Morgunblaðið - 23.05.2011, Síða 14
14
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 23. MAÍ 2011
Sprengigos í Grímsvötnum
Fyrstu mælingar á flúorinnihaldi
gjósku frá Grímsvötnum benda til
þess að það sé töluvert innan þeirra
marka sem nautgripir og sauðfé
þola og enn fjær eitrunarmörkum.
Gunnar Þorkelsson, héraðs-
dýralæknir á Kirkjubæjarklaustri,
segir mælingar á sýni sem tekið var
laust upp úr miðnætti aðfaranótt
sunnudags hafa innihaldið á bilinu
5-10 milligrömm á kíló. Þolmörk
sauðfjár eru frá 70-100 mg/kg, en
eitrunarmörk 250 mg/kg.
Bændur lögðu á það kapp í gær
að koma fé í hús eða heim undir, og
segir Gunnar það hafa gengið vel.
„Það sem ég lagði áherslu á við þá
var að þeir tækju það frá stöðnum
pollum, en þar getur þéttni flúors
orðið mikil,“ segir Gunnar. Flestum
hafi tekist að koma fénu ann-
aðhvort að læk eða rennandi vatni.
Morgunblaðið/Ernir
Óþægindi Kindur kunna illa við
ösku en margar komust ekki á hús.
Flúorinni-
hald ekki
skaðlegt fé
Flúormengun
SVIÐSLJÓS
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Þegar rofaði til á öskufallssvæðinu eftir hádegið
í gær beindist athygli íbúanna að skepnunum.
Bjarga fé í hús eða að húsum og gefa hey og
hreint vatn. Íbúar í þéttbýlinu á Kirkjubæjar-
klaustri héldu sig heimavið, eins og ráðlagt var.
Dæmi er um að barnafjölskyldur hafi komið sér
í burtu af öskusvæðinu.
Mistur lá í loftinu þegar ekið var um Rangár-
vallasýslu í gær. Brún gjóskuslikja sást á lofti.
Þegar komið var út á Mýrdalssand þykknaði
fyrst verulega í lofti. Engin umferð var um
sandinn um hádegisbilið enda ferðafólk inni-
lokað á Kirkjubæjarklaustri því ekki var fært,
hvorki í austur né vestur, vegna þess hversu
dimmt var yfir vegna öskufallsins. Þegar hins
vegar litið var í baksýnisspegilinn sást mynd-
arlegur strókur aftur úr bílnum.
Askan jókst eftir því sem austar dró. Þegar
birti jókst umferðin á móti, enda vegurinn þá
opnaður. Þá fylgdi hverjum bíl mikill ösku-
strókur þannig að þeir fáu sem voru á aust-
urleið þurftu að hægja verulega á eða stöðva á
meðan rykið settist.
Fólk flýr öskuna
„Svona er staðan, það þýðir ekki að hugsa
um annað,“ sagði Kjartan Kjartansson, skóla-
stjóri á Kirkjubæjarklaustri. Hann og kona
hans, Elín Þóra Guðmundsdóttir, héldu sig
heima með þremur börnum sínum. Hann sagð-
ist hafa vaknað í myrkri, bölvað því að vera
andvaka og snúið sér á hina. Hann hefði svo
áttað sig á því að þetta hefði verið um klukkan
hálfátta um morguninn þegar venjulega er orð-
ið bjart.
Þeir sem þurftu að skjótast á milli húsa voru
með öryggisgleraugu og grímur enda þykkt
öskulag yfir þorpinu, götum, húsþökum og
kyrrstæðum bílum og rykið þyrlaðist upp úr
sporunum þegar fólk gekk eða bílar óku hjá.
Logn var í gær en ekki þarf mikinn vind til
að askan fari af stað. Af nógu er að taka.
Tíminn var notaður til að spila og horfa á
sjónvarpið. Allir höfðu það gott, verra var með
hundinn sem þau eru að passa, hann komst
ekki út til að gera þarfir sínar, fyrr en leið á
daginn.
Elín Þóra sagði að þótt reynt hefði verið að
líma fyrir rifur við opnanleg fög og útihurðir
smygi rykið alls staðar inn. „Þetta er við-
bjóður,“ sagði hún.
Askan raskaði daglegu lífi fólks. Áhrifin gætu
orðið verri í dag og næstu daga.
Ljóst er að skólahald fellur niður á Kirkju-
bæjarklaustri í dag. Aðeins fjórir dagar eru eft-
ir af skólanum og átti að nota tímann til útivist-
ar. Ekki lítur vel út með það og ef til vill er
skólahaldi lokið í vor. Kjartan sagði að það yrði
metið í dag í samráði við viðkomandi yfirvöld.
Kjartan vissi til þess að fólk hefði forðað sér
í burtu, meðal annars barnafólk. Hann sagði
það skiljanlegt, rykið færi illa í marga.
Útlendingarnir vildu burt
Öskufallið hefur áhrif á störf fleiri stétta en
bænda. Allt er undirlagt á öskufallssvæðinu.
Þegar er farið að bera á afbókunum hjá
ferðaþjónustufyrirtækjum og er óttast að þeim
rigni yfir í dag. „Íslendingarnir tóku þessu með
ró. Útlendingarnir voru órólegri og vildu kom-
ast sem fyrst í bæinn,“ sagði Anna Guðrún
Jónsdóttir í Hótel Laka í Efri-Vík í Landbroti.
Hún tók raunar fram að nokkrir erlendir ferða-
menn sem voru á austurleið hefðu tekið þessu
af yfirvegun og fundist spennandi að fylgjast
með náttúruhamförunum. Þeir ætluðu að bíða
og sjá til hvort fært yrði austur um.
Eftir eldgosið í Eyjafjallajökli afbókuðu
margir hópar. Anna Guðrún sagði að rólegt
hefði verið framan af sumri en tekist hefði að
fylla í eyðurnar þegar komið var fram á sumar.
Hún kvaðst óttast að það sama gerðist, að af-
bókanir færu að berast. Sumir treystu sér ekki
til að hugsa til Íslandsferðar, þótt þeir ætluðu
að fara í ágúst, eins og gerðist í fyrra.
„Það getur enginn stöðvað þetta. Við verðum
bara að fylgjast með veðurspá og vona að öfl-
ugur vindur verði af réttri átt,“ sagði Anna
Guðrún.
Keyrðu milli bæja
Eftir að birti til gátu björgunarsveitarmenn
ekið með andlitshlífar heim á bæina í öskufalls-
sveitunum og aðstoðað bændur með skepnurnar
og hægt var að hleypa ferðafólkinu vestur yfir
Mýrdalssand.
20 til 30 björgunarsveitarmenn voru á ferð-
inni, flestir úr björgunarsveitum af Suðurlandi,
því heimamenn voru flestir í því að bjarga eigin
málum.
Adolf Arnar lögregluvarðstjóri vissi ekki ann-
að en allt hefði gengið vel fyrir sig og engin al-
varleg vandamál komið upp við þetta starf.
„Þetta er viðbjóður“
Þykkt ryklag yfir Kirkjubæjarklaustri Fólk heldur sig innivið Bændur
reyna að koma lambfé á hús Dæmi um að barnafólk hafi komið sér í burtu
Rekið inn Bændur reyndu eftir því sem
hægt var að koma skepnum inn eða í
þröng hólf með heyi og vatni. Þórarinn
Eggertsson í Hraungerði í Álftaveri
naut þess að Oddur sonur hans var
heima í sauðburði. Hann er annars við
önnur störf sem læknir og lögfræðingur.