Morgunblaðið - 26.01.2011, Page 13
13
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 26. JANÚAR 2011
Bjarni Ólafsson
Sigurður Bogi Sævarsson
Áætla má að samanlagður kostnaður
vegna stjórnlagaþings og undirbún-
ings þess nálgist nú um hálfan milljarð
króna. Stjórnlagaþinginu, sem hefjast
átti eftir þrjár vikur, eru samkvæmt
fjárlögum markaðar 248 milljónir
króna. Að sögn Þorsteins Sigurðs-
sonar, framkvæmdastjóra þingsins,
hefur nokkrum fjármunum þegar ver-
ið varið til undirbúnings þinghaldinu
sem að óbreyttu hefði farið fram í fyrr-
verandi húsnæði Háskólans í Reykja-
vík við Ofanleiti.
Síðustu daga hefur verið unnið að
því að koma upp starfsaðstöðu fyrir
þingfulltrúa og starfsmenn í Ofanleiti
– sem og ýmsum tæknibúnaði sem
þinghaldi fylgir. Nokkur fjárútlát hafa
fylgt þessu og fleiru en ekki liggur enn
fyrir hver sá kostnaður er þegar orð-
inn.
Kostnaður vegna þjóðfundarins
sem haldinn var í Laugardalshöllinni í
Reykjavík á haustdögum, og var upp-
taktur kosninganna til stjórnlaga-
þings, er þegar orðinn um 90 milljónir
króna. Sú tala er þó ekki endanleg
enda er ekki búið að hnýta alla lausa
enda í uppgjöri vegna fundarins, að
sögn Berghildar Erlu Bernharðs-
dóttur, upplýsingafulltrúa stjórnlaga-
þings.
Kosningarnar til stjórnlagaþingsins
voru á könnu innanríkisráðuneytisins.
Kostnaður þess við framkvæmd kosn-
inganna, útgáfu margskonar kynning-
arefnis og fleiri þátta er nú þegar orð-
inn um 220 milljónir króna og eru þó
ekki öll kurl komin til grafar. Þar af
nam kostnaður vegna útgáfu og prent-
unar á kynningarbæklingi tíu millj-
ónum króna.
Fleiri en ríkissjóður munu þó bera
kostnað. Frambjóðendur sem náðu
kjöri í kosningunum báru flestir kostn-
að af kosningabaráttu sinni sjálfir, þótt
kostnaðurinn væri mismikill. Þá hafa
þeir nú þegar gert ráðstafanir varð-
andi vinnu, enda gerðu þeir ráð fyrir
því að starfa við þingið á næstu mán-
uðum. „Ég kláraði mína vinnu í des-
ember og lét hjá líða að leita mér að
nýju starfi vegna þess að ég gerði ráð
fyrir því að vormánuðir myndu fara í
stjórnlagaþing og ég vildi vera vel
undirbúinn,“ sagði Pawel Bartoszek,
sem náði kjöri í kosningunum.
Loks hafa einhverjir þeirra þurft að
tryggja sér húsnæði á höfuðborg-
arsvæðinu á þeim tíma sem þingið átti
að starfa, en þrír þingfulltrúa komu
annars staðar frá en af höfuðborg-
arsvæðinu. Erlingur Sigurðarson, sem
býr á Akureyri, sagði í samtali við
Morgunblaðið að hann væri búinn að
ganga frá leigu á húsnæði í borginni,
en sagði að það sem og aðrir þættir
sem að honum sneru væri aukaatriði í
samanburði við ákvörðun Hæsta-
réttar.
Lögfræðingar, sem Morgunblaðið
talaði við í gær, segja að ríkið geti klár-
lega talist bótaskylt gagnvart þeim
þingfulltrúum, sem lagt hafa út í
kostnað vegna þeirrar réttmætu trúar
að þeir væru réttkjörnir fulltrúar á
stjórnlagaþing, en meiri óvissa ríki
varðandi rétt á greiðslu þingfar-
arkaups.
Kostnaður um hálfur milljarður
Kostnaður vegna stjórnlagaþingskosninga og undirbúnings fyrir þær um hálfur milljarður króna
Lögfræðingar segja ríkissjóð klárlega bera ábyrgð á tjóni sem þingfulltrúar hafa orðið fyrir
Kostnaður ríkisins vegna stjórnlagaþings
*Ekki hefur þessi kostnaður allur komið fram nú þegar, en undir þennan lið fellur meðal annars þingfararkaup.
