Monitor - 22.03.2012, Blaðsíða 13

Monitor - 22.03.2012, Blaðsíða 13
13 FIMMTUDAGUR 22. MARS 2012 MONITOR É g hef skoðanir á svo mörgu því þegar maður er búinn að vera til svona lengi þá hefur maður yfi rsýn yfi r svo margt,“ sagði Vigdís Finnbogadóttir þegar hún settist niður með blaðamanni og hafði ýmislegt til síns máls sé litið til viðtalsins sem hér á eftir kemur. Það er ekki á hverjum degi sem á vegi manns verður manneskja sem undirritað- ur hefur frá blautu barnsbeini séð bregða ótal sinnum fyrir á myndum með kóngafólki og heyrt lofsungna hvað eftir annað. Það var í senn spennandi og skemmtileg lífsreynsla. Blaðamaður kvittar undir alla þá góðu vitnisburði og bætir við að ofar öllu kemur þessi merkilega kona fyrir sem ofurviðkunnanlegur mannþekkjari sem lætur sér annt um náungann. Það var því draumaverkefni spyrils að eiga langan fund með þessari fyrstu konu heims til að vera þjóðkjörin forseti og ræða við hana um æsku hennar, íslenska tungu, djammið og allt sem fi nnst þar á milli. Þú ólst upp í Reykjavík á stríðsárunum. Hvað langaði þig að verða þegar þú varst lítil stelpa? Mig langaði fyrst og fremst að sjá heiminn. Mig langaði alltaf til að verða skipstjóri og var ákveðin í því en þá var mér sagt með mikilli meðaumkun að stelpur gætu ekki orðið skipstjórar. Þetta voru nú tímarnir þá en nú eru stelpur fl ugstjórar og allt það. Mig langaði fyrst og fremst að sjá heiminn því ég fylgdist vel með heimsfréttum og ég var svo hrædd um að styrjöldin myndi eyðileggja allt í Evrópu áður en ég fengi að sjá það. Ég lagði því upp úr að fara í eitthvert nám þannig að ég kæmist til útlanda að sjá þetta sem ég var búin að skoða myndir af í bókum og lesa um. Móðir þín var útivinnandi kona og lét vel að sér kveða í félagsmálum. Á hún sinn þátt í því að þú hafi r endað á að verða fyrsti þjóðkjörni kvenforseti heims? Ég efast stórlega um það vegna þess að okkur þótti alveg nóg um félagsstússið í henni þá. Bróðir minn kallaði hana alltaf „mömmu símalöngu“. Hún vann líka sem kennari og aðrar mömmur voru miklu meira heima en hún. Hún var stórkostleg og stórmerkileg kona, ég sé það betur núna, en ég efast um að hún hafi haft nokkurn þátt í því að mín braut varð eins og hún varð. Hvað kveikti áhuga þinn á forsetaembættinu? Ég hafði nú engan sérstakan áhuga á forsetaemb- ættinu. Ég var mikill aðdáandi Kristjáns Eldjárns, mér fannst hann alveg sérstakur maður en það var mjög fjarri mér að ég myndi enda á að fara í þetta forsetaembætti, það voru aðrir sem ýttu mér út í það. Það verður að tíunda það að Kvennafrídagurinn 24. október 1975 var upphafi ð að því öllu saman. Á þeim degi komst Ísland í heimsfréttirnar og fi mm árum síðar þegar Kristján Eldjárn tilkynnti í áramótaávarpinu að hann ætlaði að hætta var fólk á því að í forsetakosningunum yrði að vera kvenmaður á meðal frambjóðenda. Að mér dytti sjálfri í hug að bjóða mig fram er þó af og frá. Öðrum datt það í hug og það var mikið róið í mér og skorað á mig. Ég var alltaf jafnhissa en að lokum voru tilmælin orðin svo sterk frá bæði bestu vinum mínum og fólki sem ég þekkti ekkert svo ég eiginlega hoppaði bara út í laugina. Menn sögðu líka við mig: „Þú ert oddvitinn, við erum á bak við þig,“ og þannig upplifði ég það alltaf, að ég væri oddviti ákveðins fjölda fólks. Síðan fór þetta eins og það fór. Ég segi það satt að mér datt ekki í hug að ég næði kjöri, ég hugsaði heldur að með framboðinu hefði ég sannað að eins og sagt er á dönskunni; „kvinder kan“, konur geta líka ýmislegt, og það vitum við núna öllum þessum árum seinna. Manst þú enn hvernig tilfi nningin var þegar þú áttað- ir þig á því að þú bærir þennan titil, fyrsti þjóðkjörni kvenforseti heims? Já, það var mjög sérkennileg tilfi nning. Ég hafði aldrei hugsað út í það að hvergi annars staðar væri kven- forseti. Mér fannst einhvern veginn að Indira Gandhi eða Golda Meir hefðu verið forsetar en þær voru forsætisráðherrar og voru ekki lýðræðiskjörnar heldur fl okkskjörnar. Ég neita því ekki að mér fi nnst það fl ott fyrir Ísland að hafa eignast fyrsta þjóðkjörna kvenfor- setann í heiminum. Hvar