Reykjavík - 05.01.2013, Page 8
8 5. janúar 2013
Við áramót:
Eitt kjörtímabil er ekki nóg
„Þrælahjörð þér veröldin verður,
verk þín sjálfs nema geri þig frjálsan“
(Matthías Jochumsson:
Til Vestur-Íslendinga)
Norræna módelið – þessi sameig-
inlega þjóðfélagsfyrirmynd Evrópu-
búa eftir heimstyrjöldina síðari – var
reist upp úr rústum heimskreppunnar
miklu á millistríðsárunum. Hin óbeisl-
aði kapitalismi Amríkana brotlenti
með þvílíkum ósköpum, að heimshag-
kerfið lamaðist, rétt eins og við erum
að upplifa enn á ný þessi misserin.
Heimskreppan þýddi að eignamissir,
fjöldaatvinnuleysi, fátækt og vonleysi
varð hlutskipti tugmilljóna manna.
Töfralausnir óðmálga lýðskrumara
féllu í frjóan jarðveg. Lýðræðið lifði
á veiku skari. Öld einræðisherranna
var runninn upp. Það þurfti heila
heimstyrjöld – sem kostaði meira en
50 milljónir mannslífa–til að hreinsa
mannlífið af óværunni og koma
„hjólum atvinnulífsins“ aftur í gang.
Dómur reynslunnar
Sænskir jafnaðarmenn náðu völdum
í Svþíðþjóð í upphafi kreppunnar og
fóru með stjórn landsins nær óslitið í
70 ár . Þar sem þeir litu í vesturátt, til
Bandaríkjanna, gerðu þeir sér grein
fyrir því, að „alræði markaðarins“
og pólitík í þjónustu auðjöfra, hafði
brugðist. Þegar þeir virtu fyrir sér
„roðann í austri“, blasti við, hvernig
allsherjar þjóðnýting Stalínismans
endaði í afnámi lýðræðis og frelsis,
í grimmúðugu lögregluríki. Sænskir
jafnaðarmenn ákváðu að vísa á bug
báðum þessum fyrirmyndum. Þeir
ákváðu að fara „þriðju leiðina“ – leið
lýðræðislegrar jafnaðarstefnu. Smám
saman byggðu þeir upp frá grunni
nýja þjóðfélagsgerð – norræna mód-
elið. Eftir stríð varð þjóðfélagsgerð af
þessu tagi viðtekin fyrirmynd flestra
Evrópuþjóða. Þetta er eina þjóðfé-
lagstilraun 20ustu aldar, sem hingað
til hefur óumdeilanlega staðist dóm
reynslunnar. Geri aðrir betur!
Sænskir jafnaðarmenn hafa ekki
þjóðnýtt svo mikið sem eitt hænsnabú
á löngum valdaferli. Þeir virkjuðu
markaðskraftana til auðsköpunar,
þar sem það átti við, en undir ströngu
eftirliti til að gæta almannahagsmuna.
Fleyg eru ummæli Tages Erlander (for-
sætisráðherra Svía í aldarfjórðung),
eins merkasta umbótamanns sem uppi
var á öldinni sem leið, þess efnis að
„markaðurinn sé þarfur þjónn en af-
leitur húsbóndi“. Það hefur tekið tím-
ann sinn fyrir margan róttæklinginn að
átta sig til fulls á þessum sannindum.
En þessi vísdómsorð lýsa kjarna máls-
ins varðandi orsakir þeirrar kreppu
hins óbeislaða kapítalisma, sem nú
herjar á okkur. Sænskir jafnaðarmenn
höfnuðu m.ö.o. hvoru tveggja, alræði
ríkisvaldsins (með allsherjar þjóðn-
ýtingu) og alræði markaðanna (sem
fyrirbauð íhlutun ríkisins). Í staðinn
byggðu jafnaðarmenn smám saman
upp velferðarríki fólksins („folk-
hemmet“) fyrir atbeina lýðræðislegs
ríkisvalds með grunngildi jafnaðar-
stefnunnar að leiðarljósi um frelsi,
jafnrétti og bræðralag („solidaritet“)
Best í heimi
Jafnaðarmenn hrundu hugsjónum
sínum í framkvæmd með því að
tryggja öllum jafnrétti til náms, án
tillits til efnahags eða þjóðfélagsstöðu;
með því að tryggja öllum aðgengi að
heilbrigðisþjónustu, án tillits til efna-
hags; og með því að skylda alla til að-
ildar að lífeyrissjóðum, sem tryggðu
öldruðum mannsæmandi líf í ellinni.
Og með því að láta samfélagið taka
þátt í umönnun ungbarna, greiddi það
götu kvenna til þátttöku í atvinnu-
lífinu og þar með til jafnréttis á við
karla. Þetta var fjármagnað gegnum
skattkerfi, sem hafði þann yfirlýsta
tilgang að jafna tekju- og eignaskipt-
ingu í þjóðfélaginu.
Þetta þýddi jöfnun tækifæra allra
„til að leita lífshamingjunnar“ (svo
vísað sé til upphafs bandarísku stjórn-
arskrárinnar). Þetta þýddi að opna
leiðir til að „vinna sig upp“ (social-
mobility), í anda hins amríska draums.
Þetta þýddi – öfugt við óhróður and-
stæðinga – að landamæri frelsisins
voru færð út fyrir fjölda fólks, sem
áður var hlekkjað í fjötra fátæktar
(tilvitnun í Olof Palme). Þetta var
þjóðfélag, þar sem aukinn jöfnuður
þýddi meira frelsi fyrir fjöldann – ekki
bara fyrir fámenna forréttindastétt.
Reynslan (og ótal samanburðarkann-
anir) áumliðnum áratugum sýnir, að
þetta er besta þjóðfélag í heimi. Í þessu
þjóðfélagi hafa draumar hugsjóna-
manna ræst. Þetta er samfélagsgerð,
sem markaðstrúboðið vill feigt. Um
það gildir, að enginn veit, hvað átt
hefur, fyrr en misst hefur.
Í meira en hálfa öld, allt frá náms-
árum mínum við Edinborgarháskóla,
hef ég verið áskrifandi að enska (nú
ensk/ameríska) frjálshyggjuritinu
Economist. Allt þetta tímabil, á u.þ.b.
5 ára fresti, hafa þeir birt sérrit með
hrollvekju um yfirvofandi hrun nor-
ræna módelsins. Allt- um-lykjandi
forsjá velferðarríkisins átti að hafa
lamað sjálfsbjargarviðleitni einstak-
linga, framtak þeirra og frumkvöðuls-
fýsn. Háir skattar voru sagðir hrekja
„afburðamenn“ (fyrir utan sjálfan
Ingmar Bergman man ég eftir einum
miðlungsboxara og tveimur tennis-
spilurum) úr landi og gera sænskar
vörur ósamkeppnishæfar á heims-
markaðnum. Á tímabili var í tísku að
segja velferðina afsiðandi (berbrjósta
ljóskur á baðströndum, frjálsar ástir
og tíðir hjónaskilnaðir). Þetta gekk
undir nafninu „the permissive soci-
ety“. Þegar þetta hreif ekki lengur
var sagt, að það væri svo leiðinlegt
í Svþíþjóð, að sjálfsmorðstíðni væri
hin hæsta í heimi. Fyrr mega nú vera
leiðindin í landi Strindbergs!
Land tækifæranna
„Falin var í illspá hverri, ósk um hrak-
för sýnu verri“. En rétt eins og ótíma-
bær andlátsfregn Marks Twain hafa
dómadagsspár um endalok norræna
velferðrríkisins hingað til reynst vera
stórlega ýktar. Og meira en það. Á þeim
áratugum, sem nýfrjálshyggjan hefur
tröllriðið heiminum – með samkeppni
þjóðríkja niður á við í sköttum til að
koma sér í mjúkinn hjá fjármagns-
eigendum – hefur norræna módelið
staðist hverja raun, óvinum þess og
öfundarmönnum til undrunar og ar-
mæðu. Það er sama, hvar við berum
niður á þessum „samræmdu prófum“
þjóðríkjanna: Hagvöxtur, nýsköpun,
gæði menntunar, samkeppnishæfni, at-
vinnuþátttaka, félagslegur hreyfanleiki,
jafnrétti, jöfnuður, vellíðan, heilsufar
og lífslíkur: „You name it, they´ve got
it“. Hvernig má þetta vera, þrátt fyrir
tiltölulega háa skatta og víðtæk ríkis-
afskipti? Það er nú heila málið. Það
er ekki þrátt fyrir jöfnuðinn, heldur
einmitt vegna hans. Skýringin felst
m.a. í gæðum mannauðs og innviða
og félagslegum hreyfanleika. Hvar er
nú „land tækifæranna“ að finna? Það
er ekki lengur að finna í landi ójafn-
aðarins á sléttum Ameríku. Sú þjóðfé-
lagsgerð hefur nú getið af sér fjölmenna
undirstétt, sem er innikróuð í fátæktar-
gildru, á sama tíma og erfðaauður ör-
fámennrar yfirstéttar ræður lögum og
lofum. Auðræðið hefur keypt lýðræðið.
