Morgunblaðið - 04.05.2012, Side 25
FÓTBOLTINN 2012 25
MEISTARAR
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
KR-ingar bættu á síðasta ári sínum
25. meistaratitli í safnið en þeir hafa
sem fyrr orðið Íslandsmeistarar
karla oftast allra í sögu Íslands-
mótsins í knattspyrnu, frá 1912.
KR-ingar biðu í níu ár eftir þess-
um titli en þann 24. í röðinni unnu
þeir árið 2003.
KR hefur nú unnið nákvæmlega
fjórðung, eða 25 prósent, þeirra titla
sem í boði hafa verið í 100 ára sögu
Íslandsmótsins, frá 1912 til 2011.
Valsmenn koma næstir með 20
prósent titlanna, ÍA og Fram með
18 prósent, en sex félög skipta 19
prósentum á milli sín.
Reykjavíkurfélögin KR, Valur,
Fram og Víkingur einokuðu Ís-
landsmeistaratitilinn fyrri hluta síð-
ustu aldar, eða til ársins 1950 þegar
KR vann hann þriðja skiptið í röð.
KR varð fyrsti Íslandsmeistarinn
árið 1912 þegar Vesturbæingar
sigruðu Fram í úrslitaleik á Mela-
vellinum en Eyjamenn voru þriðja
liðið sem tók þátt í þessu fyrsta Ís-
landsmóti. KR vann sinn 20. titil ár-
ið 1968 en þurfti síðan að bíða í
hvorki meira né minna en 31 ár eftir
þeim 21.
Fram varð meistari næstu sex ár
í röð, reyndar án keppni fyrstu tvö
árin vegna ósættis félaganna. Um
miðja síðustu öld voru Fram og KR
jöfn með 13 meistaratitla hvort fé-
lag. Framarar komu aftur upp með
blómaskeið frá 1986 til 1990 þegar
þeir urðu þrisvar meistarar.
Víkingur varð þriðja félagið til að
verða meistari árið 1920, og vann
aftur 1924, en varð að bíða til 1981
eftir þriðja titlinum af þeim fimm
sem félagið hefur unnið.
Valur með ellefu titla
á sextán árum
Valsmenn komust loks fram úr
hinum Reykjavíkurliðunum árið
1930. Þá upphófst mikil sigurganga
því Valur varð 11 sinnum meistari á
sextán árum og innbyrti þá meiri-
hluta titlanna sem félagið hefur
unnið til þessa.
Söguleg umskipti urðu árið 1951
þegar Akurnesingar, undir stjórn
Ríkharðs Jónssonar, fóru með Ís-
landsbikarinn út fyrir borgarmörkin
í fyrsta skipti. Þeir voru komnir til
að vera því ÍA varð meistari sex
sinnum næstu tíu árin og er það fé-
lag sem hefur oftast orðið Íslands-
meistari frá 1951, eða 18 sinnum.
Keflvíkingar voru næstir en þeir
unnu sinn fyrsta titil árið 1964.
Þeirra blómatími stóð í tíu ár og
skilaði fjórum meistaratitlum en
Keflavík hefur ekki náð að sigra síð-
an 1973.
Sjöunda meistaraliðið í sögunni
varð ÍBV en Eyjamenn lönduðu sín-
um fyrsta titli árið 1979. Þeir bættu
tveimur við rétt fyrir aldamótin.
KA varð áttunda félagið til að
verða Íslandsmeistari. KA-menn
komu öllum á óvart, með Guðjón
Þórðarson við stjórnvölinn, árið
1989 og stóðu uppi sem meistarar
eftir mikla dramatík í lokaumferð-
inni.
FH missti þar af titlinum sem
blasti við þeim en þó fimmtán ár
liðu þar til hann komst loks í hús í
Kaplakrikanum varð FH níunda fé-
lagið til að verða meistari. Sig-
urganga FH hófst árið 2004 og liðið
vann fimm meistaratitla á sex árum.
Breiðablik varð síðan tíundi Ís-
landsmeistarinn árið 2010 en Ís-
landsbikarinn fór þá í Kópavog í
fyrsta sinn eftir æsispennandi bar-
áttu við ÍBV og FH.
