir að finna hentuga verkaskiptingu milli núverandi sveitarfélaga og stærri eininga. Sú þjónusta, sem kostuð er af ríkinu, svo sem skólamenntun, heilsu- gæsla og vegasamband, á að vera öllum jafn aðgengileg. Ríkisstofnun- um á að dreifa um landið á hagkvæman og réttlátan hátt. Einnig er þörf átaks til að veita íbúum allra byggðarlaga sem greiðastan aðgang að allri félagslegri og menningarlegri þjónustu. Byggðastefna er jafnréttismál samtímans og eitt aðalviðfangsefni þess áætlunarbúskapar, sem Alþýðuflokkurinn vill koma á. í henni felst að öll landsvæði njóti jafnréttis til sameiginlegs fjármagns Iands- manna til uppbyggingar atvinnu og nýrra starfa. REKSTRA RIORM — ATVINNUL ÝÐRÆÐI • Alþýðuflokkurinn krefst lýðræðislegra yfirráða þjóðarinnar yfir at- vinnulífi sínu. • Hann vill dreifa efnahagsvaldinu meðal hins vinnandi fólks. • Hver maður á rétt til að njóta vinnu sinnar og afraksturs hennar. • Launþegum ber hlutdeild í rekstri og stefnumótun fyrirtækjanna. Það er andstætt jafnaðarstefnunni að yfirráð yfir fjármagni veiti rétt til að ráðstafa vinnu almennings og afrakstri hennar. Atvinnulífið á að þjóna hagsmunum þjóðarinnar í heild og vera undir hennar stjórn, það eitt er jöfnuður og lýðræði. Því var ríkiseign helstu atvinnutækja Iöngum stefnumið jafnaðar- manna. Nú hefur það verið endurmetið í ljósi nýrra aðstæðna. Hinir þjóðkjörnu valdhafar ráða hagstjórnartækjum, sem nægja til að móta á skipulegan hátt þróun atvinnulífsins og leiðrétta skiptingu teknanna, þótt aðeins lítill hluti atvinnutækjanna sé beinlínis undir þeirra stjórn. Innan ramma áætlunarbúskapar og almennrar hagstjórn- ar er rétt að fyrirtækin njóti sjálfstæðis, þannig að efnahagsvaldinu sé dreift. Mörg atvinnutæki eru þó svo mikilvæg i atvinnulífi og valdakerfi landsins og einstakra byggðarlaga, að þau eiga að vera samfélagseign og stjórnendur þeirra ábyrgir fyrir almenningi. Eigendur þeirra geta verið sveitarfélög, samvinnufélög og sjóðir í umsjá launþegasamtaka, og er slíkt eignarform oft vænlegra til að dreifa valdinu en bein ríkis- eign. Samfélagseign í þessum myndum —- þjóðnýtingu í víðustu merkingu — vill Alþýðuflokkurinn aukaog finna henni sem lýðræðislegust form. Við hlið miðstýrðs áætlunarbúskapar er hún aðalstoð þess lýðræðis- lega efnahagslífs sem jafnaðarmenn vilja. Atvinnurekstur, sem aðkaliandi er að færa í almannaeign, er banka- starfsemi, tryggingar, lyfsala, heildverslun með oliuvörur og mikilvæg fyrirtæki í útgerð og fiskvinnslu. Auk lýðræðislegrar stjórnar á meginþáttum atvinnulífsins á vinn- andi fólk rétt til áhrifa, hver á sínum vinnustað, til þess að laga vinnu- staðina og tilhögun vinnunnar að vilja sínum og þörfuin og gera starfið frjórra. í rekstri sem ekki er stór í sniðum né fjármagnsfrekur, verður þessu marki best náð með því að hann sé eign þeirra einstaklinga sem við hann vinna. Slíkan einstaklingsrekstur styður Alþýðuflokkurinn. Flest vinnandi fólk hlýtur þó áfram að verða launþegar, og vill Al- þýðuflokkurinn tryggja þeim aðild að stjórnun fyrirtækjanna. Leiðir til