Monitor - 12.08.2010, Side 9

Monitor - 12.08.2010, Side 9
S V E R R IR Þ Ó R S V E R R IS S O N Hann hefur verið kallaður Sveppi frá því hann var fjögurra ára gamall og skilur ekki alveg hvers vegna hann er spurður út í gælunafnið í nánast hverju viðtali, nema þessu, enda þótti honum það liggja beint við. Sveppi er alinn upp í Breiðholtinu þar sem hann var alla sína skólagöngu, fyrst í Breiðholtsskóla og svo FB, en í dag býr hann í Smáíbúðahverfinu ásamt unnustu sinni og tveimur börnum. „Þetta byrjaði allt uppi á borði á Solon Islandus. Við vorum að anda að okkur helíumi og að dansa,“ segir hann um fyrstu kynnin en síðan þá segir hann unnustuna hafa mátt horfa upp á ýmislegt undarlegt. Hann segist alltaf hafa unnið eins og brjálæðingur en Sveppa hefur tekist það sem marga dreymir um – að fá borgað fyrir það sem aðrir myndu borga fyrir að fá að gera. Ætlaðirðu alltaf að verða svona mikill sprellari? Þegar ég var í FB lék ég í tveimur leikritum og söngleikjum og var líka í leikriti sem var sýnt í Loftkastalanum og hét Sumar á Sýrlandi. Þannig að það var komið í ljós á þeim tíma að mig langaði að stefna eitthvað í þessa áttina en það stóð alltaf til að verða leikari. Ég sótti tvisvar um í Leiklistarskólann hér heima og komst mjög nálægt því að komast inn í fyrra skiptið en fór svo að grenja. Sótti svo um aftur og komst ekki og þá fannst mér þetta nú bara eitthvað rugl. Ég sagðist bara ætla að fara út í nám, fannst bara töff að segja það, en vissi undir niðri að ég myndi ekki gera það. Var þá einhver annar starfsvettvangur sem þér fannst koma til greina, þegar þú varst ekki viss um að þetta væri að ganga upp? Ég var nú að læra íþróttafræði þarna í FB og á einhverjum tímapunkti stóð jafnvel til að verða íþróttakennari. Það varð samt aldrei neitt úr því. Ég var í FB í fjögur ár en kláraði tvö. Tók félagslífið svolítið fram yfir námið. Svo hætti ég í skóla af því ég fékk tilboð frá Hagkaup sem ég gat ekki hafnað. Ég vann frá átta til þrjú eina vikuna og frí um helgi og svo alla hina vikuna og um helgina frá þrjú til níu og fékk 115 þúsund krónur á mánuði. Þá skippaði ég skólanum! En ég hef alltaf verið duglegur að vinna. Vann þarna í grænmetinu í Hagkaup, svo á lager þar sem ég kláraði alltaf mín verkefni fyrstur og fór þá að vinna við að naglhreinsa spýtur af því mér fannst ég ekki hafa nóg að gera. Var alltaf að vinna eins og brjálæðingur. Hvernig hófst svo ferillinn fyrir alvöru? Ég var alltaf að fíflast eitthvað og ef það hefði verið Idol-keppni á þessum árum þá hefði ég mætt í þær allar og líka í allar prufur og svoleiðis. Á þessum tíma voru Simmi og Jói með útvarpsþáttinn Sjö-tíu á Mono en ég hafði æft handbolta með Simma og kannaðist aðeins við Jóa. Þeir höfðu samband við mig því þeir voru að fara í gang með eitthvað í þættinum sem hét Gengið of langt. Þeir báðu mig um að ganga hringinn í kringum landið og ég stökk á það á núll einni! Þegar ég var svo nýbúinn að klára að labba hringinn þá fór stöðin á hausinn! Svo byrjuðu þeir með 70 mínútur og ég hafði sagt þeim að ég væri nú alveg til í að hjálpa með það, væri með fullt af hugmyndum. Það vatt svo upp á sig og fljótlega var ég kominn í fullt starf og þátturinn varð bara rosa vinsæll. Þetta byrjaði þá svona svolítið af sjálfu sér? Já, eiginlega. Ég fékk þetta bara upp í hendurnar eins og Forrest Gump, bara fyrir slysni! Hvers vegna urðu 70 mínútur svona vinsælar? Það var eitthvað svo sjarmerandi við 70 mínútur. Jói og Simmi rúlluðu þessum bolta af stað og vissu ekkert út í hvað þeir voru að fara, að vera með 70 mínútna langan sjónvarpsþátt á hverju kvöldi. Margir vildu meina að þetta væri ekki hægt og gáfu þessu svona tvær vikur, því þeir sáu um þetta allt sjálfir. Klipptu þáttinn, bjuggu til settið og allt. Eins þegar ég og Auddi (Auðunn Blöndal) vorum orðnir einir með þáttinn, þá var enginn hljóðmaður eða sminka og við tókum bara hvorn annan upp þegar hinn var að fíflast. Við tókum þættina upp í hádeginu af því þá var stúdíóið laust því allir á Stöð 2 voru í mat. Svo þurftum við að vera búnir klukkan eitt því þá voru menn að fara að vinna! Gera eitthvað alvöru sjónvarp! Þetta var auðvitað tómt basl. Við þurftum að finna endalaust af efni og