Þjóðlíf - 01.12.1987, Síða 43

Þjóðlíf - 01.12.1987, Síða 43
BÖRN HELGI FRIÐJÓNSSON • Eru öll stóru orðin þegar sögð í uppeldismálum? Hvers konar fólk? Veröa upprennandi kynslóöir hamingjusamar? NÚ Á SÍÐUSTU ÁRUM er æ oftar rætt um „ástandið í dagheimilismálum" og er þá átt við þá neyð sem skapast þegar starfið á þess- um fáu vel skipulögðu dagheimilum raskast vegna skorts á starfsfólki. Þau áform sem áður voru uppi um að fjölga þeim svo þau geti annað eftirspurn, liggja í láginni. Á sama tíma þyngist enn róðurinn fyrir þá sem telja skóladagheimili réttlætismál fyrir börn og foreldra og brýnt hagsmunamál framtíðar- þjóðfélags. Þessi umræða, sem borin er uppi af foreldrum og fóstrum, er ótrúlega fyrir- ferðarlítil í fjölmiðlum ef tekið er mið af því hve ástandið er alvarlegt. Kannske eru öll stóru orðin þegar sögð. Valdamenn halda að sér höndum eða beita málþófi. Það er sérkennilegt að horfa upp á það sem er að gerast núna í lok 20. aldar. Fyrr á öldum urðu börn oft að sæta harðræði - stundum af neyð sem gekk þá oftast jafnt yfir alla smælingja - en stundum af óvitaskap þeirra sem ekki vissu betur. Enn verða böm víða illa úti í veröldinni vegna stríðsátaka. Og fátækt skapar ennþá neyð á fleiri stöðum en okkur er Ijúft að viðurkenna. En hér á okkar ríka íslandi, þar sem fjöl- miðlar sjá okkur fyrir yfirsýn um ástand mála og menntakerfið eykur okkur innsýn - hvernig er hægt að skýra skeytingarleysi okkar samfélags gagnvart börnum? Það er hugsanlega mögulegt að skýra, en ekki afsaka. Og um það ætla ég ekki að fjalla. Umræða um ástandið á dagheimilismálum markast oftast af erfiðleikum dagsins í dag, líðan barna og erfiðleikum foreldra. Það er sjaldan litið til lengri tíma og skoðað hvaða áhrif slíkt ástand skapar. Hvernig manneskj- ur verða börn sem alast upp við svo ótryggar aðstæður? Hverskonar fólk erum við að ala upp? Er það líklegt til að verða hamingju- samt og er það líklegt til að eiga auðvelt með að bera ábyrgð á sér og sinni framtíð? Eins og ég vék að áðan vitum við heilmikið um uppeldismál. Og þótt stórt sé spurt höfum við forsendur til að svara ýmsum þátt- um spurninganna. Vitneskjan um uppeldismál á sér einkum tvær rætur. Annars vegar er um að ræða arf kynslóðanna og hins vegar það sem fræði á borð við sálfræði, uppeldisfræði, læknisfræði og félagsvísindi hafa fært okkur. (Það mætti nefna hér enn fleiri greinar en ég læt þessar nægja því þær fjalla oftast um manneskjuna á fræðilegan máta). Það hefur að vísu lengi verið lenska hér að gera lítið úr þeirri vitneskju sem þessi fræði gefa. Og allt of margar veigamiklar ákvarðanir eru teknar varðandi fólk án þess að menn taki mið af þeirri fræðilegu þekkingu sem fýrir liggur. Þó þykir flestum sjálfsagt að hlusta á mat Hafrannsóknarstofnunarinnar þegar áætl- anir eru gerðar um nýtingu fískistofnanna og skipulagsfræðinga þegar skipuleggja á byggð, o.s.frv. Viðbrögð íslendinga við vísindalegri um- fjöllun um mannskepnuna eru í sjálfu sér rannsóknarefni, en ég slæ hér fram að þau orsakist einkum af tvennu: 1. Varnarviðbrögðum manneskjunnar við því sem henni finnst á einhvern hátt nær- göngult. 2. Slæmri framsetningu fræðimanna á því sem þeir láta frá sér fara. Það er allt of lítið skrifað um þessi fræði á íslensku og það sem þó er gert er oft ekki nægilega auðskilið eða aðgengilegt. Þó leyfi ég mér að fullyrða að almennur áhugi ríkir hér á uppeldisfræðum. Ég veit ekki til þess að nein athugun liggi fyrir um, um hvað fólk ræðir sín á milli í stærri og smærri hópum, en ég hef veitt því athygli að í blönduðum hóp- um, þar sem mætist fólk á ólíkum aldri úr mismunandi störfum, lifnar heldur betur yfir umræðunni ef uppeldismál ber á góma. Þá hafa yfirleitt allir eitthvað til málanna að leggja og er mikið niðri fýrir. En víkjum aftur að ástandinu á dagheimil- ismálum og spurningunni um það hvernig fólk við erum að ala upp. Hvernig fólk langar okkur til að börnin okkar verði og eru þær aðferðir sem við beitum og aðstæður sem við sköpum líklegar til að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur? Þessum spurningum verðum við bæði að svara hvert fyrir sig og komast að saineiginlegri niðurstöðu um, því uppeldi er í senn einstaklingsbundið og félagslegt. En mig langar til hér á vettvangi ÞJÓÐLÍFS að leggja mitt af mörkum með því að segja frá skoðunum sem birtast í bók- um bandarísks fræðimanns, Davids Elkinds, en hann heldur því fram, að við sem búum við svokallaða vestræna menningu og vel- ferð séum á góðri leið með að ræna komandi kynslóð bæði bernsku og æsku. Um þetta hefur hann skrifað í tveimur bókum, sem heita í lauslegri þýðingu: Fullorðin en enginn staðurfyrir mig- Unglingar í kreppu og Flýtta barnið. Ég mun í næsta blaði segja frá þess- um tveimur bókum. • Bergþóra Gísladóttir 43

x

Þjóðlíf

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Þjóðlíf
https://timarit.is/publication/1099

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.