Austurland - 16.05.2013, Qupperneq 10
10 16. MAÍ 2013
Góður kostur fyrir
fjölskyldufólk
Það vita það ef til vill ekki allir en að jafnaði stunda ríflega tvö hundruð manns háskólanám
á Austurlandi og á hverju ári eru tekin um átta hundruð próf á vegum háskólanna í
starfsstöðvum Austurbrúar víðsvegar um fjórðunginn.
Einn þessara nemenda heitir Alma Sigurbjörnsdóttir en hún
stundar nám í sálfræði við Háskólann
á Akureyri. Hún hóf námið haustið
2011og hyggst klára það vorið 2014
með BA-prófi. Hún hefur stundað allt
námið á Reyðarfirði og blaðamaður
spyr hana fyrst hvers vegna hún hafi
valið fjarnám.
„Það er ekki hlaupið að því að rífa sig
upp til flutnings með heila fjölskyldu
og því var fjarnám góður kostur fyrir
mig þar sem að ég á mann í fastri vinnu
hér á staðnum og syni á grunnskóla-
og leikskólaaldri. Fjölskylda mín býr
hérna á Reyðarfirði og hjá henni fæ ég
ómældan stuðning og aðstoð sem ég
gæti illa hugsað mér að vera án. Ég er
líka svoddan sveitalúði og vil bara vera
í rólegheitunum í mínum heimabæ þar
sem að flestir þekkja flesta.“
Hvernig er náminu háttað? Passar það
vel við daglegt líf?
„Þar sem ég er þriggja barna móðir
og þarf að vera sveigjanleg heimavið
þá hentar þetta fyrirkomulag afar
vel. Ég „vinn“ mína vinnudaga eftir
hentisemi og get hagrætt deginum
mun meira en þeir sem sækja daglega
vinnu á vinnustöðum. Yngsti sonur
minn fæddist „korter í próf “ þegar ég
var við það að ljúka fyrsta árinu mínu
og því hef ég verið heima með hann
síðasta árið. Staðarnámið hefði ekki
verið í boði fyrir mig í þessari aðstöðu
en fjarnámið gerði mér kleift að halda
mínu striki því ég ákvað vinnutíma
minn.“
Hvernig fer námið fram?
„Námið fer að mestu leyti fram
í gegnum vefinn og eru fyrirlestrar
teknir upp og settir inn á kennsluvefinn
Moodle ásamt verkefnum sem sett eru
fyrir. Námsefnið er síðan til staðar
þar til önninni lýkur og því er það
nemandans að ákveða hvenær hann
hlustar á kennslu. Það er líka frábært
að geta „mætt aftur í tíma“ þegar
prófatörnin er að hefjast til að rifja upp
og fara yfir efnið. Við mætum í lotur
bæði á haust-og vorönn og tökum þá
þátt í kennslustundum. Það er bæði
hressandi og skemmtilegt og auk þess
kynnumst við fólki úr öllum áttum
sem stundar sama nám og hittum
kennarana okkar til að spjalla og
kynnast þeim betur.“
Getur þú mælt með þessu námi og fyrir
hverja þá?
„Fjarnám er góður kostur fyrir alla
sem vilja setjast á skólabekk. Sér í
lagi fyrir fólk sem er ekki tilbúið að
flytja sig og fjölskyldu sína á annað
landssvæði. Möguleikarnir og
fjölbreytnin er alltaf að aukast sem
gerir þetta meira spennandi.“
Hverjir eru að þínu mati helstu kostir
og gallar við svona námsfyrirkomulag?
„Kostir fjarnáms eru að mínu mati
að mestu leyti fólgnir í að geta skipulagt
daginn sinn sjálfur og unnið heimavið
ef þannig stendur á. Þó eru alltaf vissir
gallar líka. Aðgangur að kennurum er
ekki eins mikill hjá fjarnemum og hjá
staðarnemum.“
Er góð aðstaða fyrir ykkur?
„Við lærum mikið í starfsstöð
Austurbrúar á Reyðarfirði og aðstaðan
er til fyrirmyndar. Ég hef ekki heyrt um
eða rekist sjálf á aðra eins aðstöðu og
við höfum aðgang allan sólahringinn.“
Saknar þú einhvers úr „venjulegu“
staðarnámi?
