Morgunblaðið - 07.05.2011, Blaðsíða 35

Morgunblaðið - 07.05.2011, Blaðsíða 35
MINNINGAR 35 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 7. MAÍ 2011 ✝ Karl Jónssonfæddist í Vest- mannaeyjum 12. desember 1919. Hann lést á Heil- brigðisstofnun Vestmannaeyja 1. maí 2011. Karl var sonur hjónanna Jóns Sverrissonar og Sólveigar Magn- úsdóttur. Hann var næstyngstur 15 systkina auk tveggja fóst- ursystra. Fyrri kona Karls var Lóa Ágústsdóttir, börn þeirra eru Ólöf Ágústa, f. 30.4. 1944, Sverr- ir, f. 29.8. 1946, d. 28.3. 2011, og Sólveig Jónína, f. 11.7. 1955. Eftirlifandi eiginkona Karls er Guðfinna Eyvindsdóttir, f. 3.12. 1921. Hennar dætur eru Lilja, fædd 7.7. 1940, Aðalheiður, f. 6.12. 1941, Elíza, f. 28.8. 1946, og Eygló, f. 30.3. 1951, d. 25.12. 2006. Barnabörnin eru 14, barnabarnabörnin eru 28 og barnabarnabarnabörnin eru tvö. Karl ólst upp í Vest- mannaeyjum og þar lærði hann til rakara. Hann flutt- ist síðar til Reykja- víkur þar sem hann rak ásamt tveimur öðrum rakarastofu á Vesturgötu 2 til ársins 1965. Þau hjónin fluttu til Vestmannaeyja 1965 þar sem hann rak herrafataversl- un til 1973. Í gosinu 1973 gekk hann til liðs við lögregluna og starfaði þar til 1989, síðast sem varðstjóri. Eftir það starfaði hann sem gangavörður í Ham- arsskóla í Vestmannaeyjum til ársins 1994. Karl var félagi í Akóges frá árinu 1940. Hann gekk í frímúrararegluna 12. janúar 1959. Hann var í veiði- félagi Suðureyjar í áratugi og stundaði frístundabúskap með sauðfé eins lengi og heilsan leyfði. Karl verður jarðaður frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 7. maí 2011, og hefst at- höfnin kl. 14. Kalli Pól er afi minn! var eitt af mínum uppáhaldsyfirlýsing- um sem barn. Ég var svo stolt af því að afi minn væri löggan í Vestmannaeyjum og að ég gæti beðið hann um að fara og hand- taka þá sem hegðuðu sér ekki vel, ef þess þyrfti! Auðvitað gerðist það aldrei en það var gott að eiga góðan að. Á hverju sumri sem barn fór ég ásamt systkinum mínum til ömmu Stellu og afa Kalla í Vest- mannaeyjum. Þetta voru ómet- anlegir tímar og var tilhlökkun- inn alltaf mikil þegar styttist í Vestmannaeyjaferð. Afi Kalli var frábær afi, hann var grallari og afskaplega fynd- inn ásamt því að vera réttlátur og rólegur og fannst mér ekkert skemmtilegra en að fá að hanga utan í honum og fylgjast með honum í litla verkstæðinu sínu í kjallaranum og spjalla við hann um daginn og veginn. Hin árlega fjöruferð þar sem afi tók forláta staf og hatt með kúlu með sér var hápunktur sumarsins. Þá tókum við heilan dag í að ganga um fjöruna í Vestmannaeyjum og tína skeljar og steina og allskyns fjörudýr á meðan hann sagði okkur sögur af sjóræningum og álfum og huldufólki. Eru þetta með dýr- mætustu minningum æsku minnar og mun ég búa að þeim alltaf. Ég tel mig afar heppna að hafa fengið að eiga samleið með afa Kalla í lífi mínu og fengið að kynnast þessum vandaða og góða manni, hann var mér traust fyrirmynd og góður vinur. Minning um góðan dreng lifir. Kæra amma Stella, vinir og vandamenn, ég votta ykkur sam- úð mína. Elíza M. Geirsdóttir Newman. Bragðið af rauðum Opal, lykt- in af vindlum, skyrta með hnút