Land tækifæranna er ekki lengur þar.
Rækilegar rannsóknir staðfesta, að það
er velferðarríkið, sem er hið eina sanna
„land tækifæranna“.
Norræna velferðarríkið kom líka
miklu betur út úr yfirstandandi
kreppu en frjálshyggjuríkin með alla
sína misskiptingu auðs og tekna, illa
menntaða undirstétt örbirgðarinnar og
órækt mannauðsins. Þar að auki virkar
velferðarkerfið sem stöðugleikaventill
á samdráttartímum; það heldur uppi
eftirspurn og hagvexti, þegar mark-
aðskerfið er í lamasessi. „Solidaritet“
er ekki bara siðferðilega lofsvert. Það
er líka hagkvæmt.
Um hvað verður kosið?
En hvað kemur þetta okkur Ís-
lendingum við? Svarið er þetta: Eftir
nokkrar vikur göngum við til alþing-
iskosninga. Þær kosningar snúast í
reynd bara um eina spurningu: Viljum
við, að Ísland ávinni sér aftur sinn sess
í félagsskap norrænna velferðarríkja
í náinni framtíð? Eða ætlum við að
leggja blessun okkar yfir afturhvarf til
áranna fyrir hrun, þegar Ísland var gert
að tilraunastofu nýfrjálshyggjunnar,
eins konar skrípamynd af spilavítis-
kapítalismanum amríska, með hörmu-
legum afleiðingum fyrir land og þjóð?
Viljum við virkilega kalla það ástand
yfir okkur aftur?
Eins og Styrmir Gunnarsson, f.v.
ritstjóri Morgunblaðsins, leiðir rök
að í umdeildri bók sinni „Sjálfstæð-
isflokkurinn – átök og uppgjör“ hafa
ráðamenn þess flokks ekkert lært og
engu gleymt, þrátt fyrir að þeir báru
sannanlega höfuðábyrgð á Hruninu
og hörmulegum afleiðingum þess
fyrir þorra Íslendinga. Á svokallaðan
Framsóknarflokk er varla orðum eyð-
andi í þessu viðfangi. Þetta er ekki
lengur stjórnmálaflokkur í eiginlegri
merkingu þess orðs. Hann er orðinn
að umskiptingi, einhvers konar póli-
tísku eignarhaldsfélagi fámennrar
fjármálaklíku, sem misnotaði valda-
aðstöðu flokksins til að sölsa undir sig
og sína leifarnar af þrotabúi gamla SÍS.
Þetta lið er áreiðanlega falt hæstbjóð-
anda fyrir hæfilega umbun. Sameig-
inlega eru þessir flokkar og málgagn
þeirra, Morgunblaðið – gerðir út af
kvótaeigendum og prókúruhöfum
landbúnaðarkerfisins, hvort tveggja á
kostnað almannahagsmuna.
Að njóta sannmælis
Jón Steinsson hagfræðingur, skrifaði
fyrir ekki margt löngu yfirvegaða
grein, þar sem hann spurði sjálfan
sig og lesendur sína: „Njóta stjórnar-
flokkarnir sannmælis?“ Hann komst
að þeirri niðurstöðu, að svo væri ekki,
þrátt fyrir þá staðreynd, að þeir hafa
sameiginlega tekið að sér það þjóð-
þrifaverk, að hreinsa út skítinn eftir
Hrunflokkanna. Hagfræðingurinn
tíndi til ýmsar staðreyndir um árangur
í ríkisfjármálum, lækkun erlendra
skulda ríkisins, minnkandi atvinnu-
leysi, nokkurn hagvöxt, jöfnuð í ut-
anríkisviðskiptum og sterkari stöðu
útflutningsgreina. Þegar haft er í huga,
hversu hrikalegt áfallið var í upphafi
(hrun fjármálakerfis og gjaldmiðils og
sligandi skuldabyrði), er ekki að undra,
að þessi árangur, þótt takmarkaður
sé, hafi vakið athygli í útlöndum. Sér í
lagi hefur það vakið athygli, að grunn-
þáttum velferðarþjónustunnar hefur
verið hlíft betur en hjá ýmsum Evrópu-
þjóðum, sem nú glíma við afleiðingar
kreppunnar, en hafa samt sloppið við
hrun af þeirri stærðargráðu, sem Ís-
lendingar máttu þola.
