Okkar á milli - 01.02.1986, Page 3
Hadland kom fyrstur. Hann var næstum eins þrekinn og Monty, en
kringluleitt andlitið gerði það að verkum að hann virtist töluvert yngri.
Hárið var kolsvart og það var bros í brúnum augunum þegar hann
heilsaði henni. Hann flýtti sér að setja plötu með Rod Stewart á fóninn
og dansaði svo um gólfið og lygndi aftur augunum. Skömmu seinna
kom Monty ásamt Bulk og Bosse, sem var haltur og sagði aldrei
aukatekið orð. Hún varð bæði vonsvikin og hissa þegar hún sá að
einhver ókunnugur, fullorðinn maður var í för með þeim. Hvern
fjandann var hann að gera í veislunni þeirra? Hann stóð frammi á
gangi, og enginn virtist taka eftir honum. Það var ekki fyrr en Sonja
sagði að hann mætti koma inn fyrir, að hann fór úr frakkanum og tók
hikandi ofan hattinn. Hann virtist vera á sextugsaldri. Fötin hans voru
úr glansandi, bláu efni og fullstór á hann. Hann kom inn í stofuna og
hneigði sig afsakandi við hvert fótmál. Svo stóð hann grafkyrr og virtist
ekki hafa hugmynd um hvað hann ætti að gera af höndunum á sér.
Þar til Bulk kom honum til bjargar og rétti honum glas. Ókunnugi
maðurinn sagði ekki orð, en Sonja fann að hann gaf henni auga, eins
og hann gerði sér vonir um eitthvað. Bulk rétti henni líka glas, og svo
skáluðu þau öll hvert við annað. Henni fannst eitthvað bogið við þetta
allt saman. Enginn yrti á gestinn, og þá sjaldan Monty sagði eitthvað
við vinina, gaut hann jafnframt augunum til Sonju.
Hún varð óttaslegin. Eitthvað var alls ekki eins og það átti að vera.
Hún leit á Monty, en fann ekkert svar í steinrunnu andlitinu. Henni
rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Svo hljóp hún til hans og æpti:
- Hver fjandinn er þetta? Geturðu ekki hent karlskrattanum út, hann
ætlar að éta mig með augunum!
Monty reis á fætur, tók um herðarnar á Sonju og dró hana með sér
inn í herbergið sitt.
- Hlustaðu nú á mig, krúttið mitt, sagði hann lágt. - Fjárhagurinn
hefur ekki verið upp á það besta undanfarið, svo að þú verður að
halda smáskemmtun fyrir karlinn. Þú hlýtur að sjá að hann er alveg
slefandi!
- Ég trúi þessu ekki! Segðu að þú meinir þetta ekki! En andlit hans
var gjörsamlega lífvana, og skyndilega áttaði hún sig á því hvað var
að gerast. Hún fann hvernig gráturinn ætlaði að sprengja augnlokin,
svo tóku tárin að streyma og líkaminn var ekki lengur af holdi og
blóði, heldur galtóm skurn. Hún lagði hendurnar á axlir hans og sagði
með ekkasogum: Maður selur ekki það sem manni þykir vænst um,
er það?
- Auðvitað sel ég þig ekki, hvíslaði Monty. - En ef þú elskar mig,
hefurðu núna tækifæri til að sýna það í verki. Ég er í vandræðum og
þú ert eina manneskjan sem getur hjálpað mér. Nú er tækifærið til að
sýna hvað þú elskar mig heitt!
URBOKINNI: