Nýtt kvennablað - 01.12.1962, Blaðsíða 13

Nýtt kvennablað - 01.12.1962, Blaðsíða 13
Guðrún frá Lundi: GULNUÐ BLÖÐ FRAMHALDSSAGA „Alveg hörmulega," sagði Markús. Það leið ekki löng stund, þar til heimasætan breiddi hvítan dúk á borðið, heldur brosleit, og bar inn heitan silung og nýsoðin egg. Hún ætlaði að sýna þeim það, að hún kynni að bera á borð nógu myndarlega. Nikulás sparaði heldur ekki skjallyrðin við hana. Sigurlaug var þá eins og vanalega einhvers staðar nálæg. Hún sagði, að það hefði viljað svona vel til, að Markús hefði komið heim með nýjan silung og egg. „Það er ekki hægt að segja annað en hann hafi átt erindi hingað út á Nesið, þar sem hann framfærir þrjú heimili," sagði Nikulás háðslega, „og líklega er eitthvað eftir af hans ætlunarverki, þykist ég vita. Hér hafa for- lögin áreiðanlega verið að verki. Eða heldurðu það ekki Sigurlaug?" „Jú, áreiðanlega. Það máttu vera viss um, að hann hefur átt erindi og það mikið hingað úteftir til okkar. Kláus segir, að hann sé núna fyrst að njóta lífsins." „Já, ég fer að trúa því að til séu forlög," sagði Nikulás. „Eg er alveg hissa á því, að þú svona skynsamur maður skulir hafa efazt um það.“ — Markús var frammi í skála að sækja víntár út í kaffið, sem bræðurnir áttu að fá á eftir silungnum. — „Það er nú samt svo, að ég hef ekki trúað, að þau væru til og trúi ekki fyrr en þú hefur náð í Markús fyrir tengdason! En það sé ég, að þið ætlið ykkur. Það hefur ráðið breytingunni á ábúðarjarðnæð- inu.“ Sigurlaug hló lágt, en innilega. „Það þarf ekki að segja þér hvað eina, frændi. Þú skilur hlutina. Við tölum svo ekki um það meir.“ Nikulás þakkaði mæðgunum fyrir skemmtunina, þegar hann fór. Markús fylgdi honum úr hlaði. „Það er ekki amalegt að heimsækja þetta sambýlisfólk þitt. Kanntu ekki vel við þær mæðgurnar. Karlinn er nú skemmtilegur," sagði Nikulás, þegar þeir voru komnir inn að stekknum. „Þetta er hálfgert leiðinda dót. Karlinn er skárstur. Eg get aldrei fellt mig við það. Gyða mín hefði ekki verið eins hrifin af því, ef hún hefði þekkt það betur. Hún áleit það myndi bera mig á höndum sér og kerlingin sagðist hafa lofað henni að vera mér eins og góð móðir!“ „Nú mér sýnist þetta ganga bærilega milli ykkar. Þú veiðir silunginn, en þær sjóða hann, og Auðbjörg ber heim með þér ullarpokana. Þú hefur víst ekki undan neinu að kvarta, mér sýnast þær vera nógu stimamjúkar kringum þig.“ „Mér geðjast ekki að því samt. Eg fór að veiða silung handa gömlu konunni. Hún er allt öðruvísi en þær. Hún var sársvöng. — Það hefur ekki einu sinni að éta,“ sagði Markús. „Þú mátt vara þig á því, það er ekki vel vandað, en það er nógu slægviturt. Eg er búinn að frétta eftir karl- inum, að það ætlar að koma ykkur saman, þér og stelp- unni, til þess að þau geti lifað af reitunum þínum. Þess vegna keyptu þau jarðarpartinn, sem er þó alltof lítill fyrir þau, þessi flón! Kláus gaf stráknum á Atlastöðum það fyllilega í skyn. Þeir urðu samferða innan úr kaup- stað, og svo skildi ég það á stelpunni líka. Hún er ein- föld, greyið, enda hálfgerður krakki, þó hún sé stór.“ Markús horfði á hann rothissa. „Hvað svo sem er að marka, hvað fullir menn rugla. Þér dettur þó ekki í hug, að ég fari að hugsa um kvenfólk, og þessa þá líka leiðin- legu stúlku.