Bændablaðið - 07.07.2011, Blaðsíða 14
14 Bændablaðið | fimmtudagur 7. júlí 2011
Breyttar aðstæður í heiminum
öllum þýða að íslenskir bændur
og matvælaframleiðendur verða að
líta í eigin barm og ákveða framtíð
sína. Háskóli Íslands tekur nú þátt
í alþjóðlegu samstarfsverkefni sem
ætlað er að auðvelda venjulegu
fólki að hafa áhrif á breytingarnar
og afleiðingar þeirra og leitar eftir
þátttakendum í vinnuhópa sem
taka til starfa í haust.
Í hverjum mánuði vex mann-
kynið um eina Lundúnaborg – tæpar
8 milljónir barna fæðast umfram
einstaklinga sem látast. Þessi öri
vöxtur er ekki gamall – fyrir 60
árum síðan taldi mannkynið 2,5
milljarða einstaklinga, en núna erum
við tæplega 7 milljarðar og gerir
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ráð
fyrir að við verðum nær 10 milljarðar
eftir 40 ár. Eftir sem áður hafa menn-
irnir enn jafn mikið landsvæði til
umráða, það er að segja þessa einu
jörð, og það gefur auga leið að sífellt
þarf að finna nýjar leiðir til að metta
æ fleiri munna.
Til viðbótar er ljóst að loftlags-
breytingar munu hafa víðtækar
afleiðingar fyrir matvælaframleiðslu
í heiminum. Áhrifanna mun gæta í
íslenskri matvælaframleiðslu, verð-
lagi innfluttra matvæla og auknum
tækifærum til útflutnings íslenskra
matvæla.
„Við þurfum að sjá heildarmynd-
ina og geta staðsett okkur í þessari
stóru mynd sem við erum hluti af,“
segir Kristín Vala Ragnarsdóttir,
forseti Verkfræði- og náttúruvís-
indasviðs Háskóla Íslands, sem er í
forsvari fyrir alþjóðlegt samvinnu-
verkefni sem ætlað er að finna leiðir
fyrir samfélög til að aðlagast þeim
breytingum sem fyrirsjáanlegar eru
í matvælaframleiðslu heimsins.
„Íslenskir matvælaframleiðendur
verða að finna leiðir til að aðlagast
þessum nýja veruleika,“ segir
Brynhildur Davíðsdóttir, dósent í
umhverfis- og auðlindafræðum við
Háskóla Íslands. „Ef við hefjum
vinnuna nægilega snemma, þá geta
falist gífurleg og afar spennandi
tækifæri í þessum fyrirsjáanlegu
breytingum. Íslenskir bændur hafa
hér tækifæri til að hafa sjálfir mikil
áhrif á eigin framtíð.“
Bændablaðið hitti þær
stöllur fyrir á dögunum til að
ræða Samleiðniverkefnið, auk
Norðmannsins Haralds Sverdrup, en
hann er prófessor í efnaverkfræði
við háskólann í Lundi í Svíþjóð og
sérfræðingur í kerfislíkanasmíðum,
og tekur þátt í verkefninu fyrir hönd
skólans.
Tækifæri í sjálfbærni
Samleiðniverkefnið er unnið af
fjórum evrópskum háskólum og
fimm frjálsum félagasamtökum frá
fimm löndum.
„Ætlunin er að útbúa leiðarvísi
sem samfélög geta notað til að
færast í átt að sjálfbærni, þar sem
Vesturlönd draga úr notkun auðlinda
og ósjálfbærri hegðun á sama tíma
og þróunarríkin fá rúm til að auka
sína notkun – allt innan þeirra líf-
fræðilegu marka sem jörðin setur
okkur. Með öðrum orðum, við leið-
um saman mismunandi fólk og mis-
munandi lífsstíla, til að finna bestu
framtíðarsýnina fyrir hvert samfélag
fyrir sig, alltaf með heildarmyndina
í huga. Samleiðni í átt að sjálfbærni
er leiðin að jafnrétti mannkyns innan
líffræðilegra takmarka jarðarinnar,“
útskýrir Kristín Vala. „Þetta byrjaði
allt saman í Bristol í Englandi, þar
sem ég vann áður og þar sem tölu-
verður áhugi er meðal almennings
á að jafna rétt jarðarbúa til auðlinda
jarðarinnar. Og það er mikilvægt að
muna að við erum ekki að tala um
samdrátt hérna, við erum að tala um
leiðir til að finna réttlátari skiptingu
og varanlegar og raunverulegar fram-
tíðarlausnir í matvælaframleiðslu,“
bætir hún við.