stöðugt að vera að framleiða. Svo var þetta sýnt klukkan tíu á kvöldin. Stundum var þátturinn 90 mínútur ef við vorum í stuði og duttum í gott spjall. Það var enginn að hvísla í eyrað að tíminn væri búinn eða neitt. Þetta var bara eins og útvarpsþáttur í sjónvarpi og fólk vissi að hverju það gekk. Þetta var bara bull og vitleysa en það var eitthvað svo sjarmerandi við þetta. Hvað fannst foreldrum þínum um bullið? Nú varstu orðinn svolítið fullorðinn og varst að pissa í bleyju og svo framvegis. Það voru einstaka móment þar sem mamma stóð bara upp og fór inn í eldhús að dunda eitthvað annað. Hún tók bara Pollýönnu á þetta. Hún var auðvitað ýmsu vön frá mér. En þetta var bara það sem ég vildi og hún vissi það. Maður var aðallega að níðast á sjálfum sér, en ekki einhverjum öðrum. Sumt fór samt náttúrulega yfir strikið en megnið af þessu var bara fyndið og skemmtilegt. Maður fékk þó alveg að heyra það frá fólki að maður væri nú ekki með öllum mjalla. Þú ert einn af þeim sem hefur gengið mjög vel í þessum bransa og hefur fengið að gera nokkurn veginn allt sem þér dettur í hug. Það hlýtur samt að vera þreytandi að þurfa alltaf að vera að reyna að fá góðar hugmyndir og að finna sér næsta verkefni? Jú, það er líklega það erfiðasta við þetta. Að reyna að halda sér ferskum og reyna að vera alltaf að koma með eitthvað nýtt og skemmtilegt. Oft tekur maður sénsa því maður veit aldrei hvernig fólk mun taka hlutunum. Sumt er ekki gott og annað er snilld. Stundum situr maður á skrifstofunni með Audda og hugsar „hvað eigum við að gera núna? Við verðum að láta okkur detta eitthvað gott í hug!“ Svo erum við auðvitað oft búnir að því sem okkur dettur í hug. Við erum búnir með mjög mikið af fíflaskap. Þetta kemur samt alltaf á endanum. Hafa aldrei komið upp augnablik þar sem þig langar bara að komast í venjulega níu til fimm vinnu þar sem þú þarft ekki stöðugt að vera á tánum og þú veist hverjar tekjurnar næsta árið verða? Við erum svo lukkulegir uppi á Stöð 2 að vera bara venjulegir launþegar. Við þurfum bara að skila af okkur ákveðnum verkefnum og höfum ekki verið í þessu limbói eins og margir listamenn, ef síminn hringir ekki þá ertu kannski í veseni um næstu mánaðarmót. Þeir hafa passað upp á okkur hjá Stöð 2 og það er ótrúlega þægilegt. Ég veit ekki hvort ég myndi bara meika þetta öðruvísi. Bíómyndin Algjör Sveppi og leitin að Villa kom út í fyrra og gekk mjög vel. Hún var samt ekkert gríðarlega dýr í framleiðslu, var það? Nei, þetta var ekkert rosalega dýr framleiðsla en hún var mjög skemmtileg. Handritið var gott og þétt og hélt fólki við efnið. Allavega börnunum. Svo reyndum við líka að hafa fullorðinshúmor. Ef hugmyndin er góð þarf myndin ekkert að vera dýr. Texti: Haukur Johnson haukurjohnson@monitor.is Myndir: Ernir Eyjólfsson ernir@mbl.is Sverrir Þór Sverrisson er enginn vitleysingur þótt hann hagi sér stundum þannig, enda þarf meira til svo úr verði blómlegur ferill. Hann er með mörg járn í eldinum og auk nýrrar sjónvarpsþáttaraðar hefur hann nýlokið við gerð fyrstu leiknu þrívíddar- bíómyndarinnar á Norðurlöndunum. Á 60 SEKÚNDUM Vandræðalegt móment? Það var mjög vandræðalegt þegar ég var í eitt af mínum fyrstu skiptum í mat hjá tengdaforeldrum mínum og þurfti að hnerra en fannst það svo óþægilegt að hnerra bara í matinn að ég kæfði hnerrann en prumpaði þá! Það var mjög vandræðalegt. Frábær grínisti? Ricky Gervais. Uppáhaldsfylki í Bandaríkjunum eftir ferðalagið? Texas! Það var svo góður kjúklingurinn þar. Frábær „skets“? Þegar Benedikt Erlingsson fer að grenja út af konunni sinni í Fóstbræðrum. Bjánalegasti maðurinn? Það er líklega bara ég. Frábær maður? Pétur Jóhann Sigfússon er frábær maður. Besti skyndibitinn? Pylsa með öllu á Bæjarins bestu. Óþolandi hljóð? Ískur í bremsuklossum. Það hættulegasta sem þú hefur gert? Það er annað hvort fallhlífastökk eða þegar ég kafaði í klóakinu í Hafnarfirði. Eitthvað sem fer í gegnum þig? Ískrið þegar gaffall fer í disk. pissað í buxurnar Get ekki 9FIMMTUDAGUR 12. ÁGÚST 2010 Monitor endalaust Ég var alltaf að fíflast eitthvað og ef það hefði verið Idol-keppni á þessum árum þá hefði ég mætt í þær allar.

x

Monitor

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.