KR-ingar hafa
unnið fjórð-
ung titlanna
Reykjavík einokaði mótið til 1950
Skagamenn sigursælastir frá 1951
Tíu félög orðið Íslandsmeistarar
Íslandsmeistarar karla
Skipti Lið Ár
25 KR 1912, 1919, 1926, 1927, 1928, 1929, 1931, 1932, 1934,
1941, 1948, 1949, 1950, 1952, 1955, 1959, 1961, 1963,
1965, 1968, 1999, 2000, 2002, 2003, 2011.
20 Valur 1930, 1933, 1935, 1936, 1937, 1938, 1940, 1942, 1943,
1944, 1945, 1956, 1966, 1967, 1976, 1978, 1980, 1985,
1987, 2007.
18 ÍA 1951, 1953, 1954, 1957, 1958, 1960, 1970, 1974, 1975,
1977, 1983, 1984, 1992, 1993, 1994, 1995, 1996, 2001.
18 Fram 1913, 1914, 1915, 1916, 1917, 1918, 1921, 1922, 1923,
1925, 1939, 1946, 1947, 1962, 1972, 1986, 1988, 1990.
5 FH 2004, 2005, 2006, 2008, 2009.
5 Víkingur R. 1920, 1924, 1981, 1982, 1991.
4 Keflavík 1964, 1969, 1971, 1973.
3 ÍBV 1979, 1997, 1998.
1 KA 1989.
1 Breiðablik 2010.
KR 2011
Úrvalsdeild karla,
Pepsi-deild:
1. KR 22 13 8 1 44:22 47
2. FH 22 13 5 4 48:31 44
3. ÍBV 22 12 4 6 37:27 40
4. Stjarnan 22 10 7 5 51:35 37
5. Valur 22 10 6 6 28:23 36
6. Breiðabik 22 7 6 9 34:42 27
7. Fylkir 22 7 4 11 34:44 25
8. Keflavík 22 7 3 12 27:32 24
9. Fram 22 6 6 10 20:28 24
10. Grindavík 22 5 8 9 26:37 23
––––––––––––––––––––––––––––––––––––
11. Þór 22 6 3 13 28:41 21
12. Víkingur R. 22 3 6 13 24:39 15
1. deild karla:
1. ÍA 22 16 3 3 53:17 51
2. Selfoss 22 15 2 5 44:22 47
––––––––––––––––––––––––––––––––––––
3. Haukar 22 10 6 6 33:23 36
4. Víkingur Ó. 22 10 4 8 35:26 34
5. Fjölnir 22 8 8 6 34:38 32
6. BÍ/Bolung. 22 9 4 9 27:37 31
7. Þróttur R. 22 9 3 10 34:45 30
8. KA 22 9 2 11 32:40 29
9. ÍR 22 6 4 12 27:42 22
10. Leiknir R. 22 5 5 12 31:32 20
––––––––––––––––––––––––––––––––––––
11. Grótta 22 4 8 10 16:29 20
12. HK 22 3 7 12 23:38 16
2. deild karla:
1. Tindast/Hvöt 22 13 3 6 49:36 42
2. Höttur 22 12 5 5 48:31 41
––––––––––––––––––––––––––––––––––––
3. Njarðvík 22 11 6 5 63:44 39
4. Afturelding 22 12 3 7 48:32 39
5. Dalvík/Reynir 22 12 2 8 50:51 38
6. KF 22 9 7 6 48:35 34
7. Fjarðabyggð 22 10 4 8 33:36 34
8. Reynir S. 22 10 2 10 61:57 32
9. Hamar 22 9 3 10 40:41 30
10. Völsungur 22 8 2 12 54:56 26
––––––––––––––––––––––––––––––––––––
11. Árborg 22 2 5 15 20:54 11
12. ÍH 22 2 2 18 30:71 8
Tindastóll leikur í 1. deild 2012 í stað
Tindastóls/Hvatar.
KV og KFR taka sæti Árborgar og ÍH í
2. deildinni 2012.
Lokastaðan á Ís-
landsmótinu 2011
Knattspyrnusamband íslands hvetur knattspyrnuáhugafólk
til að mæta á völlinn, styðja sitt félag og njóta sumarsins
knattspyrnusumarið 2012 er hafið!