„Allt þetta tekið saman, áhrifin af
fjölda fólks í heiminum og loftlags-
breytingar, auk þverrandi auðlinda,
mun setja okkur stólinn fyrir dyrnar
hvað varðar matvælaframleiðslu, en
við megum ekki gleyma því að á sama
tíma munu þessar breytingar opna
nýjar dyr sem nú eru lokaðar eða sem
við komum ekki auga á eins og staðan
er í dag. Einmitt þess vegna er svo
áhugavert að sjá tækifærin í þessum
breytingum og gera það nægilega
snemma til þess að við höfum raun-
verulega möguleika á að hafa áhrif á
eigin framtíð,“ segir Brynhildur.
Ástand jarðar
Fyrir tveimur árum síðan skil-
greindi hópur alþjóðlegra vísinda-
manna níu þolmörk jarðar sem mann-
kynið verður að halda sig innan ef
jörðin á að vera lífvænlegur staður
til frambúðar. Af þessum níu þol-
mörkum telja vísindamennirnir að
við séum komin fram yfir þremur
(þ.e. köfnunarefnahringrásina,
loftlagsbreytingar og æ minnkandi
líffræðilegum fjölbreytileika), og
langt komin með að fara fram úr
tvennum öðrum (sýrustigi sjávar og
fosfórhringrásinni). Kristín Vala og
Harald birtu nýverið rannsókn sem
undirstrikar fyrri rannsóknina og
sýnir að birgðir heimsins af fosfór
fara nú ört minnkandi. Fosfór fyrir-
finnst í erfðavísum allra lífvera og er
höfuðefni í tilbúnum áburði. Hvað
menn varðar er hann meðal annars
lífsnauðsynlegur fyrir myndun beina
og tanna, allan frumuvöxt, samdrátt
hjartavöðva og heilbrigða nýrna-
starfsemi.
„Þar fyrir utan er vitað mál að
nær allt land sem hentar vel til land-
búnaðar er nú þegar í notkun, og við
verðum að nota aðrar leiðir til að
auka matvælaframleiðslu en að finna
bara nýja akra,“ segir Harald.
„Maðurinn er orðinn að náttúru-
afli, jarðfræðiafli. Við höfum haft
svo gífurleg áhrif að á bara þremur
áratugum erum við búin að eyða
30 prósentum af öllum skógum
jarðar, höfum tapað 25 prósentum
af jarðvegi, erum búin að brenna
meira en helmingi allrar olíunnar,
helming alls fosfats og málmar fara
þverrandi. Fjórðungur spendýra er í
útrýmingarhættu og vistkerfi bæði í
sjó og á landi eru víða hætt komin.
Ábyrgðin liggur mestmegis hjá
okkur Vesturlandabúum, neyslu-
mynstur okkar hefur valdið þessu,“
segir Kristín Vala. „Sem dæmi má
nefna að ég sá krækling frá Asíu
til sölu í íslenskri verslun núna
í vor, og rökin þar á bak við eru
óskaplega undarleg – við eigum
gnægð af kræklingi hér og engin
ástæða til að flytja hann yfir hálfan
hnöttinn með öllum þeim tilkostnaði
og orkueyðslu sem því fylgir. Það er
einmitt svona tilgangslaus flutningur
matvæla sem við þurfum að hugsa
upp á nýtt.“
Samleiðniverkefnið
Albert Einstein sagði á sínum tíma:
„Það er ekki hægt að leysa vandamálin
sem fyrirfinnast í heiminum í dag með
sama hugsanaganginum og skapaði
þau.“ Í samræmi við þá hugsun er
takmarkið með Samleiðniverkefninu
að nota aðferðafræði sem heitir kvik
kerfislíkön, þar sem hópur fólks býr
til sitt eigið líkan af framtíð matvæla-
framleiðslu með aðstoð sérfræðinga.
