Fréttablaðið - 20.06.2011, Side 13
MÁNUDAGUR 20. júní 2011
Hvernig ætli að sé að vera köttur? Smjúga um grasið og
inn í myrkviðinn, bíða í sínu bæli,
hlusta, sleikja sig, blunda… Eða
hundur? Öll skilningarvitin þanin
til að þjóna þessu eina markmiði:
að finna slóðina, verja svæðið,
sækja bráðina. Og hvernig ætli
það sé eiginlega að vera kýr?
Liggja og horfa á heiminn í allri
þessari miklu jórtrandi rósemd
…
Hvernig ætli það sé að vera
hestur? Eða fugl og svífa í heim-
inum? Við vitum það ekki. Við
höfum komið okkur upp hugvit-
samlegum aðferðum við að kúga
dýr, lifa á þeim sníkjulífi, flá þau
og drepa þau til nytja og ónytja
– og við höfum líka laðað þau að
okkur til að hafa við þau samfé-
lag – en við vitum svo sem ekkert
um vitund þeirra, líðan, sálarlíf.
Ekki í raun og veru. Við höldum
stundum að þau séu öll eins og
hugsi eins: séu „dýrin“ og úr því
að ánamaðkurinn segir heldur
fátt þegar við skerum hann í
tvennt sé í lagi að pína ketti.
Hvernig ætli það sé að láta
flá sig? Að hírast í búri? Vera
ófrjáls? Til þess að við þyrftum
ekki að gera okkur slíkt í hugar-
lund var það lengi trúarsetning
að dýr hefðu ekki sál en væru
vélar og enn er nútíma landbún-
aður stundaður með þá hugmynd
að leiðarljósi.
Guð var þá sagður hafa skapað
manninn í sinni mynd og afhent
honum jörðina til ráðstöfunar,
eins og nokkurs konar útskriftar-
gjöf að loknu námi í Paradís.
Descartes taldi að dýrin væru
sneydd hugsun – en reyndar
ekki skynjun – hann var ekki
jafn harður og Íslendingar sem
tala um „skynlausar skepnur“,
þótt ástin á stuðlasetningu hafi
þar kannski eins og víðar ráðið
för við útmálun heimskulegrar
hugsunar. En Descartes leit sem
sé á náttúruna – og dýrin – sem
vélar og hlutverk mannsins væri
að átta sig á þessum vélbúnaði
sér til hagnýtingar. Lærisveinar
hans hafa um aldir notað hug-
myndir hans til að halda á lofti
þeirri bábilju að dýr hafi ekkert
sársaukaskyn. Þetta er frum-
stæð réttlæting firrtra manna
á óhæfuverkum og hún birtist í
ógeðslegum tilraunum á dýrum
og andstyggilegum aðbúnaði
á troðnum kjúklingabúum og
svínabúum víða um heim. Þessi
þankagangur býr raunar almennt
að baki umgengni mannanna við
gjafir Jarðarinnar, í námugreftri
og ekki síður stórkarlalegum
aðferðum við að beisla vatns-
orku án þess að framkvæmda-
menn gefi því gaum hvaða áhrif
virkjan irnar hafa á fljótin og
vatnafarið almennt þar sem
virkjað er: þeir sjá engan reyk og
kalla þetta því vistvæna orku.
Um þetta allt er nú tekist. Þetta
er stóra málið. Við verðum að
takast á um þetta allt saman. Við
verðum að fá að gera það.
Samræmd skoðun þjóðleg
Ýmsar hættur steðja að litlu og
einangruðu samfélagi eins og
því íslenska. Ein sú versta er
skoðana kúgun – tilteknar skoð-
anir verða að ríkjandi og óum-
deildri og óumdeilanlegri sýn
og í kjölfarið eru nánast bann-
aðar andstæðar hugmyndir. Slíkt
ástand upplifði fólk á Austurlandi
á sínum tíma: fólk sem andvígt
var virkjunum mátti þá sæta
ýmiss konar ofsóknum.
Við verðum að vera vakandi.