að framan, stífburstaðar tennur, fótbolti, kindur og Suðurey. Myndir sem koma upp í hugann þegar ég hugsa um afa Kalla. Allar mínar minningar um afa eru góðar, hann var einfaldlega eins og afar eiga að vera; hlýr, traustur, fróður, ráðagóður, skemmtilegur og sanngjarn. Okkar samskipti voru náin og góð frá fyrstu tíð og hann var ein af mínum helstu fyrirmyndum. Ég leit upp til afa og hans orð voru lög. Mörgum sumrum eyddi ég hjá ömmu og afa í Eyjum, það voru góðir tímar. Afi í löggunni þar sem honum líkaði vel og þess á milli stússaði hann í kjallaran- um, þreif bílinn, fór á völlinn, veiddi lunda í Suðurey og sinnti kindum eða eyddi tíma með okk- ur krökkunum. Ég man aldrei eftir að hann hafi skammað mig þó sjálfsagt hafi oft verið ástæða til. Það var einfaldlega ekki hans stíll, hann leysti málin öðruvísi, bæði í vinnu og heima fyrir. Hann hafði góða nærveru og börn löðuðust að honum enda barngóður með eindæmum. Ég er þakklát fyrir að börnin mín fengu að kynnast honum og eiga nú góðar minningar um ljúfan langafa sem lét sig ekki muna um að leika við þau þó á tí- ræðisaldri væri. Hann var vinnu- samur og gerði alla hluti vel. Hann hafði bæði verið rakari og rekið fataverslun á fyrri tíð, en fór í lögregluskólann síðar meir og vann í lögreglunni eins lengi og leyfilegt var. Kjallarinn á Strembugötunni bar merki fyrri starfa, en þar var afgreiðslu- borð, verðmerkibyssur, gína og kista full af alls kyns fatnaði. Við gátum endalaust leikið okkur þarna niðri og afi sá til þess að alltaf var nóg við að vera. Uppi á vegg hékk svo rakaraskírteinið og afi rakaði sig alltaf með gamla laginu og átti sápu og bursta inni á baði sem gaman var að skoða og sulla með. Þegar starfsferlinum í lögreglunni lauk fór afi til starfa við gangavörslu í grunnskóla og eignaðist þar marga góða vini meðal nemenda. Endanleg starfslok reyndust honum að mörgu leyti erfið enda maður sem vildi leggja sitt af mörkum og var heilsuhraustur. En hann sat ekki aðgerðalaus, heldur eyddi tímanum í fjárhús- unum og hélt öllu við heima inn- anhúss og utan. Afi var mikið snyrtimenni, alltaf hreinn og fínn sama hvert tilefnið var. Hann var heilsuhraustur fram á seinni ár og keyrði bíl til síðasta dags. Undanfarið ár reyndist honum þungt, heilsan versnaði hratt og þau amma tóku það tímamótaskref að flytja út af heimili sínu til áratuga. Afi átti erfitt með að sætta sig við að vera veikur og öðrum háð- ur, það átti ekki við þennan sterka mann. Þegar endalokin nálguðust var hann enda tilbúinn til að fara og kvaddi fljótt. Þar lauk farsælli ævi manns sem lagði mikið af mörkum og skilur eftir sig djúp spor. Ég þakka afa Kalla fyrir allar góðu stundirnar, öll sumrin okk- ar, páskana, þjóðhátíðirnar, jólin og ferðalögin, öll heillaráðin og leiðbeiningarnar á lífsleiðinni. Hann var klettur sem gott var að eiga að. Ömmu Stellu og öðr- um aðstandendum votta ég sam- úð mína fyrir hönd fjölskyldunn- ar. Minning um góðan mann lifir. Hulda G. Geirsdóttir. Þann 1. maí sl. kvaddi hann Kalli Pól þennan heim. Kalli og Stella voru mér eins og afi og amma. Mín fyrsta minning um Kalla var á gamlárskveldi, þeg- ar hann var ennþá í