Árbók VFÍ/TFÍ - 01.06.1997, Page 368
366 Árbók VFÍ/TFÍ 1996/97
fyllt að brúnni upp í hæð á efri brún stöpuls nr. 1 og forsteyptum einingum kornið þar fyrir
á vel þjappaðri fyllingunni og síðan fyllt inn í einingarnar upp í gólfhæð brúarinnar. Að
austanverðu var gerð vegfylling ofan brúar meðfram austustu einingunni sem síðan var
sveigð inn að enda brúarinnar sem eftir stóð við stöpul 17. Þar voru einnig settar forsteyptar
einingar eins og við vesturendann.
Til að koma umferð yfir sandinn á þeim svæðum þar sem vegur var horfinn eða skemmd-
ur var gerður slóði ofan vegar. Slóðinn var um 0,3 m þykkur og 6 m breiður malarpúði.
Lengdin á slóðinni var u.þ.b. 10 km.
Brúarvinnuflokkar Vegagerðarinnar byggðu bráðabirgðabrúna yfir Gígjukvísl og sáu um
ofangreindar lagfæringar á Skeiðarárbrú. Gerð vegslóðans var boðin út. Almennri umferð
var hleypt á sandinn 27. nóvember og voru þá liðnir 22 dagar síðan vegasambandið rofnaði
þann 5. nóvember.
Endurbygging varanlegra mannvirkja
Vegagerðin hefur frá upphafí haft náið samráð og samstarf við vísindamenn hjá Raunvís-
indastofnun Háskólans og Orkustofnun, bæði fyrir Grímsvatnagosið í október og ekki síður
eftir að það hófst. Eftir umbrotin voru þeir beðnir að draga saman þá reynslu og þekkingu
sem safnað var í tengslum við atburðina, þannig að Vegagerðin gæti endurskoðað allar hönn-
unarforsendur mannvirkja á Skeiðarársandi. Meðal annars var óskað eftir að reynt yrði að
svara eftirfarandi spurningum:
• Yfirlit um stærð og atburðarás hlaupsins haustið 1996.
• Endurkomutími viðlíka hlaups.
• Hvernig líta spáferlar Grímsvatnahlaupa næslu áratuga út?
• Er líklegt að þetta hlaup breyti hegðun hefðbundinna hlaupa?
• Er líklegt að þetta hlaup breyti hefðbundnu rennsli?
• Eru einhverjar aðferðir hugsanlegar til að koma í veg fyrir stórhlaup?
• Eru líkur á breytingum á eldvirkni undir vestanverðum Vatnajökli?
Vegagerðin hefur fengið greinargerðir frá þessum ráðgjöfum og hafa þær verið gefnar út í
skýrslu sem heitir „Vatnajökull. Gos og hlaup 1996“. Þau gögn og þær ályktanir sem þar
koma fram liggja ásamt ýmsu fleiru til grundvallar hönnunarforsendum varðandi endur-
byggingu mannvirkja á Skeiðarársandi.
Tíðni stórhlaupa: Eldvirknin í Vatnajökli er breytileg og það skiptast á róleg og óróleg
tímabil. Dæmi um rólegt tímabil er tímabilið 1900-1996. Á því tímabili eru þekkt 11 gos
innan vatnasviðs Súlu, Gígjukvíslar og Skeiðarár og áttu þau sér stað árin 1903, 1908*,
1910*, 1919, 1922, 1933. 1934, 1938, 1983, 1984* og 1996. Þrjú af þessum gosum voru
þess eðlis að þau orsökuðu stórhlaup á sandinum og eru það gosin sem áttu sér stað árin
1903, 1938 og 1996. Dæmi um órólegt tímabil er tímabilið 1800-1900. Á því tímabili eru
þekkt 18 gos innan vatnasviðs Súlu, Gígjukvíslar og Skeiðarár og áttu þau sér stað árin 1816,
1823, 1838, 1847*, 1851, 1861, 1867, 1872*, 1873, 1876*, 1877*, 1878, 1883, 1885, 1887,
1889, 1892, 1897* (vísbendingar um gos merkt með * eru ekki öruggar). Þrjú af þessum
gosum voru þess eðlis að þau orsökuðu stórhlaup á sandinum og eru það gosin sem áttu sér
stað árin 1861, 1867 og 1892. Gosið 1816 orsakaði hlaup en óvíst er að það hafi verið stór-
hlaup.