Við vinnuna verður stuðst við ákveð-
inn leiðarvísi sem Háskóli Íslands
hefur hannað með samstarfsaðilum
í verkefninu.
Leiðarvísirinn og líkanasmíðin
verða prófuð í haust í þremur sam-
félögum, á Íslandi, í þorpi á Suður-
Indlandi og í borginni Bristol á
Bretlandi. Á hverjum stað fyrir sig
verður leitað að fólki sem tengist mat-
vælaiðnaði í víðasta skilningi – allt
frá innflytjendum tilbúins áburðar til
kokka á veitingastöðum og allt þar
á milli.
„Það borgar sig að fá sem breið-
astan hóp til að ná sem bestum árangri,
og þá erum við að tala um grænmetis-
bændur og sauðfjárræktendur og allt
upp í smásölu- og stórsöluaðila. En
mikilvægt er að hafa ráðamenn með
líka, til dæmis sveitarstjórnaraðila og
fólk frá sjávarútvegs- og landbún-
aðarráðuneytinu, til að geta haft sem
mest áhrif á lög og reglugerðir,“ segir
Harald.
Áætlað er að 20-50 manns taki
þátt í vinnufundunum á hverjum stað
fyrir sig.
„Við byrjum út frá framtíðarsýn
þátttakenda, og á þremur heilsdags
vinnufundum munum við búa til
raunhæft tölvulíkan af því hvernig
sjálfbær matvælaframleiðsla, með
atvinnusköpun og útflutningi og öllu
sem til heyrir, getur litið út í þessum
þremur samfélögum. Árangurinn
verður síðan kynntur á hverjum stað
fyrir sig með hádegisfyrirlestri. Við
bindum miklar vonir við verkefnið
hér á landi. Tilgangurinn er að sjá
heildarmyndina í stóru samhengi og
búa til framtíðarsýn sem íslenskir mat-
vælaframleiðendur geta lifað við. Hér
er gríðarlega gott tækifæri til að láta að
sér kveða,“ segir Kristín Vala.
„Ef bændur og aðrir matvæla-
framleiðendur taka ekki sjálfir þátt í
að móta framtíðarstefnu landbúnaðar-
ins á Íslandi, þá gera bara einhverjir
aðrir það og það er auðvitað ekki jafn
ákjósanlegt. Það er einmitt þetta sem
gerir þátttöku í Samleiðniverkefninu
svo áhugaverða,” segir Brynhildur að
lokum.
Frekari upplýsingar má finna á
heimasíðu verkefnisins, http://www.
convergeproject.org, eða með því
að hafa samband við Sigrúnu Maríu
Kristinsdóttur í netfanginu smk5@
hi.is, en hún tekur einnig þátt í verk-
efninu fyrir hönd Háskóla Íslands.
/Sigrún María Kristinsdóttir
Tækifærin felast í breytingum í matvælaframleiðslu
Harald Sverdrup og Kristín Vala Ragnarsdóttir vinna nú að stóru alþjóðlegu
verkefni, sem ætlað er að útbúa líkan að vænlegri og sjálfbærri matvælafram-
leiðslu á Íslandi í framtíðinni.
Íslenskir matvælaframleiðendur
breytingum sem fyrirsjáanlegar eru í
heiminum, segir Brynhildur Davíðs-
dóttir dósent við Háskóla Íslands.
ÞÓR HF | Krókhálsi 16 | Sími 568-1500 | Lónsbakka | Sími 461-1070 |
DEUTZ-FAHR sláttuvélar
HEYVINNUVÉLAR
TIL AFGREIÐSLU STRAX
DEUTZ-FAHR Fjölfætlur
DEUTZ-FAHR múgavélar
DEUTZ-FAHR rúlluvélar