Faxi

Árgangur

Faxi - 01.05.1960, Blaðsíða 5

Faxi - 01.05.1960, Blaðsíða 5
F A X I 69 Samsöngur í Keflavík Laugardaginn 30. apríl síðastliSinn hélt Karlakór Keflavíkur tvenna tónleika í Bíóhöllinni í Keflavík. Voru þetta fyrstu tónleikar kórsins á árinu og haldnir fyrir styrktarfélaga, en húsið var fullsetið á báðum hljómleikunum og kór og söng- stjóra ákaft fagnað. Karlakórinn hefur æft af miklu kappi á síðastliðnum vetri undir ötulli stjórn söngstjóra síns, Herberts Hriberscheck, sem er Austurríkismaður, er starfar að hljómlistarmálum í Reykjavík og hér í Keflavík. Einsöngvarar með kórnum voru þeir Guðjón Hjörleifsson, Böðvar Pálsson og Sverrir Olsen, undirleikari Gísli Magn- ússon, píanóleikari. Söngskráin var þannig: Island eftir Sigurð Þórðarson, Smala- drengurinn og smalastúlkan eftir Skúla Halldórsson, Bára blá, í útsetningu Sigfús- ar Einarssonar; einsöngvari Guðjón Hjör- leifsson. Ingaló eftir Karl O. Runólfsson, Útþrá eftir Bjarna J. Gíslason, einsöngvari Guðjón Hjörleifsson. Töfradalur eftir Hallgrím Helgason, A Sprengisandi eftir Sigvalda S. Kaldalóns; einsöngvari Böðvar Pálsson. Brennið þið vitar eftir Pál Isólfs- son, Sanctus eftir Fr. Schubert, O Isis, O Iris (aría úr Töfraflautunni eftir Mozart); einsögnvari Böðvar Pálsson. Pílagrímssöng- ur (úr Tannháuser) eftir Richard Wagner, tvö þýzk þjóðlög (Drei Lilien og Absied), útsett af Ed. Kremser, Ljúfur ómur eftir Bortniansky, rússneskt þjóðlag (Stjenka Rasin); einsöngvari Sverrir Olsen, Dóná svo blá eftir Johann Strauss. Eins og söngskráin ber með sér, voru viðfangsefni kórsins að þessu sinni hin prýðilegustu. Þar skiptust á innlend og erlend lög, sem unun var á að hlýða, en þar var einnig frumflutt gullfallegt lag eftir einn kórfélaganna, Bjarna J. Gísla- son lögreglumann. Lag þetta nefnist „Ut- þrá“ og er samið við kvæði eftir Kristin Pétursson bóksala. Eru höfundarnir báðir góðkunnir Keflvíkingar. Um karlakórinn má hiklaust segja, að aldrei hafi honum tekizt betur. Söngurinn var þróttmikill og glæsilegur og lýsti auknu öryggi, enda mun hann hafa æft stöðug- ar og meira í vetur en nokkru sinni áður. Hinar tvímælalausu framfarir kórsins má fyrst og fremst þakka dugmiklum og mikilhæfum söngstjóra hans, en vitanlega eiga kórfélagarnir sjálfir þakkir fyrir fórnfúst og tímafrekt starf til eflingar söng- mennta hér í Keflavík. Einsöngvarar kórsins skiluðu hlutverk- um sínum einnig með hinni mestu prýði, og sama máli gegndi um undirleikarann. Spurning er, hvort kórfélagarnir gera sér fyllilega ljóst, hvílíku menningarhlut- verki þeir gegna hér í þessu bæjarfélagi. Eg hygg það sé fyrst og fremst söngþráin, sú gleðinnar gullvængjaða dís, sem stjórn- að hefur för þeirra á söngæfingar á síð- kvöldum. En hvernig sem þetta nú er, þá er eitt víst, að á þessum fyrstu hljómleik- um kórsins leyndi það sér ekki, að Kefl- víkingar kunna að meta það, sem vel er gert, og sú fagnaðaralda, sem streymdi á móti söngmönnunum, þegar þeir gengu í hinn stóra, þéttsetna sal, fól vissulega í sér nokkur laun fyrir vetrarlangt stritið, og var söng þeirra félaga forkunnarvel tek- ið, enda urðu þeir að syngja mörg auka- lög, þar á meðal tvo óperukóra eftir Verdi. Síðan þetta var hefur kórinn