Samt njóta stjórnarflokkarnir ekki
sannmælis. Að sumu leyti er það sjálf-
skaparvíti. Stjórnarflokkarnir hafa ekki
staðið við gefin fyrirheit um ásættan-
legar lausnir á skuldavanda heimilanna
og um endurheimt auðlindanna úr
klóm sérhagsmunaaflanna. Það gerist
ekki nema forræði þjóðarinnar yfir
auðlindum sínum verði niðurnjörvað
í nýrri stjórnarskrá. Hvers vegna ekki
að leggja það fyrir þjóðina í þjóðar-
atkvæðagreiðslu, samtímis alþing-
iskosningum? Endurreisnarstarfinu
er einfaldlega ekki lokið. Þrjú ár eru
ekki nóg. Það þarf annað kjörtímabil til
að ljúka verkinu. Í þeim skilningi, eins
og svo oft í mannlífinu, stöndum við
frammi fyrir því að velja skárri kostinn
af tveimur miður góðum; og hafna um
leið þeim versta – af því að sá besti er
einfaldlega ekki í boði.
Eitt er víst: Í næstu kosningum
svörum við þeirri spurningu, hvort
við viljum leggja blessun okkar yfir
það, að þjóðin verði endanlega rænd
auðlindum sínum eða ekki. Forystu-
menn Sjálfstæðisflokksins hafa sagt
fullum fetum, að nái þeir völdum,
verði það þeirra fyrsta verk að afnema
auðlindagjaldið á kvótakóngana. Og
í stjórnarskrármálinu hefur Sjálf-
stæðisflokkurinn sagt þjóðinni stríð
á hendur. Hvort tveggja, forræðið yfir
auðlindunum og jöfnun kosninga-
réttar, er því í húfi í næstu kosningum.
Hvernig væri, að þjóðin brygðist við
með því að gefa sjálfri sér áramótaheit
um að gefa Hrunverjum Sjálfstæðis-
flokksins og hjálparkokkum þeirra frí
frá stjórnarábyrgð, að minnsta kosti út
næsta kjörtímabil? Það ætti vonandi að
duga til að endurreisa þjóðfélagið, sem
þeir lögðu í rúst. Ætlum við að kyssa á
vöndinn eða standa á rétti okkar eins
og menn? Það er spurningin.
Höfundur er
Jón Baldvin Hannibalsson
formaður Alþýðuflokksins
1984-96.
Þetta er eina þjóðfélags-
tilraun 20ustu aldar,
sem hingað til hefur
óumdeilanlega staðist
dóm reynslunnar.
Markaðurinn er þarfur
þjónn en afleitur
húsbóndi. Það hefur
tekið tímann sinn fyrir
margan róttæklinginn
að átta sig til fulls á
þessum sannindum.
Reynslan( og ótal saman-
burðarkannanir) á um-
liðnum áratugum sýnir,
að þetta er besta þjóðfélag
í heimi. Í þessu þjóðfélagi
hafa draumar hugsjóna-
manna ræst.
Á tímabili var í tísku að
segja velferðina afsiðandi
(berbrjósta ljóskur á bað-
ströndum, frjálsar ástir og
tíðir hjónaskilnaðir).
Það er sama, hvar við
berum niður á þessum
„samræmdu prófum“
þjóðríkjanna: Hag-
vöxtur, nýsköpun, gæði
menntunar, samkeppn-
ishæfni, atvinnuþátttaka,
félagslegur hreyfanleiki,
jafnrétti, jöfnuður,
vellíðan, heilsufar og
lífslíkur.
Endurreisnarstarfinu er
einfaldlega ekki lokið.
Þrjú ár eru ekki nóg. Það
þarf annað kjörtímabil til
að ljúka verkinu.