þess eru einkum: • upplýsingar eigenda og stjórnenda atvinnufyrirtækja til starfsfólks um afkomu fyrirtækisins og fyrirætlanir í nánustu framtíð, upplýs- ingar sem aðgengilegar séu öllum þeim sem við fyrirtækið vinna. • aðild starfsfólks að stjórn fyrirtækja og stofnana. • áhrif verkalýðsfélaga og trúnaðarmanna þeirra. • eignaraðild starfsfólks að fyrirtækjum, sem það vinnur við í formi samvinnufélags, hlutabréfa eða öðrum þeim hætti sem henta þykir. Atvinnuvegir og ÁÆ TLUNARBÚSKA PUR • Atvinnuvegi og áætlunarbúskap verður að miða við þarfir ein- staklinga og samfélagsins í heild. Þess er engin von, að íslenskt atvinnulíf taki á sig skynsamlega mynd nema fyrir víðtæk ríkisafskipti og áætlanagerð. Mikið af íslensku atvinnulífi, ekki síst verslunar- og þjónustu- greinar, er annað hvort einokunarkennt í eðli sínu eða býr við þannig lagaða samkeppni, að hún leiðir frekar til arðlausrar og óþarfrar fjárfestingar en hagstæðs verðlags. í þeim tilvikum er nauðsynlegt, að reksturinn lúti skipulagi hins opinbera og einok- unargróði sé takmarkaður eftir föngum, meðal annars með verð- lagshömlum. Sjósókn þarf að skipuleggja til að nýta fiskimiðin hóflega. Landbúnaður þarf á sérstökum stuðningi að halda. Dreifaþarf atvinnu um landið á hentugan hátt. Margar atvinnu- framkvæmdir eru svo stórar í sniðum, að í þær verður ekki ráðist án atbeina ríkisins. Allt hnígur þetta að því, að ríkið og almanna- sjóðir verði að hafa tök á að stýra markvisst atvinnuuppbygging- unni í landinu, ýmist með eigin framkvæmdum, með leyfisveit- ingurn eða með úthlutun fjármagns. Markaðsöfl og einkafram- tak eiga hlutverkum að gegna, en aðeins innan marka heildar- skipulags og áætlunarbúskapar. Ríka áherslu verður að leggja á nýjar atvinnuskapandi og arð- bærar atvinnugreinar og fjölbreytni í atvinnulífinu í heild. Ymis konar smáiðnaður hentar víða í þjóðfélaginu og ber að efla hann og styðja og veita honum sanngjarna aðstöðu til upp- byggingar. SJÁ VARÚTVEGUR • Alþýðuflokkurinn vill markvissa heildarstjórn á nýtingu auðlinda hafsins, svo að þjóðin njóti til frambúðar fulls afraksturs þeirra. • Hann styður fljótvirkar heimildir til þeirra friðunaraðgerða, sem þörf krefur á hverjum tíma. • Hann vill efla rannsóknir og tilraunir til að auka sjávaraflann og nýt- ingu hans. • Hann leggur áherslu á fiskeldi og fiskirækt, nýtingu nýrra fiskistofna og fullvinnslu sjávaraflans í landinu sjálfu. • Hann vill skipuleggja uppbyggingu fiskiskipaflotans og fiskvinnsl- unnar í samræmi við sóknarþol fiskistofna og atvinnuþörf byggðar- laga. • Nýta ber fleiri fiskstofna og nýjar vinnsluaðferðir. • Mikilvægustu útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki eiga að vera almenn- ingseign. Hinar gjöfulu auðlindir hafsins eru meginundirstaða velmegunar á íslandi. Þær eru nú í hættu vegna rányrkju. Brýnasta verkefni hag- stjórnar á íslandi er að skipuleggja nýtingu miðanna þannig, að af- rakstur þeirra sé tryggður til frambúðar. Setja þarf víðtækar og sveigj- anlegar reglur til verndar seiðum og ungfiski. Að öðru