Fréttablaðið - 29.08.2012, Side 2
29. ágúst 2012 MIÐVIKUDAGUR2
... og rjómi
FÓLK Íbúar í þjónustuíbúðum aldr-
aðra komast ekki út úr húsi því
eina lyfta hússins hefur verið
biluð síðan á mánudag. „Það eru
svo margir sem ekki geta farið
stiga,“ segir Hrafnhildur Thors,
fyrrverandi húsmóðir og 92
ára gamall íbúi í þjónustuíbúð
Sunnuhlíðar við Kópavogsbraut
1A. Hún hefur búið í húsinu í
rúmlega tíu ár og verður 93 ára
gömul í september.
„Fólkinu finnst það vera eins
og fangar þegar eitthvað svona
kemur upp á,“ segir Hrafn hildur.
Íbúar hússins vita ekki hversu
lengi þeir þurfa að bíða eftir því
að lyftan verði lagfærð, en hús-
vörður vonast til að lyftan komist
í lag í dag. Langflestir íbúanna
eiga allt undir því að komast
niður í lyftu.
Hrafnhildur er reið yfir því að
á mánudag ætlaði hún að hitta
ættingja sinn sem hafði misst
ástvin. Hún komst hins vegar
ekki út úr húsi því hún á orðið
erfitt með gang og leggur ekki í
stigana.
„Ég borga mikið af peningum
á mánuði í húsgjöld og er því
mjög svekkt. Svo er ég nú orðin
svo fullorðin að ég treysti mér
ekki til þess að flytja héðan, það
er ekki nokkur leið. Ég veit að ég
gæti verið á góðum stað þar sem
ég get verið á fyrstu hæð. En ég
er ákaflega ánægð hérna og ég
vil alls ekki flytja. Mér finnst
þetta hins vegar ekki hægt.“
Þær upplýsingar fengust frá
húsverði á Kópavogsbraut 1A að
unnið sé að viðgerð á lyftunni.
Viðgerðin sé tímafrek því mótor
hafi brunnið yfir. Það er hins
vegar vonast til þess að lyftan
komist í lag í dag. Þá sé reynt
að veita venjubundna þjónustu
hússins þó lyftan sé biluð. Því sé
matur borinn upp til þeirra sem
þess óska.
Hrafnhildur er þeirrar skoðun-
ar að lyftur í svona húsum eigi
ekki að vera bilaðar. Tvær eigi
að vera í húsinu til að gulltryggja
aðgengið. „Hver ber ábyrgð á
því að hafa svona stórt hús með
aðeins eina lyftu?“ spyr hún.
birgirh@frettabladid.is
Íbúar eins og fangar
á lyftulausu heimili
Margir aldraðir íbúar í þjónustublokk í Kópavogi reiða sig á lyftu hússins til
þess að komast út úr húsi. Lyftan er biluð og margir komast hvorki lönd né
strönd. Íbúar ekki ánægðir og spyrja af hverju aðgengi þeirra sé ekki tryggt.
FÖST HEIMA Hrafnhildur kemst ekki út úr húsi af því að hún getur ekki notað stiga.
Lyftubilunin kemur sér mjög illa fyrir hana sem og marga aðra íbúa hússins.
FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
LYFTAN STOPP Ekki er gefið upp hversu
lengi lyftan hefur verið biluð.
Ég er ákaflega ánægð
hérna og ég vil alls
ekki flytja. Mér finnst þetta
hins vegar ekki hægt.
HRAFNHILDUR THORS
ÍBÚI VIÐ KÓPAVOGSBRAUT 1A
DANMÖRK Danir setja notaða
matar olíu á bílana sína og hita
húsin sín upp með henni. Þetta er
hins vegar ólöglegt samkvæmt
fréttum danskra fjölmiðla.
