Morgunblaðið - 16.04.2013, Side 12
12 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 16. APRÍL 2013
FRÉTTASKÝRING
Kjartan Kjartansson
kjartan@mbl.is
„Samningur af þessum toga er lík-
legur til að skapa störf. Þess
vegna standa þjóðir Evrópu í bið-
röð eftir því að gera slíkan samn-
ing. Það að Ísland hafi náð að gera
það gefur okkur forskot. Það er
undir okkur sjálfum komið hversu
vel við getum spilað úr honum,“
segir Össur Skarphéðinsson utan-
ríkisráðherra um fríversl-
unarsamning við Kína sem íslensk-
ir og kínverskir ráðamann
undirrituðu í Beijing í gær.
Ísland varð þar með fyrsta Evr-
ópuríkið til þess að gera fríversl-
unarsamning við stórveldið Kína. Í
honum felst meðal annars að tollar
á allar helstu útflutningsafurðir Ís-
lendinga verða felldir niður á fimm
til tíu árum. Þeir hafa hingað til
verið á bilinu 10-12%.
Byggja upp
kínverskan markað
Össur segir að með samningnum
sé ljóst að þétt sé undir grunninn
fyrir hefðbundna framleiðslugrein-
ar Íslendinga eins og landbúnað og
kjötframleiðslu. Þannig sé mikil
eftirspurn eftir íslensku kjöti í
Kína en ryðja hafi þurft burt tol-
lamúrum sem nú hafi verið gert.
Þá sé markaður fyrir íslenskar
fiskafurðir með rísandi millistétt í
Kína sem vilji borða heilnæman
mat.
Kína sé nú þegar ómissandi
markaður fyrir ýmsar aukaafurðir
í íslenskum sjávarútvegi eins og
grásleppu og sæbjúgu. Fríversl-
unarsamningurinn búi til 25
manna vinnustöð út á sæbjúgun.
„Íslendingar hafa náð táfestu á
kínverska markaðnum fyrir frosin
þorskflök. Ég er sannfærður um
að með því að ryðja burt tollum
með þessum samningi getum við
náð miklu betri árangri og byggt
Kína upp í framtíðinni sem markað
fyrir hefðbundnar fiskafurðir,“
segir utanríkisráðherra.
Þar fyrir utan segir Össur að
samningurinn geti skapað markað
fyrir framleiðslu í greinum sem
tengja fiskvinnslu og matvæla-
vinnslu eins og afurðir Marels og
háþróaða framleiðslu eins og
gervifætur stoðtækjaframleiðand-
ans Össurar.
Tækifærin bíði ef menn
kunna að nýta þau
Ýmis tækifæri felast í samn-
ingum að sögn utanríkisráðherra.
Nefnir hann til dæmis hugsanlega
framleiðslu á basalti sem nýtist í
koltrefjar sem sé byggingarefni
framtíðarinnar í bíla og flugvélar.
„Fyrir efnahagshremmingarnar
horfðu menn til Íslands til að
framleiða slíkt. Það er ljóst að það
verður mikill markaður fyrir þetta
í Kína en það var 17% tollur á
koltrefjar frá Íslandi. Nú er búið
að afnema hann í einu vetfangi og
þá þegar hefur vaknað áhugi aftur
hjá Japönum og Bandaríkjamönn-
um sem vildu fjárfesta í þessu. Það
eru svona tækifæri sem bíða ef við
kunnum að nota þau,“ segir Össur.
Samningur um vinnumál
Auk fríverslunarsamningsins
voru fimm samningar á milli ís-
lenskra og kínverskra fyrirtækja
undirritaðir og gengið verður frá
fimm öðrum síðar í vikunni. Össur
segist hafa tekið það sérstaklega
upp við kínverska starfsbræður
sína að íslensk fyrirtæki njóti at-
beina kínverskra við leit og vinnslu
á olíu á Drekasvæðinu. Segir hann
Kínverja hafa tekið þeirri ósk með
afar jákvæðum hætti.
Spurður um þá gagnrýni sem
komið hefur fram á það að gerður
sé fríverslunarsamningur við Kína
þar sem ástand mannréttindamála
sé ábótavant og kemur meðal ann-
ars fram í máli forseta ASÍ hér til
hliðar segist Össur deila vilja hans
til að tryggja rétt launamanna.
„Þess vegna erum við að fara
eftir þeirri forskrift sem ASÍ lagði
upp með sem er að gera samning
samhliða fríverslunarsamningnum
um vinnumál. Fyrsta skrefið að því
var tekið í [gær] í yfirlýsingu for-
sætisráðherranna þar sem þeir
lýstu yfir að ríkin myndu í framtíð-
inni hafa með sér sérstakt samráð
um vinnumál. Við stefnum að því
að hafa lokið gerð þessa samnings
í haust áður heldur en Alþingi fær
fríverslunarsamninginn til af-
greiðslu. Þegar upp er staðið held
ég að við Gylfi munum báðir ná
markmiðum okkar,“ segir Össur.
