SunnudagsMogginn - 24.04.2011, Blaðsíða 47

SunnudagsMogginn - 24.04.2011, Blaðsíða 47
24. apríl 2011 47 R ithöfundurinn og skáldið Guðbergur Bergs- son situr á veitingastað í hjarta gamla Austur- Þýskalands – á efstu hæð frægrar versl- unarmiðstöðvar Galeria Kaufhof á Alexander- platz í Berlín. Hann situr teinréttur í sæti sínu eins og höggmynd og hæglátur eftir því í fasi og orðum. „Ég kem oft hingað og kann vel við mig á verslunar- stöðum vegna þess að þá er maður algjörlega ekki neitt. Maður sér margt fólk og getur fengið sér eitthvað pínu- lítið – og síðan meira ef vill. Á kaffihúsi er maður bund- inn af umhverfinu, en í Kaufhof ekki af neinu. Hér má sitja í langan tíma án samviskubits.“ – Þykir þér gott að skrifa innan um fólk? „Nei, ég get það ekki. En ég get hugsað. Án þess er ómögulegt að skrifa, nema eitthvað venjulegt. Og það vill maður helst ekki gera. Úr því farið er út í þetta, þá vill maður ekki vera venjulegur.“ Þegar fundum okkar ber saman er Guðbergur á leið í minningarathöfn um sambýlismann sinn, Jaime Salinas, en hún fór fram 28. mars síðastliðinn í Madrid. „Hann dó reyndar á Íslandi og er grafinn í Grindavík. Hann var einn helsti útgefandi Spánar. Og hann var líka fenginn til að leysa upp menntamálaráðuneytið vegna þess að miðstjórnarvaldið var alltof mikið, kvikmyndir, bækur og söfn heyrðu undir það, en hann afhenti hér- uðunum bókasöfnin og svo framvegis. Hann var ráðgjafi Javiers Solana, sem síðar tók við Nató; Solana kom oft til Íslands og kunni vel við sig þar.“ – Þið bjugguð saman í áratugi? „Í 55 ár.“ – Og hann gaf út ævisögu sína? „Já, hann var af þeirri borgarastétt sem talaði mörg tungumál. Faðir hans var eitt helsta skáld Spánar. Þeir urðu landflótta til Bandaríkjanna, bjuggu þar í átján ár, og síðan braust út heimsstyrjöldin síðari. Þeir fluttu svo til Frakklands og gerðu kvikmyndir þar. Sagan er skrif- uð á spænsku, ensku og frönsku, því borgarastéttir af hásléttunni töluðu reiprennandi þrjú eða fjögur tungu- mál. En núna hefur dregið úr því. Upphaflega var talið að bókin myndi ekki seljast vegna þess að hún væri á mörgum tungumálum, en hún missir gífurlega mikið, ef ekki er amerískt talmál fyrir stríð eða franskan sem töl- uð var í Alsír, þar sem hann fæddist.“ – Þetta er merkileg frásagnaraðferð! „Já, en í lokin var ekki hægt að eiga viðræður við fólk vegna þess að það þekkti ekki þessa þrjá heima. Þannig að hann lokaðist eiginlega inni í mínum menningar- heimi eða sínum menningarheimi – sem síðan tók við. Þetta hefur ruglað mig í ríminu á vissan hátt, því ef ég gæti mín ekki, þá hrekkur upp úr mér orð á þessum tungumálum. En nú er höfuðvandamál mitt, að ég hef glatað tungumálinu, spænskunni. Heima á Íslandi er það ekki hið daglega mál. Hvort sem ég vil það eða ekki, þá hrökklast ég algjörlega inn í íslenskan menning- arheim. En ég fer þó til Lissabon ár hvert til að fylgjast með ljóðlistinni.“ – Af hverju þangað? „Ég fór þangað fyrst árið 1958 og þá voru engir ferða- menn eða útlendingar. Síðan hef ég fylgst vandlega með þessari þjóð. Þótt erfitt sé að henda reiður á því af hverju maður heillast af einhverju. Nú tek ég Guðna [Þorbjörnsson] með mér, hann er flugmaður og kennir flug líka – hann getur kennt þér að fljúga.