Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.02.1989, Blaðsíða 31

Læknablaðið - 15.02.1989, Blaðsíða 31
LÆKNABLAÐIÐ 1989; 75: 67-70 67 Ragnar Danielsen MAT MÍTURLOKUÞRENGSLA MEÐ DOPPLER-ÓMUN ÁGRIP Doppler-ómun var gerð skemur en 48 tímum fyrir hjartaþræðingu hjá 20 sjúklingum (10 körlum) er grunaðir voru um míturlokuþrengsli. Aldur sjúklinganna var frá 48 til 70 ár (meðalaldur 60 ±6 ár). Tólf sjúklingar voru með gáttaflökt en 8 með reglulegan sinus hjartslátt. Góð fylgni fannst milli meðal fylliþrýstingsfalla yfir míturlokuna er mæld voru með Doppler og við hjartaþræðingu (r = 0,85). Einnig var gott samræmi milli miturlokuflatarmála er ákvörðuð voru með báðum aðferðunum (r = 0,93). Þótt Doppler tæknin hefði vissa tilhneigingu til að vanmeta bæði meðal þrýstingsföll og míturlokuflatarmál í samanburði við niðurstöður hjartaþræðingar, hefur þessi munur ekki kliniska þýðingu. Doppler-ómun er fulit eins góð aðferð og hjartaþræðing til að meta alvarleika míturlokuþrengsla og ákveða nauðsyn lokuaðgerðar. INNGANGUR Þótt nýgengi giktsóttar í vestrænum löndum hafi farið ört lækkandi síðustu áratugi (1) rekur enn á fjörur hjartalækna sjúklinga með hjartalokuskemmdir sem seinfylgikvilla af völdum sjúkdómsins. Nýlegar faraldsfræðilegar rannsóknir frá vissum svæðum í Bandaríkjunum hafa sýnt fram á aukningu giktsóttartilfella meðal barna og ekki er útilokað að fleiri lönd eigi eftir að verða fyrir sömu reynslu (2). Míturlokuþrengsli sjást einnig hjá eldra fólki með verulegar kalkanir í míturlokugrindinni, sem hindra nægilega opnun lokunnar (3). Míturlokuþrengsli eru einn algengasti seinfylgikvilli giktsóttar og við vaxandi einkenni þurfa þau oftast skurðaðgerðar við. Áður fyrr var hjartaþræðing yfirleitt nauðsynleg forrannsókn til að meta alvarleika míturlokuþrengsla. Með tilkomu Doppler tækninnar er nú hinsvegar hægt Frá rannsóknardeild i klíniskri hjartalífeðlisfræði, Haukeland háskólasjúkrahúsinu i Björgvin, Noregi. Barst 15/09/1988. Samþykkt 30/11/1988. að meta míturlokuþrengsli óblóðugt. Holen og samstarfsmenn sýndu fyrstir fram á að hægt væri að meta meðal þrýstingsfallið yfir míturlokuþrengsli með Doppler-ómun (4). Hatle og starfsfélagar þróuðu síðan tæknina ásamt aðferð til að ákvarða hið eiginlega míturlokuflatarmál (5-7). Fleiri rannsóknir hafa síðan bent til þess að Doppler-ómun sé fullt eins nákvæm aðferð til að meta míturlokuþrengsli og hjartaþræðing (8-10). Markmið núverandi rannsóknar var að kanna áreiðanleika Doppler-ómunar í samanburði við niðurstöður hjartaþræðingar hjá sjúklingum er vísað var til rannsóknar vegna gruns um míturlokuþrengsli. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Sjúklingaþýði. Rannsakaðir voru 20 sjúklingar (10 karlar) er vísað var til hjartaþræðingar vegna gruns um míturlokuþrengsli af völdum giktsóttar, ein sér eða ásamt öðrum hjartalokugöllum. Aldur sjúklinganna var á bilinu 48 til 70 ár, meðalaldur 60 ±6 ár. Þrettán sjúklingar reyndust einnig vera með míturlokuleka; tveir þeirra voru með ósæðarlokuþrengsli, þar af annar með vægan ósæðarlokuleka að auki. Óeðlilega aukin veggþykkt á vinstri slegli (> 1,3 cm) mældist þó ekki hjá neinum sjúklinganna með hjartaómun. Leki á þríblöðkuloku fannst hjá 5 sjúklingum. Átta sjúklingar voru með reglulegan sinus hjartslátt, en 12 voru með gáttaflökt. Við aflestur hjartaþræðingar og Doppler-gagna var tekið meðaltal af þrem hjartaslögum hjá þeim er voru með sinus hjartslátt en af 10 slögum hjá þeim er voru með gáttaflökt. Klínískt ástand sjúklinganna var sambærilegt er Doppler rannsóknin fór fram og við hjartaþræðingu. Þannig var hjartsláttartíðni við Doppler-ómun á bilinu frá 41 til 92 (73 ± 13) slög á mínútu, en frá 53 til 107 (74 ±13) slög á mínútu við hjartaþræðingu. Doppler-ómun. Rannsóknin var framkvæmd hjá sjúklingunum skemur en 48 tímum fyrir hjartaþræðingu, hjá flestum daginn áður.

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.