Heildarkostnaður
540milljónir króna
Kostnaður
við Þjóðfund
92
milljónir króna
Annar undirbúning-
skostnaður
23
milljónir króna
Kosningar til
stjórnlagaþings
200
milljónir króna
Annar kostnaður við
rekstur þingsins*
225
milljónir króna
„Stjórnlagaþingið tökum við ekki frá
þjóðinni,“ sagði Jóhanna Sigurð-
ardóttir, forsætisráðherra, er hún
flutti skýrslu um ákvörðun Hæsta-
réttar á Alþingi í gær. Hún bætti við
að forsætisnefnd Alþingis yrði nú að
fjalla um málið og leita yrði allra
leiða til að tryggja að stjórnlaga-
þingið yrði haldið. Ýmislegt kæmi til
greina, svo sem að setja lög sem
heimiluðu Alþingi að kjósa 25 full-
trúa á stjórnlagaþing. Þeir fulltrúar
yrðu hugsanlega þeir sömu og kosn-
ir voru í nóvember yrði umboð
þeirra metið fullnægjandi af Alþingi.
Nokkuð hvassari tónn var í seinni
ræðu Jóhönnu, lokaræðunni sem
flutt var um málið á Alþingi í gær.
Í henni sagði Jóhanna að fráleitt
væri að vísa ábyrgð á málinu á hend-
ur forsætisráðherra og ríkisstjórn-
inni. Athugasemdir Hæstaréttar
hefðu ekki lotið að upphaflegu laga-
frumvarpi ríkisstjórnarinnar heldur
framkvæmd kosninganna.
„Við hljótum að leita allra leiða til
að stjórnlagaþingið verði haldið og
það mikilvæga verkefni sem því var
falið með lögum verði klárað. Um
það höfum við verið að mestu sam-
mála hingað til og sú samstaða vona
ég að haldi áfram. Menn eiga ekki að
nýta þessa uppákomu til að slá póli-
tískar keilur. Stjórnlagaþingið var
tæki þjóðarinnar til að móta nýja
stjórnarskrá og við tökum það ekki
frá henni. Mikilvægt er að menn
horfi fram á við og leiti leiða til að
leysa málið.“ haa@mbl.is
Jóhanna Sigurðardóttir
„Við hljótum að leita allra leiða til
að stjórnlagaþingið verði haldið og
það mikilvæga verkefni sem því var
falið með lögum verði klárað.“
Leitað verði
leiða til að
halda þingið
„Ég tel nærtækasta kostinn að
menn gangi til kosninga að nýju.
Væntanlega þarf nýja lagasetningu.
Ég tel mikilvægt að menn láti þetta
ekki slá sig út af laginu heldur stefni
að því kosningin verði algjörlega
skotheld og ekki verði hægt að
benda á neina annmarka,“ segir
Steingrímur J. Sigfússon, formaður
Vinstri grænna.
Aðspurður hver beri ábyrgð á því
að kosning til stjórnlagaþings mis-
fórst segir Steingrímur að hún dreif-
ist á herðar löggjafans og þeirra sem
fóru með framkvæmd kosninganna,
þ.e. landskjörstjórnar og innanrík-
isráðuneytis.
„Það er ekki ásetningsbrot að
ekki hafi tekist nægilega vel upp.
Enginn efast um að viljinn stóð til
þess að gera þetta eins vel og mögu-
legt var og láta kosningarnar takast
vel. Þetta var hins vegar afar vanda-
samt verk vegna fjölda frambjóð-
enda og óvenjulegrar kosn-
ingaaðferðar – það skýrir að
niðurstöðurnar voru ekki hafnar yfir
allan vafa. Það var verið að kjósa
með þessum hætti í fyrsta skipti.“
Steingrímur segir ennfremur afar
leitt að svona skyldi fara og þá ekki
síst fyrir frambjóðendur.
„Það verður einfaldlega að vinna
úr þessari ákvörðun og við getum
ekki bognað við þetta. Það var búið
að ákveða að halda stjórnlagaþing
og ég tel að vilji standi til þess að
endurtaka þessar kosningar.“
haa@mbl.is
Steingrímur J. Sigfússon
„Það var búið að ákveða að halda
stjórnlagaþing og ég tel að vilji
standi til þess að endurtaka þessar
kosningar.“
Kosningarnar
voru vanda-
samt verk
„Forsætisráðherra þarf að íhuga
sína stöðu í kjölfar þessarar ákvörð-
unar Hæstaréttar og hefði ég talið
að minna tilefni þyrfti til,“ segir Ólöf
Nordal, varaformaður Sjálfstæð-
isflokksins.
