Hafnarfjörður - Garðabær - 03.10.2014, Blaðsíða 4

Hafnarfjörður - Garðabær - 03.10.2014, Blaðsíða 4
4 3. OKTÓBER 2014 Áfengi er ekki einkamál Þeir sem vilja leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum telja sig hafa málstað að verja í nafni frelsis. Vandinn er á hinn bóginn sá að þeir hafa ekki sýnt fram á að núverandi skipan áfengissölu hérlendis feli í sér skerðingu á einstaklingsfrelsi. Þeir gefa sér einfaldlega að áfengisstefna okkar byggist á gamaldags forræðishyggju. En þeirri spurningu er látið ósvarað hver frelsisskerðingin sé. Á Íslandi hafa þeir sem náð hafa 20 ára aldri greiðan og nokkurn veginn jafnan aðgang að áfengi. Áfengisneytendum er a.m.k. ekki mismunað á grundvelli kyns, stéttar, kynþáttar eða efnahags. Færa má rök fyrir því að slík mismunun hafi viðgengist fyrir árið 1989 þegar flug- menn og flugfreyjur gátu keypt bjór umfram aðrar starfsstéttir. Nú er öldin önnur og flestir Íslendingar búa snert- ispöl frá vínbúð sem segir sína sögu um frelsið sem ríkir í málaflokknum þótt sumum reynist erfitt að sjá það. En skoðum hliðstætt dæmi. Sérverslun fíkniefna Gefum okkur að í framtíðinni væru margar gerðir harðra fíkniefna seldar í 12 sérverslunum á höfuðborgarsvæð- inu og 36 verslunum á landsbyggðinni, auk þess sem nokkur hundruð matsölu- staðir og vínveitingahús hefðu þau á boðstólum. Hvaða ályktun mætti draga af þeirri framtíðarsýn? Væntanlega þá að sala efnanna hefði verið gefin frjáls. Ákafir frelsissinnar myndu væntanlega lofa einstaklingsfrelsi Íslendinga. Ætli við myndum eyða orðum á þann sem kvartaði yfir frelsisskerðingu í fíkni- efnaríkinu á þeirri forsendu að ekki væri hægt að nálgast efnin í matvöru- verslunum? Fíkniefnaneytandi í svo frjálsu samfélagi gæti einungis kvartað yfir lítilsháttar óhagræði sem honum væri búið. Hið sama gildir auðvitað um þann sem vill drekka áfengi á Íslandi í dag. Hann býr við ríkulegt frelsi til að fá sér í glas. Samfélagslegt úrlausnarefni Ég hef rætt hér um einstaklingsfrelsi. Núverandi tilhögun á sölu áfengis á Íslandi felur vitaskuld í sér augljósa skerðingu á verslunarfrelsi. En versl- unarfrelsinu má ekki rugla saman við einstaklingsfrelsi. Samkvæmt við- teknum skilningi á einstaklingsfrelsi byggist það á óskoruðum rétti einstak- lings til að gera hvað sem honum sýnist svo lengi sem það varðar hann einan, eða fyrst og fremst hann einan. Slíkt frelsi felur óhjákvæmilega í sér rétt fullveðja einstaklings til að valda sjálfum sér skaða svo lengi sem hann eða hún skaðar ekki réttmæta hags- muni annarra, án samþykkis þeirra, og er fær um að sinna skyldum sínum. Verslunarfrelsi getur aldrei byggst á þessari réttlætingu vegna þess að verslun, sem félagsleg athöfn, varðar hagsmuni annarra og samfélagsins alls. Frjálslynd samfélög reisa því öll ýmsar skorður við verslun, ekki síst með áfengi. Vitaskuld má færa gild rök fyrir verslunarfrelsi. Höfuðrökin fyrir því eru og hafa verið hagkvæmnisrök: Frjáls verslun stuðlar að bættum hag al- mennings. Reynslan hefur sýnt að þetta eru góð rök. En hagkvæmnisrök eru ekki réttlætisrök. Einstaklingar hafa ekki rétt á að selja áfengi. Sala áfengis er samfélagslegt úrlausnarefni. Gera má þá kröfu til neytenda að þeir leggi á sig lítilsháttar erfiði við kaup á vörum sem geta verið skaðlegar. Þetta gildir t.d. um skotvopn, eiturefni ýmisleg, lyf og líka áfengi. Hefðir blinda sýn Neysla áfengis er ekki einungis einka- mál. Áfengi getur ekki bara skaðað neytandann, heldur líka aðra einstak- linga og samfélagið allt. Umfang skað- ans ræðst af magni og mynstri neysl- unnar, sem aftur ræðst af aðgengi, verði vörunnar og