Okkar á milli - 01.12.1987, Page 3
Örstuttur kafli
úr Mannamun
Ég vil vera hjón
Einn dag sem þau voru þar börnin, höfðu þau það til gamans, að
þau byggðu sér bæ. Var Ólafur veggjasmiðurinn, og gjörði hann
það snoturlega, því hann var þegar ungur mjög laginn, en þau
Kristín og Vigfús höfðu fyrir aðflutningum.
Þegar byggingunni var lokið, sagði Kristín: ,,Nú skulum við fara
að verða hjón, Ólafur, en Vigfús á að vera vinnumaður hjá okkur.
Svo ætla ég aö fara að skammta, úr því við erum ekki búin að
borða. Ég ætla að reyna að vera ósköp konuleg".
„Ég vil vera hjón“, sagði Vigfús, ,,en ekki vinnumaður".
„Viltu vera hjón? Hvaða ólukkans bögumæli er það. En ég vil
ekki hafa þig fyrir bónda. Hann Ólafur kann svo vel að byggja
bæ“.
„Þú skalt verða bóndi á stundum", sagði Ólafur, og vildi gjöra
eftir skapi Vigfúsar.
„Já, en þá má hann nú fá sér aðra konu en mig. Ég fer nú að
skammta", sagði Kristín og tók matarpoka sinn.
„Má ég ekki skammta þér matinn þinn líka, Óli minn?“
„Jú, það máttu, en ætlar þú ekki líka að skammta honum Fúsa,
Stína?“
„Nei, hann vill ekki vera vinnumaður, og því bezt, að hann
skammti sér sjálfur“.
Kristín fór þá til og bar matinn í nýja búrið og varð þá - eins og
hún kallaði það ósköp konuleg.
í þessu bili sá hún, að kýrnar voru komnar á rás, og kallaði til
Vigfúsar:
„Fúsi“, sagði hún, „farðu fyrir kýrnar. Ég vil hafa það, að þú
sért vinnumaður. Ég skammta þér á meðan“.
„Ég verð enginn vinnurmaður og er ekkert fyrir kýrnar".
„Þú ert mikið óhræsi“, sagði Kristín, og hljóp á stað eftir Ólafi,
sem var nu kominn á stað til að snúa kúnum aftur. Þau reka þær
þangað, sem þau vildu hafa þær, og var það stundarkorn, þangað
til þau komu aftur heim að litla bænum.
Kristín hyggst þá að taka til og fara að skammta þeim hjóna-
leysunum, en þegar hún kom inn í búrið sitt, sá hún að heldur
hafði verið óvinsamlega um gengið. Vigfús hafði spillt sumu af
matnum, en sumu hafði hann stolið og étið, svo lítið var eftir, sem
þeim Ólafi gæti orðið að notum.
Vigfús stóð og glotti leiðinlega, þegar hann sá, hvernig Stínu
brá við, því hún reiddist mjög.
„Þú ert versti strákur“, sagði hún og ætlaði að reka honum
löðrung.
3