sem ég fer í heiminum er ég enn kynnt sem slík. Þykir þér vænt um það? Auðvitað, það lyftir Íslandi. Það lyftir mér ekki, það er mjög mikilvægt því ég vil ekki lyfta mér, ég vil lyfta landi og þjóð. Það er mjög merkilegt að þjóðin skyldi hafa kjark til að gera þetta því þetta var alveg nýtt. Þú ert hógværðin uppmáluð. Ég var alin upp við það að menn ættu að vera hógværir. Öll mín uppvaxtarár var mjög ríkt í mér að trana mér ekki fram og það situr enn í mér. Það er voðalega sérkennilegt að lenda í svona embætti og vera ávallt að hugsa um að halda sér til hlés. Ég er af síðustu kynslóð í landinu sem er alin upp við þetta en mér fi nnst það mjög fallegt í mínu uppeldi, ég met það mikils. Hógværðin er næsti bær við væntumþykju. Í hógværðinni gefur maður sér tíma til að þykja vænt um annað fólk og mér þykir ákafl ega vænt um fólk. Hvenær fórst þú að fi nna fyrir því að kjörið hefði vakið heimsathygli og nafn þitt væri þekkt úti um víða veröld? Þegar mér fóru að berast úrklippur alls staðar að úr veröldinni. Ég fékk meira að segja úrklippur á kínversku og öllum mögulegum austurlanda- tungumálum. Það voru myndir af mér í þessum útlensku blöðum, stundum stóð ekki einu sinni hvað ég hét því menn gátu ekki sagt nafnið mitt heldur stóð bara í stórum stöfum: „Kona kjörin forseti á Íslandi.“ Þá fór ég að átta mig á því að þetta var nú heimsfrétt. Ef þú værir ung í dag, væri eitthvað sem þú myndir vilja gera nú sem þú hafðir ekki tækifæri til að gera þegar þú varst ung? Nei, ég er alin upp við þá gæfu að fá að velja hvað ég vildi gera og ég hugsa að ég myndi velja það sama í dag. Ég er mikil kvenréttindakona en ég er líka karlréttindakona og ég er að verða meiri og meiri karlréttindakona því ég vil hafa jafnvægi í þessu í þjóðfélaginu. Ég vil ekki að karlar þurfi að upplifa það sem konur þurftu að upplifa áður, að konur séu orðnar það sterkar að karlar þurfi að hafa sig alla við til að viðhalda jafnrétti. Mér fi nnst mikilvægt að karlar og konur standi jafnfætis í þjóðfélaginu. Gæfan er sú að karlar og konur hafa svo mikinn stuðning hvert af öðru því hvort kynið fyrir sig hugsar eilítið öðruvísi en hitt kynið. Vinátta milli karls og konu er alveg óskaplega falleg, þá er ég að tala um andlega jafnt sem kærleika í hjónabandi, og hún er svo mikil gjöf frá öðrum aðila til hins. Að kona eignist góða og trausta vináttu hjá karli, maka sínum eða vini, og karl hjá konu, maka sínum eða vinkonu, er það besta sem hægt er að eignast. Hvað fi nnst þér um stöðu mála í kvenréttindabarátt- unni nú á dögum? Fylgist þú með umræðunni um „öfgafemínisma“? Það hefur ótrúlega mikið áunnist en það er ekki algjört jafnrétti. Við vitum öll að á meðan launajafn- rétti er ekki náð þá er ekkert jafnrétti. Það verður að meta störf kvenna til jafns við störf karla. Hinn gullni meðalvegur er þó alltaf sterkastur. Allar öfgar fara öfugt inn í hugsanagang samfélagsins, barátta sem er mjög öfgafull snýst upp í andhverfu sína. Auðvitað fylgist ég með allri umræðu um slíkt og ég segi: Gætum varhug við því, öfgarnar geta eyðilagt góðan málstað. Hvernig var að vera stúlka í menntaskóla á þínum árum í MR? Það er nú svo skemmtilegt að þá var þessi kvenrétt- indahugsun byrjuð og þegar ég var í 6. bekk stofnuðum við stelpurnar í 5. og 6. bekk kvenréttindafélag sem hét Aþena. Við héldum dansæfi ngar, eins og skólaböllin voru kölluð þá, þar sem stelpurnar áttu að bjóða upp. Þetta var rosalega skemmtilegt. Þá grunaði okkur ekki að svo myndi fara að á seinni árum okkar myndi vera komið meira og öðruvísi jafnrétti heldur en verið var að ræða þá. Nú kemur jafnréttið til að mynda svo glæsilega fram í jafnrétti til náms. Hvað gerði þín kynslóð sér til skemmtunar á menntaskólaárunum? Við gerðum bara það nákvæmlega sama og gert er nú til dags, nema það var bara enginn bjór til þá. Partíin sem haldin voru fyrir böll eða svoleiðis byrjuðu klukk- an átta og svo var öllu lokað klukkan tvö. Það var meiri virðing borin fyrir sólarhringnum. Það var enginn bjór en náttúrlega voru alltaf einhverjir sem ferðuðust með pela eða eitthvað slíkt en það voru engir