löggunni og kom heim til ömmu og afa á Helgafellsbrautina á löggubíln- um og leyfði mér að skoða bíl- inn og setti blikkljósin á fyrir mig. Mikið fannst mér þetta flottur maður. Kalli náði alltaf að laða börn að sér og þegar ég eignaðist sjálfur fjölskyldu var það fastur liður að fara í heimsókn á Strembuna að hitta þau hjónin. Ég man hvað Ólafur Ágúst son- ur minn var hrifinn af honum og sótti mikið í að heimsækja Kalla, eða Póla minn eins og hann kallaði hann. Kalla fannst nefnilega sjálfsagt að fara niður í kjallara með strákinn og spila fótbolta með honum þrátt fyrir að vera rúmlega áttræður. Kalli var áhugasamur um okkur og fylgdist alltaf vel með því sem við vorum að gera, vissi á hvaða bátum ég var og hvernig gekk. Eftir að ég byrjaði sem skip- stjóri á Herjólfi fylgdist hann grannt með gangi mála í Land- eyjahöfn. Kalli hélt fullri reisn til hins síðasta og ég gleymi seint síð- ustu orðunum sem hann sagði við mig. En þannig er að við höfum haft þann sið að fá okkur korn í nefið þegar við hittumst. Þegar ég sagði honum að ég hefði heimsótt Stellu á Hraun- búðir og fengið mér korn til að viðhalda venjunni áður en ég kom til hans á sjúkrahúsið, þá varð hann hrifinn en sagðist samt vera hættur sjálfur, í bili. Megir þú hvíla í friði, kæri vinur. Guðlaugur Ólafsson. Í dag verður til moldar bor- inn frá Landakirkju í Vest- mannaeyjum, vinur minn og velgerðamaður, Karl Jónsson, löngum kenndur við Dali og eða Háagarð í Vm. Karl ólst upp á fjölmennu heimili og hóf ungur að árum vinnu, m.a. að færa bæjarbúum nýmjólk kvölds og morgna, er hann bar á sjálfum sér í litlum mjólkurbrúsum. Hann lærði rakara- og hárskeraiðn hér í Eyjum, en flutti til Reykjavíkur og starfaði við iðn sína þar til hann flutti aftur til Eyja um miðjan sjöunda áratuginn. Þar stofnaði hann herrafataverslun- ina Alföt og rak hana allt til 1973 við góðan orðstír. 1973 verða vatnaskil hjá honum í starfi eins og svo mörgum öðr- um og hann gerist lögreglu- þjónn og síðar varðstjóri til 1989. En vinnusemin var honum í blóð borin og hann gerðist húsvörður Hamarsskóla, en síð- ustu starfsárin var hann „dós- ent“ í móttöku Endurvinnslunn- ar. Kynni okkar Kalla hófust fyr- ir hálfri öld, er ég ungur nemi við Kennaraskóla Íslands leitaði rakara í Reykjavík. Hafandi frétt af Eyjamönnum sem ráku rakarastofu á Vesturgötunni, þar sem antíkbúðin Fríða frænka er nú til húsa. Hitti ég þar á einn helsta „samkomustað“ Eyjaskeggja þeirra tíma. Stof- una ráku þeir félagar Kalli og Halli (Haraldur Kristjánsson frá Heiðarbrún) og þar starfaði einnig Guðlaugur Kristófersson. Naut ég þar þegar vinarþels og spillti ekki fyrir að hafa átt heima í Baldurshaga og Halli hafði verið í sveit hjá föðurömmu minni. Þegar Kalli var fluttur til Eyja vann ég oft hjá honum í verslun hans og var þar tíðum glatt á halla, því margir ráku þar inn nefið í spjall og sprell. Kalli var einn af þessum lífs- glöðu samferðamönnum sem njóta samvista og gleðskapar ekki hvað síst sér yngri. Tíminn í Suðurey og tómstundabúskapurinn á Breiða- bakka er eftirminnilegur og þá ekki síður 45 ára samstarf og samgleði meðal góðra félaga í Akóges. Það er ljúft að