Við þurfum að standa vörð um
réttindi fólks til að láta í ljós
skoðanir sínar á opinberum vett-
vangi með hverjum þeim hætti
sem því þykir áhrifamestur
hverju sinni. Við teljum þrátt
fyrir allt að við lifum hér í opnu
samfélagi þar sem hugmyndirnar
að takast á. Fólk á hér líka í þrot-
lausri samræðu um hvaðeina. Við
rífumst um yfirstjórn þjóðkirkj-
unnar, skipulag fiskveiða, stjórn
peningamála, lánamál, samgöng-
ur, Icesave, Evrópusambandið,
fótbolta, skipulagsmál – allt milli
himins og jarðar – nema eitt
virðist ekki mega deila um; í einu
skal ríkja ein samræmd skoðun
þjóðleg: Hvalveiðar.
Þetta er ótrúlegt. Hvalafang-
arar kvarta til Isavia sem rekur
Keflavíkurflugvöll yfir aug-
lýsingum hvalafriðara í Leifs-
stöð um hvalveiðar. Og Isavia
bara hlýðir. Biður auglýsendur
um að breyta þessum auglýsing-
um en fjarlægja ella – hvernig
þeim skuli breytt er ekki ljóst:
kannski á að lýsa yfir stuðningi
við hvalveiðar? Sjálfur get ég
sagt þetta: Ég lít ekki á það sem
frumburðar rétt minn sem Íslend-
ings að veiða hvali. Mig langar
hreinlega ekkert til þess.
En mig langar stundum að
vita hitt: hvernig ætli það sé að
vera hvalur? Maður sér þá lyfta
sér upp úr sjónum og eru alveg
áreiðanlega miklu mikilfenglegri
en svo að eiga að veiðast veiðanna
vegna. Hvalararnir eru alltaf að
segja okkur að það sé íslensk hug-
sjón að fá að veiða þessi dýr. Ekki
til að selja af þeim kjötið, því það
vill enginn og ekki út af lýsinu
sem selst ekki og ekki til að búa
til sápu eins og einu sinni tíðkað-
ist – nei, eina ástæðan fyrir því
að Íslendingar skuli veiða hvali
mun vera sú að láta ekki aðrar
þjóðir segja sér fyrir verkum. Er
til verri ástæða?
Hvernig ætli það sé annars að
vera maður? Jú, mennirnir hugsa
sjálfstætt, álykta, segja hug sinn,
ganga uppréttir.
Guðmundur Andri
Thorsson
rithöfundur
Í DAG
Undanfarið hefur RÚV stært sig af því að í uppsiglingu sé
íslenskt kvikmyndasumar, sýna
eigi fjölda íslenskra bíómynda,
bæði nýlegar og gamlar og góðar,
sannkölluð kvikmyndaveisla.
Þetta væri vissulega eitthvað til
að hrópa húrra fyrir – ef maður
væri andvökusjúklingur. Fyrsta
myndin sem greiðendum afnota-
gjalda var boðið upp á var nýjasta
mynd Dags Kára Péturssonar, The
Good Heart. Það skal undirstrikað
sérstaklega að um frumsýningu á
íslenskri kvikmynd á RÚV er að
ræða og maður myndi því ætla að
henni væri valinn besti hugsanlegi
tími í dagskránni eins og slíkum
viðburði er sæmandi.
Ríkissjónvarpið kaus að sýna
myndina aðfaranótt annars í
hvítasunnu, nánar til tekið þegar
klukkan var tíu mínútur gengin í
eitt eftir miðnætti. Eftir að mér
var runnin mesta reiðin yfir þess-
ari fráleitu tímasetningu (sýningu
myndarinnar lauk þegar klukkuna
vantaði tíu mínútur í tvö!) fór ég
að velta því fyrir mér hvaða mögu-
legu ástæður gætu legið að baki
þeirri ákvörðun að ræna stærsta
hluta þjóðarinnar þeirri ánægju
að horfa á íslenska kvikmynd.
The Good Heart er ekki hryllings-
mynd, hún er meira að segja leyfð
til sýninga fyrir alla aldurshópa.