“ „Það er ekki hægt að segja, að hún sé girnileg, en hún er víst dugleg. Það er ekki gott að vita, hvað þetta slóttuga fólk getur komizt langt. Hún er dugleg og hún er geðgóð. Þú ert farinn að láta hana ráðska fyrir þig. Þá færir hún sig upp á skaftið. Þetta er allt annað en álit- legt fyrir þig að flækjast í svoleiðis neti og þurfa svo að framfæra alla fjölskylduna.“ „Láttu þér ekki detta svona lagað í hug. Eg sé um mig. Það verður að reyna að búa í þessu félagi þetta árið, svo reyni ég að byggja jörðina eða fá mér einhverjar hræður í húsmennsku, sem geta matreitt handa mér og þjónað mér.“ „Reyndu að fá þér einhverja stúlku, sem ekki hefur heila fjölskyldu í eftirdragi. Það yrði ekkert betra, þó þú fengir dótturina frá Múla. Það æti þig út á húsganginn lika. Þú verður að hafa hana alveg ein- hleypa. Hitt er eldur í búi. Þá ertu líka góður. Verst að hafa þau þarna á þriðjungnum." Svo kvöddust bræð- urnir, báðir ánægðir. Nikulás heyrði, að það var engin hætta á ferðum. Honum hafði líka fundizt það ólíklegt, að Markús færi að hlaupa af sér hornin, kominn á þennan aldur. En Markús var sæll yfir því að hafa frétt af Gyðu og Sveinbirni. Vonandi væru þau nú komin alla leið núna. A hinu var hann hissa, að Nikulás skyldi fara að leggja eyra við drykkjurausinu úr karlskepnunni. Hann ætti að heyra það, sem upp úr honum sjálfum rann í fylliríisköstunum. Hitt hafði hann aldrei fundið, að Niku- lás hefði svo mikla bróðurást til hans, að hann væri að hugsa um, hvernig fólk kæmi fram við hann eða þá það, sem var allra fjarstæðast, að hann færi að hugsa um kven- mann. Það var víst bezt að vera laus við allt kvenfólk. Líklega hefði verið betra fyrir karlangann hann Kláus að vera laus við kerlinguna. Hann hefði áreiðanlega getað komizt áfram, þessi sívinnandi maður, sem allt lék í hönd- unum á, en barðist þó við fátæktina með kerlinguna síkveðandi, kófsveitta í eftirdragi. Það hefði verið heldur betra fyrir hann að vera einhleypur. Hann hefði getað unnið sér mikið inn og haft það bærilegt, þó hann fengi sér í staupinu einstaka sinnum. Samt var óneitanlega óþægilegt að hafa ekki kvenfólkið með í verkahringnum. Sumarið leið í friði og einingu. Það var eitthvert það indælasta, sem nokkur mundi eftir á Hvítasands- nesi. Alltaf þurrkar og þó sæmileg spretta, því vorið hafði verið þægilega vætusamt. Nú var nóg að bíta og brenna. Fiskur upp í landsteinum og ekki skorti gæftirnar. Nú þurfti ekki að hnotabitast út af saltfiskstunnunni. Einn daginn, er haustaði að, bar ókunnan gest að garðij í Grenivík. Hann var hreint ekki mikill fyrir mann að. sjá, maður sá, en amma gamla sagði, að hann ætti góða fylgju, og hitt grunaði sig, að koma hans hefði mikla þýð- ingu fyrir þetta heimili. Mæðgurnar hlógu að speki henn- ar, eins og venjulega. Maðurinn átti heima hinum megini fjarðarins. Guðni hét hann. Hann ætlaði að finna Markús.. Sigurlaug bauð honum til baðstofu, því Markús var á: sjó. Þar setti hún fyrir hann nýtt slátur og sat hjá honumi NYTT KVENNABLAÐ l1

x

Nýtt kvennablað

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Nýtt kvennablað
https://timarit.is/publication/767

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.