minnast græskulauss gríns og gleðskapar góðs drengs sem nú er allur. Samúðarkveðjur til Stellu og annarra vina og vandamanna. Minningin lifir. Hermann Einarsson. Kær vinur er fallinn frá í hárri elli. Kalla pól kynntist ég fyrst í úteyjastússi en við vorum báðir Suðureyingar. Við störfuðum einnig saman í Frímúrararegl- unni og það var ekki amalegt að eiga vin og félaga eins og Kalla. Húmorinn og þægileg nærveran voru hans aðalsmerki. Í Suðurey var hann hættur að veiða að ráði þegar við kynntumst, en kom með þó á áttræðisaldri væri, hélt röð og reglu á öllu. Að koma heim í hús eftir vel heppnaðan veiðidag og koma að þar sem Óskar prentari var að koma sæl- keramat á borð og Kalli búinn að gera allt tandurhreint og fínt var ógleymanlegt. Hann kunni þá list að segja skoðun sína tæpi- tungulaust með skvettu af húm- or sem alltaf létti andrúmsloft. Í frímúrarareglunni störfuðum við saman í Eyjum og þar tengdu okkur vinabönd og einnig sú staðreynd að við vorum Mím- isbræður báðir og stoltir af því. Síðast hitti ég Kalla pól vin minn í lok mars uppi á Hraun- búðum. Það var ljóst að hann var að eldast hratt en hann kom með mér fram, teinréttur og vildi ekkert að ég væri neitt að styðja sig. Við spjölluðum um stund og húmorinn og vináttan var þarna þó ljóst væri að ellin herjaði á hann. Ég fékk að styðja hann til baka og við kvöddumst með virktum, það var erfitt, því báð- um var ljóst að bið yrði á að við sæjumst á ný. Kalli var sóma- maður sem mikill sjónarsviptir er að. Guðmundur Eyjólfsson. Karl Jónsson andaðist á Heil- brigðisstofnun Vestmannaeyja þann 1. maí sl. eftir stutt veik- indi. Hann tók veikindum sínum af miklu æðruleysi og vissi fyrir nokkru að hann ætti ekki langt eftir í þessu jarðneska lífi. Síð- ustu vikur lagði hann mikið upp úr því að koma sínum málum á hreint eins og hann orðaði við mig. Það átti ekki að vera neitt óklárað þegar að þessu kæmi. Kalli, eins og hann var oftast kallaður, byrjaði í lögreglunni í byrjun árs 1973 þegar Heimaeyj- argosið hófst, þá 54 ára gamall. Á þessum umbrotatímum var þörf á traustum og ábyggilegum mönn- um sem gátu sinnt þessu krefj- andi starfi í samfélagi þar sem eldur og aska ógnaði heilu byggð- arlagi. Kalli var einn af þeim sem valdir voru til að sinna þessu starfi. Hann sinnti lögreglustarf- inu af mikilli alúð og dugnaði. Aldrei varð honum misdægurt á 18 ára starfsferli sínum. Á upp- byggingartíma eftir gosið gat oft verið róstusamt í bæjarfélaginu enda mikið líf í bænum. Það voru því mörg erfið málin sem komu inn á borð lögreglunnar á þessum tíma. Þá kom að góðum notum reynsla Kalla úr lífinu sjálfu. Hann mátti ekkert aumt sjá og ef ógæfumenn samfélagsins voru í vandræðum, þá vildi hann allt gera til að aðstoða þá. Þannig fengum við þeir yngri að kynnast og læra af okkur eldri og reynd- ari manni. Hann starfaði í lög- reglunni til áramóta 1991-92 þeg- ar hann var kominn á sjötugasta og fyrsta ár. Hann lauk námi frá Lögregluskóla ríkisins árið 1977 á 58. ári og er sennilega með þeim elstu sem lokið hafa prófi frá þeim skóla. Hann var skip- aður varðstjóri 1976. Ég átti því láni að fagna að veljast með honum á vakt. Tekið var