auglýsingum. En tilfinn- ingin fyrir skaðsemi áfengis dofnar vitaskuld með tímanum, og rótgrónar áfengishefðir blinda okkur sýn. Við getum t.d. reynt að gera okkur í hugar- lund hvaða viðbrögð sölumaður fengi sem vildi nú um stundir kynna nýjan svaladrykk á markaði sem valdið gæti 200 líkamskvillum og sjúkdómum, yki verulega líkur á heimilisofbeldi og misnotkun, og kæmi iðulega við sögu í morðum, limlestingum, hvers kyns smáglæpum og banaslysum í umferðinni. Slíkur drykkur er ekki venjuleg vara. Frjálslynt samfélag hefur fullan rétt á að takmarka sölu slíkrar vöru, ekki síst þegar það er gert án þess að skerða frelsi einstaklingsins svo heitið geti, líkt og gert er á Íslandi og í mörgum fylkjum Bandaríkjanna og ríkjum Kanada. Kjarni málsins Vilhjálmur Árnason, alþingismaður, hefur boðað að hann muni leggja fram frumvarp um sölu áfengis í mat- vöruverslunum á haustþingi. Athygli vekur að sjálfur segist hann aldrei hafa drukkið áfengi og ætli sér ekki að gera það í framtíðinni. Í blaðaviðtölum er þessu stundum slegið upp og munu vafalítið margir álykta um óeigingjarna frelsisást þingmannsins af þessu til- efni. En líta má á málið öðrum augum. Drykkjusiðir þingmannsins eru þessum málaflokki nefnilega allsendis óviðkomandi. Uppsláttur blaða um bindindismennsku þingmannsins er einungis til þess fallinn að beina athygli almennings frá kjarna málsins sem er sá að áfengisstefna okkar er tilraun til að virða í senn einstaklingsfrelsi og al- mannahagsmuni. Að bindindismaður beiti sér fyrir aukinni neyslu áfengis er líkast því að hjólreiðamaður beiti sér gegn hámarkshraða bifreiða eða langhlaupari gegn reykingabanni á veitingahúsum. Slíkur málflutningur væri skondinn, en um áfengi virðist gegna öðru máli. Þar nær yfirborðslegt frelsishjal iðulega að beina athygli fólks frá þeim skaða sem síaukið aðgengi að áfengi veldur samfélagi okkar. Að bjóða upp á áfengi í matvöruverslunum er ekki hænuskref, líkt og stundum er haldið fram. Það fæli í sér margföldun á útsölustöðum áfengis (allt að tíföldun sýnist mér, væri leið Dana farin). Þetta óheillaskref ættum við ekki að stíga í nafni óljósra frelsishugmynda. Við eigum vitaskuld að virða frelsi fullveðja einstaklinga til að ráða eigin lífi sjálfir en líka rétt samfélagsins til að takmarka skaðann sem áfengi veldur einstak- lingum, fjölskyldum, atvinnulífinu og samfélaginu öllu. Áframhaldandi bann við sölu áfengis í matvöruverslunum fer ekki gegn hugsjóninni um frelsi einstaklingsins. Greinin birtist áður á vef Foreldra- samtaka gegn áfengisauglýsingum. Millifyrirsagnir eru blaðsins. Thorsplan fær andlits- lyftingu í tilefni af 10 ára afmæli árið 2015 Thorsplanið var hannað fyrir 10 árum og hefur þjónað hlutverki sínu vel fyrir ýmsa viðburði í bænum. Jólaþorpið hefur fest sig í sessi á aðventunni og er vel sótt bæði af bæjarbúum og íbúum nágrannasveitarfélaga. Torgið er ennfremur kjörið til tónlistarflutn- ings og skipar fastan sess í hátíðar- höldum á 17. Júní ár hvert. Það sýndi sig líka hversu gaman það er fyrir bæjarbúa að eiga svona torg þegar fjölmenni fagnaði hafnfirsku hljóm- sveitinni Pollapönk þegar hún kom til landsins eftir frábæra frammistöðu í Eurovision keppninni síðastliðið vor. Nú þegar torgið er að nálgast sinn fyrsta tug í aldri er tilvalið að staldra við og skoða með hvaða hætti hægt er að auka aðdráttarafl torgsins fyrir bæjarbúa sérstaklega á sumrin og þannig styðja við bætt mannlíf í miðbænum. Umhverfis- og fram- kvæmdaráð ákvað samhljóða á síð- asta fundi sínum að veita fjármunum á næsta ári til þess að bæta og fegra Thorsplanið og hefur óskað eftir til- lögum frá hönnuði