Við nánari eftirgrennslan kemur
í ljós að sömuleiðis stendur til að
sýna þrjár stuttmyndir Rúnars
Rúnarssonar kl. 23.10 á fimmtu-
dagskvöldi, líka Skytturnar eftir
Friðrik Þór Friðriksson. Mér létti
örlítið að sjá að bæði Með allt á
hreinu og Sveitabrúðkaup verða á
skikkanlegum tíma, börn og kvöld-
svæfir eiga þannig möguleika á
að sjá þær ágætu myndir en mis-
ræmið í þessum tímasetningum er
óskiljanlegt.
Íslenskar bíómyndir eru eins og
krakki sem fær helst ekki að vera
með en ef honum er leyft það þá
er hann hunsaður og ekki hleypt í
leikinn. Hvort tveggja er ömurleg
framkoma. Ég get ekki fundið eina
einustu skýringu á því að íslensk-
ar myndir séu settar á dagskrá um
miðja nótt aðra en þá að forsvars-
mönnum RÚV sé hreinlega í nöp
við íslenska kvikmyndagerð eða
að um einhvers konar refsingu sé
að ræða – að þau ætli sér að senda
kvikmyndabransanum þau skila-
boð að RÚV vilji sem minnst hafa
saman við hann að sælda. RÚV
myndi í raun sýna íslenskum kvik-
myndum meiri sóma með því að
sleppa því hreinlega að setja þær
á dagskrá í stað þess að reisa þeim
eitthvað í ætt við níðstöng á þenn-
an hátt.
Fyrst RÚV ákvað á annað borð
að kaupa sýningarréttinn á þess-
um kvikmyndum af hverju er
tækifærið þá ekki nýtt betur?
Fyrir tækið gæti í leiðinni rekið af
sér slyðruorðið varðandi hlut leik-
ins íslensks efnis í dagskránni.
Metnaðarleysi RÚV í þeim efnum
væri reyndar efni í aðra grein,
ef ekki greinaflokk. Sömu leiðis
mætti skrifa margar greinar til að
gagnrýna það að kjörtími (prime
time) Ríkissjónvarpsins skuli á
sama tíma og íslenskum kvik-
myndum er ýtt út í horn lagður
undir eitthvert þriðja flokks mót
ófullburða fótboltaliða.
Reiði mín helgast ekki eingöngu
af því að ég vinn sjálf við kvik-
myndagerð, virðingarleysið er
ekki síður og jafnvel enn þá meira
gagnvart áhorfendum. Í mínum
augum hafa forsvarsmenn RÚV
með þessari tilhögun endanlega
sýnt fram á vanhæfi sitt – ef þetta
fólk veldur ekki einu sinni því til-
tölulega einfalda verki að raða dag-
skrárliðum þannig að efnið skili
sér til sem flestra sem það á erindi
við þá á ekki að hleypa því í það,
hvað þá meira krefjandi verkefni á
borð við ákvarðanatöku sem varð-
ar dagskrárgerð og stefnu í þeim
málum. Hér er ekki verið að ræða
um mismunandi smekk eða sjón-
armið sem hægt er afgreiða sem
álitamál, það hlýtur hver einasti
maður að sjá að það er gjörsam-
lega glórulaust að sýna íslenskar
bíómyndir eftir háttatíma, jafnvel
þótt það sé frídagur daginn eftir.
Nú vona ég að einhver sem ræður
einhverju þarna í Efstaleitinu
átti sig á mistökunum og leiðrétti
þau til að sem flestir fái að njóta
kvikmyndanna sem enn á eftir að
sýna. Ef ekki þá er RÚV að bregð-
ast því hlutverki sínu að stuðla að
því að gera íslenskt menningarefni
aðgengilegt sem flestum.
Íslenskar kvikmyndir hornreka á RÚV
Menning
Margrét
Örnólfsdóttir
kvikmyndagerðarkona
Hvernig ætli það sé?
Við þurfum að standa vörð um réttindi
fólks til að láta í ljós skoðanir sínar á
opinberum vettvangi með hverjum þeim
hætti sem því þykir áhrifamestur hverju sinni.