Starfsmenn veitingastaða
mega hvorki selja né gefa notaða
matarolíu. Þeir geta látið sækja
hana á löglegan hátt eða farið
með hana í endurvinnslu. Oftast
er matarolían sett í tunnur sem
geymdar eru við bakdyr veitinga-
staðanna. Fyrirtækin sem sækja
olíuna skilja svo eftir tómar
tunnur í staðinn. - ibs
Notuð matarolía seld:
Setja matarolíu
á bílana sína
LÖGREGLUMÁL Símfyrirtækin mega ekki afhenda lög-
reglunni á Selfossi gögn sem gætu nýst við að upplýsa
nauðgunarmál gegn ólögráða unglingsstúlku á Þjóðhá-
tíð í Vestmannaeyjum. Þetta er niðurstaða Hæsta-
réttar frá því í gær.
Héraðsdómur Suðurlands hafði áður úrskurðað að
símafyrirtækjunum bæri að afhenda lögreglunni lista
yfir öll símtöl sem fóru um fjarskiptamöstur sem ná
inn í Herjólfsdal á tíu mínútna tímabili á sjötta tím-
anum að morgni mánudagsins 6. ágúst.
Til rannsóknar er nauðgun gegn ólögráða unglings-
stúlku og á eftirlitsmyndavélum sést maður sem
svipar til lýsingar stúlkunnar á hinum brotlega hlaupa
frá vettvangi brotsins og niður á bílastæði í Herjólfs-
dal. Hann er ógreinilegur á upptökunni en þó sést að
hann er að tala í símann, rétt eftir brotið.
Lögregla taldi því brýnt að fá upplýsingar um
alla þá sem hefðu talað í síma í dalnum á þessu tíu
mínútna tímabili og féllst héraðsdómur á að það gæti
skipt sköpum við að upplýsa málið. Hæstiréttur telur
hins vegar að slík afhending gagna samræmist ekki
ákvæðum sakamálalaga þar sem beiðnin beinist ekki
að tilteknum síma.
Hin símafyrirtækin höfðu enn ekki afhent lögreglu
upplýsingarnar eftir úrskurð héraðsdóms og munu
ekki gera það úr þessu.
Oddur Árnason yfirlögregluþjónn segir erfitt að
meta hvaða áhrif dómurinn muni hafa á rannsókn
málsins. „Lögreglurannsókn miðar að því að leiða
fram sekt eða sýknu og það að ná á þennan mann
hefði getað hreinsað hann af grun eða leitt til frekari
skoðunar.“ - sh
Selfosslögreglan leitar þess sem nauðgaði ólögráða unglingsstúlku á Þjóðhátíð:
Fær ekki gögn frá símfyrirtækjunum
AF ÞJÓÐHÁTÍÐ Nauðgunin átti sér stað árla á mánudagsmorgni
verslunarmannahelgar. MYND/ÓSKAR P. FRIÐRIKSSON
DANMÖRK Danskir stjórn-
málamenn íhuga nú að hækka
greiðslur til eggjagjafa vegna
skorts á eggjum handa barn-
lausum pörum. Í Danmörku fær
kona sem gefur egg greiddar 500
danskar krónur, eða um 10.000
íslenskar krónur, auk greiðslu
fyrir kostnað vegna ferða.
Á vef Kristilega dag blaðsins
segir að stjórnendur sæðis-
bankans Cryos vilji koma á fót
eggjabanka. Tilgangurinn er að
fá konur til að gefa egg gegn því
að þær fái sjálfar að geyma þar
egg til að nota síðar. Heilbrigðis-
yfirvöld hafna slíkum viðskipta-
háttum. - ibs
Stjórnmálamenn í Danmörku:
Eggjagjafar fái
hærri greiðslu
SÝRLAND, AP François Hollande,
forseti Frakklands, kallaði
eftir því í gær að sýrlenskir
uppreisnar menn myndu sam-
einast í eina fylkingu. Frakkar
myndu viðurkenna og standa með
tímabundinni ríkisstjórn and-
spyrnunnar. Sundrung er milli
uppreisnarhópa bæði í Sýrlandi
og þeirra hópa sem eru í útlegð.
Bandaríkjamenn skutu hug-
mynd Hollandes niður um leið og
bentu einmitt á að vegna sundur-
leitra markmiða uppreisnar-
manna væri ótímabært að hefja
umræðuna um ríkisstjórn and-
spyrnunnar.