leyti á að taka aflann með þeim skipum og veiðarfærum sem hagkvæmust eru, og halda sókninni í skefjum með því að hafa stjórn á stærð skipastólsins. Fiskimið eru auðlind af því tagi, sem ekki verður jiýtt skynsqmlega nema með víðtækum áætlunarbúskap. Fiskvinnsla er ein arðsamasta framleiðslugrein þjóðarbúsins, lang- mikilvægasta útflutningsframleiðslan og meginstoð atvinnu í mörgum byggðarlögum. Því ber að leggja sérstaka rækt við hagkvæma uppbygg- ingu hennar í samræmi við fastmótaða byggðastefnu. Vegna þess hve mikið veltur á útgerð og fiskvinnslu, bæði fyrir þjóð- arheildina og fyrir einstök byggðarlög, eiga mikilvægustu fyrirtæki í þessum greinum að vera almenningseign með einum eða öðrum hætti og yfirráð yfir þeim jafnan í höndum heimamanna á hverjum stað. Efla ber rannsóknir og tilraunir til að auka sjávaraflann og nýtingu hans. Sérstaklega má nefna fiskklak og fiskrækt, nýtingu nýrra fisk- stofna og fullvinnslu sjávaraflans í landinu sjálfu. ORKA OG IÐJA • Alþýðuflokkurinn vill hraða nýtingu innlendra orkulinda til að spara gjaldeyri og efla atvinnurekstur landsmanna. • Fjölþætt iðnvæðing er Ieiðin til að auka arðbæra atvinnu í landinu. íslenskur iðnaður þarf að standast samkeppni, bæði á innlendum markaði og erlendum, og ber að taka fullt tillit til hans við mótun efnahagsstefnu. • Við uppbyggingu stóriðju verður að tryggja efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar gagnvart erlendum stórfyrirtækjum og fullkomna um- hverfis- og náttúruvernd. Orkulindir náttúrunnar, fallvötn og jarðvarmi, eru auðlindir, sem efling íslensks atvinnulífs hlýtur að byggjast á að verulegu leyti. Það er bæði fjárhags- og öryggisatriði að nýta innlenda orku í stað innfluttrar. Ódýr upphitun er mikilvægur þáttur almennra lífskjara, og nægileg orka er forsenda iðnvæðingar. Iðnrekstur í landinu á fyrst og fremst að vera í höndum landsmanna sjálfra. Þó getur verið fengur að fáeinum stórfyrirtækjum af því tagi, sem landsmenn hafa ekki bolmagn til að reisa á eigin vegum, ef þau eru annarri atvinnuuppbyggingu til styrktar. Verður þá að búa svo um hnúta, að vinnumarkaður og efnahagslíf íslendinga sé sem minnst háð erlendum eigendum slíkra fyrirtækja. Náttúra landsins er íslendingum mikils virði. Þjóðin hefur ráð á því að skerða nokkuð virkjunar- og stóriðjumöguleika sína til að forðast náttúruspjöll. LANDBÚNAÐUR • Alþýðuflokkurinn vill efla landbúnað á íslandi og nýta þannig þá auðlind, sem gróður landsins er. • Landbúnaðinn og markaðskerfi hans ber að endurskipuleggja þann- ig að framtak bænda og hagsýni þjóni hagsmunum landsmanna. • Efla ber nýjar búgreinar og áhersla lögð á fjölbreytni í íslenskum landbúnaði. • Með skipulagðri nýtingu, markvissri uppgræðslu og verndun of- nýttra landsvæða ber að auka að nýju gróðurlendi Islands. Alþýðu- flokkurinn styður og vill efla skógrækt í samvinnu við bændur.

x

Alþýðumaðurinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Alþýðumaðurinn
https://timarit.is/publication/597

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.