Hún segir það mjög alvarleg tíð-
indi að Hæstiréttur komist að þeirri
niðurstöðu að ógilda þurfi kosn-
ingar. „Maður hefði haldið að í öllum
heilbrigðum lýðræðisríkjum yrði
slík ákvörðun tekin alvarlega. Við-
brögð forsætisráðherra bera þess
ekki merki að hún taki ákvörðun
Hæstaréttar af nægum þunga.“
Ólöf segir að þeir sem standi að
baki frumvarpinu verði að axla
ábyrgð á málinu. „Þetta er sér-
staklega alvarlegt þegar um er að
ræða jafnmikilvægt mál og stjórn-
arskrárbreytingar.“
Ólöf segir að einungis tveir mögu-
leikar séu fyrir hendi – hlíta nið-
urstöðunni og aðhafast ekkert meira
eða leggja fram nýtt frumvarp og
byrja að nýju á byrjunarreit. „Ég
hef ekki verið stuðningsmaður
stjórnlagaþings og það hefur ekki
breyst. Hér er um að ræða hvernig á
að breyta stjórnarskránni. Ég tel að
alþingismenn eigi og verði að axla
ábyrgð á slíkum breytingum.“
Ólöf segir ennfremur að vinnu-
brögð ríkisstjórnarinnar hafi valdið
stórtjóni. „Ríkisstjórnin hlýtur að
hugsa sinn gang eftir þetta. Það
verður að setja áhersluna á það sem
mestu máli skiptir á Íslandi í dag.“
haa@mbl.is
Ólöf Nordal
„Viðbrögð forsætisráðherra í þessu
máli bera þess ekki merki að hún
taki ákvörðun Hæstaréttar af næg-
um þunga.“
Forsætis-
ráðherra íhugi
stöðu sína
„Þetta er mikill áfellisdómur yfir
þeim sem höfðu umsjón með fram-
kvæmd þessara kosninga. Og í því
samhengi er athyglisvert að for-
sætisráðherra hefur lagt áherslu á
það að mistökin hafi falist í fram-
kvæmdinni en ekki í lögunum. Það
þýðir að ábyrgðin liggur ekki síst
hjá henni, að minnsta kosti ríkis-
stjórninni, samkvæmt hennar eigin
mati. Spurningin er þá: Hver ætlar
að axla ábyrgðina?“ segir Sigmund-
ur Davíð Gunnlaugsson, formaður
Framsóknarflokksins.
Hann bætir við að Alþingi þurfi að
velta fyrir sér hvort það hafi unnið
málið nægilega vel. „Það er spurn-
ing hvort Alþingi lét stjórnast af
ríkjandi tíðaranda og gaf sér því
ekki nægan tíma í gagnrýna um-
ræðu um hvernig að málinu skyldi
staðið.“
Hvað næstu skref varðar telur
Sigmundur mikilvægast að for-
gangsraða á þann hátt að atvinnu-
og kjaramál verði í forgrunni hjá
ríkisstjórninni næstu misserin. „Við
höfum nægan tíma til að vinna að
stjórnarskrárbreytingum og fólk á
ekki að eyða öllum tíma sínum og
kröftum í þetta mál á þessari
stundu.“ Ennfremur telur Sigmund-
ur að ákvörðun Hæstaréttar sé enn
eitt áfallið fyrir ríkisstjórnina. „Það
er orðið tímabært að ríkisstjórnin öll
íhugi stöðu sína eftir tvö ár af klúðri
sem er toppað með þessu. Þetta er
þrjóska við að halda völdum.“
haa@mbl.is
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
„Það er orðið tímabært að rík-
isstjórnin öll íhugi stöðu sína eftir
tvö ár af klúðri sem er toppað með
þessu.“
Ákvörðunin
mikill áfell-
isdómur
„Aðalatriðið er að halda stjórnlaga-
þing. Það gæti vissulega tafist með
þessari ákvörðun Hæstaréttar en
engu að síður verður að finna leið til
að halda það,“ segir Margrét
Tryggvadóttir, formaður þingflokks
Hreyfingarinnar.
Hún segir jafnframt að lausnin
gæti falist í því að endurtaka kosn-
ingarnar til þingsins. „Það gæti ver-
ið að við þurfum að endurtaka kosn-
ingarnar svo þingið geti starfað og
þá einfaldlega gerum við það. Í
svona kosningum verður að vera
hafið yfir allan vafa að framkvæmd
þeirra sé lögleg og réttmæt. Mér
virðast þessi atriði, sem tekin voru
fyrir í ákvörðun Hæstaréttar, ekki
hafa haft úrslitaáhrif á niðurstöðu
kosninganna. Kosningar eru hins
vegar allt að því heilagar og því má
enginn vafi vera fyrir hendi – allt
verður að vera alveg hundrað pró-
sent.“ Margrét segir að þingið verði
nú að leggjast yfir málið og taka
ákvörðun um næstu skref. „Helst
myndi ég sjálf vilja endurtaka kosn-
inguna. Það mun auðvitað kosta pen-
inga en hins vegar er margvíslegur
kostnaður sem ekki þarf að end-
urtaka, t.d. kynningarefnið sem var
gefið út. Taka tvö myndi ekki kosta
jafnmikið og taka eitt.“
Margrét telur jafnframt að
ábyrgðin á málinu hvíli ekki á rík-
isstjórninni. „Það voru framkvæmd-
arleg atriði sem stóðu í vegi. Hug-
myndafræðin að baki þinginu er góð
og gild.“ haa@mbl.is
Margrét Tryggvadóttir
„Það gæti verið að við þurfum að
endurtaka kosningarnar svo þingið
geti starfað og þá einfaldlega ger-
um við það.“
Kosningar til
þingsins verði
endurteknar
Hvað segja forystumenn flokkanna um niðurstöðu Hæstaréttar?