heilagleikar í gangi nema síður sé. Að sama skapi má ég til með að nefna að það var ekki slegist og það var ekkert dóp, guði sé lof. Menn urðu auðvitað pínu kenndir en það var lítið um slagsmál og aldrei man ég eftir því að það hafi verið sparkað í liggjandi mann eða níðst á minni máttar, það gerðu menn ekki í mínu ungdæmi. Hvaða orð notuðuð þið yfi r það að fara að skemmta sér? Hvernig tónlist hlustaðir þú á? Það var bara nákvæmlega eins og þið, við töluðum um „að fara á djam- mið“ eða „út að skemmta sér“. Hvað tónlistina varðar dönsuðum við mikið við ameríska tónlist eins og Fats Waller – þetta var tímabilið á undan Bítlunum. Við dönsuðum allavega dansa eins og salsa, „jitterbug“ og dönsuðum eins og dansað er í dag en bara eftir annarri músík. Þótti sjálfsagt að fara til Frakklands að loknu stúdentsprófi eins og þú gerðir? Foreldrar mínir höfðu báðir stúderað í útlöndum og ég var svo heppin að þeim þótti sjálfsagt að ég vildi fara út. Ég var hluti af ákveðinni klíku í menntó sem fór saman, mamma og pabbi hefðu aldrei hleypt mér nema af því að það voru strákar með í för sem vernduðu mig. Þetta var gríðarleg lífsreynsla, við sigldum til Kaupmannahafnar, tókum lest frá Kaupmannahöfn niður til Grenoble og ég sé enn fyrir mér það þegar við keyrðum í gegnum Þýskaland. Þá voru fi mm ár liðin frá stríðslokum en borgir eins og Hamborg voru enn gjörsamlega í rúst. Í Frakklandi upplifði ég ótrúlega breytingu á lífskjörum, maður var svo góðu vanur að heiman. Það var svo kalt þarna og það var mikið púl fyrstu tvo veturna að læra frönskuna en gaman og svo afar inspírerandi. Hafðir þú farið til útlanda áður? Þetta var fyrsta utanlandsferðin mín. Ég gleymi því aldrei þegar við sigldum inn höfnina í Kaupmanna- höfn. Þarna voru svo stór hús, þetta var gríðarleg upplifun. Núna upplifi r fólk þetta ekki svona því það hefur séð þetta allt í sjónvarpi og bíó og það hefur farið með pabba og mömmu til Spánar eða eitthvað frá blautu barnsbeini. Þú ert þekkt fyrir áhuga þinn á tungumálum. Hafa þau alltaf verið þér svona hugleikin? Já, tungumálin eru lykillinn að heiminum. Þetta segi ég alltaf, þetta er uppáhaldssetningin mín. Um leið og þú lærir tungumálin þá lærir þú óhjákvæmilega um hin ýmsu menningarsvæði og það víkkar sjón- deildarhringinn. Mér fi nnst afar mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að læra eitt af Norðurlandatungumálunum. Ég hef tekið eftir því að það er svo miklu meiri reisn yfi r okkur á Norðurlöndunum þegar við getum beitt fyrir okkur til dæmis dönskunni í stað þess að skipta beint yfi r í ensku. Auðvitað lærum við öll enskuna, hún er um þessar mundir aðalviðskiptamálið en það er bara ekki nóg. Venjulegt fólk talar ekki ensku nema á afmörkuðum stöðum í veröldinni. Ég vildi svo óska VIGDÍS Á 30 SEKÚNDUM Fyrstu sex: 150430. Uppáhaldsmatur: Mér þykir allur vel gerður matur góður. Líklega verð ég þó að taka fram að mér þykir franskur matur sérlega góður. Franskir sniglar eru herramannsmatur. Uppáhaldsstaður í heiminum: Ísland. Uppáhaldskvikmynd: Þær eru svo margar. Nýjasta uppá- haldsmyndin mín er auðvitað L‘Artiste. Síðan gæti ég nefnt myndir eins og hinar ítölsku Paradiso og Pane e tulipani, Goodbye Lenin frá Þýska- landi, Englar alheimsins, Börn náttúrunnar, ég get alltaf séð hana aftur og aftur því mér þótti svo vænt um leikarana. Síðan held ég upp á myndir með leikaranum Gerard Depardieu. Uppáhaldsbók: Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness. Ef þú værir tilneydd til að fá þér húðfl úr og yrðir að velja úr eftirfarandi, hvort myndir þú fá þér skjaldarmerki Íslands eða mynd af Bessastöðum? Hvorugt, ég myndi fá mér mynd af fallega vaxinni björk, fallegri holtasóleyju eða lambagrasi. „Veistu það, ég er svo venjuleg manneskja að það er engin til venjulegri,“ segir Vigdís Finnbogadóttir, fyrsti þjóðkjörni kvenforseti mannkynssögunnar. Monitor var veittur sá heiður að fá að ræða allt milli himins og jarðar við þessa hógværu goðsögn. Texti: Einar Lövdahl einar@monitor.is Myndir: Ernir Eyjólfsson ernir@ernire.is

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.