Blóð rann enn í Sýrlandi í
gær. Tólf létust í bílasprengju
í úthverfi höfuðborgarinnar
Damaskus og minnst þrettán
létust í loftárás á bæinn Kfar
Nabl. Þá var enn barist um allt
landið. - bþh
Kallar eftir andspyrnustjórn:
Ríkisstjórnartal
ótímabært
RÚSTIR Bíllinn sprakk á gatnamótum
í úthverfi Damaskus með þeim
afleiðingum að tólf létust. NORDICPHOTOS/AFP
DÓMSMÁL Hálfþrítugur síbrotamað-
ur neitaði því fyrir dómi í gær að
bera ábyrgð á því að ung stúlka, lífs-
hættulega veik af fíkniefnaneyslu,
komst ekki undir læknishendur og
lést. Meðal sönnunargagna í málinu
er myndbandsupptaka af dauða-
stríði konunnar.
Þetta kom fram í fréttum RÚV í
gær, þar sem greint var frá því sem
fram fór í réttarhöldum yfir mann-
inum fyrr um daginn.
Málið kom upp í apríl í fyrra.
Konan var talin hafa neytt fíkni-
efnisins PMMA, afbrigðis af
amfetamíni sem hefur valdið dauðs-
föllum í nágrannalöndum okkar. Í
kjölfarið gerði lögreglan á höfuð-
borgarsvæðinu mikla leit að hinu
hættulega fíkniefni í því skyni að
koma því alfarið úr umferð.
Að sögn RÚV kom fram fyrir
dómi að stúlkan hefði lagst veik í
rúm í íbúðinni þar sem hún
var gestur eftir
tveggja klukku-
stunda fíkni-
efnaneyslu. Þar
var myndbands-
upptaka í gangi
við rúmstokkinn
og á henni sést
stúlkan fá krampa og deyja að
lokum. Ekki liggur fyrir hvort til-
gangurinn var að taka myndband
af stúlkunni.
Maðurinn afplánar nú fimmtán
mánaða dóm frá því í
fyrra, meðal annars
fyrir handrukkun
með loftbyssu. - sh
Síbrotamaður ákærður fyrir að koma dauðvona stúlku ekki undir læknishendur:
Upptaka af dauðastríði er lykilgagn
HÆTTULEGT Efnisins
er ýmist neytt í
duft- eða töflu-
formi.
Snekkjan bilaði í leiðangri
Snekkja auðkýfingsins Pauls Allen,
Octopus, sneri aftur til Reykjavíkur
í gærmorgun eftir að vélin bilaði í
skipinu. Snekkjan var í leiðangri á
Grænlandssundi til að endurheimta
skipsbjöllu HMS Hood, breska her-
skipsins sem sökk í seinna stríði.
FÓLK
FASTEIGNAMARKAÐUR Samtök
iðnaðarins vara við því að ef
nýframkvæmdir á íbúðamark-
aði fari ekki af stað bráðlega sé
hætta á því að til komi vöntun á
íbúðum, jafnvel fyrr en áður var
talið.
SI stóðu nýverið fyrir taln-
ingu íbúða í byggingu á höfuð-
borgarsvæðinu. Niðurstaðan er
sú að íbúðir í fjölbýli, sem eru
fokheldar og lengra komnar, eru
545 talsins. Þar af eru ekki nema
192 íbúðir íbúðarhæfar og hefur
fækkað um 292 á innan við ári.
Talið er að árlega þurfi um
1.500 nýjar íbúðir inn á markað-
inn og eru íbúðir í byggingu því
innan við áætlaða ársþörf. - shá
SI varar við skorti á húsnæði:
Vilja tafarlausar
framkvæmdir
FJÖLBÝLI Þarf 1.500 nýjar íbúðir á
markað árlega. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
SPURNING DAGSINS
Jörundur, var nokkuð ofhermt
hjá þér hérna í denn?
„Nei, nei. Sjaldan lætur betur sá er
eftir hermir.“
Jörundur Guðmundsson, skemmtikraftur
eftirherma og vert, segir erfitt að herma
eftir stjórnmálamönnum í dag því þeir
séu svo litlausir.