Monitor - 12.08.2010, Qupperneq 10
Við Bragi Hinriksson, leikstjóri, gerðum
hana eiginlega bara tveir og þetta var
mikill skóli.
Finnst þér mikill munur á því að semja
efni fyrir börn og fyrir fullorðna?
Það hentar mér bara mjög vel að
semja efni fyrir börn og mér finnst það
mjög gaman. Þegar ég og Villi erum að
skemmta þá reynum við samt yfirleitt
að skemmta fullorðna fólkinu líka. Það
er ekkert leiðinlegra heldur en að vera
fullorðinn á barnaskemmtun og það er
bara verið að sinna börnum. Það er svo
mikið atriði að þetta sé svona svolítið
eins og Toy Story og Shrek sem eru svona
myndir sem eru fyrir börn en höfða til
fullorðinna líka.
Svo er von á næstu mynd frá ykkur í
september og hún er fyrsta íslenska
þrívíddarmyndin. Var hún þá margfalt
flóknari og dýrari í framleiðslu?
Mér fannst eitthvað spennandi og töff
við að búa til fyrstu þrívíddarmyndina á
Íslandi. Hvað þá þegar ég komst að því að
þetta væri fyrsta leikna þrívíddarmyndin
á Norðurlöndunum! Bragi er náttúrulega
ótrúlegur og hafði farið á eitthvað
þrívíddarnámskeið og lært hvernig á að
gera þetta í grunninn og honum fannst
þetta ekkert svo mikið mál. Þá ákváðum
við bara að kýla á þetta. Við keyptum
bara græjur og æfðum okkur svolítið og
byrjuðum svo. Og þetta var alls ekkert svo
stóraukinn kostnaður.
Þú hefur líka verið að vinna að þætti
sem heitir Ameríski draumurinn. Þar
ferðastu í gegnum Bandaríkin með
vinum þínum og keppir í allskyns
þrautum. Eruð þið ekki bara að fá borgað
fyrir að gera hluti sem aðrir myndu
borga fyrir?
Jú. Það er dálítið þannig og þannig ætla
ég að reyna að haga lífi mínu, að fá borgað
fyrir að gera skemmtilega hluti! Þetta
voru ég, Auddi, Egill Gillzenegger og Villi
Naglbítur og við erum allir ágætis vinir.
Við ferðuðumst í gegnum Bandaríkin í
tveimur liðum og kepptum á móti hver
öðrum. Framleiðendurnir lögðu fyrir
okkur allskonar þrautir sem við vissum
ekki af fyrirfram en svo vorum við líka
með allskonar reglur og við gátum safnað
stigum. Til dæmis gat maður fengið stig
fyrir að snerta dverg. Ef við sáum dverg þá
bara tók maður upp myndavélina og fann
leið til að koma við hann. Fór kannski
upp að honum og sagði svo bara „sorry,
I thought you were somebody else!“ Úr
þessu varð til alveg rosalega mikið efni og
fyrsta flokks afþreying sem kemur á Stöð
2 núna 20. ágúst.
Þú hefur unnið mikið og náið með
Auðunni Blöndal. Nú var hann kosinn
óviðkunnanlegasta stjarna Íslands í
útvarpsþætti á X-inu um daginn. Hvað
segir þú um það? Er erfitt að vinna með
honum?
Ég hló mjög mikið að því og hef skemmt
mér mjög mikið yfir því. Lét hann alveg
heyra það. En það er voðalega notalegt
að vinna með honum. Hann er alls
ekki óviðkunnalegur enda var þetta nú
ekki Capacent, þetta var X-ið! Hann er
manna skemmtilegastur þegar hann
er að skemmta sér. Þá er hann bara að
gera það með sínum vinum, án þess að
vera eitthvað ókurteis og er þá ekkert
að hlaupa upp um allt og reyna að vera
hressi gæinn fyrir öllum. Hann tók þetta
mjög lítið nærri sér.
Hvernig sérðu framtíðina svo fyrir þér?
Verður maður aldrei of gamall til að láta
svona?
Maður er náttúrulega orðinn fullorðinn
maður og með tvö börn og getur ekki
endalaust pissað í buxurnar. Dóttir mín
er farin að horfa á DVD-diska sem voru
gefnir út þegar ég var að byrja. Þar eru
atriði sem maður er svolítið að fá í bakið
núna. Þannig að við erum farnir að færa
okkur svona aðeins úr því. Maður veit
ekkert hvenær fólk fær bara ógeð á manni
eða nennir ekki að horfa á meira og þá
þarf maður náttúrulega að hugsa hvað
maður ætlar nú að gera þegar maður
verður stór. Ég gæti til dæmis hugsað mér
að vera meira á bak við myndavélina að
framleiða þætti. Nú erum við búnir að
búa til eina bíómynd sem gekk mjög vel
og önnur er á leiðinni. Mér finnst það
magnað og okkur langar jafnvel að búa til
þá þriðju. Þannig að það er þessi heimur
sem heillar mig og það er haugur af dóti
sem mig langar til að gera.
10 Monitor FIMMTUDAGUR 12. ÁGÚST 2010
Svo hætti
ég í skóla af
því ég fékk tilboð
frá Hagkaup sem
ég gat ekki hafnað.