á móti með miklum aga og var maður óspart látinn vita ef eitthvað mætti bæta í starfi og jafnframt hrósað ef vel var gert. Hann lagði mikla áherslu á að allt væri í röð og reglu á vinnu- staðnum og að menn gengju snyrtilega um, það átti ekki hvað síst við um lögreglubún- inginn enda bar hann alltaf mikla virðingu fyrir honum. Það átti því vel við, að þegar hann lauk starfsferli sínum gaf hann Byggðasafni Vestmannaeyja búninginn til varðveislu. Hann var hrókur alls fagnaðar á vakt- inni og líkaði vel ef menn voru með glens og gleði. Hann stóð fyrir og tók þátt í mörgum hrekkjum gagnvart félögum sínum. Einum langar mig að segja frá. Á þessum árum voru menn að byggja upp hús og rækta sína garða eftir að þeir höfðu orðið illa úti í eldgosinu. Þetta kom oft til umræðu á vaktinni og var eins ástatt með mig að ég var alltaf að tala um að fara að rækta upp garðinn við húsið mitt. Einn morguninn þegar ég vaknaði og leit út sá ég að sorphirðumenn voru að skoða stórt skilti á lóðinni minni sem ekki var stingandi strá á. Virtist þeim skemmt að lesa það sem á skiltinu stóð. Þegar ég at- hugaði þetta stóð á skiltinu stórum stöfum: „Gangið ekki á grasinu“ og undir nafnið mitt. Þessu hafði Kalli staðið fyrir á næturvaktinni ásamt félögun- um. Hann vildi hafa líf og fjör í kringum sig. Fyrir hönd lögreglumanna og embættisins vil ég senda Stellu og öðrum aðstandendum sam- úðarkveðjur. Minning um góðan félaga lifir. Jóhannes Ólafsson yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum. Karl Jónsson ✝ Elskulegur eiginmaður minn, faðir, tengda- faðir, afi og langafi, GÍSLI BENÓNÝ KRISTJÁNSSON fyrrv. skrifstofustjóri, Gullsmára 9, Kópavogi, lést á Landspítalanum við Hringbraut sunnudaginn 1. maí. Hann verður jarðsunginn frá Kópavogskirkju mánudaginn 9. maí kl. 15.00. Sigurbjörg Jóhanna Þórðardóttir, Unnsteinn Þórður Gíslason, Magnús Gíslason, Kristján Gíslason, Guðrún Benedikta Elíasdóttir, Gísli Örn Gíslason, Birna Bjarnadóttir, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Ástkær sambýlismaður minn, faðir, tengda- faðir, stjúpfaðir, afi og langafi, ANDRÉS HJÖRLEIFSSON, áður að Grýtubakka 30, Reykjavík, lést á hjúkrunarheimilinu Eir fimmtudaginn 5. maí. Útförin verður auglýst síðar. Fyrir hönd aðstandenda, Rósa Jóhannesdóttir. ✝ Elskulegur faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, STEFÁN GUNNAR JÓNSSON, Birkivöllum 11, Selfossi, andaðist á heimili sínu þriðjudaginn 3. maí. Þór Stefánsson, Sigríður Waage, Jóhanna H. Magnúsdóttir, Kristín B. G. Marx, Erhard Marx, Stefán Þór Gunnarsson, Elísa Rós Jónsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Móðir okkar, tengdamóðir, amma og lang- amma, NANNA ÍDA KAABER, hjúkrunarheimilinu Skjóli, áður Lindargötu 57, lést fimmtudaginn 5. maí. Árni Emil Bjarnason, Hulda Júlíusdóttir, Ástríður Björg Bjarnadóttir, Björn Ólafur, Júlíus og Nanna Árnabörn, Hörður Bjarni og Haukur Emil Kaaber, Erna María, Flóki Hrafn og Emil Arthúr. Útfararþjónusta Davíðs Ósvaldssonar ehf Davíð Ósvaldsson Útfararstjóri S. 896 8284 / 551 3485 Óli Pétur Friðþjófsson Útfararstjóri S. 892 8947

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.