„Það er tvennt ólíkt að vera í fjarnámi
og staðarnámi. Staðarnám veitir bæði
aðhald og félagsskap, ætli maður sakni
þess ekki bara að vera hluti af stærri
hóp í daglegri rútínu.“
Ef þú mættir gera einhverjar breytingar
á fjarnámi hverju myndirðu vilja
breyta?
„Eins og staðan er í dag myndi ég
helst vilja breyta og bæta aðgengi
fjarnema að kennurum námskeiða.“
Þeir lesendur blaðsins sem hafa
áhuga á háskólanámi eru hvattir til að
skoða heimasíður skólanna sem gefa
greinargóðar upplýsingar um framboð
á fjarnámi. Þá getur fólk líka haft
samband við fræðslusvið Austurbrúar
og fengið upplýsingar.
Jón Knútur Ásmundsson
.
Sjálfbærniverkefni Austurlands
Ársfundur Sjálfbærniverkefnis Alcoa Fjarðaáls og Landsvirkjunar var haldinn í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði 7.
maí síðastliðinn. Verkefnið hefur staðið yfir frá því árið 2004 og er ætlað að halda utan um áhrif virkjunar og álvers á
Reyðarfirði á samfélag, umhverfi og efnahag á Austurlandi.
Á ársfundinum var farið yfir niðurstöður sjálfbærnimælinga
árið 2012 auk þess sem Hugi Ólafsson
skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu
ræddi stöðu og hlutverk Íslands í
alþjóðlegu samstarfi um aðgerðir til
að sporna við loftslagsbreytingum.
Í kynningu Huga kom fram að
loftslagsvandinn í heiminum sé að
stærstum hluta tilkominn vegna
orkuvinnslu eða um 80% í Evrópu
á meðan vandinn á Íslandi er vegna
stóriðju og samgangna. Ísland tekur
þátt í Kyoto bókuninni auk þess
sem verið er að innleiða evrópskt
viðskiptakerfi og kerfisbundna
skráningu á losun þar sem byrjað
var á stóriðjunni. Nefnd á vegum
umhverfisráðuneytisins hefur unnið að
stefnumótun og tillögugerð varðandi
þátttöku Íslands í umræddu samstarfi
en þar hefur verið farið í ýmsar aðgerðir
til að sporna við aukinni mengun svo
sem kolefnisgjald, skattlagning, efling
almenningssamgangna, aukin notkun
lífeldsneytis í stað olíu, rafvæðing
fiskimjölsverksmiðja, aukin skógrækt
og landgræðsla, endurheimt votlendi,
aukinn stuðningur við rannsóknir og
nýsköpun sem stuðlar að sjálfbærni.
Auk Huga fjölluðu sérfræðingar
frá Alcoa Fjarðaáli, Landsvirkjun og
Austurbrú um niðurstöður mælinga
2012. Í máli þeirra kom m.a. fram
að virkjun og álver virðast ekki hafa
haft áhrif á hreindýrastofninn á
Austurlandi.Erfitt er að meta áhrif
á gæsastofninn og jarðvegsrof í
Lagarfljóti er minna en áætlað var en
affall virkjunarinnar hefur haft þau
áhrif að fljótið er gruggugra en áður og
hefur það komið niður á fiskistofnum
í fljótinu.
Steinsmiðja Akureyrar • Glerárgötu 36 • S: 466 2800 • sala@minnismerki.is • www.minnismerki.is
Opnunartímar: Mán. - fim. kl. 13:00-18:00, föst. kl. 13:00-17:00
ÓKEYPIS FLUTNINGUR!
Fráb
ært úrv
al Gott verð Gæði 25 ára reynsla
Skoðið úrvalið á
www.minnismerki.is
Alma Sigurbjörnsdóttir, háskólanemi á reyðarfirði
katrín María Magnúsdóttir er
verkefnisstjóri Sjálfbærniverkefnisins
hjá Austurbrú
fjarnám á
austurlandi