“ Guðbergur brosir. „Hann á sína flugvél, en ætlar utan til að verða fulln- uma sem þyrluflugmaður. Hann getur stjórnað þyrlum, en hefur ekki próf, og þar sem ég er svona vel settur á Spáni, að þurfa ekki annað en að ýta á takka til að útvega þyrlukennslu, tók ég hann með til að koma honum í þyrluskóla. Þannig eru Spánverjar. Ef þú setur þig inn í þeirra heim, þá gera þeir allt fyrir þig, en ef þeir finna að þú ert ekki móttækilegur, þá frysta þeir þig með kurteislegum kulda og þú finnur eins og skot að þú átt ekki heima innan um þá – þú kemur aldrei aftur, sálarlíf þitt fer hraðfryst í burtu.“ Hann þagnar og virðir blaðamann fyrir sér. „Ég jarðaði sjálfur þennan kunningja minn,“ segir hann svo upp úr eins manns hljóði. „Mér tókst að ryðja kirkjunni alveg frá. Ég fékk Guðna til að kvikmynda, af því að hann er líka í kvikmyndum, bæði þegar hann var brenndur og líka þegar ég jarðaði hann í Grindavík. Ég jarðaði hann sjálfur og Guðni tók upp athöfnina. Spán- verjar hafa aldrei séð annað eins, það var ægileg rigning og gífurlegt óveður.“ – Hvað verður um kvikmyndina? „Ég hef fengið boð um að setja upp sýningu og geri það með kunningja mínum, sem setti upp sýninguna með mér í Gerðarsafni, þar sem við bjuggum til yfirlit yfir spænska myndlist á pappír.“ – Höfðuð þið Salinas ákveðið þetta ykkar á milli? „Nei, nei, það var ekkert ákveðið. Eftir að hafa þekkt mann í 55 ár, þá þarf ekki að ákveða neitt. Það er bara tíminn sem hefur ákveðið.“ – Þetta hefur verið mögnuð stund? „Þetta var í ægilegum veðurofsa. Guðni gerði þetta mjög vel, það varð að þurrka af linsunni, rigningin var svo mikil. Og þetta var sett upp af mér. Þegar hann er brenndur, þá sit ég með duftkerið og öskuna, og norska söngkonan Kirsten Flagstad syngur Dauða Ísoldar úr Tristan og Ísold eftir Wagner. Þegar ég jarðsyng hann, þá syng ég kveðjusöng á portúgölsku, þannig að athöfn- in er sett upp sem listaverk, sem er miklu æðra en líf eða dauði, vegna þess að listaverk lifir miklu lengur. Og það er áhrifameira af því að það er sett upp á vits- munalegan og fagurfræðilegan hátt. Presturinn ætlaði að skipta sér af þessu: „Á ég ekki að lesa eitthvað fal- legt?“ Nei, ég vildi það ekki. Svo lét ég hann bara niður í holuna.“ – Er þetta löng athöfn? „Ætli hún sé ekki 15 til 20 mínútur. Þetta er óskaplega fallegt og óvenjulegt. Ég hef sýnt Spánverjum myndina og þeir hafa aldrei séð neitt þvíumlíkt og það þykir al- veg óhugsandi að einhver einstaklingur komist í gegnum skipulag trúarinnar og ákveði að jarða sinn einstakling sjálfur. En maður getur það!“ Hann kinkar kolli. „Með vilja. Og með því að láta engan beygja sig.“ – Er einhver tilgangur með þessu jarðlífi? „Bara fagurfræðilegur tilgangur og lífsgleði,“ svarar hann og yppir öxlum. „Maður skapar lífsgleðina, yf- irleitt með viðhorfi til lífsins og líka með viljanum.“ – Renna allar listirnar saman? „Já, þær gera það. Það gerir ekkert til þó enginn skilji það í hundrað eða tvö hundruð ár og heldur ekki þó að það misheppnist; einn einstaklingur gerir það og týnist – maðurinn er fæddur til þess eins að gleymast.“ Texti: Pétur Blöndal pebl@mbl.is Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson kring@mbl.is Síðasta orðið … Guðbergur Bergsson Listaverkið æðra lífi og dauða ’ Maðurinn er fæddur til þess eins að gleymast.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.