sungið í Hafnarfirði við ágætar undirtektir, það var föstudaginn 6. maí. Laugardaginn 7. maí söng kórinn enn í Keflavík við góða aðsókn, en þriðjudaginn 10. maí héldu þeir félagar til Reykjavíkur, þar se'jj söng- ur þeirra var tekinn upp á segulband til væntanlegs flutnings í ríkisútvarpið við fyrstu hentugleika. Lengra nær ekki dagskipunin, þegar þessar línur eru ritaðar, en sjálfsagt halda þeir kórfélagar áfram að svngja sjálfum sér til lofs og heimbyggð sinni, Keflavík, til dýrðar. Vormót í knattspyrnu. Vormót Suðurnesja í knattspyrnu fór fram sunnudaginn 24. apríl s. 1. Aðeiné tvö félög tóku þátt í mótinu, þ. e. Ungmennafél. Kefla- víkur og Knattspyrnufélag Keflavíkur. Urslit urðu þau, að UMFK sigraði með 7 mörkum gegn 3. í hálfleik var staðan 7:0 fyrir UMFK. Þetta var 4. Vormót Suðurnesja í knatt- spyrnu og fyrsta sinn, sem UMFK vinnur það. KFK hefur unnið það þrisvar og vann í fyrra til eignar bikar, sem Vörubílastöð Keflavíkur gaf árið 1957. Nú var í fyrsta skipti keppt um bikar, gefinn af Sölvabúð. Nemendur til sjós Á síðasta Fiskiþingi kom fram ályktun þess efnis, að æskilegt væri, að nemendum í gagnfræðaskólum gæfist kostur á að kynnast sjónum og störfum sjómanna á fiskveiðibátunum. Ennfremur var talið nauðsynlegt, að piltum í þessum skólum yrði kennd beitning fiskilóða, meðferð þeirra og uppsetning. I þessu sambandi var það almenn skoðun á þinginu, að út- gerðin legði skólunum til húsnæði og ann- að það, sem með þyrfti við þessa kennslu og veitti aðra þá fyrirgreiðslu, sem þurfa þætti nauðsynleg. Margeir Jónsson, formaður Fiskifélags- deildar Keflavíkur og fulltrúi deildarinnar á þinginu, ræddi mál þetta við meðstjórn- armenn sína, og kom þeim saman um, að leita eftir samstarfi við skólastjóra gagn- fræðaskólans í Keflavík, Rögnvald Sæ- mundsson og Skafta Friðfinnsson, form. fræðsluráðs Keflavíkur. Niðurstaðan af þessum viðræðum varð sú, að um 80 piltar úr gagnfræðaskólanum fóru í einn róður með bátunum þann 25. apríl og voru 2 og allt upp í 5 drengir með hverjum bát. Má segja, að áhugi hinna ungu manna hafi verið mjög mikill, enda var veður- útlit gott þennan dag. Því miður fór samt svo, að veðurspáin brást vonum manna og gerði allhvassa norðaustanátt, svo að margir drengjanna nutu sín ekki til fulls. Þó munu þeir allir hafa haft bæði gagn og gaman af sjóferðinni. Hér má segja að merk nýjung hafi skotið upp kollinum og eiga forustumenn sjávarútvegsins og skólamálanna hér þakkir skildar fyrir þessa sérstæðu og raunhæfu tegund starfsfræðsludags hér í Keflavík, sem vonandi verður endurtekin og endurbætt með hliðsjón af fenginni reynslu. T. d. væri athugað, hvort ekki væri rétt, að drengirnir færu í tvo róðra samliggjandi, ef skipshafnir bátanna sæju sér það fært. Við þetta má bæta, að nú þegar hefur verið ákveðið, að strax á næsta hausti verði hafin skipuleg kennsla við gagnfræðaskóla Keflavíkur á meðferð fiskilóða, enda varla vanzalaust í fiskibæ eins og Keflavík, að ungir menn fái ekki tækifæri til þess að kynnast þessum störfum í höfuðatvinnu- vegi þjóðarinnar.

x

Faxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Faxi
https://timarit.is/publication/678

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.