torgsins sem er Þráinn Hauksson, landslagsarkitekt. HAFNARFJÖRÐUR / gARÐAbæR 18. TbL. 4. ÁRgANgUR 2014 Útgefandi: Fótspor ehf. Ábyrgðarmaður: Ámundi Ámundason, sími: 824 2466, netfang: amundi@fotspor.is. framkvæmdastjóri: Ámundi Steinar Ámundason, netfang: as@fotspor.is. auglýsingastjóri: Ámundi Ámundason, Suðurlandsbraut 54, 108 Reykjavík. Auglýsingasími 578 1190, netfang: auglysingar@fotspor.is, Veffang: fotspor.is, Ritstjóri: Ingimar Karl Helgason, sími: 659-3442 netfang: ingimarkarlhelgason@gmail.com, Matarblaðamaður: Svavar Halldórsson. Sími. 869-4940. Netfang. svavar@islenskurmatur.is, Umbrot: Prentsnið, Prentun: Ísafoldarprentsmiðja, 13.500 eintök. dreifing: Póstdreifing. Fríblaðinu er dreiFt í 13.500 e intökum í allar íbúðir í HaFnarFirði / Garðabæ Samkeppnisumhverfið í matvöruverslun hér á landi er einkennilegt. Tveir risar eru með 80 prósent af markaðnum. Bæði fyrirtækin eru að stórum hluta í eigu sömu aðila. Ráðherra samkeppnismála virðist áhugalaus um málið. Menn kvarta undan ríkiseinokun á smásölu áfengis (sem raunar er raunar einnig selt á börum og veitingahúsum í einkaeigu). Stór hópur þingmanna ætlar að styðja frumvarp sem breytir þessu og færir bjór og brennivín í almennar verslanir – en þó ekki á vídjóleigur – og ekki má kaupa eftir klukkan átta, alveg eins og nú. Matvöruverslanir eru yfirleitt ekki inni í hverfunum. Þær eru almennt í stórum verslunarkjörnum, rétt eins og núverandi áfengisverslanir. En lítum annað. Er það merki um frelsi, fjölbreytni og val almennings að eiga þess kost að skipta einkum við tvö fyrirtæki, í eigu sömu aðila? Rétt eins og þessi fyrirtæki hafa yfirburðarstöðu á markaði með matvæli. Hverju verður almenningur bættari með því að þessum yfirburðarfyrirtækjum verði færð raunveruleg einokunarstaða á áfengissölu? Ýmis sjónarmið eru í málinu, og er alveg sjálfsagt að rætt sé um málið. En einnig má spyrja hvort umræðan sé tímabær. Er ef til vill bæði mikilvægara og brýnna að laga það verslunarumhverfi sem almenningur býr við. Einhver gæti til að mynda sagt, í ljósi nýlegra frétta, að þingmenn ættu að beina kröftum sínum í að gera mjólkurmarkaðinn eðlilegan, frekar en að koma áfengi í matvörubúðir. Það er sömuleiðis mikilvægt að í þessari umræðu taki fleiri til máls en nokkrir þingmenn og forstjóri risafyrirtækisins Haga. Bæjarblaðið Hafnarfjörður/ Garðabær gerir tilraun til þess í dag. Þeir sem styðja málið virðast einkum gera það með rökum, sem Róbert H. Haraldsson, prófessor, hrekur mjög skilmerkilega í grein hér á síðunni. Sömuleiðis er bent á það hér í blaðinu að frumvarpið sjálft vekur ýmsar spurningar. Hvers vegna dugar að vera 18 ára til að afgreiða áfengi, en fólk þarf að vera orðið tvítugt til að kaupa? Af hverju á að afgreiða sterk vín yfir búðarborð? Er það betri þjónusta en fólk býr við nú? Af hverju er ekki gert ráð fyrir sérverslunum með áfengi? Svo vakin sé athygli á þremur mikilvægum dæmum. Mikilvæg röksemd í þessari umræðu allri, hvort sem við erum fylgjandi því að áfengi sé boðið í almennum verslunum eða ekki, er að nú ríkir ekki raunveruleg samkeppni. Einokunarverslun einkaaðila á áfengi sem öðru verður seint til að bæta sam- félagið. Ingimar Karl Helgason Einokun færð til Leiðari Höfundur er Róbert H. Haraldsson, prófessor við Háskóla Íslands Höfundur er Helga Ingólfsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins NÆSTA BLAÐ KEMUR ÚT föstudaginn 17. október

x

Hafnarfjörður - Garðabær

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hafnarfjörður - Garðabær
https://timarit.is/publication/1080

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.