Ísland fái forskot á önnur lönd
Undirritun Össur Skarphéðinsson og Gao Hucheng, viðskiptaráðherra Kína, undirrita fríverslunarsamninginn í
Beijing. Fyrir aftan fyrir miðju standa þau Jóhanna Sigurðardóttir og Li Keqian, forsætisráðherra Kína.
Fyrsti fríverslunarsamningur Evrópuríkis við Kína Tollar á helstu útflutningsvörur Íslendinga
verða felldir niður í áföngum Rætt um aðstoð kínverskra fyrirtækja við olíuleit á Drekasvæði
Jón Garðar Guðmundsson, aðstoðar-
forstjóri Icelandic Group, kveðst sjá
margskonar tækifæri með fríverslun-
arsamningi Íslands og Kína.
„Icelandic er helsti útflytjandi sjáv-
arafurða frá Íslandi til Kína. Við erum
með vaxandi sölu á þessum markaði.
Icelandic hefur á undanförnum tíu ár-
um verið með umsvif í Kína. Þau hafa
verið mikið tengd vinnslu á vörum í
Kína fyrir markaði í Evrópu. Mín sýn
er sú að Kína sé framtíðarmarkaður.
Ætlun okkar er að rækta hann sem
meiriháttar markað og reyna að kom-
ast í þá stöðu að vaxa með markaðn-
um. Við erum búin að koma okkur
upp vinnslu í Qingdao. Það eru tæki-
færi fólgin í því. Þar erum við í dag að
vinna fisk sem er seldur í Bretlandi.
Við viljum nota þá vinnslu til að vinna
fisk í Kína,“ segir hann.
Í fyrsta lagi muni niðurfelling á
tollum styrkja samkeppnisstöðuna.
„Tollarnir hafa verið 10-12% að með-
altali á sjávarafurðum. Mér skilst að
tollar á vissum vörum falli niður strax
en lækki í áföngum á öðrum vörum.
Útflutningur frá Íslandi til Kína er
um 50 milljónir bandaríkjadala og er
Icelandic með um helming af því,“
bætir Jón Garðar við.
Sú athygli sem Ísland fái muni
einnig styrkja markaðsstarfið.
Í Kína selur Icelandic grálúðu,
makríl, loðnu og karfa. Ætlunin sé að
byggja upp markað fyrir þorsk, ýsu
og aðrar tegundir á næstu árum.
„Þau erlendu fyrirtæki sem ná
bestum árangri í Kína eru þau sem
bjóða upp á bestu fáanlegu vörurnar.
Við ætlum að rækta kínverska mark-
aðinn með því að bjóða upp á bestu fá-
anlegu vörur og byggja upp dreifi-
kerfi sem gerir okkur kleift að
komast eins nálægt neytendum og
kostur er.“
Starfsmenn Icelandic í Kína séu
um 100 og þar af tveir Íslendingar.
Um 80 Kínverjar starfi í vinnslu í
Qingdao. Fríverslunarsamningurinn
kalli á frekari fjölgun starfsmanna og
opnun skrifstofa víðar en í Qingdao.
„Það eru miklir og stórir markaðir í
kringum Peking og Shanghai. Við
ætlum okkur að sækja fram á þessum
stöðum.“
Ætla að rækta
markaðinn í Kína
Um 100 í vinnu fyrir Icelandic í Kína
„Kína er svo stórt
land að það er ekki
hægt að gera allt
frá einum stað.“
Jón Garðar Guðmundsson
Gylfi Arnbjörnsson, forseti
ASÍ, gagnrýnir að ekkert sé
kveðið á um mannréttinda-
mál í fríverslunarsamn-
ingnum. Það eina sem liggi
fyrir sé yfirlýsing forsætis-
ráðherra Íslands og Kína um
að halda áfram að ræða
vinnumál.
„Okkar gagnrýni felst í því
að við teljum eðlilegt að sú
samræða fari fram áður en
skrifað er undir samning. Ég
fæ ekki séð hvernig menn
ætla að reisa skuldbindingu
á Kínverja utan samningsins.
Hvað lá á að ganga frá þess-
ari undirskrift ef þeir hafna
því að taka þessi mannrétt-
indamál upp með skuldbind-
andi hætti? Ætla þá stjórn-
völd að leggja til að
samningurinn verði ekki
staðfestur,“ spyr Gylfi.
Hann telur að vitlaust hafi
verið haldið á málum og
gagnrýnir íslensk stjórnvöld
fyrir að hafa það ekki sem
hluta af samningnum að það
verði tryggð meiri samræða
um mannréttindamál.
„Ef að stjórnvöld vilja ná
meiru fram þá verða þau
auðvitað að vinna að því en
ekki undirrita samning sem
ekki er búið að semja um.
Það er einfaldlega mótsögn.
Við erum ekki sátt fyrr en
við sjáum niðurstöður. Það
dugar okkur ekki að íslensk
stjórnvöld hafi þetta einhliða
að markmiði,“ segir Gylfi.
Samræðan
fari fram fyrir
undirritun
FORSETI ASÍ ÓSÁTTUR
GÆÐI - ENDING - ÁNÆGJA
WWW.WEBER.IS